ISAC fullgildur meðlimur ILAC og síðar GLOBAC
31. október 2025
ISAC hlaut nýverið fulla aðild að ILAC og hefur jafnframt verið samþykkt að GLOBAC, nýjum alþjóðlegum faggildingarsamtökum sem verða til við sameiningu ILAC og IAF. Þetta markar mikilvægan áfanga í þróun faggildingarkerfis á Íslandi og styrkir stöðu ISAC í alþjóðlegu samstarfi á sviði faggildinga.

Þann 25. ágúst síðastliðinn hlaut ISAC fulla aðild að alþjóðasamtökunum International Laboratory Accreditation Cooperation (ILAC). Aðildin staðfestir að ISAC uppfyllir alþjóðleg viðmið og kröfur sem gerðar eru til faggildingaraðila og markar mikilvægan áfanga í þróunar faggildingarstarfs á Íslandi. Jafnframt styrki aðildin samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og stofnana sem reiða sig á faggildingu í alþjóðlegu umhverfi.
Undanfarin misseri hefur farið fram vinna við að sameina ILAC og The International Accreditation Forum (IAF) í ein alþjóða samtök, Global Accreditation Cooperation (GLOBAC). Í samráði við bæði íslensk stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila ákvað ISAC að sækja um aðild að þessum nýju samtökum. Umsókn ISAC hefur verið samþykkt og mun GLOBAC formlega hefja starfsemi 1. janúar 2026.
Sameining ILAC og IAF í GLOBAC hefur það að markmiði að samræma verkferla og styrkja alþjóðlegt viðurkenningarkerfi faggildinga. Með stofnun GLOBAC er lagður grunnur að einfaldara, skilvirkara og enn traustara samstarfi þvert á svið rannsóknarstofa, vottunar- og skoðunarstofa, og annarra aðila sem starfa innan faggildingar og gæðastjórnunar.
Aðild ISAC að GLOBAC markar mikilvægan áfanga í áframhaldandi uppbyggingu faggildingar á Íslandi og styrkir stöðu stofnunarinnar á alþjóðavettvangi. Með fullri aðild öðlast ISAC rétt til virkrar þátttöku á allsherjarþingi GLOBAC, auk þátttöku í ýmsum nefndum og vinnuhópum samtakanna. Fullgildir meðlimir njóta jafnframt tjáningar- og atkvæðisrétt og hafa þannig beina aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku í alþjóðlegu faggildingarsamfélagi.
Aðildin tryggir ISAC aðgang að nýjustu alþjóðlegu viðmiðum og bestu starfsháttum á sviði faggildinga og mun stuðla að aukinni viðurkenningu íslenskra faggildinga á alþjóðlegum vettvangi.
Aðild ISAC að GLOBAC er einn af lykilþáttunum í því að tryggja áframhaldandi framfarir í faggildingarstarfi hér á landi, efla gæði þjónustu stofnunarinnar og styðja við samkeppnishæfni íslensk atvinnulífs á heimsvísu.