Prentað þann 25. des. 2024
1424/2020
Reglugerð um úthlutun styrkja til fráveitna sveitarfélaga.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerðin gildir um framlag úr ríkissjóði til stuðnings við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga og fráveitna í þeirra eigu. Um hlutdeild styrkveitinga ríkissjóðs í kostnaði við framkvæmdirnar fer eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum hverju sinni.
Reglugerðin gildir um framlag til fráveituframkvæmda sem unnar eru frá og með 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2030.
2. gr. Styrkhæfar fráveituframkvæmdir.
Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við sniðræsi frá safnkerfum fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Jafnframt eru styrkhæfar framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts.
Kostnaður við útboð, fjármagns- og lántökukostnaður og kaup á löndum og lóðum vegna framkvæmda í fráveitumálum falla ekki undir það að vera styrkhæfar fráveituframkvæmdir. Sama gildir um hefðbundið viðhald og endurbætur á eldri fráveitukerfum. Þó eru endurbætur á eldri kerfum styrkhæfar ef tilgangurinn með endurbótunum er að kerfin standist gildandi kröfur laga og reglugerða.
Skilyrði er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við samþykkta áætlun, sbr. 4. gr. Jafnframt er skilyrði að kostnaður við styrkhæfa fráveituframkvæmd hafi fallið til eftir 1. janúar 2020.
3. gr. Umsóknir um styrki.
Auglýst er árlega eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki vegna fráveituframkvæmda á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Sveitarfélag getur óskað eftir að umsókn gildi jafnframt um næstu úthlutanir enda dreifist framkvæmdartími framkvæmdarinnar yfir tvö eða fleiri ár. Jafnframt geta sveitarfélög sent ráðuneytinu uppfærðar upplýsingar um heildarkostnað eftir því sem framkvæmdum miðar áfram hafi umsókn sveitarfélagsins verið áður samþykkt.
Sveitarfélög sækja stafrænt um styrki á vef ráðuneytisins.
Í umsókn skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Heiti sveitarfélags og framkvæmdaraðila.
- Nafn, netfang og símanúmer þess sem er í forsvari fyrir umsókn og annast samskipti vegna hennar.
- Verk- og tímaáætlun fyrir þá áfanga framkvæmdar sem sótt er um styrk fyrir.
Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókninni:
- Uppfærðar upplýsingar um framkvæmdina og kostnað frá samþykktri áætlun eftir því sem við á, sbr. 4. gr.
- Afrit af greiddum reikningum eftir atvikum.
4. gr. Áætlun um yfirstandandi og fyrirhugaðar fráveituframkvæmdir.
Sveitarfélög eða eftir atvikum fráveitur sveitarfélaga sem hyggjast leita eftir stuðningi við fráveituframkvæmdir skulu senda umhverfis- og auðlindaráðuneytinu staðfesta áætlun um yfirstandandi og fyrirhugaðar fráveituframkvæmdir í hverju þéttbýli fyrir sig á tímabilinu 2020-2030. Í áætlun skulu koma fram upplýsingar um framkvæmdaraðila, staðsetningu framkvæmda og stutt lýsing á þeim, áætlun á kostnaði við framkvæmdirnar og framkvæmdartími auk staðfestingar forsvarsmanns framkvæmdaraðila. Ráðuneytið mun útbúa staðlað form fyrir áætlunina og birta á vef ráðuneytisins. Ráðuneytið getur kallað eftir frekari upplýsingum áður en framkomin áætlun er samþykkt. Ráðuneytið samþykkir framkomna áætlun.
5. gr. Styrkfjárhæð.
Styrkfjárhæð nemur að jafnaði 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfrar fráveituframkvæmdar. Þó er umhverfis- og auðlindaráðuneytinu heimilt að lækka eða hækka hlutfall endurgreiðslu við úthlutun styrkja í þeim tilgangi að jafna svo sem kostur er kostnað einstakra sveitarfélaga við fráveituframkvæmdir þegar miðað er við heildarkostnað á hvern íbúa. Styrkfjárhæð skal þó aldrei verða hærri en 30% af heildarkostnaði styrkhæfrar framkvæmdar og að jafnaði aldrei lægri en 15%. Leitast skal við að hlutfall endurgreiðslu fari einungis undir 20% í undantekningartilvikum.
6. gr. Útgreiðsla styrkja.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið greiðir út styrki reglulega yfir árið og a.m.k. árlega eftir því sem fjárheimildir leyfa. Ráðuneytið mun miða að því að greiða styrk til allra framkvæmdaraðila sem sækja um styrki hverju sinni uppfylli umsóknir skilyrði reglugerðar þessarar. Það kann að leiða til þess að útgreiðsluhlutfall til framkvæmdaraðila verði tímabundið lægra en það hlutfall sem fram kemur í 5. gr. og að frekari útgreiðsla styrkja til framkvæmdaraðila komi síðar, en þó eins fljótt og unnt er eftir því sem fjárheimildir leyfa.
Ráðuneytið greiðir aðeins út styrki á grundvelli reikninga sem þegar hafa verið greiddir. Framkvæmdaraðili getur sent afrit af greiddum reikningum reglulega til ráðuneytisins og er ráðuneytinu heimilt að greiða út styrki reglulega yfir árið.
Ráðuneytið mun birta upplýsingar um útgreiðslu styrkja, útgreiðsluáætlun og útgreiðsluhlutfall á vef ráðuneytisins.
7. gr. Gildistaka.
Reglugerðin er sett með stoð í 3. mgr. II. ákvæðis til bráðabirgða með lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Umhverfisstofnun og öðlast þegar gildi. Reglugerðin fellur úr gildi 31. desember 2031.
Ákvæði til bráðabirgða.
Ráðuneytið mun auglýsa eftir umsóknum um styrki í janúar 2021 fyrir árið 2020. Þrátt fyrir 3. gr. verður fyrsta umsóknarferlið ekki stafrænt.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 22. desember 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.