Réttindagæsla fyrir fatlað fólk
Þann 1. maí 2025 færist réttindagæsla fyrir fatlað fólk yfir til Mannréttindastofnunar Íslands.
Hægt er að hafa samband vegna réttindagæslu fatlaðs fólks í síma 554-8100, milli kl. 9 og 16 alla virka daga. Utan þess tíma er hægt að lesa inn skilaboð.
Einnig er hægt að senda tölvupóst gegnum netfangið rettindagaesla@mannrettindi.is.
Réttindagæslan aðstoðar fatlað fólk við að ná fram rétti sínum þegar réttindi þess eru ekki tryggð eða þau brotin. Aðstoðin getur til dæmis verið:
Upplýsingaöflun hvernig á málum er haldið og leiðbeiningar um úrbætur
Sitja fundi með einstaklingum eða skýrslutöku fyrir lögreglu og dómstólum þegar mál eru tekin fyrir
Fylgjast með að málsmeðferð sé í samræmi við lög og tryggja að fatlað fólk njóti jafnrar stöðu sem persónur fyrir lögum
Leiðbeina og aðstoða þegar reynir á sjálfræði fólks, hæfni til að fara með eigin réttindi og skyldur (gerhæfi) og sjálfsákvörðunarrétt
Undirbúa kærur eða kvartanir fyrir fólk og nota allar áfrýjunarleiðir innan stjórnsýslunnar
Koma ábendingum til skila til hluteigandi stjórnvalda eða aðila
Telji fatlaður einstaklingur að á rétti hans sé brotið getur hann haft samband við réttindagæsluna. Hún veitir í kjölfarið leiðbeiningar eða aðstoð við að leita réttar síns eftir því sem við á.
Réttindi fatlaðs fólks
Fatlað fólk skal njóta mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra. Allir einstaklingar, fatlaðir og ófatlaðir, eru jafnir fyrir lögum og skulu því njóta jafns aðgengis og jafnrar þátttöku á öllum sviðum lífsins, án mismununar af nokkru tagi. Dæmi um þau réttindi sem fatlað fólk skal njóta til jafns við aðra:
Réttur til frelsis og persónulegs öryggis.
Réttur til að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.
Réttur til tjáningar- og skoðanafrelsis.
Réttur til að stofna fjölskyldu.
Réttur til heimilis.
Réttur til menntunar.
Réttur til heilbrigðisþjónustu.
Réttur til vinnu.
Réttur til að kjósa og vera kosið.
Réttur til að taka þátt í menningarlífi.
Þegar réttur fatlaðs fólks er skertur eða grunur er um það er nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að leiðrétta og koma í veg fyrir að það gerist.
Fötluðu fólki skal m.a. standa til boða;
stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar,
húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og
félagsleg þjónusta sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri þátttöku í samfélaginu.
Sjá nánar

Þjónustuaðili
Mannréttindastofnun Íslands