Prentað þann 23. des. 2024
1469/2021
Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1163/2021 um loðnuveiðar grænlenskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands fiskveiðiárið 2021/2022.
1. gr.
Við reglugerðina bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er heimilt til og með 31. desember 2021 að stunda veiðar á loðnu með flotvörpu á svæði sem afmarkast af eftirfarandi hnitum:
67°11´ N - 14°30´ V
67°20´ N - 18°00´ V
68°00´ N - 18°00´ V
68°00´ N - 14°30´ V
Jafnframt er þeim skipstjórum sem hyggjast stunda veiðar á fyrrgreindu svæði gert skylt að tilkynna það Fiskistofu eigi síðar en einum virkum degi fyrir upphaf veiða. Séu veiðar áætlaðar á sunnudegi eða mánudegi, skal tilkynna um veiðarnar fyrir hádegi á föstudegi. Skipstjóra er skylt að taka um borð eftirlitsmann samkvæmt nánari fyrirmælum Fiskistofu, og skal við það miðað að Fiskistofa sendi útgerð eða skipstjóra tilkynningu þar að lútandi 12 tímum fyrir upphaf veiða. Að jafnaði skal eftirlitsmaður tekinn um borð í höfn á Húsavík og skilað til hafnar á Húsavík.
Útgerð viðkomandi skips skal greiða allan kostnað er hlýst af veru eftirlitsmanns Fiskistofu um borð í skipinu.
2. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 8. gr., 9. gr. og 13. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.
Reglugerðin öðlast þegar gildi og gildir til 31. desember 2021.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 17. desember 2021.
Svandís Svavarsdóttir
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.