Fara beint í efnið

Prentað þann 27. des. 2024

Stofnreglugerð

1660/2023

Reglugerð um birtingu upplýsinga úr gagnagrunni almennra fjarskiptaneta.

1. gr. Markmið og tilgangur.

Markmið þessarar reglugerðar er að setja ramma um opinbera birtingu tiltekinna upplýsinga um fjarskiptainnviði úr gagnagrunni almennra fjarskiptaneta (GAF). Tilgangur birtingarinnar er að almenningi og öðrum hagaðilum verði aðgengilegar upplýsingar um tegund og gæði fjarskiptatenginga sem eru í boði um land allt. Um er að ræða upplýsingar sem einnig geta komið að notum fyrir stjórnvöld við stefnumótun í fjarskiptum og öðrum málaflokkum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um þær upplýsingar um fjarskiptainnviði (fjarskiptavirki) sem Fjarskiptastofa aflar á grundvelli fjarskiptalaga og talið er að eigi erindi við almenning. Reglugerðin fjallar ekki um upplýsingar um fjarskiptainnviði og efnisleg grunnvirki sem gerðar eru aðgengilegar á grundvelli laga nr. 125/2019 um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta.

3. gr. Réttleiki upplýsinga.

Fjarskiptastofa skal leitast við að hafa upplýsingar í gagnagrunni almennra fjarskiptaneta réttar og áreiðanlegar. Eigendur fjarskiptavirkja skulu verða við beiðnum Fjarskiptastofu um uppfærslu rangra og ófullnægjandi upplýsinga eins fljótt og auðið er.

Fjarskiptastofu er heimilt að óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum sem annast skráningu staðfanga, þ.e. sveitarfélögum og Þjóðskrá Íslands, sbr. 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 577/2017 um skráningu staðfanga.

Í vefsjá gagnagrunns almennra fjarskiptaneta skal notendum vera kleift að senda með rafrænum hætti ábendingar um mögulegar villur í upplýsingum.

4. gr. Umfang og form birtingar.

Upplýsingar sem birta skal opinberlega skv. reglugerð þessari, skal birta á myndrænan hátt í landupplýsingakerfi, þ.e. í vefsjá. Það skal vera hægt að þysja sjónarhorn upplýsinganna niður á tiltekin staðföng (lögheimili eða aðrar byggingar).

5. gr. Upplýsingar um fjarskiptanet.

Upplýsingar um fjarskiptatengingar skulu vera með þeim hætti að almenningur geti notað þær til að öðlast vitneskju um tegund og gæði þeirra fjarskiptatenginga sem eru í boði á tilteknu staðfangi. Eftirfarandi upplýsingar um tengingar við staðföng skal birta:

  1. Aðgengi að tengingu sem getur borið allt að 30 Mb/s hraða;
  2. aðgengi að tengingu sem getur borið allt að 100 Mb/s hraða;
  3. aðgengi að tengingu sem getur borið allt að 1 Gb/s hraða;
  4. aðgengi að tengingu sem getur borið allt að 10 Gb/s hraða;
  5. tæknilausnir sem í boði eru á fastaneti s.s. ADSL, VDSL og ljósleiðarasamband;
  6. aðgengi að farsíma og farneti, tilgreint eftir tæknilausnum s.s. 2G, 3G, 4G og 5G.

Eftirfarandi upplýsingar um útbreiðslu farnetsþjónustu skal birta myndrænt:

  1. Háhraða farnet á vegum utan þéttbýlis;
  2. háhraða farnet á vegum í yfir 200 m hæð yfir sjávarmáli;
  3. háhraða farnet í þéttbýli, á þjóðvegum, fjölsóttum ferðamannastöðum og við strendur landsins, eftir því sem kostur er og þörf er á;
  4. útbreiðsla háhraða farnets á landinu öllu;
  5. hafsvæði að 12 mílum kringum landið (landhelgi) sem eigi kost á háhraðafarneti;
  6. hafsvæði að 40 mílum kringum landið (A1) sem eigi kost á háhraðafarneti.

Fjarskiptastofa skal vinna og uppfæra reglulega tölfræði sem unnin er upp úr upplýsingum samkvæmt 1. og 2. mgr. og birta á vefsvæði sínu eigi sjaldnar en árlega.

6. gr. Upplýsingar undanþegnar birtingu.

Takmarka skal opinbert aðgengi að upplýsingum í gagnagrunninum ef það er nauðsynlegt í ljósi öryggis neta og áreiðanleika þeirra, þjóðaröryggis, lýðheilsu eða öryggis almennings, trúnaðarkvaða, réttmætra samkeppnishagsmuna, rekstrar- og viðskiptaleyndarmála og persónuverndar.

Óheimilt er að birta upplýsingar um fjarskiptanet í eigu Atlantshafsbandalagsins nema með samþykki utanríkisráðuneytisins.

7. gr. Notendaskilmálar.

Áður en notandi getur skoðað vefsjána skulu honum birtir notendaskilmálar hennar. Í notendaskilmálum skal m.a. kveða á um að einungis sé heimilt að nota upplýsingarnar í lögmætum tilgangi.

Í notendaskilmálum skal einnig koma fram fyrirvari um réttleika upplýsinga í gagnagrunni almennra fjarskiptaneta þess efnis að upplýsingar í grunninum séu réttar eftir bestu vitund Fjarskiptastofu á hverjum tíma og að hún beri ekki ábyrgð á mögulegum skekkjum og villum sem kunna að vera í upplýsingunum.

8. gr. Afhending upplýsinga úr grunninum.

Einstaklingar, lögaðilar og stjórnvöld geta óskað eftir að fá afhentar tilteknar og skýrt afmarkaðar upplýsingar úr gagnagrunni almennra fjarskiptaneta.

Afhending upplýsinga úr gagnagrunninum er háð því að hún samrýmist 4. mgr. 10. gr. laga um Fjarskiptastofu nr. 75/2021. Fjarskiptastofa getur synjað afhendingu gagna á grundvelli öryggissjónarmiða eða mikilvægra viðskiptasjónarmiða eða ef veigamiklir almannahagsmunir krefjast.

Ekki er heimilt að afhenda upplýsingar sem falla undir 6. gr. reglugerðar þessar.

Ef Fjarskiptastofu berst ósk um vinnslu upplýsinga úr gagnagrunninum sem er mjög umfangsmikil eða útheimtir utanaðkomandi bjargir, t.d. þegar upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi eða kalla á vinnu stofnunarinnar við að útbúa ný gögn er Fjarskiptastofu heimilt að gera annaðhvort:

  1. setja upp sanngjarnt gjald með tilliti til kostnaðar við upplýsingagjöfina eða
  2. neita að verða við beiðninni.

10. gr. Gildistaka og reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi er sett með stoð í b-lið 1. mgr. 30. gr. laga um Fjarskiptastofu nr. 75/2021 og öðlast þegar gildi.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 14. desember 2023.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Ásdís Halla Bragadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.