1. desember - Alþjóðlegi alnæmisdagurinn: Minnkum fordóma og greinum snemma
1. desember 2025
Alþjóðlegi alnæmisdagurinn er 1. desember árlega. Í tilefni dagsins minnum við á að HIV og alnæmi eru brýn lýðheilsumál sem hafa áhrif á heilsu og vellíðan milljóna manna um allan heim.

Mynd: ECDC
Tilgangur dagsins er einnig að sýna samstöðu með þeim sem eru smitaðir. Árið 2024 var áætlað að um 40 milljón einstaklingar væru HIV smitaðir í heiminum.
Hægt er að koma í veg fyrir HIV-smit og rétt meðferð tryggir langlífi. HIV er í dag langvinnur sjúkdómur og einstaklingar sem fá rétta meðferð lifa löngu og heilbrigðu lífi. HIV-meðferð getur lækkað veirumagn niður fyrir mælanleg mörk og kemur þá einnig í veg fyrir smit til annarra.
Áherslur árið 2025
Í ár leggur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) áherslu á mikilvægi samfellu í heilbrigðisþjónustu við HIV-smitaðra meðal annars að ekki myndist rof á lyfjameðferð. Samfella í þjónustu tryggir að veirumagn einstaklings helst ómælanlegt þannig að smit berst ekki áfram. WHO hvetur til áframhaldandi stuðnings stjórnvalda og alþjóðlegrar samvinnu sem tekur mið af mannréttindum til að útrýma alnæmi sem ógn við lýðheilsu fyrir árið 2030.
Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) leggur til að beina athyglinni að því að eyða fordómum, stytta tímann frá smiti til greiningar og tryggja góða heilbrigðisþjónustu út lífið. Sein greining er ein stærsta áskorunin í Evrópu en þá hefur veiran þegar haft veruleg áhrif á ónæmiskerfið eða merki um alnæmi eru til staðar. Minnka þarf fordóma gegn sjúkdómnum sem getur hindrað að einstaklingar fari í HIV-próf og leiti sér heilbrigðisþjónustu. Sein greining þýðir töf á nauðsynlegri meðferð sem getur aukið hættuna á að fá alnæmi. Alls greindust um 106.000 tilfelli HIV árið 2024 á Evrópusvæði WHO. Gögn frá Evrópu (ECDC og WHO) árið 2024 sýna að um 50% einstaklinga voru greindir seint.
Greining
Gott aðgengi er að HIV-prófum á Íslandi, prófið er einfalt og ókeypis. Aðgengi að prófum er á heilsugæslustöðvum um land allt, göngudeild smitsjúkdóma og göngudeild kynsjúkdóma á Landspítala. Hvatt er til að allir einstaklingar fari í HIV-próf að minnsta kosti einu sinni á ævinni og oftar ef tilefni er til, til dæmis þegar eignast nýjan bólfélaga eða þau sem tilheyra hópum með meiri áhættu. Á Íslandi er sérstaklega skimað fyrir HIV í heilbrigðisskoðun innflytjenda og flóttafólks en ekki öll lönd eru með slíka skimun hjá sér.
Auk reglulegra HIV-prófa geta smokkar og forvarnarlyf (PrEP) komið í veg fyrir ný smit. HIV-próf og meðferð eru veitt í fullum trúnaði samkvæmt ströngum reglum um persónuvernd í heilbrigðisþjónustu.
Árið 2024 greindust 40 einstaklingar með HIV hér á landi. Þar af var 21 karl (53%) og 19 konur. Hjá 25 einstaklingum (63%) var um þekkta sýkingu að ræða sem greinst hafði áður erlendis en nýgreining hjá 15 einstaklingum.
Flestir, eða 23 einstaklingar (58%), smituðust við kynlíf með einstakling af ólíku kyni, 11 karlar (28%) smituðust við kynlíf með körlum og sex manns voru með aðra/óþekkta smitleið. Fjórir einstaklingar greindust með alnæmi á Íslandi árið 2024, ein kona og þrír karlmenn en ekkert andlát varð hérlendis vegna alnæmis á árinu.

Meðferð
Öflug lyf eru til við HIV og á Íslandi er meðferðin ókeypis og öllum aðgengileg og því á enginn að fá alnæmi. Slíkt á ekki við um öll lönd í heiminum en skert aðgengi að meðferð og rof á meðferð getur skapast við ýmsar aðstæður.
Við hvetjum alla til að fara í HIV-próf, vinna gegn fordómum og styðja þá sem lifa með HIV
Nánari upplýsingar um HIV og HIV-próf er að finna á vef embættis landlæknis og Landspítala.
Sóttvarnalæknir