Fara beint í efnið

Prentað þann 27. des. 2024

Stofnreglugerð

1589/2022

Reglugerð um hámarksverð fyrir lúkningu símtala.

1. gr. Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi gildir um fjarskiptafyrirtæki og fjarskiptanet í skilningi laga um fjarskipti, nr. 70/2022. Hún gildir um lúkningu símtala í bæði farnetum og föstum netum innan Evrópska efnahagssvæðsins, svo og við þriðju ríki að uppfylltum nánari skilyrðum.

Með reglugerðinni er kveðið á um hámarksverð fyrir lúkningu símtala, þ.e. heildsöluverð sem fjarskiptafyrirtæki tekur fyrir að tengja endanotanda í sínu fjarskiptaneti við endanotanda í öðru fjarskiptaneti sem efnir til símtals.

2. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/654 frá 18. desember 2021 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 með því að ákvarða eitt hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu og eitt hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu, sem birt er sem fylgiskjal 1 við reglugerð þessa, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 335/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á XI. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XI. viðauka, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.

3. gr. Eftirlit og viðurlög.

Fjarskiptastofa hefur eftirlit með framkvæmd laga um fjarskipti, nr. 70/2022, þar á meðal að því er varðar hámarksverð fyrir lúkningu símtala, sem nánar eru útfærðar í reglugerð þessari.

Um framkvæmd eftirlits, aðgang Fjarskiptastofu að upplýsingum og úrlausn deilumála fer samkvæmt lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum XV. kafla laga um fjarskipti, nr. 70/2022.

4. gr. Heimild og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 53. gr., sbr. 107. gr. laga um fjarskipti, nr. 70/2022, og öðlast þegar gildi.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. desember 2022.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Ásdís Halla Bragadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.