Prentað þann 27. des. 2024
1589/2022
Reglugerð um hámarksverð fyrir lúkningu símtala.
1. gr. Gildissvið og markmið.
Reglugerð þessi gildir um fjarskiptafyrirtæki og fjarskiptanet í skilningi laga um fjarskipti, nr. 70/2022. Hún gildir um lúkningu símtala í bæði farnetum og föstum netum innan Evrópska efnahagssvæðsins, svo og við þriðju ríki að uppfylltum nánari skilyrðum.
Með reglugerðinni er kveðið á um hámarksverð fyrir lúkningu símtala, þ.e. heildsöluverð sem fjarskiptafyrirtæki tekur fyrir að tengja endanotanda í sínu fjarskiptaneti við endanotanda í öðru fjarskiptaneti sem efnir til símtals.
2. gr. Innleiðing.
Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/654 frá 18. desember 2021 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 með því að ákvarða eitt hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu og eitt hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu, sem birt er sem fylgiskjal 1 við reglugerð þessa, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 335/2022 frá 9. desember 2022 um breytingu á XI. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XI. viðauka, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.
3. gr. Eftirlit og viðurlög.
Fjarskiptastofa hefur eftirlit með framkvæmd laga um fjarskipti, nr. 70/2022, þar á meðal að því er varðar hámarksverð fyrir lúkningu símtala, sem nánar eru útfærðar í reglugerð þessari.
Um framkvæmd eftirlits, aðgang Fjarskiptastofu að upplýsingum og úrlausn deilumála fer samkvæmt lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum XV. kafla laga um fjarskipti, nr. 70/2022.
4. gr. Heimild og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 53. gr., sbr. 107. gr. laga um fjarskipti, nr. 70/2022, og öðlast þegar gildi.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. desember 2022.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir.
FRAMSELD REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) 2021/654
frá 18. desember 2020
um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 með því að ákvarða eitt hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu og eitt hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu
FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti (1), einkum 1. mgr. 75. gr., og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 skal framkvæmdastjórnin koma á, með framseldri gerð, einu hámarksverði fyrir lúkningu símtala í farnetsþjónustu í Sambandinu og einu hámarksverði fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu til að draga úr stjórnsýslubyrði sem fylgir því að bregðast við samkeppnisvandamálum í tengslum við lúkningu símtala í heildsölu með samræmdum hætti í Sambandinu. Þær meginreglur, viðmiðanir og þættir sem framkvæmdastjórnin ætti að fara eftir við samþykkt framseldu gerðarinnar eru settar fram í III. viðauka við þá tilskipun.
2) Reglugerð þessi er með fyrirvara um valdheimildir landsbundinna eftirlitsyfirvalda til að skilgreina viðkomandi markaði sem hæfa landsbundnum aðstæðum, framkvæma prófun á viðmiðununum þremur og beita öðrum úrræðum en verðlagseftirliti í samræmi við 3. mgr. 64. gr., 67. gr. og 68. gr. í reglunum. Af þessum sökum hefur gildistaka þessarar reglugerðar ekki áhrif á þær skyldur, sem tengjast öðru en verði, sem landsbundin eftirlitsyfirvöld leggja nú á rekstraraðila með verulegan markaðsstyrk í tengslum við lúkningarþjónustu fyrir farsíma- eða fastlínusímtöl og munu þær því gilda áfram þar til þær hafa verið endurskoðaðar í samræmi við reglur Sambandsins og landsbundnar reglur.
3) Eftirlitsvenjur sýna að númerið, sem lúkning farsíma- eða fastlínusímtala fer fram í, gegnir mikilvægu hlutverki í staðgönguhæfni eftirspurnar og samkeppnishæfi í lúkningu símtala og er því aðalþátturinn sem veldur einokun á lúkningu sem réttlætir þörfina á reglusetningu. Því skal helsta viðmiðunin sem notuð er við skilgreiningu á lúkningarþjónustu vera númeraröðin, þ.e.a.s. hvort hringt er í farsímanúmer, ef um er að ræða lúkningarþjónustu fyrir símtöl í farsíma, eða í aðrar tegundir númera, s.s. svæðisnúmer og ákveðin ósvæðisbundin númer, ef um er að ræða lúkningarþjónustu fyrir fastlínusímtöl.
4) Lúkningarþjónustan ætti að taka til þjónustu, sem veitt er með hvers kyns tækni sem notuð er af veitanda fyrir lúkningu símtala, s.s. á 2G-, 3G-, 4G- eða 5G-neti og/eða í gegnum WiFi-net, eða hvers konar föstu neti, óháð uppruna símtalsins.
5) Öll lúkningarþjónusta fyrir farnet eða fastanet felur í sér að net rekstraraðila lúkningarmarkaða tengist a.m.k. einu öðru neti en sínu eigin. Því ber að líta á veitendur lúkningarþjónustu fyrir símtöl sem aðila sem hafa tæknilega stjórn og lagalegan rétt til að nota númerið sem hringt er í og beina símtalinu til viðtakandans.
6) Lúkningarþjónustan ætti ekki að ná til tilheyrandi aðstöðu sem kann að vera tilteknum rekstraraðilum nauðsynleg eða nauðsynleg í tilteknum aðildarríkjum vegna veitingar lúkningarþjónustu. Samtengingargáttir, sem reglur hafa nú verið settar um í mörgum aðildarríkjum, eru þó mikilvægur þáttur lúkningarþjónustu fyrir alla rekstraraðila þar sem þörf er á aukinni flutningsgetu samtenginga eftir því sem umferð eykst og því skulu þær falla undir skilgreininguna á lúkningarþjónustu. Veitandi lúkningarþjónustu fyrir símtöl ætti ekki að leggja neitt annað gjald á en viðeigandi verð sem ákvarðað er með þessari reglugerð fyrir fulla þjónustu fyrir lúkningu símtals til notanda í neti hans.
7) Lúkningarþjónusta fyrir símtöl í tiltekin ósvæðisbundin númer, eins og þau sem notuð eru fyrir gjaldþjónustu, gjaldfrjálsa þjónustu og kostnaðarskipta þjónustu (einnig þekkt sem „virðisaukandi þjónusta“), er ólík „hefðbundinni“ lúkningarþjónustu að því leyti að rekstraraðilarnir sem sjá um lúkningu símtalsins hafa einokun. Veitendur slíkrar þjónustu hafa ákveðinn samningsstyrk og geta samið um lúkningarverðið sem hluta af samningnum um tekjuskiptingu. Því standa veitendur lúkningarþjónustu frammi fyrir tilteknum takmörkunum þegar þeir ákvarða gjöld fyrir lúkningu símtala í þessi ósvæðisbundnu númer, ólíkt því sem gerist við lúkningu símtala í svæðisnúmer eða farsímanúmer. Því ætti lúkning símtala í slík númer að falla utan gildissviðs þessarar reglugerðar. Númeraraðir, sem eru sérstaklega fyrir samskipti milli véla (M2M), eru í flestum tilvikum ekki notuð í fjarskipti milli einstaklinga þar sem um er að ræða gagnaumferð en ekki talumferð og því skulu þau ekki falla undir gildissvið þessarar reglugerðar sem takmarkast við talfjarskipti.
8) Lúkningarþjónusta fyrir símtöl í aðrar gerðir ósvæðisbundinna númera, s.s. þeirra sem notuð eru í tengslum við fasta flökkuþjónustu og til að fá aðgang að neyðarþjónustu, sýnir einkenni einokunar á lúkningu og er veitt í gegnum fast grunnvirki. Því ætti hún að falla undir gildissvið þessarar reglugerðar og vera meðhöndluð sem lúkningarþjónusta fyrir fastlínusímtöl.
9) Ákveðin talþjónusta, sem rekstraraðilar veita, getur ekki flokkast sem hrein farþjónusta eða hrein fastaþjónusta heldur sem blönduð þjónusta. „Þjónusta á heimasvæði“ er dæmi um slíka blandaða þjónustu þar sem símtöl eru yfirleitt flutt í fast númer í gegnum farnet. Í samræmi við skilgreiningu á lúkningarþjónustu fyrir símtöl, þar sem númerið sem hringt er í er ákvarðandi viðmiðunin, ætti að meðhöndla slíka blandaða þjónustu sem lúkningarþjónustu fyrir farsíma- eða fastlínusímtöl eftir því í hvaða númer var hringt.
10) Verðið, sem reglur hafa verið settar um, fyrir lúkningarþjónustu fyrir símtöl skal gilda um símtöl með upphaf og lúkningu í númeri sem er að finna í landsbundnu númeraskipulagi sem samsvarar E.164-landskóðum fyrir landsvæði sem tilheyra yfirráðasvæði Sambandsins (Sambandsnúmer). Númer þriðju landa eru öll önnur númer en Sambandsnúmer. Með því að taka með símtöl með upphaf í númerum þriðju landa og lúkningu í Sambandsnúmeri er, í þeim tilvikum þegar rekstraraðilar í þriðju löndum innheimta hærra lúkningarverð en eina hámarksverðið fyrir lúkningu símtala í Sambandinu, eða ef reglur hafa ekki verið settar um slíkt lúkningarverð samkvæmt kostnaðarhagkvæmum meginreglum sem jafngilda þeim sem settar eru fram í 75. gr. og III. viðauka reglnanna, hætta á að grafið verði undan markmiðum þessarar reglugerðar, einkum þeim sem miða að því að tryggja samþættingu innri markaðarins.
11) Samsetning lágs lúkningarverðs, sem reglur hafa verið settar um, fyrir símtöl með upphaf í númerum þriðju landa og lúkningu í Sambandsnúmerum og hás og ókostnaðarhagkvæms lúkningarverðs fyrir símtöl í númer þriðju landa myndi líklega leiða til hærra lúkningarverðs fyrir símtöl með upphaf í Sambandsnúmerum og lúkningu í númerum þriðju landa, sem myndi hafa neikvæð áhrif á smásölugjaldskrár í Sambandinu og á kostnaðarsamsetningu rekstraraðila í Sambandinu. Mismunandi áhættuskuldbindingar rekstraraðila í Sambandinu að því er varðar símtöl með lúkningu frá slíkum rekstraraðilum í þriðju löndum, sem innheimta há og ókostnaðarhagkvæm lúkningarverð, myndu leiða til ójafnvægis í kostnaðarsamsetningu rekstraraðila í Sambandinu vegna þátta sem rekstraraðilarnir hafa ekki stjórn á. Þetta myndi líklega koma í veg fyrir tilkomu samevrópskra smásölutilboða, sem ná yfir símtöl í tiltekin númer þriðju landa, vegna hærra lúkningarverðs fyrir símtöl til þessara landa sem gæti haft neikvæð áhrif á neytendur og einkum fyrirtæki í Sambandinu. Enn fremur myndi það raska samkeppni þar sem ósamhverf áhrif af háu lúkningarverði fyrir símtöl með lúkningu í númerum þriðju landa myndu leiða til þess að mismunandi rekstraraðilar í Sambandinu stæðu frammi fyrir mismunandi samkeppnisskilyrðum, sem myndi einnig á endanum raska fjárfestingargetu og hvötum innan Sambandsins (bæði fjárfestingu í rekstraraðilum og fjárfestingu sem gerð er af rekstraraðilum). Öll þessi áhrif myndu greinilega stríða gegn markmiðum þessarar reglugerðar, sem er að stuðla að samþættingu innri markaðarins með því að fjarlægja ósamræmi milli rekstraraðila vegna lúkningarverðs sem er vel yfir kostnaðarverði.
12) Með það að markmiði að nota eitt hámarksverð fyrir lúkningu símtala í Sambandinu á opinn og gagnsæjan hátt og án mismununar og að takmarka undanþágu símtala með upphaf í númerum þriðju landa við það sem er algerlega nauðsynlegt til að tryggja að markmið innri markaðarins náist og til að tryggja meðalhóf, ætti verðið, sem sett er með þessari reglugerð, að gilda um símtöl, með upphaf í númerum þriðju landa og lúkningu í Sambandsnúmerum, þegar lúkningarverðið, sem veitendur lúkningarþjónustu í þriðju löndum beita fyrir símtöl með upphaf í Sambandsnúmerum, eru jöfn eða lægri en hámarksverðið fyrir lúkningu símtala sem sett er með þessari reglugerð. Á umbreytingartímabilinu fyrir verð fyrir lúkningu fastlínusímtala árið 2021 og á tímabilinu þar sem lækkun á verði fyrir lúkningu símtala í farsíma á sér stað í áföngum (frá 2021 til 2023), mun viðeigandi hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma, sem mun hrinda þessu fyrirkomulagi af stað, vera það sem sett er fram í 2.-5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Viðeigandi hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala, sem mun hrinda þessu fyrirkomulagi af stað árið 2021, mun verða það sem sett er fram í 2. mgr. 5. gr. framseldu reglugerðarinnar. Veitendur lúkningarþjónustu fyrir símtöl í Sambandinu ættu að nota þessi verð á grundvelli verðs sem veitendur lúkningarþjónustu fyrir símtöl í þriðju löndum beita eða leggja til.
13) Þar sem veitendur lúkningarþjónustu fyrir símtöl í Sambandinu eru hugsanlega ekki alltaf í aðstöðu til að vita hversu háu lúkningarverði rekstraraðilar í þriðju löndum beita, ætti það að jafnaði að vera á ábyrgð þeirra síðarnefndu að veita sannprófanlegar upplýsingar um upphæð lúkningarverðsins sem er í boði. Ef veitendur umflutningsþjónustu (eða aðrir milliliðir) endurselja rekstraraðilum í Sambandinu lúkningarþjónustu myndi lúkningarverðið, sem þessir veitendur umflutningsþjónustu beita eða bjóða, vera það sem skiptir máli við að skera úr um hvort það sé jafnt eða lægra en hámarksverðið fyrir lúkningu símtala sem ákvarðað er með þessari reglugerð.
14) Þegar rekstraraðilar í þriðju löndum innheimta lúkningarverð fyrir símtöl með upphaf í Sambandsnúmerum og lúkningu í númerum þriðju landa, sem er hærra en lúkningarverðið í Sambandinu, ætti verðið, sem er ákveðið í þessari reglugerð, einnig að gilda fyrir símtöl með upphaf í númerum þriðju landa og lúkningu í Sambandsnúmerum, ef framkvæmdastjórnin kemst að raun um, á grundvelli upplýsinga sem slík þriðju lönd veita framkvæmdastjórninni, að stjórnun lúkningarverðs í þessum löndum sé byggð á meginreglum sem eru jafngildar þeim sem settar eru fram í 75. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 og III. viðauka við hana. Skrá yfir þriðju lönd, sem uppfylla slíkar kröfur, ætti því að vera innifalin í þessari reglugerð og hún uppfærð tilhlýðilega.
15) Þar sem uppruni símtalsins myndi skilgreina hvort lúkningarverð í Sambandinu gildi eða ekki, er nauðsynlegt fyrir rekstraraðila í Sambandinu að geta greint upprunaland þess sem hringir. Í þeim tilgangi geta rekstraraðilar stuðst við landskóðann í númerabirtingunni. Til að tryggja að þessari reglugerð sé beitt á réttan hátt ættu rekstraraðilar í Sambandinu að fá gilda númerabirtingu fyrir hvert símtal sem berst. Þar af leiðandi ætti rekstraraðilum í Sambandinu ekki að bera skylda til að nota lúkningarverð í Sambandinu við lúkningu símtala ef númerabirtinguna vantar, hún er ógild eða sviksamleg.
16) Til að meta raunverulegan kostnað við lúkningu símtals í ímyndað farnet eða fast net í Sambandinu, í samræmi við meginreglurnar sem settar eru fram í 1. mgr. 75. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 og III. viðauka við hana, voru þróuð tvö kostnaðarverðslíkön fyrir lúkningu símtala í farsíma annars vegar og fyrir lúkningu fastlínusímtala hins vegar, sem taka tillit til kostnaðar í hverju aðildarríki.
17) Á grundvelli endurgjafar um kostnað í hverju aðildarríki, sem kom úr samráðsferlinu, voru kostnaðarverðslíkönin ákvörðuð fyrir bæði farnet og föst net. Samkvæmt III. viðauka við tilskipun (ESB) 2018/1972 byggist verðið í kostnaðarverðslíkönunum á endurheimt kostnaðar sem skilvirkur rekstraraðili stofnar til. Þess vegna byggist verðið aðeins á viðbótarkostnaðinum við að veita heildsölulúkningarþjónustu fyrir símtöl, þ.e.a.s. aðeins þeim kostnaði sem tengist umferð sem hjá yrði komist ef ekki væri fyrir hendi heildsölulúkningarþjónusta fyrir símtöl.
18) Eitt hámarksverð fyrir lúkningu farsíma- og fastlínusímtala í Sambandinu var ákvarðað með vísun til raunverulegs kostnaðar í landinu þar sem kostnaður er hæstur samkvæmt kostnaðarverðslíkönunum sem unnin voru, og þannig tryggð meginreglan um endurheimt kostnaðar innan Sambandsins og í kjölfarið var bætt við minni háttar öryggismörkum til að taka tillit til hugsanlegrar ónákvæmni í kostnaðarverðslíkönunum.
19) Eitt hámarksverð fyrir lúkningu símtala í Sambandinu, sem komið er á með þessari reglugerð, ætti að koma til framkvæmda tveimur mánuðum eftir gildistöku hennar til að tryggja að rekstraraðilar hafi nauðsynlegan tíma til að aðlaga upplýsinga-, reikninga- og bókhaldskerfi sín og gera nauðsynlegar breytingar á samtengingarsamningunum.
20) Ef núverandi meðalverð fyrir lúkningu símtala í Sambandinu er umtalsvert hærra en það sem á að leggja á í framtíðinni, þ.e.a.s. kostnaðarhagkvæma eina hámarksverðið fyrir lúkningu símtala í Sambandinu sem er ákvarðað í þessari reglugerð, ætti að lækka verðið í áföngum, sem er almenn reglusetningarvenja. Í slíkum tilvikum ætti lækkun verðs í áföngum að vera skilvirkt verkfæri til að greiða fyrir beitingu lægra verðs í samræmi við meðalhófsregluna.
21) Að teknu tilliti til núverandi meðalverðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í aðildarríkjum ætti að útfæra lækkun verðs í áföngum til að ná einu hámarksverði fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu. Til að ná jafnvægi milli skjótrar framkvæmdar og þarfarinnar á því að komast hjá umtalsverðum röskunum fyrir rekstraraðila ætti lækkun verðs í áföngum að hefjast við mörk sem eru nálægt núverandi meðalverði fyrir lúkningu símtala í farsíma og lækka árlega á þriggja ára tímabili áður en einu hámarksverði fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu er náð árið 2024.
22) Með þessari reglugerð er því komið á þriggja ára lækkun verðs í áföngum, þar sem kostnaðarhagkvæma eina hámarksverðinu fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu er náð árið 2024. Ekki ætti að vera þörf á umbreytingartímabili ef um er að ræða veitendur í aðildarríkjum sem beita verði sem er hærra en eina hámarksverðið fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu fyrir árið 2021, þar sem lækkun verðs í áföngum uppfyllir markmiðið um að draga úr áhrifunum af innleiðingu eins hámarksverðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu.
23) Í sumum aðildarríkjum er núverandi hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma, sem reglur hafa verið settar um, undir verðinu fyrir lúkningu símtala í farsíma sem var ákvarðað fyrir árin 2021, 2022 og 2023 vegna lækkunar verðs í áföngum og er nálægt eina hámarksverðinu fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu. Til að komast hjá hugsanlegum hækkunum á smásöluverði í þessum aðildarríkjum sem stafa af tímabundinni hækkun á verði fyrir lúkningu símtala í farsíma, sem reglur hafa verið settar um, ætti að vera mögulegt að halda áfram að nota núverandi verð fyrir lúkningu símtala í farsíma, sem reglur hafa verið settar um, í þessum aðildarríkjum til ársins þar sem hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma, sem ákvarðað er með þessari reglugerð fyrir það ár, er jafnhátt eða lægra en núverandi lúkningarverð aðildarríkjanna fyrir það ár.
24) Þar sem mismunurinn á milli núverandi meðalverðs fyrir lúkningu fastlínusímtala og eina hámarksverðsins fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu sem er ákvarðað í þessari reglugerð er minni en mismunurinn á verði fyrir lúkningu símtala í farsíma ætti ekki að vera þörf á lækkun verðs í áföngum ef um er að ræða lúkningu fastlínusímtala. Það ætti að vera viðeigandi að veita tilteknum aðildarríkjum umbreytingartímabil til að tryggja snurðulaus umskipti yfir í eitt hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu og til að komast hjá óþarfa töfum á beitingu þess.
25) Á grundvelli núverandi verðs fyrir lúkningu fastlínusímtala í tilteknum aðildarríkjum og eina hámarksverðsins fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu sem er ákvarðað í þessari reglugerð er réttlætanlegt að veita nokkrum aðildarríkjum umbreytingartímabil. Umbreytingartímabilið ætti að hefjast á þeim degi þegar þessi reglugerð kemur til framkvæmda og ljúka 31. desember 2021. Á umbreytingartímabilinu getur sérstakt verð, sem er frábrugðið eina hámarksverðinu fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu, gilt í hlutaðeigandi aðildarríkjum.
26) Réttlætanlegt er að veita þeim aðildarríkjum, þar sem núverandi verð fyrir lúkningu fastlínusímtala er umtalsvert hærra en eina hámarksverðið fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu, umbreytingartímabil svo hægt sé að leiðrétta þetta verð í áföngum. Í öllum aðildarríkjum að tveimur undanskildum, þar sem núverandi verð fyrir lúkningu fastlínusímtala er hærra en 0,0875 evrusent (eitt hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu að viðbættum 25%), ætti hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala árið 2021 að vera jafnt núverandi verði að frádregnum 20%. Í Póllandi og Finnlandi, sem hafa ekki fram til þessa fylgt meginreglunum sem settar eru fram í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2009/396/EB (2) og hafa nú mjög hátt verð fyrir lúkningu fastlínusímtala, telst lækkun um 20% ófullnægjandi skref í átt að einu hámarksverði fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu. Því skal verð þeirra á umbreytingartímabilinu vera það sama og hjá því aðildarríki sem er með hæsta verðið á umbreytingartímabilinu að undanskildum þessum tveimur aðildarríkjum. Ekki ætti að ákvarða umbreytingartímabil fyrir þau aðildarríki sem eftir eru þar sem núverandi verð fyrir lúkningu fastlínusímtala er lægra en eina hámarksverðið fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu eða þar sem 20% lækkun myndi færa það upp að eða undir eina hámarksverðið fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu.
27) Haft var samráð við evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta í samræmi við 1. mgr. 75. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 og skilaði hann áliti 15. október 2020.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
1. Með þessari reglugerð er ákvarðað eitt hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu og eitt hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu sem veitendur heildsölulúkningarþjónustu fyrir símtöl skulu innheimta vegna lúkningarþjónustu fyrir farsíma- og fastlínusímtöl.
2. Reglugerð þessi er með fyrirvara um valdheimildir landsbundinna eftirlitsyfirvalda skv. 3. mgr. 64. gr. og 67. og 68. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972.
3. Ákvæði 4. og 5. gr. eiga við um símtöl með upphaf og lúkningu í Sambandsnúmerum.
4. Ákvæði 4. og 5. gr. eiga einnig við um símtöl með upphaf í númerum þriðju landa og lúkningu í Sambandsnúmerum ef annað af tveimur eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:
a) ef veitandi lúkningarþjónustu fyrir símtöl í þriðja landi notar verð fyrir lúkningu farsíma- og fastlínusímtala sem er jafnhátt eða lægra en hámarksverðið fyrir lúkningu, sem sett er fram í 4. eða 5. gr., eftir því sem við á, fyrir lúkningu farsíma- eða fastlínusímtala með upphaf í Sambandsnúmerum, fyrir hvert ár og fyrir hvert aðildarríki, á grundvelli verðs sem veitendur lúkningarþjónustu fyrir símtöl í þriðju löndum nota eða leggja til fyrir veitendur lúkningarþjónustu fyrir símtöl í Sambandinu eða
b) ef:
i. framkvæmdastjórnin ákveður, á grundvelli upplýsinga sem lagðar eru fram af þriðja landi, að reglur séu settar um lúkningarverð fyrir símtöl með upphaf í Sambandsnúmerum og lúkningu í númerum þriðja landsins, í samræmi við meginreglur sem eru jafngildar þeim sem settar eru fram í 75. gr. tilskipunar (ESB) 2018/1972 og III. viðauka við hana og
ii. að þriðja landið sé skráð í viðaukann við þessa reglugerð.
5. Skilja skal ákvæði 4. og 5. gr. sem mínútugjöld (án virðisaukaskatts) og skulu þau gjaldfærð fyrir hverja sekúndu.
2. gr.
1. Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka eins og hér segir:
a) „lúkningarþjónusta fyrir símtöl í farsíma“: heildsöluþjónusta sem er nauðsynleg fyrir lúkningu símtala í farsímanúmer, sem er númeraforði sem úthlutað er úr opinberlega, þ.e.a.s. númer úr landsbundnu númeraskipulagi sem er úthlutað af rekstraraðilum sem geta stjórnað lúkningu og ákvarðað lúkningarverð fyrir símtöl í slík númer, þar sem um er að ræða samtengingu við a.m.k. eitt net, án tillits til þeirrar tækni sem notuð er, þ.m.t. samtengingargáttir,
b) „lúkningarþjónusta fyrir fastlínusímtöl“: heildsöluþjónusta sem er nauðsynleg fyrir lúkningu símtala í svæðisnúmer og ósvæðisbundin númer sem eru notuð fyrir fasta flökkuþjónustu og til að fá aðgang að neyðarþjónustu, sem er númeraforði sem úthlutað er úr opinberlega, þ.e.a.s. númer úr landsbundnu númeraskipulagi sem er úthlutað af rekstraraðilum sem geta stjórnað lúkningu og ákvarðað lúkningarverð fyrir símtöl í slík númer, þar sem um er að ræða samtengingu við a.m.k. eitt net, án tillits til þeirrar tækni sem notuð er, þ.m.t. samtengingargáttir,
c) „Sambandsnúmer“: númer úr landsbundnu númeraskipulagi sem samsvarar E.164-landskóðum fyrir landsvæði sem tilheyra yfirráðasvæði Sambandsins.
3. gr.
1. Veitandi lúkningarþjónustu fyrir farsíma- eða fastlínusímtöl skal ekki innheimta hærra verð en sem nemur viðeigandi hámarksverði fyrir lúkningu símtala fyrir þjónustu sem tengist lúkningu símtals til endanlegs notanda í neti hans, eins og kveðið er á um í 4. og 5. gr.
2. Ef lúkningarverð fyrir símtöl er sem stendur ákvarðað í öðrum gjaldmiðli en evru skal umreikna hámarksverð fyrir lúkningu farsíma- og fastlínusímtala skv. 4. gr. (1. mgr.), 4. gr. (2. mgr.), 4. gr. (4. mgr.), 4. gr. (5. mgr.) og 5. gr. (1. mgr.) í gjaldmiðil hvers ríkis með því að nota meðaltal viðmiðunargengisins sem Seðlabanki Evrópu birti 1. janúar, 1. febrúar og 1. mars 2021 í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
3. Hámarksverð fyrir lúkningu farsíma- og fastlínusímtala í öðrum gjaldmiðlum en evru skal endurskoðað árlega og uppfært eigi síðar en 1. janúar ár hvert með því að nota nýjasta meðaltal viðmiðunargengisins sem Seðlabanki Evrópu birti 1. september, 1. október og 1. nóvember í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
4. gr.
1. Eina hámarksverðið fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu skal vera 0,2 evrusent á mínútu.
2. Þrátt fyrir 1. mgr. er veitendum lúkningarþjónustu fyrir símtöl í farsíma heimilt að nota eftirfarandi hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma:
a) frá 1. júlí 2021 til 31. desember 2021 í öðrum aðildarríkjum en þeim sem um getur í 3. mgr.: 0,7 evrusent á mínútu,
b) frá 1. janúar 2022 til 31. desember 2022 í öðrum aðildarríkjum en þeim sem um getur í 4. mgr.: 0,55 evrusent á mínútu,
c) frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2023 í öðrum aðildarríkjum en þeim sem um getur í 5. mgr.: 0,4 evrusent á mínútu.
3. Þrátt fyrir 1. mgr. er veitendum lúkningarþjónustu fyrir símtöl í farsíma heimilt, frá 1. júlí 2021 til 31. desember 2021, að nota eftirfarandi hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma í eftirfarandi aðildarríkjum:
a) 0,045 króatískar kúnur á mínútu í Króatíu,
b) 0,20 evrusent á mínútu á Kýpur,
c) 0,0385 danskar krónur á mínútu í Danmörku,
d) 0,622 evrusent á mínútu í Grikklandi,
e) 1,71 ungverskar forintur á mínútu í Ungverjalandi,
f) 0,43 evrusent á mínútu á Írlandi,
g) 0,67 evrusent á mínútu á Ítalíu,
h) 0,4045 evrusent á mínútu á Möltu,
i) 0,581 evrusent á mínútu í Hollandi,
j) 0,36 evrusent á mínútu í Portúgal,
k) 0,64 evrusent á mínútu á Spáni,
l) 0,0216 sænskar krónur á mínútu í Svíþjóð.
4. Þrátt fyrir 1. mgr. er veitendum lúkningarþjónustu fyrir símtöl í farsíma heimilt, frá 1. janúar 2022 til 31. desember 2022, að nota eftirfarandi hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma í eftirfarandi aðildarríkjum:
a) 0,20 evrusent á mínútu á Kýpur,
b) 0,52 evrusent á mínútu í Danmörku,
c) 0,47 evrusent á mínútu í Ungverjalandi,
d) 0,43 evrusent á mínútu á Írlandi,
e) 0,40 evrusent á mínútu á Möltu,
f) 0,36 evrusent á mínútu í Portúgal,
g) 0,21 evrusent á mínútu í Svíþjóð.
5. Þrátt fyrir 1. mgr. er veitendum lúkningarþjónustu fyrir símtöl í farsíma heimilt, frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2023, að nota eftirfarandi hámarksverð fyrir lúkningu símtala í farsíma í eftirfarandi aðildarríkjum:
a) 0,20 evrusent á mínútu á Kýpur,
b) 0,36 evrusent á mínútu í Portúgal,
c) 0,21 evrusent á mínútu í Svíþjóð.
5. gr.
1. Eina hámarksverðið fyrir lúkningu fastlínusímtala í Sambandinu skal vera 0,07 evrusent á mínútu.
2. Þrátt fyrir 1. mgr. er veitendum lúkningarþjónustu fyrir fastlínusímtöl heimilt, frá 1. júlí 2021 til 31. desember 2021, að nota eftirfarandi hámarksverð fyrir lúkningu fastlínusímtala í eftirfarandi aðildarríkjum:
a) 0,089 evrusent á mínútu í Austurríki,
b) 0,093 evrusent á mínútu í Belgíu,
c) 0,0057 króatískar kúnur á mínútu í Króatíu,
d) 0,0264 tékkneskar krónur á mínútu í Tékklandi,
e) 0,111 evrusent á mínútu í Finnlandi,
f) 0,076 evrusent á mínútu í Lettlandi,
g) 0,072 evrusent á mínútu í Litáen,
h) 0,110 evrusent á mínútu í Lúxemborg,
i) 0,111 evrusent á mínútu í Hollandi,
j) 0,005 pólsk slot á mínútu í Póllandi,
k) 0,078 evrusent á mínútu í Rúmeníu,
l) 0,078 evrusent á mínútu í Slóvakíu.
6. gr.
1. Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
2. Hún kemur til framkvæmda frá og með 1. júlí 2021.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 18. desember 2020.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Ursula VON DER LEYEN
forseti.
(1) Stjtíð. ESB L 321, 17.12.2018, bls. 36.
(2) Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/396/EB frá 7. maí 2009 um reglusetningu verðs fyrir lúkningu farsíma- og fastlínusímtala í ESB (Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2009, bls. 67).
VIÐAUKI
Skrá yfir þriðju lönd samkvæmt b-lið 4. mgr. 1. gr. þessarar reglugerðar:
1.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.