Ísafjarðarbær gerist Heilsueflandi samfélag
26. október 2018
Ísafjarðarbær varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi þann 18. október síðastliðinn þegar Alma D. Möller landlæknir, Margrét Halldórsdóttir fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða skrifuðu undir samning þess efnis.
Ísafjarðarbær varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi þann 18. október síðastliðinn þegar Alma D. Möller landlæknir, Margrét Halldórsdóttir fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða skrifuðu undir samning þess efnis. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er fyrsta heilbrigðisstofnunin sem er formlega aðili að samningi um Heilsueflandi samfélag.
Samhliða undirskriftinni var nýr göngustígur við Fjarðarstræti vígður og tóku nemendur af leikskólanum Tanga og félagar úr íþróttafélaginu Kubba formlega fyrstu skrefin á stígnum.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum.
Með Ísafjarðarbæ eru 22 sveitarfélög aðilar að Heilsueflandi samfélagi og skuldbinda sig þannig til að efla heilsu og vellíðan íbúa sinna með markvissum hætti. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög einnig að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða , Alma D. Möller landlæknir og Margrét Halldórsdóttir fyrir hönd Ísafjarðarbæjar við undirskrift samningsins.
Nánar um Heilsueflandi samfélag
Nánar um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags