Rakning C-19 - smáforrit
Rakning C-19 er smáforrit, sem þú getur sótt og nýtist við rakningu á COVID-19 smitum. Smáforritið skiptist á ópersónugreinanlegum handahófskenndum auðkennum við aðra síma sem eru nálægt og með appið. Ef einhver sem þú varst nálægt, var með smáforritið og greindist með COVID-19, þá gætir þú fengið tilkynningu um hugsanlegt smit.
Embætti landlæknis, Katrínartúni 2, 105, Reykjavík, er ábyrgðaraðili við vinnslu persónuupplýsinga, sem verða til við notkun smáforritsins og kerfum tengt því.
Þegar þú sækir forritið og setur það upp á símanum þínum, hefur þú val um að skrá símanúmerið þitt til að geta fengið tilkynningar um neikvæðar niðurstöður úr skimun á landamærum. Meðan smáforritið er virkt á símanum þínum safnar það ópersónugreinanlegum handahófskendum auðkennum síðustu 14 daga og geymir á öruggan hátt á símanum þínum. Forritið byrjar að safna gögnum þegar þú tekur það í notkun.
Handahófskenndu auðkennin verða eingöngu vistuð á símanum þínum. Þeim verður ekki miðlað til smitrakningateymisins án þíns samþykkis. Smitrakningateymið mun eingöngu biðja þig um að miðla auðkennunum ef nauðsynlegt reynist að tilkynna öðrum um hugsanlegt smit. Engum persónugreinanlegum upplýsingum er deilt til smitrakningarteymis úr smáforritinu þegar þú sendir handahófskendu auðkennin. Þeir sem fá tilkynningu um hugsanlegt smit fá engar upplýsingar hvaðan tilkynningin kemur.
Hugsanleg útsetning
Ef þú færð tilkynningu um hugsanlega útsetningu fyrir COVID-19 í smáforritinu getur þú farið úr því yfir í vefsíðu þar sem þú hefur val um að skrá þig í smitgát og fá tíma í sýnatöku. Á þessari síðu þarf að gefa upp nafn, kennitölu, símanúmer og netfang, þeir sem ekki hafa íslenska kennitölu þurfa að gefa upp fæðingardag og ár.
Notkun smáforritins og vefsíðunnar er ætlað að tryggja hraða og árangursríka smitrakningu og auðvelda þannig smitrakningateyminu að hafa upp á einstaklingum sem kunna að hafa verið útsettir fyrir COVID-19 smiti.
Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga við notkun á vefsíðu fyrir skráningu í smitgát og sýnatöku er að hefta útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins í samræmi við skyldur sóttvarnalæknis samkvæmt sóttvarnalögum nr. 19/1997.
Samkvæmt sóttvarnalögum er óheimilt að nýta upplýsingar sem safnað er við smitrakningu í öðrum tilgangi.
Persónuupplýsingum verður eingöngu miðlað til smitrakningateymis almannavarna og þá að fengnu samþykki þínu.
Að öðru leyti verður persónuupplýsingum ekki miðlað, nema lög kveði á um að skylt sé að miðla slíkum upplýsingum.
Persónuupplýsingum verður ekki miðlað út fyrir Evrópska efnahagssvæðið.
Vinnsla þeirra persónuupplýsinga, sem nauðsynleg er vegna notkunar á smáforritinu, byggir á samþykki notenda. Sú vinnsla felst í valkvæðri skráningu símanúmers, skráningu á handahófskenndum auðkennum á símtæki viðkomandi og upplýsingar um mögulega útsetningu eða staðfest smit sem birtast notanda sjálfum í smáforritinu. Notandi getur hvenær sem er eytt smáforritinu og fellur þannig samþykki fyrir frekari vinnslu úr gildi og síminn hvorki sendir né safnar fleiri lyklum auk þess sem þeim upplýsingum sem voru í appinu verður eytt.
Sé upplýsingum miðlað til rakningateymis, byggir vinnsla persónuupplýsinga við smitrakningu á þeirri lagaskyldu sóttvarnalæknis að hindra dreifingu smitsjúkdóma, samkvæmt sóttvarnalögum.
Einstaklingar sem ákveða að skrá sig í smitgát gera slíkt að eigin frumkvæði. Vinnsla upplýsinga í tengslum smitgát, boðun í sýnatöku, meðferð sýna og varðveislu og miðlun niðurstöðu sýnatöku byggir á heimildum og skyldum sóttvarnalæknis skv. sóttvarnalögum.
Við þróun og rekstur kerfisins hefur verið gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að gögn komist ekki í hendur óviðkomandi, þeim verði ekki breytt, þau eyðilögð eða að þau tapist.
Öll samskipti milli smáforritsins, vefsíðu og gagnagrunna eru dulkóðuð.
Aðgangur að gagnagrunnum verður takmarkaður og rekjanlegur. Öllum gögnum sem verða til við skráningu í sýnatöku með eða sóttkví vegna hugsanlegrar útsetningar, verður eytt eftir 14 daga.
Öllum handahófskendum auðkennum sem miðlað er til rakningateymis, verður eytt úr gagnagrunni eftir 14 daga.
Þú átt rétt á að fá upplýsingar um þau gögn sem vistuð eru vegna notkunar á smáforritinu, ásamt því að fá afhent eintak af slíkum gögnum.
Þú átt rétt á að fara fram á að rangar persónuupplýsingar séu leiðréttar og að upplýsingum sé eytt. Þú átt einnig rétt á því að mótmæla vinnslu persónuupplýsinga og óska eftir því að vinnsla þeirra sé takmörkuð. Þú átt einnig rétt á að fara fram á að fá persónuupplýsingar þínar afhentar á tölvutæki formi, eða þær verði fluttar beint til þriðja aðila.
Ekki er hægt að verða við beiðnum um aðgang að, eyðingu, leiðréttingu eða takmörkun á vinnslu þeirra gagna sem unnin er á símtæki þínu þau eru eingöngu aðgengileg þér. Þá er ekki hægt að nýta þau réttindi hvað varða lykla sem þú hefur valið að deila þar sem þeir eru ópersónugreinanlegir á vefþjóni smitrakningarteymis og því ómögulegt að verða við slíkum beiðnum.
Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa embættis landlæknis með tölvupósti á personuvernd@landlaeknir.is eða í síma 510-1900, óskir þú eftir frekari upplýsingum um vinnslu persónuupplýsinga eða til að koma á framfæri ábendingum sem varða hana. Þá er einnig hægt að senda póst merktan persónuverndarfulltrúi til Embættis landlæknis, Katrínartúni 2, 6. hæð, 105 Reykjavík.
Teljir þú að vinnsla persónuupplýsinga sé ekki í samræmi við þau lög sem um hana gilda getur þú sent erindi til Persónuverndar.