Prentað þann 21. des. 2024
1450/2021
Reglugerð um ráðgjöf, sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns á grundvelli barnalaga nr. 76/2003.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Almenn ákvæði.
- II. KAFLI Sérfræðiráðgjöf á vegum sýslumanns skv. 33. gr. barnalaga.
- III. KAFLI Sáttameðferð skv. 33. gr. a barnalaga.
- IV. KAFLI Sérreglur um sáttameðferð á vegum sýslumanns.
- V. KAFLI Sérreglur um sáttameðferð á vegum annarra en sýslumanns.
- VI. KAFLI Samtal að frumkvæði barns skv. 33. gr. b barnalaga.
- VII. KAFLI Ráðgjöf skv. 46. gr. b barnalaga.
- VIII. KAFLI Gildistaka.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Hugtök.
Orðið foreldrar verður í reglugerð þessari einnig notað um aðra sem geta verið aðilar að málum sem falla undir ákvæði barnalaga um sérfræðiráðgjöf og sáttameðferð.
2. gr. Almennt um viðtöl við börn.
Þegar rætt er við barn við undirbúning og framkvæmd verkefna skv. reglugerð þessari skal þess gætt að haga viðtölum þannig að barnið eigi sem auðveldast með að tjá frjálslega sjónarmið sín.
Taka ber viðeigandi tillit til sértækra þarfa barns, svo sem vegna fötlunar, meðal annars með því að koma til móts við þær tjáskiptaleiðir sem henta hverju barni best eftir atvikum.
3. gr. Sérfræðingur í málefnum barna.
Sérfræðingur í málefnum barna samkvæmt barnalögum skal hafa lokið háskólaprófi til starfsréttinda í sálfræði, félagsráðgjöf eða sambærilegum greinum og hafa þekkingu á þörfum og réttindum barna og stöðu foreldra.
4. gr. Umdæmi.
Ráðherra er heimilt að fela einum sýslumanni eða sýslumönnum á tilteknum embættum að skipuleggja sérfræðiráðgjöf og sáttameðferð á landinu öllu eða á tilteknum landsvæðum. Kallast slík landsvæði sáttaumdæmi. Sýslumaður sem skipuleggur ofantalin verkefni í tilteknu sáttaumdæmi ræður að jafnaði þá starfsmenn sem nauðsynlegir þykja til að sinna verkefnunum og ákveður í samráði við aðra sýslumenn í sáttaumdæminu hvernig þjónusta þessara starfsmanna verður best nýtt. Sýslumaður getur einnig gert samninga við aðra sérfræðinga í málefnum barna um að sinna tilteknum verkefnum ef þörf krefur. Í þeim tilvikum skal gera sérstakan samning þar sem afmörkuð er sú þjónusta sem sérfræðingi ber að veita og sú málsmeðferð sem viðkomandi ber að fylgja.
Foreldrar sem óska liðsinnis sýslumanns leggja erindi sitt fram í því umdæmi sýslumanns sem málið heyrir undir samkvæmt reglum barnalaga. Sýslumaður sem leysir úr máli sér um að aðilar fái þjónustu samkvæmt lögunum í samræmi við það sem ákveðið hefur verið í viðkomandi sáttaumdæmi. Sýslumaður getur ákveðið, ef foreldrar óska þess, að láta í té sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf, utan þess sáttaumdæmis sem annars veitti þjónustuna.
Ákvæði 1. mgr. á einnig við um samtal skv. 33. gr. b, ráðgjöf skv. 46. gr. b barnalaga og skipulag á liðsinni sérfræðings í málefnum barna, skv. 74. gr. barnalaga. Ákvæði 2. mgr. á einnig við um barn skv. 33. gr. b barnalaga.
5. gr. Fundir og viðtöl í gegnum síma, fjarfundabúnað eða annað fjarskiptatæki.
Ef sérstaklega stendur á að mati sýslumanns mega fundir, m.a. vegna ráðgjafar eða sáttameðferðar, viðtöl og samtöl skv. reglugerð þessari fara fram í gegnum síma, fjarfundabúnað eða annað fjarskiptatæki, enda verði fundi, viðtali eða samtali hagað þannig að allir heyri öll þau orðaskipti sem fram fara.
6. gr. Þagnar- og tilkynningarskylda.
Þeir sem veita sérfræðiráðgjöf eða sinna sáttameðferð eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Þagnarskylda á einnig við um þá sem koma að undirbúningi og framkvæmd samtals skv. 33. gr. b og ráðgjöf skv. 46. gr. b barnalaga.
Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt, t.d. skv. ákvæðum barnaverndarlaga. Í þeim tilvikum ber viðkomandi skylda til að koma upplýsingum á framfæri við þar til bær yfirvöld.
II. KAFLI Sérfræðiráðgjöf á vegum sýslumanns skv. 33. gr. barnalaga.
7. gr. Almennt um sérfræðiráðgjöf.
Við meðferð forsjár, lögheimilis-, búsetu-, umgengnis- og dagsektarmáls eða máls um brottfall samnings um skipta búsetu barns getur sýslumaður boðið aðilum sérfræðiráðgjöf skv. 33. gr. barnalaga. Sýslumaður getur meðal annars boðið aðilum sérfræðiráðgjöf áður en tekin er ákvörðun um synjun staðfestingar samnings um forsjá, lögheimili, búsetu eða umgengni sem þykir andstæður hag og þörfum barns eða andstæður lögum.
8. gr. Markmið sérfræðiráðgjafar.
Markmið með sérfræðiráðgjöf er að leiðbeina aðilum með tilliti til þess sem barni er fyrir bestu.
9. gr. Hver veitir sérfræðiráðgjöf.
Sérfræðiráðgjöf er veitt af hálfu sérfræðings í málefnum barna sem uppfyllir skilyrði 3. gr. reglugerðarinnar. Sýslumaður getur ákveðið að sérfræðiráðgjöf verði veitt í þverfaglegri samvinnu sérfræðings í málefnum barna og þess löglærða starfsmanns sem fer með málið.
Um hæfi sérfræðings í einstöku máli gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Þeir sem koma að sérfræðiráðgjöf á vegum sýslumanns samkvæmt 1. mgr. verða ekki sjálfkrafa vanhæfir í málum milli sömu aðila til að veita sáttameðferð skv. 33. gr. a, veita liðsinni við samtal skv. 33. gr. b, veita ráðgjöf skv. 46. gr. b, hafa eftirlit með umgengni skv. 47. gr. eða vinna í máli skv. 74. gr. laganna. Sýslumaður sem fer með mál getur ákveðið að tiltekinn starfsmaður sem komið hefur að máli víki sæti við áframhaldandi meðferð þess, komi fram sérstök krafa um slíkt.
10. gr. Undirbúningur, framkvæmd og lok sérfræðiráðgjafar.
Áður en foreldrum er boðin sérfræðiráðgjöf skal sýslumaður sem leysir úr máli að jafnaði boða foreldra til upplýsingafundar. Markmiðið er að afmarka hvaða álitamál eru til staðar. Að loknum upplýsingafundi metur sýslumaður hvert skuli vera framhald málsins, m.a. hvort skilyrði séu til þess að bjóða foreldrum sérfræðiráðgjöf að teknu tilliti til aðstæðna og stöðu máls hverju sinni.
Sérfræðiráðgjöf má veita foreldrum saman eða hvoru um sig. Sá sem veitir ráðgjöf getur rætt við barn sem mál varðar telji hann það þjóna hagsmunum barnsins. Í málum þar sem veitt er sérfræðiráðgjöf getur barn einnig að eigin frumkvæði óskað ráðgjafar. Viðtöl við barn skv. ákvæði þessu eru ekki háð samþykki foreldra.
Sérfræðiráðgjöf skal að jafnaði veita í einu eða tveimur viðtölum. Sá sem veitir ráðgjöf tilkynnir sýslumanni sem leysir úr máli um lok sérfræðiráðgjafar. Ef foreldrar ná sáttum og samningur foreldra þarfnast staðfestingar eða þau óska eftir staðfestingu sýslumanns ber einnig að vísa þeim til sýslumanns.
III. KAFLI Sáttameðferð skv. 33. gr. a barnalaga.
11. gr. Sáttameðferð.
Foreldrum er skylt að leita sátta skv. 33. gr. a barnalaga áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför samkvæmt ákvæðum barnalaga. Foreldrar geta ekki samið um að undirgangast ekki sáttameðferð áður en krafist er úrskurðar eða mál er höfðað.
Sýslumaður skal bjóða foreldrum sáttameðferð skv. 1. mgr. Sýslumaður getur einnig boðið sáttameðferð áður en tekin er ákvörðun um synjun staðfestingar samnings um forsjá, lögheimili, búsetu eða umgengni sem þykir andstæður hag og þörfum barns eða andstæður lögum, ef sýslumaður telur sáttameðferð geta þjónað tilgangi við meðferð máls. Sama á við um mál er varða brottfall samnings um skipta búsetu barns.
Foreldrar geta einnig óskað sáttameðferðar hjá öðrum sem hafa heimild til þess skv. 13. gr. og V. kafla í reglugerð þessari.
Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. barnalaga getur dómari í máli skv. 34. gr. barnalaga ákveðið að sátta verði leitað milli aðila eftir ákvæði 33. gr. a laganna. Dómari bókar þá að máli verði vísað til sýslumanns til sáttameðferðar eða bókar um samkomulag aðila um að óska eftir sáttameðferð hjá öðrum sem hafa heimild til þess skv. 13. gr. og V. kafla í reglugerð þessari.
12. gr. Markmið með sáttameðferð.
Markmið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn ágreinings sem er barni fyrir bestu. Sáttamaður aðstoðar foreldra við að hafa hagsmuni og þarfir barna sinna að leiðarljósi þegar þau afmarka ágreiningsefnin og leita heppilegra lausna. Sáttamaður leiðbeinir foreldrum um rétt barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði, um mikilvægi þess að hagsmunir barnsins gangi ætíð framar óskum foreldranna og um mikilvægi þess að ágreiningur þeirra komi ekki í veg fyrir að barn fái að þroskast við jákvæð og uppbyggileg skilyrði.
Sáttamaður skal gæta þess að vera hlutlaus og óhlutdrægur í máli. Sáttamaður tekur þannig ekki afstöðu til efnis ágreinings eða til deiluaðila heldur leitast við að skapa jafnræði milli þeirra í sáttaferlinu. Að jafnaði gerir sáttamaður ekki tillögur til lausnar ágreinings. Sáttamaður skal fyrst og fremst leiða og stýra sáttafundum með þeim hætti sem er líklegastur til að gera foreldrum kleift að greina þarfir barns og að ná sátt sín á milli með hagsmuni barns í forgrunni.
13. gr. Hver veitir sáttameðferð.
Sáttamaður skal hafa lokið háskólaprófi til starfsréttinda í lögfræði, sálfræði, félagsráðgjöf eða sambærilegum greinum og hafa unnið að lágmarki í tvö ár við meðferð mála þar sem reynir beint á hagsmuni barna og/eða foreldra. Sáttamaður skal að auki hafa menntað sig sérstaklega á sviði sáttameðferðar eða sáttamiðlunar eða hafa umtalsverða starfsreynslu á sviði sáttameðferðar, sáttamiðlunar eða lausna ágreinings um fjölskyldumálefni. Þá skal sáttamaður hafa haldgóða þekkingu á ákvæðum barnalaga og þeim helstu álitaefnum sem reynir á við túlkun þeirra.
14. gr. Almennt um framkvæmd sáttameðferðar.
Sáttamaður stýrir sáttameðferð. Sáttamaður ákveður hvar einstaka sáttafundir fara fram, boðar foreldra til fundar með hæfilegum fyrirvara og ákveður að höfðu samráði við foreldra hversu lengi hver sáttafundur varir.
Foreldrum er skylt að mæta sjálfir á þá sáttafundi sem sáttamaður boðar til. Aðrir en foreldrar geta aðeins setið sáttafund með samþykki sáttamanns og foreldra. Foreldrar skulu að jafnaði mæta saman á sáttafund. Sáttamaður getur ákveðið, þegar sérstaklega stendur á, að foreldrar mæti hvort í sínu lagi á sáttafund. Getur sáttamaður m.a. orðið við ósk foreldris um að mæta eitt á sáttafund ef foreldri lýsir því að ofbeldi hafi átt sér stað eða telur hættu á ofbeldi.
Á fyrsta sáttafundi skal sáttamaður að jafnaði gera foreldrum grein fyrir markmiðum sáttameðferðar, umfangi hennar og framkvæmd og afleiðingum þess ef ekki næst sátt um ágreiningsefni. Þá skal sáttamaður aðstoða foreldra við að afmarka í hverju ágreiningur liggur, í því skyni að sáttafundir nýtist sem best, og útskýra fyrir foreldrum í meginatriðum þær reglur sem gilda um þau efnisatriði sem foreldrar deila um.
Sáttamaður ákveður að höfðu samráði við foreldra hversu langt skuli líða á milli funda. Sáttameðferð skal að jafnaði ekki taka lengri tíma en sex mánuði og aldrei standa lengur en í 12 mánuði frá því að tekin er ákvörðun um að hefja hana.
15. gr. Staða barns við sáttameðferð.
Eftir atvikum skal gefa barni kost á að tjá sig við sáttameðferð. Sáttamaður tekur ákvörðun, að höfðu samráði við foreldra, um hvort og hvenær gefa skuli barni kost á að tjá sig við sáttameðferð. Sáttamaður getur ákveðið að ræða við barn í einrúmi eða að foreldrum eða öðrum viðstöddum. Viðtöl við barn skv. ákvæði þessu eru ekki háð samþykki foreldra.
Á fundi með barni skal sáttamaður leitast við að gera barninu grein fyrir rétti sínum og þeim ágreiningi sem er uppi, svo og að svara þeim spurningum sem barnið kann að hafa. Virða ber rétt barns sem velur að tjá sig ekki um málið.
Sáttamaður metur, að höfðu samráði við barnið, með hvaða hætti sjónarmið barnsins eða þær upplýsingar sem barnið gefur eru kynntar foreldrum. Leggja ber áherslu á að foreldrar taki tillit til sjónarmiða barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.
16. gr. Lok sáttameðferðar.
Ef foreldrar ná sáttum lýkur sáttameðferðinni með því að sáttamaður gerir þeim grein fyrir nauðsynlegum ráðstöfunum sem grípa þarf til, eftir því sem við á, svo sem um staðfestingu samnings, og réttaráhrif þess.
Ef foreldrar ná ekki sáttum lýkur sáttameðferðinni með því að sáttamaður gefur út sáttavottorð skv. 17. gr. Jafnframt skal sáttamaður gera foreldrum grein fyrir því hvaða möguleika þau hafi í framhaldinu. Sáttamaður lýkur jafnframt sáttameðferð með útgáfu sáttavottorðs ef foreldri mætir ekki á boðaðan sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis. Ef afstaða foreldris til ágreiningsefna liggur fyrir og foreldri hafnar því að mæta á sáttafund þarf ekki að boða það foreldri á ný.
17. gr. Sáttavottorð.
Sáttavottorð skal ritað á eyðublað sem sýslumaður lætur í té. Í sáttavottorði skal gera grein fyrir þeim ágreiningi sem sáttameðferð tók til, lýsa því hvernig sáttameðferð fór fram, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns nema það sé talið ganga gegn hagsmunum barnsins.
Sáttavottorð er gilt í sex mánuði eftir útgáfu.
IV. KAFLI Sérreglur um sáttameðferð á vegum sýslumanns.
18. gr. Hæfi sáttamanns á vegum sýslumanns.
Sáttameðferð á vegum sýslumanns er veitt af sáttamanni sem uppfyllir skilyrði 13. gr. reglugerðarinnar.
Um hæfi sáttamanns í einstöku máli gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Sáttamaður á vegum sýslumanns verður ekki sjálfkrafa vanhæfur í málum milli sömu aðila til að veita ráðgjöf skv. 33. gr. eða 46. gr. b, veita liðsinni við samtal skv. 33. gr. b, hafa eftirlit með umgengni skv. 47. gr., eða vinna í máli skv. 74. gr. laganna. Sýslumaður sem leysir úr máli getur ákveðið að sáttamaður sem komið hefur að máli víki sæti við áframhaldandi meðferð þess, komi fram sérstök krafa um slíkt.
19. gr. Undirbúningur og framkvæmd sáttameðferðar á vegum sýslumanns.
Áður en sýslumaður býður foreldrum sáttameðferð skal hann að jafnaði boða foreldra til upplýsingafundar. Markmiðið er að afla upplýsinga frá foreldrum um þann ágreining sem þau óska eftir að sáttameðferð beinist að og leiðbeina þeim með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu.
Sáttafundir fara fram á íslensku. Sýslumaður kveður til táknmálstúlk ef þörf krefur.
Sáttafundir geta einnig farið fram á ensku eða öðru tungumáli sem sáttamaður og báðir foreldrar, og barn eftir atvikum, hafa vald á. Foreldrum er að öðru leyti heimilt að hafa með sér túlk á sáttafund. Sýslumaður kveður til hæfan túlk ef skylda til þess leiðir af samningi við erlent ríki.
Aðilum er óheimilt að taka myndir eða hljóðrita sáttafundi á vegum sýslumanns.
20. gr. Umfang sáttameðferðar á vegum sýslumanns.
Að lágmarki skal bjóða foreldrum forsjár-, lögheimilis- umgengnis-, dagsektar- og aðfararmála einn sáttafund. Sáttamaður metur að öðru leyti þörf á fjölda funda skv. 2. og 3. mgr. eftir aðstæðum og eðli ágreinings.
Ef foreldrar eru ekki sammála eftir fyrsta fund getur sáttamaður boðið allt að þrjá sáttafundi til viðbótar. Þó skal að jafnaði ekki bjóða foreldrum, eða foreldri eftir atvikum, fleiri sáttafundi en einn í málum um dagsektir og aðför.
Ef foreldrar eru sammála að loknum fjórum sáttafundum um að óska frekari sáttameðferðar eða sáttamaður telur líklegt að foreldrar muni geta náð sáttum, getur sáttamaður boðið foreldrum frekari sáttafundi, þó ekki fleiri en þrjá til viðbótar.
Ef sýslumaður telur sáttameðferð geta þjónað tilgangi áður en synjað er staðfestingar samnings um forsjá, lögheimili, búsetu eða umgengni skal að jafnaði bjóða foreldrum einn sáttafund en heimilt er að bjóða allt að þrjá sáttafundi til viðbótar þegar sérstaklega stendur á. Sama á við um mál er varða brottfall samnings um skipta búsetu barns.
21. gr. Lok sáttameðferðar á vegum sýslumanns.
Þegar sáttamaður lýkur sáttameðferð, tilkynnir hann það þeim sýslumanni sem leysir úr máli. Ef samningur foreldra þarfnast staðfestingar eða þau óska eftir staðfestingu sýslumanns ber sáttamanni einnig að vísa þeim til sýslumanns.
Ef sáttameðferð lýkur án sátta, gefur sáttamaður út sáttavottorð skv. 17. gr. og vísar málinu til sýslumanns.
V. KAFLI Sérreglur um sáttameðferð á vegum annarra en sýslumanns.
22. gr. Hæfi annarra sáttamanna.
Allir þeir sem bjóða foreldrum sáttameðferð samkvæmt þessum kafla skulu uppfylla skilyrði 13. gr. reglna þessara.
Sá sem veitt hefur öðru foreldri, báðum foreldrum, barni þeirra eða nánum fjölskyldumeðlimum ráðgjöf, greiningu eða meðferð getur einungis sinnt sáttameðferð skv. ákvæðum barnalaga ef báðir foreldrar samþykkja.
23. gr. Umfang og framkvæmd sáttameðferðar á vegum annarra en sýslumanns.
Sáttamaður sem starfar skv. ákvæðum V. kafla skal ekki veita sáttameðferð ef þegar hefur verið stofnað mál hjá sýslumanni sem skylt er að leita sátta um skv. 11. gr. reglugerðarinnar. Sáttamaður getur þó annast framkvæmd sáttameðferðar við þessar aðstæður ef foreldrar eru sammála um það og staðfesta jafnframt að sýslumaður hafi verið upplýstur um þessa framkvæmd. Þá skal sáttamaður skv. ákvæðum V. kafla hætta sáttameðferð ef annað foreldri stofnar mál hjá sýslumanni sem skylt er að leita sátta um skv. 11. gr. reglugerðarinnar.
Sáttamanni ber að afmarka í samráði við foreldra hvenær sáttameðferð hefst og halda henni aðgreindri frá annarri aðstoð eða meðferð, ef það á við. Sáttamaður getur, með samþykki beggja foreldra, boðið frekari sáttameðferð en gert er ráð fyrir í 20. gr. reglugerðarinnar.
Foreldrum er skylt að mæta sjálfir á þá sáttafundi sem sáttamaður boðar til. Að öðru leyti getur sáttamaður, með samþykki beggja foreldra, vikið frá ákvæði 14. gr. reglugerðarinnar um framkvæmd sáttameðferðar ef sérstök ástæða þykir til.
Ákvæði 16. gr. reglugerðarinnar gildir um lok sáttameðferðar skv. ákvæðum V. kafla. Sáttamanni ber þó að ljúka sáttameðferð án útgáfu sáttavottorðs ef ekki tekst að boða til sáttafundar vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum um foreldri.
VI. KAFLI Samtal að frumkvæði barns skv. 33. gr. b barnalaga.
24. gr. Almennt um samtal að frumkvæði barns.
Barn getur snúið sér til sýslumanns með ósk um að hann boði foreldra til samtals skv. 33. gr. b barnalaga, um fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni.
Sýslumanni ber að leitast við að gefa öllum börnum kost á að nýta sér ákvæði 1. mgr. að eigin frumkvæði í samræmi við aldur barns og þroska. Sýslumaður getur hafnað því að boða foreldra til samtals ef ljóst þykir að barn hafi ekki frjálslega og að eigin frumkvæði komið ósk á framfæri.
25. gr. Markmið samtals við foreldra.
Markmið með því að gefa barni kost á að óska eftir samtali sýslumanns við foreldra er að veita barni færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og leiðbeina barni um réttarstöðu sína. Einnig að leiðbeina foreldrum og leitast við að stuðla að fyrirkomulagi sem er barni fyrir bestu að teknu tilliti til sjónarmiða barnsins.
26. gr. Hver tekur við ósk barns og annast samtal við foreldra.
Sýslumaður sem tekur við ósk barns um samtal við foreldra, veitir barni almennar leiðbeiningar um stöðu þess og þá þjónustu sem barnið á rétt á. Sýslumaður getur óskað eftir liðsinni sérfræðings í málefnum barna skv. 3. gr. reglugerðarinnar og 74. gr. barnalaga við undirbúning og framkvæmd samtals við foreldra.
27. gr. Undirbúningur, framkvæmd og umfang samtals.
Áður en foreldrar eru boðaðir til samtals skal að jafnaði gefa barni kost á undirbúningsviðtali. Barn getur einnig valið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með öðrum hætti en í viðtali. Sá sem tekur viðtal við barn metur, að höfðu samráði við barnið, með hvaða hætti sjónarmið barnsins eða þær upplýsingar sem barnið gefur eru kynntar foreldrum.
Þegar sjónarmið barnsins liggja fyrir eru foreldrar upplýstir um ósk barnsins og foreldrar boðaðir til samtals með hæfilegum fyrirvara. Foreldrum er skylt að mæta sjálfir til samtals og skulu foreldrar að jafnaði mæta saman. Þegar sérstaklega stendur á má ákveða að funda með foreldrum sitt í hvoru lagi. Sá sem annast samtal ákveður, að höfðu samráði við barn, hvort eða með hvaða hætti barn tekur þátt í samtali við foreldra.
Samtal við foreldra skal að jafnaði fara fram í eitt skipti en heimilt er að bjóða tvö samtöl ef sá sem annast samtal telur þörf á.
Í samtalinu er foreldrum, og eftir atvikum barni, leiðbeint um möguleika í framhaldinu, m.a. um þörf fyrir staðfestingu samnings, um úrlausn ágreiningsmála, sérfræðiráðgjöf skv. 33. gr. barnalaga og skyldu til sáttameðferðar skv. 33. gr. a barnalaga, o.fl., eftir því sem við á.
Sýslumaður lýkur málinu ef foreldri eða foreldrar mæta ekki í boðað samtal eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis.
Tilkynna ber barni og foreldrum um málalok.
VII. KAFLI Ráðgjöf skv. 46. gr. b barnalaga.
28. gr. Almennt um ráðgjöf.
Þegar sýslumanni berst tilkynning um andlát sem ber með sér að hinn látni eigi barn skal hann kanna tengsl barns við nána vandamenn þess eða aðra nákomna því og leitast við að veita ráðgjöf um umgengni.
29. gr. Markmið með ráðgjöf.
Markmið með ráðgjöf er að vekja athygli á rétti barnsins til umgengni skv. 46. gr. b barnalaga og leiðbeina um inntak og réttaráhrif umgengnisréttar eftir því sem barni er fyrir bestu.
30. gr. Hver veitir ráðgjöf.
Sýslumaður metur í hverju tilviki hvaða starfsmanni er falið að veita ráðgjöf svo og hvort nýta eigi liðsinni sérfræðings í málefnum barna skv. 74. gr. barnalaga.
31. gr. Framkvæmd og umfang ráðgjafar.
Sýslumanni ber að gefa barni og eftirlifandi foreldri tækifæri til að mæta á fund sýslumanns á tilteknum tíma. Barn getur sjálft komið á framfæri kröfum um umgengni og heimilt er að ræða við barn í einrúmi ef þörf krefur. Virða ber rétt barns sem velur að tjá sig ekki um málið. Markmið fundarins er að stuðla að fyrirkomulagi umgengni sem er barni fyrir bestu að teknu tilliti til sjónarmiða barnsins.
Á fundinum leiðbeinir sýslumaður barni og foreldri um möguleika í framhaldinu. Sýslumaður lýkur jafnframt málinu ef þeir sem boðaðir voru vegna málsins mæta ekki á boðaðan fund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis.
Ef ágreiningur verður um umgengni sem ákvæði þessa kafla tekur til getur sýslumaður boðið aðilum ágreiningsmáls sérfræðiráðgjöf skv. 33. gr. barnalaga eða sáttameðferð skv. 33. gr. a barnalaga.
VIII. KAFLI Gildistaka.
32. gr.
Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt heimild í 33., 33. gr. a, 33. gr. b og 79. gr. barnalaga, nr. 76/2003 með síðari breytingum öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla úr gildi reglur til bráðabirgða um ráðgjöf og sáttameðferð, samkvæmt 33. og 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003, með síðari breytingum nr. 61/2012 og 144/2012, sem settar voru 14. febrúar 2013, sbr. auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda nr. 570/2020.
Dómsmálaráðuneytinu, 15. desember 2021.
Jón Gunnarsson
innanríkisráðherra.
Haukur Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.