Fara beint í efnið

Prentað þann 4. des. 2024

Breytingareglugerð

1597/2022

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1248/2018, um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til tíu ára í senn og skal hún staðfest af sveitarstjórn.
  2. 3. mgr. orðast svo: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ber að fylgja eftir áætlanagerð sveitarfélaga um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og veita ráðgjöf og upplýsingar við áætlanagerðina.
  3. 4. mgr. orðast svo: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lætur sveitarfélögum í té þau gögn og aðrar upplýsingar á sviði húsnæðismála sem stofnunin hefur safnað og nýst geta sveitarfélögum við vinnslu húsnæðisáætlana. Sveitarfélög skulu skila húsnæðisáætlunum í stafrænt áætlanakerfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ár hvert, sbr. 3. gr.

2. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Húsnæðisáætlanir.

Í húsnæðisáætlun skal m.a. gerð grein fyrir eftirfarandi atriðum:

  1. Hvernig sveitarfélag ætlar að mæta húsnæðisþörf.
  2. Mannfjöldaspá:

    1. Áætlun um þróun íbúafjölda í sveitarfélaginu og fjölda íbúa í hverri íbúð.
    2. Forsendum fyrir áætlun sveitarfélagsins um þróun íbúafjölda.
    3. Mati á lýðfræðilegri þróun íbúa sveitarfélagsins, s.s. fæðingartíðni, aldurssamsetningu og þjóðernis íbúa.
  3. Stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu:

    1. Mati á stöðu framboðs íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu.
    2. Greiningu á fjölda og hlutfalli annars vegar leigu- og hins vegar búseturéttaríbúða í sveitarfélaginu.
    3. Greiningu á stöðu framboðs þjónustu og innviða, s.s. leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og hjúkrunarrýma.
    4. Umfangi byggingaframkvæmda í sveitarfélaginu samkvæmt upplýsingum úr mannvirkjaskrá.
    5. Upplýsingum um gjöld sem byggingaraðili greiðir vegna byggingar íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu, s.s. gatnagerðargjöld, gjöld vegna byggingarréttar eða lóðar, byggingarleyfisgjöld og tengigjöld veitukerfa, miðað við ákveðna tegund húss sem skilgreint er af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til samanburðar á gjaldtöku vegna nýbygginga milli sveitarfélaga.
  4. Skipulagsáætlunum sveitarfélagsins:

    1. Lóðaframboði til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Sett skal fram áætlun um úthlutun lóða eða lóðarsvæða, m.t.t. uppbyggingarheimilda, ásamt núverandi stöðu þeirra samkvæmt skipulagi.
  5. Markmiðum og aðgerðaáætlunum sveitarfélagsins:

    1. Lýsingu á atvinnuástandi og markmiðum til framtíðar er varða atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu með hliðsjón af sóknar- og aðgerðaáætlun sveitarfélagsins.
    2. Markmiðum sveitarfélagsins varðandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, s.s. um hagkvæmt húsnæði, félagslegar íbúðir, þéttingu byggðar o.s.frv.
    3. Markmiðum sveitarfélagsins varðandi lóðaframboð, s.s. vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis fyrir tiltekna félagshópa.
  6. Þarfagreiningu:

    1. Mati á húsnæðisþörf vegna mannfjöldaspár, efnahagsþróunar og svæðisbundinnar atvinnustefnu.
    2. Mati á húsnæðisþörf þeirra sem þurfa sértækar húsnæðislausnir s.s. fatlaðs fólks, aldraðra og námsmanna.
    3. Mati á húsnæðisþörf annarra félagshópa, s.s. tekju- og eignaminni einstaklinga og þeirra sem þarfnast félagslegra húsnæðisúrræða á vegum sveitarfélaga.

3. gr.

3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Sveitarfélag og sveitarfélög sem eru með sameiginlega húsnæðisáætlun skulu endurskoða og uppfæra húsnæðisáætlun sína árlega með tilliti til þróunar eða breytinga sem orðið hafa á forsendum hennar síðastliðið ár. Uppfærðum húsnæðisáætlunum skal skila í stafrænt áætlanakerfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eigi síðar en 20. janúar ár hvert.

4. gr.

Orðið "gildandi" í 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

5. gr.

Í stað orðsins "Íbúðalánasjóður" í 1. og 2. málsl. 5. gr. reglugerðarinnar kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

6. gr.

Ákvæði til bráðabirgða í reglugerðinni orðast svo:

Þrátt fyrir 2. málsl. 3. gr. reglugerðarinnar skal uppfærðum húsnæðisáætlunum ársins 2023 skilað í stafrænt áætlanakerfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eigi síðar en 1. mars 2023.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. mgr. 14. gr. og 50. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.

Innviðaráðuneytinu, 22. desember 2022.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ingilín Kristmannsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.