Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Alþjóðlegur dagur alnæmis 1. desember

1. desember 2023

Alþjóðlegur dagur alnæmis er haldinn árlega þann 1. desember. Tilgangur dagsins er að vekja athygli með fræðslu, minnast þeirra sem látist hafa vegna alnæmis (AIDS) og fagna sigrum sem unnist hafa í baráttunni við alnæmi.

HIV mynd með frétt

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) velur þema dagsins ár hvert og í ár er það: Látum samfélagið vísa veginn! (e. Let communities lead!). Með þessu þema er verið að leggja áherslu á mikilvægi þess að styrkja samvinnu stjórnvalda og samfélagsins, efla traust og hlusta á grasrótina. Með samvinnu er hægt að vinna að farsælli leiðum til að draga úr og útrýma HIV/alnæmi.

Á níunda áratugnum þegar fyrstu HIV-smitin greindust ríkti lítil vitneskja um smitleiðir og sjúkdóminn. Sem dæmi, þá vissi fólk ekki, sem nú er alkunna, að HIV smitast ekki með venjulegri umgengni. Sjúkdómnum fylgdi mikil vanþekking sem olli ótta og fordómum í garð smitaðra. Margir áttu um sárt að binda á þessum árum. Ungt fólk dó í blóma lífsins og bæði smitaðir og fjölskyldur þeirra liðu fyrir fordóma sem upp komu í samfélaginu. Fordómar og vanþekking gagnvart HIV og alnæmi eru enn til staðar þó árangur hafi unnist á þessum 40 árum sem hafa liðið.

Miklar framfarir hafa orðið í meðferð HIV smitaðra á síðustu 25 árum. Sjúkdómurinn er ólæknandi enn í dag en til eru góð lyf sem halda sjúkdómnum niðri og bæta verulega líðan einstaklinga og lífslengd. Í dag geta einstaklingar á lyfjameðferð við HIV lifað eðlilegu lífi og rétt lyfjameðferð dregur verulega úr líkum á því að smit berist milli fólks. Með lyfjameðferð má í flestum tilvikum koma í veg fyrir að HIV-smit þróist í alnæmi.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er áætlað að um 39 milljón manns hafi verið með HIV í árslok 2022. Markmið WHO er að binda enda á HIV faraldurinn 2030. Sett hafa verið markmið fyrir árið 2025 sem kallast 95-95-95. Markmiðin fela í sér að 95% af einstaklingum sem eru smitaðir af HIV séu greindir, að 95% af þeim sem eru greindir með HIV séu á meðferð og að 95 % þeirra sem eru á meðferð séu með ómælanlegt veirumagn. Til að ná fyrsta markmiðinu er mikilvægt að taka fleiri sýni til greiningar og auka þarf vitund og aðgengi að HIV-prófum. Mjög vel hefur gengið að ná seinni tveim markmiðunum hér á landi.

Á árinu 2022 greindust 39 einstaklingar með HIV á Íslandi. Þar af voru 28 karlar (72%) og 11 konur. Rúmlega helmingur voru nýgreiningar en hjá um helming um þekkta sýkingu að ræða, sem hafði þá áður greinst erlendis. Langflestir nýgreindra smituðust erlendis. Tveir einstaklingar greindust með alnæmi hérlendis á árinu 2022 en ekkert andlát varð.

Hægt er að fara í HIV-próf á göngudeild smitsjúkdóma og húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala eða á heilsugæslustöðvum. Mikilvægt er að fólk hafi gott aðgengi að greiningu og meðferð og því eru rannsóknir, lyfjameðferð og eftirfylgni einstaklinga með HIV/alnæmi þeim að kostnaðarlausu.

Sjá einnig:

Sóttvarnalæknir