Prentað þann 10. des. 2024
1437/2020
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1088/2018 um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
1. gr.
Við reglugerðina bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
-
(I)
Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. skal Jöfnunarsjóður úthluta 458 milljónum króna á árinu 2020 og 42 milljónum króna á árinu 2021 vegna tekjufalls sveitarfélaga af völdum kórónaveirufaraldursins, á grundvelli f-liðar 11. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Framlag á árinu 2020 er veitt til sveitarfélags ef eftirfarandi skilyrði eiga við:
- Skuldahlutfall sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er hærra en 50% skv. ársreikningi 2019.
- Sveitarfélagið hefur orðið fyrir tekjufalli á árinu 2020 sem nemur a.m.k. 3% af reiknuðu hreinu veltufé.
Tekjufall reiknast sem samtala lækkunar tekna af útsvari og framlaga Jöfnunarsjóðs. Lækkun útsvarstekna miðast við samanburð milli tekna sveitarfélags af útsvari á tímabilinu 1. apríl til 31. október á árunum 2019 og 2020. Við mat á lækkun framlaga Jöfnunarsjóðs, útgjaldajöfnunarframlaga skv. 14. gr. og framlaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti, sbr. reglugerð nr. 80/2001, skal miða við hvaða framlag sveitarfélagið hefði fengið árið 2020 ef upphaflegt fjármagn til ráðstöfunar hefði ekki lækkað og það borið saman við framlag árið 2019. Hreint veltufé skal reikna sem mismun á stöðu veltufjármuna að frádregnum kröfum á eigin fyrirtæki og stöðu á skammtímaskuldum að frádregnum skuldum við eigin fyrirtæki skv. ársreikningi fyrir árið 2019.
Úthlutað framlag til sveitarfélags getur ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli skv. 2. tl. 1. mgr.
Jöfnunarsjóði er heimilt að úthluta á grundvelli umsókna 42 milljónum króna á árinu 2021 til sveitarfélaga sem geta sýnt fram á sérstaka fjárhagserfiðleika vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins. Fer um meðferð mála skv. 12. gr. reglugerðarinnar.
-
(II)
Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. skal Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthluta 720 milljónum króna á árinu 2020 vegna aukinna útgjalda sveitarfélaga til fjárhagsaðstoðar til einstaklinga, á grundvelli f-liðar 11. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
Framlög skulu miða við hækkun þessa liðar í rekstri sveitarfélaganna milli áranna 2019 og 2020, í hlutfalli við heildarfjárhæð úthlutunar. Tekið er tillit til greiðslna úr ríkissjóði á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.
2. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 23. desember 2020.
F. h. r.
Hermann Sæmundsson.
Sigurbergur Björnsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.