Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Áhrif bólusetningar gegn COVID-19

24. apríl 2023

Að gefnu tilefni vegna fullyrðinga sem nýlega komu fram í fjölmiðli um meint mistök embættis landlæknis varðandi gögn um COVID-19 og smithlutfall bólusettra og óbólusettra einstaklinga, eða að gögnum um það hafi verið breytt, vill sóttvarnalæknir árétta að slíkar ásakanir eru með öllu tilhæfulausar.

Embætti landlæknis - logo-ISL-SVL-litid

Gagnsæi og heiðarleiki er ávallt haft að leiðarljósi í upplýsingamiðlun hjá embættinu. Í COVID-19 faraldrinum hefur verið stuðst við innlend og erlend gögn og rannsóknir auk tilmæla og leiðbeininga frá alþjóðastofnunum eins og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Spurningum einstaklinga og beiðnum um upplýsingar, sem falla undir verksvið embættisins, er svarað eftir bestu getu og miðað við þá vitneskju sem er til staðar hverju sinni. Hvað telst fullnægjandi svar og hvað ekki geta viðtakendur auðvitað verið ósammála um og ekki er alltaf víst að aðilar séu sáttir við þær upplýsingar sem þeir fá. Embættinu er almennt ekki skylt að útbúa gögn samkvæmt beiðnum einstaklinga eða stofnana, ef þau liggja ekki fyrir, en opinber gögn eru hins vegar öllum aðgengileg til að vinna úr. Embættið gerir þó sitt besta til að útvega gögn og jafnvel útbúa þau, ef hægt er, þegar eðlileg og viðeigandi beiðni um slíkt berst. Slík erindi geta einnig verið góð hvatning og bætt upplýsingamiðlun embættisins og er þeim jafnan vel tekið.

Þá skal tekið fram, af þessu sama tilefni, að það er ekki óeðlilegt að framsetning gagna eða hvernig upplýsingum er miðlað breytist með tímanum, sérstaklega í viðvarandi ástandi sem stendur jafnvel í nokkur ár. Þannig tók framsetning á tölfræði COVID-19 á covid.is vefsíðunni þó nokkrum breytingum eftir gangi faraldurs, t.d. þegar ómíkron afbrigðið kom fram og stærsta bylgja faraldursins reið hér yfir sem reyndi á þolrif ýmissa kerfa og ferla. Þess má geta að sóttvarnalæknir og almannavarnir halda ekki lengur úti sérstakri vefsíðu vegna COVID-19 en upplýsingar um sjúkdóminn má finna á vef sóttvarnalæknis/embættis landlæknis á island.is.

En það sem skiptir máli nú varðandi bólusetningar gegn COVID-19 er að rannsóknir erlendis frá, í samræmi við reynslu okkar hér á landi, hafa sýnt að örvunarbólusetning gegn COVID-19 verndar gegn alvarlegum veikindum, einnig af völdum ómíkron afbrigðis veirunnar, þó vörn dvíni eftir 4-6 mánuði (1). Við munum því aftur í haust hvetja áhættuhópa til að þiggja örvunarbólusetningu gegn COVID-19, ásamt árlegri inflúensubólusetningu.

Sóttvarnalæknir

(1) Heimildir m.a.: