Prentað þann 4. des. 2024
1600/2022
Reglugerð um námsstyrki úr Fræðslusjóði brunamála.
1. gr.
Sjóðurinn heitir Fræðslusjóður brunamála.
2. gr.
Markmið sjóðsins er að stuðla að aukinni þekkingu þeirra sem starfa að brunamálum á sviði brunavarna og slökkvistarfa.
Markmið styrkveitinga er að byggja upp fagþekkingu á sviði brunamála og sérstakra áhættuþátta í umhverfi þeirra sem sækja um styrki og auka hæfni þeirra til miðlunar þekkingar.
Í þeim tilgangi skal sjóðurinn veita styrki til rannsókna og þróunarverkefna vegna brunavarna.
3. gr.
Sjóðurinn greiðir styrki til rannsókna- og þróunarverkefna, og til námskeiðshalds og frekari uppbyggingar fagþekkingar á sviði brunavarna og slökkvistarfa.
4. gr.
Tekjur sjóðsins eru framlag af rekstrarfé Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, skv. ákvörðun stofnunarinnar í samræmi við fjárlög hverju sinni.
5. gr.
Styrkir úr sjóðnum skulu veittir á grundvelli umsókna. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast úthlutun styrkja að fenginni umsögn úthlutunarnefndar sjóðsins. Auglýsa skal eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ásamt tveimur hagaðilum, mynda úthlutunarnefnd sjóðsins. Við úthlutun styrkja skal stuðst við umsagnir frá úthlutunarnefndinni áður en afgreiðsla á styrkjum fer fram.
6. gr.
Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum eða ríkisendurskoðun.
7. gr.
Árlega skal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gera skýrslu þar sem gerð er grein fyrir fjárhag og úthlutunum sjóðsins.
8. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 38. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir og öðlast gildi 1. janúar 2023. Þann dag fellur jafnframt úr gildi samnefnd reglugerð nr. 266/2001 um námsstyrki úr Fræðslusjóði brunamála.
Innviðaráðuneytinu, 29. desember 2022.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.