Breytingar á lögum um sjúkraskrár
17. desember 2025
Öðlast hafa gildi lög nr. 81/2025 um margvíslegar breytingar á lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009. Markmið breytinganna er að auka skilvirkni í heilbrigðisþjónustu, styðja við stafræna þróun og bæta öryggi sjúklinga.

Helstu breytingar eru:
Frá og með 1. desember 2026 verður skylt að færa stafræna sjúkraskrá. Enn eru dæmi þess að heilbrigðisstarfsmenn haldi pappírssjúkraskrár og að heilbrigðisstarfsmenn nýti persónulegan hugbúnað, sem uppfyllir ekki kröfur um öryggi gagna og aðgangsstýringu, við skráningu sjúkraskrárupplýsinga. Embætti landlæknis hvetur alla veitendur heilbrigðisþjónustu til að bregðast við framangreindu og tryggja örugga stafræna skráningu sjúkraskrárgagna í sjúkraskrárkerfi sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru um öryggi gagna og aðgangsstýringu.
Skilgreining laganna á sjúkraskrárupplýsingum hefur verið útvíkkuð, með þeim hætti að hnykkt er á því að gögn sem til verða við veitingu stafrænnar heilbrigðisþjónustu teljast einnig til sjúkraskrárupplýsinga.
Áréttað er að lögin heimila afhendingu afrits eigin sjúkraskrár til sjúklings eða forráðamanns hans, að tilgreindum skilyrðum uppfylltum, en ekki beinan aðgang að sjúkraskránni. Hið sama á við um afrit sjúkraskrár látins einstaklings.
Ekki er lengur skylt að tilgreina starfsheiti og hjúskaparstöðu sjúklings í sjúkraskrárfærslum.
Umsjónaraðila sjúkraskrár er nú heimilt að veita nemum í starfsnámi í heilbrigðisvísindum aðgang að sjúkraskrám vegna kennslu undir handleiðslu kennara í skipulögðu klínísku námi í tengslum við meðferð sjúklings. Nemarnir skulu hafa undirgengist sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn.
Læknum og lyfjafræðingum sem eru ábyrgir fyrir stofnun miðlægs lyfjakorts sjúklings er nú heimill aðgangur að sjúkraskrá, þó einungis lyfjaupplýsingum og einungis að því marki sem nauðsynlegt er við stofnun miðlægs lyfjakorts. Embætti landlæknis minnir á að aðgangur að sjúkraskrám er eingöngu heimill ef til hans stendur lagaheimild samkvæmt ákvæðum laga um sjúkraskrár eða öðrum lögum. Hafa ber í huga að allar uppflettingar í sjúkraskrá eru rekjanlegar og því mikilvægt að skrá tilgang uppflettingar hverju sinni.
Frá og með 1. desember 2026 tekur réttur sjúklinga til afrits af eigin sjúkraskrá einnig til sjúkraskrárupplýsinga sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi eða heilbrigðisstarfsmönnum. Þetta gildir þó einungis um það sem fært er í sjúkraskrá frá og með 1. desember 2026.
Embætti landlæknis beinir því til heilbrigðisstarfsmanna að hafa framangreint í huga.
Heimilt verður þó að synja beiðni sjúklings um afrit af slíkum sjúkraskrárupplýsingum ef það er talið nauðsynlegt vegna hagsmuna þeirra sem hafa veitt upplýsingarnar eða eru nákomnir sjúklingi.Heimilt er að taka gjald vegna kostnaðar við afritun sjúkraskrár og krefjast má fyrirframgreiðslu ef fyrirséð er að kostnaður við yfirferð sjúkraskráa og afritun verður meiri en 10.000 kr. Um nýmæli er að ræða og er ráðherra ætlað að setja gjaldskrá um framangreint áður en heimilt verður að hefja gjaldtöku.
Kveðið er skýrt á um að ábyrgðar- og umsjónaraðilar sjúkraskráa beri ábyrgð á því að viðhaft sé innra eftirlit með skráningu og meðferð sjúkraskrárupplýsinga sem felur í sér skýra eftirlitsskyldu og ábyrgð á því að heilbrigðisstarfsmenn færi sjúkraskrár í samræmi við ákvæði laga um sjúkraskrár. Einnig er kveðið á um að meðferð upplýsinga í sjúkraskrám eigi að vera í samræmi við ákvæði laga um sjúkraskrár og laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Embætti landlæknis beinir því til ábyrgðar – og umsjónaraðila sjúkraskráa að kynna sér vandlega þá ábyrgð sem þeir bera samkvæmt framangreindu og innleiða viðeigandi breytingar á sínum vinnustað.
Hlutverk Persónuverndar og embættis landlæknis samkvæmt lögum um sjúkraskrár eru nú betur aðgreind en áður til að koma í veg fyrir óþarfan tvíverknað. Mál geta verið samtímis í vinnslu hjá bæði Persónuvernd og embætti landlæknis, ef grunur er um brot á bæði lögum um sjúkraskrár og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Nýmæli eru að ábyrgðar- og umsjónaraðilum sjúkraskráa er skylt að tilkynna brot gegn lögum um sjúkraskrár til landlæknis. Embætti landlæknis vekur sérstaka athygli ábyrgðar- og umsjónaraðila sjúkraskráa á þessu.
Sú breyting verður einnig að embætti landlæknis og Persónuvernd er heimilt að láta hvoru öðru í té upplýsingar sem tengjast brotum sem heyra undir eftirlit þeirra.Fram að þeim breytingum sem hér er fjallað um ríkti óvissa um það hvaða aðila beri að kæra brot gegn lögum um sjúkraskrár og í hvaða tilvikum. Úr því hefur nú verið bætt og er nú kveðið á um að landlækni sé heimilt að kæra brot á lögum um sjúkraskrár til lögreglu en skylt að vísa meiri háttar brotum til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins.
Sem fyrr varða brot gegn ákvæðum laga um sjúkraskrár og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra sektum eða fangelsi allt að þremur árum liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum og skal fara um meðferð slíkra mála samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
Í lögum um sjúkraskrár eru nú talin upp þau ákvæði laganna sem það varðar sektum eða fangelsi að brjóta gegn. Breytingin endurspeglar áherslu löggjafans á mikilvægi verndar þeirra viðkvæmu persónuupplýsinga sem sjúkraskrár innihalda. Embætti landlæknis beinir því til heilbrigðisstarfsmanna að kynna sér þessi ákvæði vandlega og minnir á að samkvæmt nýjum reglum er landlækni nú skylt að vísa meiri háttar brotum til lögreglu.
Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is