Land og skógur tekur til starfa
1. janúar 2024
Í dag, fyrsta janúar 2024, tekur ný stofnun við hlutverki og skuldbindingum tveggja eldri stofnana sem um leið heyra sögunni til, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Við tekur mótunartími undir stjórn Ágústs Sigurðssonar sem gegnir stöðu forstöðumanns Lands og skógar.
Land og skógur er þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda og gegnir mikilvægu rannsókna-, eftirlits-, og fræðsluhlutverki við að vernda, endurheimta og bæta þessar auðlindir Íslands og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra. Meginmarkmið stofnunarinnar eru þannig að bæta gróður- og jarðvegsauðlindir þjóðarinnar, nýta land af sjálfbærni, vakta og hafa yfirsýn, stuðla að bindingu kolefnis og virkja og fræða almenning og hagsmunaaðila um gróður- og jarðvegsvernd, sjálfbæra nýtingu lands, uppbyggingu og endurheimt vistkerfa, skóga og skógrækt.
Starfsemin byggist á margvíslegu innlendu og alþjóðlegu samstarfi við rannsóknastofnanir og háskóla og hefur víðtæk tengsl við ýmsar stefnur, áætlanir og alþjóðlegar skuldbindingar þjóðarinnar. Stofnunin starfar í samræmi við hina opinberu stefnu og framtíðarsýn í landgræðslu og skógrækt - Land og líf, landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt. Stofnunin rekur starfstöðvar vítt og breitt um landið og hefur umsjón með þjóðskógum, löndum og landgræðslusvæðum.
Sérlög þau sem um stofnunina gilda eru: Lög nr. 66/2023 um Land og skóg. Lög nr. 155/2018 um landgræðslu og lög nr. 33/2019 um skóga og skógrækt.
Stofnunin heyrir undir matvælaráðuneytið.
Ný stofnun sprettur ekki fullsköpuð fram fyrsta janúar 2024. Nú tekur við mótunartímabil en þegar er tilbúið skipurit fyrir stofnunina. Skipað hefur verið í stöður sviðstjóra og starfsfólk beggja eldri stofnananna heldur störfum sínum. Að sjálfsögðu eru svið nýrrar stofnunar önnur en hjá þeim eldri en allt starfsfólk hefur nú fengið sinn stað í skipulagi stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að að skipulag þetta verði endurskoðað að fáeinum misserum liðnum þegar nokkur reynsla er komin á starfsemina.