Hópsýking af völdum mislinga í Svíþjóð
4. janúar 2018
Í lok síðasta árs greindust tíu einstaklingar með mislinga á sjúkrahúsi í Gautaborg. Sænsk heilbrigðisyfirvöld búast ekki við mikill útbreiðslu sjúkdómsins þar í landi vegna bólusetninga flestra barna gegn sjúkdómnum undanfarna áratugi.
Í lok síðasta árs greindust tíu einstaklingar með mislinga á sjúkrahúsi í Gautaborg. Sænsk heilbrigðisyfirvöld búast ekki við mikill útbreiðslu sjúkdómsins þar í landi vegna bólusetninga flestra barna gegn sjúkdómnum undanfarna áratugi. Þá hafa mislingar greinst hjá tveimur starfsmönnum alþjóðaflugvallarins í Riga, Lettlandi á þessu ári. Mislingar hafa greinst í mörgum Evrópulöndum og víðar í heiminum undanfarin ár einkum meðal þeirra einstaklinga sem eru óbólusettir. Því má gera ráð fyrir að stöku tilfelli greinist í löndum eins og Íslandi þar sem hlutfall bólusettra er hátt.
Vorið 2017 greindust mislingar hjá níu mánaða gömlu barni hér á landi sem dvalist hafði í Tælandi. Fjöldi einstaklinga hafði verið í misnánum samskiptum við barnið meðan á veikindunum stóð. Stærsti hluti þessara einstaklinga var bólusettur en óbólusettum einstaklingum var boðin bólusetning sem allflestir þáðu. Tvíburabróðir barnsins veiktist svo af mislingum hér á landi hálfum mánuði eftir að bróðirinn veiktist. Tvíburabræðurnir voru óbólusettir vegna aldurs. Þetta er í fyrsta skipti í u.þ.b. aldarfjórðung sem mislingasmit hefur orðið á Íslandi. Bræðrunum heilsaðist vel og ekki varð vart við frekara smit hér á landi sem tengdist þessum sjúklingum sem bendir til þess að hjarðónæmið hér á landi sé viðunandi. Í lok október 2017 veiktist svo Íslendingur sem dvaldist í Bangladesh með öndunarfæraeinkenni en jafnaði sig á nokkrum dögum. Eftir heimkomu til landsins í nóvember 2017 fékk hann útbrot í andliti, á hálsi og bringu án annarra einkenna. Hægt var að greina mislingaveiruna í sjúklingi með erfðamögnunartækni (PCR). Sjúklingur hafði sögu um fullnægjandi bólusetningu gegn mislingum og var mótefnasvarið kröftugt sem leiddi til vægrar sjúkdómsmyndar sem ekki var einkennandi fyrir mislinga. Ekki er kunnugt um hvort sjúklingurinn hafi smitað út frá sér hér á landi.
Mest alla 20. öldina gengu mislingar yfir í stórum faröldrum hér á landi. Mjög dró úr nýgengi mislinga eftir að skipulegar bólusetningar hófust gegn sjúkdómnum við tveggja ára aldur árið 1976. Síðar var bólusetningin gefin með bóluefnum gegn rauðum hundum og hettusótt við 18 mánaða aldur frá árinu 1989. Árið 1994 var ákveðið að endurbólusetja níu ára gömul börn en um mitt ár 2001 var endurbólusetningin færð til 12 ára aldurs. Mislingar á Íslandi fjöruðu út og hurfu árið 1996.
Sóttvarnalæknir hvetur alla foreldra til að láta bólusetja börn sín gegn mislingum samkvæmt því fyrirkomulagi sem hér er við lýði (við 18 mánaða og 12 ára). Sóttvarnalæknir hefur einnig hvatt alla heilbrigðisstarfsmenn til að huga að sínum bólusetningum og hvatt þá sem eru van- eða óbólusettir til bólusetningar.
Aðeins með góðri þátttöku í bólusetningum má koma í veg fyrir faraldra af völdum bólusetningasjúkdóma hér á landi.
Sóttvarnalæknir