Fara beint í efnið

Alþjóðlegur dagur tileinkaður mænuveiki

26. október 2023

Þann 24. október sl. var alþjóðlegur dagur tileinkaður mænuveiki til að minna á átak um að útrýma henni í heiminum.

Mænusóttarveira - mynd

Mænusótt (polio, lömunarveiki) er mjög smitandi veirusjúkdómur. Veiran smitast á milli manna, aðallega í gegnum saur-munn smitleið eða með úða eins og við hnerra en sjaldnar með t.d. menguðu vatni eða matvælum. Veiran fjölgar sér í þörmum, þaðan sem hún getur ráðist inn í taugakerfið og valdið lömun.Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, börn yngri en 5 ára og óbólusettir einstaklingar. Engin meðferð eða lyf eru til sem lækna sjúkdóminn.

Frá því að byrjað var að bólusetja gegn sjúkdómnum árið 1955 hefur náðst mikill árangur og hefur nánast tekist að útrýma sjúkdómnum úr heiminum. Samt sem áður ógnar mænusótt enn ungum börnum í fátækari löndum þar sem aðgengi að bóluefni er takmarkað.

Árið 1988 samþykkti Alþjóðaheilbrigðisþingið ályktun um útrýmingu mænusóttar um allan heim, og hleypti þannig af stokkunum verkefni til þess (Global Polio Eradication Initiative), undir forystu yfirvalda í hverju landi, WHO, Rotary, Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (US CDC) og UNICEF.

Tilfellum vegna svokallaðrar villtrar mænusóttarveiru (WPV, wild type polio virus) hefur fækkað um 99% síðan 1988, úr áætluðum 350.000 tilfellum í um 125 landlægum löndum í 6 tilkynnt tilfelli í heiminum árið 2021. Síðasta tilfelli af villtri mænusóttarveiru í Evrópu greindist árið 1998. Af 3 stofnum villtra mænusóttarveira var tegund 2 útrýmt árið 1999 og villtri mænusóttarveiru tegund 3 var útrýmt árið 2020. Árið 2022 er landlæg villt mænusóttarveira tegund 1 enn í tveimur löndum, Pakistan og Afganistan.

Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja ung börn því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett á fyrsta aldursári og endurbólusett við 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Mælt er með að fullorðnir láti bólusetja sig gegn mænusótt á 10 ára fresti ef þeir ferðast til landa þar sem hætta er á smiti.

Sjá einnig um mænusótt á vef embættis landlæknis og WHO

Sóttvarnalæknir