Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 27. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 1. jan. 2023
Sýnir breytingar gerðar 1. júní 2022 af rg.nr. 620/2022

1647/2021

Reglugerð um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2022.

1. gr. Gildissvið og framkvæmd.

Reglugerð þessi gildir um eingreiðslur til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega á árinu 2022.

Orlofsuppbætur skulu greiddar 1. júlí og desemberuppbætur skulu greiddar 1. desember.

Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðarinnar.

2. gr. Eingreiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Orlofsuppbót til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega skal nema 20% af fjárhæð tekjutryggingar lífeyrisþega skv. 22. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og fjárhæð heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, miðað við 1/12 af greiðslurétti lífeyrisþega síðustu 12 mánuði fyrir greiðslu uppbótarinnar.

Desemberuppbót til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega skal nema 30% af fjárhæð tekjutryggingar og heimilisuppbótar lífeyrisþega, sbr. 1. mgr. Fjárhæð desemberuppbótar reiknast miðað við 1/12 af greiðslurétti lífeyrisþega á árinu 2022.

3. gr. Eingreiðslur til ellilífeyrisþega.

Full eingreiðsla til ellilífeyrisþega skal nema 104.929106.765 kr. Skal 40% eingreiðslu greiðast 1. júlí sem orlofsuppbót og 60% fjárhæðarinnar 1. desember sem desemberuppbót.

Eingreiðsla skal lækka um 2% af tekjum lífeyrisþega, sbr. 16. og 23. gr. laga um almannatryggingar, uns hún fellur niður. Þeir sem fá greiddan hálfan ellilífeyri skulu fá 50% af fjárhæð skv. 1. mgr.

Um áhrif búsetu, frestunar og flýtingar á töku lífeyris á fjárhæð eingreiðslna skv. 1. mgr. fer skv. 17. gr. laga um almannatryggingar.

Hafi ellilífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skulu eingreiðslur til hans skv. 1. mgr. greiddar í hlutfalli við greiðsluréttindi hans.

Ef fyrir liggur að eingreiðsla í júlí hafi verið of- eða vangreidd skal það leiðrétt við eingreiðslu desembermánaðar og gilda ákvæði 55. gr. laga um almannatryggingar eftir því sem við á.

4. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 70. gr., sbr. 69. gr., laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 14. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1334/2020, um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2021.

 Félagsmálaráðuneytinu, 29. desember 2021. 

 Guðmundur Ingi Guðbrandsson
 félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.

 Gunnhildur Gunnarsdóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.