Prentað þann 4. des. 2024
1400/2022
Reglugerð um vinnuskilyrði farmanna á farþega- og flutningaskipum.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- 1. gr. Markmið og gildissvið.
- 2. gr. Form og efni ráðningarsamninga farmanna.
- 3. gr. Næturvinna.
- 4. gr. Hollur og næringarríkur matur.
- 5. gr. Heimferðir.
- 6. gr. Skráning og ráðning.
- 7. gr. Aðgangur að velferðarmiðstöðvum.
- 8. gr. MLC-skírteini.
- 9. gr. Vistarverur áhafna.
- 10. gr. Eintak af reglum um borð í skipi.
- 11. gr. Lagastoð og gildistaka.
- Viðaukar
1. gr. Markmið og gildissvið.
Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um vinnuskilyrði farmanna á íslenskum skipum í samræmi við alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna frá 2006 (MLC), með síðari breytingum að því marki sem ekki kemur fram í öðrum lögum og reglum.
Nema annað sé tekið fram gildir reglugerðin um öll íslensk skip nema:
- herskip, liðsflutningaskipa og önnur ríkisskip sem rekin eru í öðrum tilgangi en viðskiptalegum,
- farþegaskip og farþegabáta í útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum styttri en 8 tíma.
- fiski- og hvalveiðiskip,
- skemmtibátar,
- skip hefðbundinnar gerðar, t.d. tréskip með frumstæðu smíðalagi.
Þá gilda 5. og 6. gr. reglugerðarinnar um erlend farþega- og flutningaskip sem eiga leið um íslenskar hafnir.
2. gr. Form og efni ráðningarsamninga farmanna.
Skipverjar sem starfa á farþega- og flutningaskipum sem sigla undir íslenskum fána skulu hafa undir höndum ráðningarsamning sem er undirritaður af bæði skipverjanum og útgerðarmanninum eða fulltrúa útgerðarmannsins (eða ef þeir eru ekki atvinnurekendur, sönnun þess að samningur sé við lýði eða annað fyrirkomulag) sem kveður á um mannsæmandi starfsskilyrði og lífskjör um borð í skipinu eins og krafist er samkvæmt alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna, 2006.
Skipverjum sem undirrita ráðningarsamning farmanna skal veitt tækifæri á að grandskoða og leita ráðgjafar um samninginn áður en hann er undirritaður auk annarra úrræða sem eru nauðsynleg til að tryggja að þeir hafi gengið óþvingað að samningnum og haft nægilegan skilning á réttindum sínum og skyldum.
Útgerðarmaðurinn og skipverjinn sem í hlut eiga skulu hvorir fyrir sig hafa undirritað frumrit af ráðningarsamningi farmanna.
Skipverjar skulu geta með auðveldum hætti fengið um borð í skipinu, skýrar upplýsingar um skilmála ráðningar þeirra og að slíkar upplýsingar, þ.m.t. afrit af ráðningarsamningi farmanna sé einnig aðgengilegt til skoðunar af hálfu starfsmanna Samgöngustofu eða annarra lögbærra stjórnvalda.
Skipverjar skulu fá í hendur skjalfest gögn um ráðningu þeirra um borð í skipið. Slík skjalfesting skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:
- nafn skipsins, heimahöfn þess, brúttótonnatölu þess og einkennis- eða skipaskrárnúmer,
- lýsingu á ferð,
- stöðu sem sjómaður gegndi um borð í skipinu,
- dagsetningu þegar sjómaðurinn hóf störf, og
- dagsetningu og stað afskráningar sjómanns.
Skjalfestingin getur verið í formi færslu í sjóferðbók ef sjómaðurinn er handhafi slíkrar bókar eða útgáfu afskráningarvottorðs ef skipverjinn hefur ekki sjóferðabók eða getur ekki framvísað slíkri bók við afskráningu. Þessi skrá skal þó ekki innihalda skýrslu um hegðun sjómannsins eða greidd laun.
Ef kjarasamningur myndar allan eða hluta af ráðningarsamningi farmanna skal afrit af þeim samningi vera aðgengilegur um borð. Ef ráðningarsamningur farmanna og aðrir gildandi kjarasamningar eru ekki á ensku skal eftirfarandi einnig vera tiltækt á ensku (nema um borð í skipum sem eru einungis í innanlandssiglingum á Íslandi):
- afrit af stöðluðu formi samnings; og
- þeir hlutar kjarasamningsins þar sem krafist er hafnarríkiseftirlits samkvæmt alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna og Parísarsamkomulaginu um hafnarríkiseftirlit.
Ráðningarsamningar farmanna skulu að lágmarki fela í sér eftirfarandi atriði:
- fullt nafn farmanns, kennitölu, fæðingardag eða aldur og fæðingarstað;
- nafn og aðsetur útgerðarmannsins;
- staður og dagur þegar ráðningarsamningur farmannsins gekk í gildi;
- staða sem farmaður er ráðinn til að gegna;
- launafjárhæð farmanns eða, eftir atvikum, regla sem notuð er til að reikna hana út;
- fjárhæð greidds árlegs orlofs eða, eftir atvikum, regla sem notuð er til að reikna hana út;
-
samningslok og skilmálar þar að lútandi, þar með talið:
- sé samningurinn ótímabundinn, skilyrðin sem heimila hvorum aðila fyrir sig að segja honum upp, ásamt tilskildum uppsagnarfresti, sem skal ekki vera styttri fyrir útgerðir en fyrir farmanninn;
- sé gildistími samningsins til tiltekins tíma, gildislokadagur hans; og
- taki samningurinn til einnar ferðar, ákvörðunarhöfn og sá tími sem þarf að líða eftir komu áður en afskrá skuli farmanninn;
- greiðslur sem útgerðarmanni ber að inna af hendi til farmanns í tengslum við heilsuvernd og tryggingavernd;
- réttur farmannsins til heimferðar;
- tilvísun til kjarasamningsins, ef við á; og
- önnur atriði sem krafist kann að vera að lögum.
3. gr. Næturvinna.
Bannað er að ráða einstakling sem ekki hefur náð 16 ára aldri til starfa um borð í skipi.
Næturvinna farmanna sem ekki hafa náð 18 ára aldri er óheimil.
Samgöngustofa getur veitt undanþágu frá því að uppfylla næturvinnutakmarkanirnar til hins ýtrasta, þegar:
- markviss þjálfun farmannsins að því er varðar fyrirframákveðin verkefni og áætlanir væri skert; eða
- sérstakt eðli þeirra skyldna eða viðurkennd þjálfunaráætlun kalla á það að farmenn sem falla undir undanþáguna sinni skyldum að nóttu til og Samgöngustofa metur það svo, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, að vinnan muni ekki hafa skaðleg áhrif á heilsu og velferð þeirra.
Bannað er að ráða til starfa farmenn sem ekki hafa náð 18 ára aldri ef líklegt er að vinnan stofni heilsu þeirra eða öryggi í hættu. Dæmi um störf sem ekki ætti að fela farmönnum undir 18 ára aldri eru störf í tengslum við:
- að lyfta, hreyfa til eða bera þungar byrðar eða hluti;
- að fara inn í katla, tanka eða þurrrými;
- álag af völdum hávaða og titrings;
- stjórn lyftibúnaðar og annarra aflvéla og -tækja, eða vinna við merkjagjafir til þeirra sem stjórna slíkum búnaði;
- meðhöndlun landfesta, dráttartóga eða akkerisbúnaðar;
- meðhöndlun reiðabúnaðar;
- vinnu í möstrum eða á þilfari í illviðri;
- næturvaktir;
- viðhald rafbúnaðar;
- álag af völdum efna sem kunna að vera skaðleg eða skaðlegra áhrifavalda svo sem hættulegra eða eitraðra efna og jónandi geislun;
- hreinsun vélbúnaðar fyrir þjónustu áhafna; og
- meðhöndlun eða stjórn á skipsbátum.
4. gr. Hollur og næringarríkur matur.
Útgerð skal sjá til þess að um borð sé borinn fram matur og drykkjarvatn af fullnægjandi gæðum, næringarinnihaldi og magni þannig að uppfylltar séu nægilega vel kröfur sem gerðar eru um borð í skipinu, að teknu tilliti til mismunandi þátta sem snerta menningu og trúarbrögð.
Birgðir af matvælum og drykkjarvatni skulu vera hæfilegar, að því er varðar magn, næringargildi, gæði og fjölbreytni, með hliðsjón af fjölda farmanna um borð, trúarlegra þarfa þeirra og menningarlegra siðvenja sem snerta matvæli og lengd og eðli sjóferðarinnar.
Skipulag og búnaður veitingarekstrardeildar skal vera þannig að unnt sé að sjá farmönnum fyrir fullnægjandi, fjölbreyttum og næringarríkum máltíðum sem eru tilreiddar og framreiddar við heilnæmar aðstæður.
Starfslið við þjónustu áhafna skal hafa hlotið viðunandi þjálfun eða fyrirmæli um starf sitt.
Útgerð skal sjá til þess að farmenn, sem hafa verið ráðnir til að gegna starfi matsveina á skipi, hafi viðeigandi menntun og hæfi og teljist færir um að sinna starfinu.
Við aðstæður þar sem brýn nauðsyn krefur getur Samgöngustofa veitt undanþágu sem heimilar matsveini, sem ekki hefur tilskilda menntun og hæfi, að starfa um borð í tilteknu skipi í takmarkaðan tíma þar til komið er til næstu viðkomuhafnar sem hentar eða í tiltekinn tíma, sem er ekki lengri en einn mánuður, að því tilskildu að einstaklingurinn, sem fær undanþáguna, geti sinnt lausu stöðunni með fullnægjandi hætti að mati Samgöngustofu.
Skipstjóri skal sjá til þess að haft sé reglubundið og skjalfest eftirlit með:
- birgðum af matvælum og drykkjarvatni;
- öllu rými og búnaði til geymslu og meðhöndlunar matvæla og drykkjarvatns og
- eldhúsi og öðrum búnaði fyrir tilreiðslu og framreiðslu máltíða.
Enginn farmaður undir 18 ára aldri skal ráðinn til starfa eða vinna sem matsveinn á skipi.
5. gr. Heimferðir.
Skipverjar sem hafa verið á sama skipi eða hjá sömu útgerð samfleytt í níu mánuði eiga rétt á heimferð, kostaðri af útgerð, í eftirfarandi tilvikum:
- ef ráðningarsamningur fellur úr gildi á meðan skipverjar eru um borð,
- þegar ráðningarsamningi er rift af hálfu útgerðarmanns,
- þegar ráðningarsamningi er rift af hálfu skipverja ef gild ástæða liggur að baki,
- þegar skipverjar geta ekki lengur gegnt skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi eða ekki er hægt að ætlast til þess að þeir geti gegnt þeim sökum sérstakra kringumstæðna.
Rétturinn til heimsendingar fellur úr gildi ef skipverjarnir sem um er að ræða nýta hann ekki innan hæfilegra tímamarka.
Útgerð ber ábyrgð á tilhögun heimsendingar. Farmaður á rétt á flugfari til einhvers af eftirtöldum áfangastöðum að eigin vali:
- staðarins þar sem farmaðurinn samþykkti ráðninguna;
- staðarins sem kveðið er á um í kjarasamningi;
- búsetulands farmannsins; eða
- annars staðar sem báðir aðilar koma sér saman um við ráðningu.
Útgerð skal standa straum af kostnaði við heimferð skipverja þar með talið:
- ferðalagi til áfangastaðar;
- fæði og húsnæði frá þeirri stundu sem skipverjar fara frá borði og þar til þeir koma til ákvörðunarstaðar heimferðar;
- launum og dagpeningum frá þeirri stundu sem skipverjar fara frá borði og þar til þeir koma til ákvörðunarstaðar heimferðar;
- flutningi 30 kg af persónulegum farangri skipverja til ákvörðunarstaðar heimferðar og
- læknismeðferð ef nauðsyn krefur þar til skipverjarnir eru nægilega heilsuhraustir til að ferðast til ákvörðunarstaðar heimferðar.
Tími sem fer í að bíða eftir heimferð og ferðatími heimferðar skal ekki dreginn frá orlofi á launum sem skipverjar hafa unnið sér inn.
Skipverji verður ekki krafinn um greiðslu heimferðar fyrir fram og heimferðarkostnaður verður ekki dreginn af launum eða öðrum réttindum nema í þeim tilvikum þegar skipverji hefur brotið alvarlega gegn skyldum sínum í starfi.
Útgerð skipa, bæði íslenskra skipa og erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir, skal leggja fram tryggingu til að sjá til þess að skipverji njóti viðeigandi heimferðar í samræmi við 1. mgr.
Fjárhagsleg trygging getur verið í formi tryggingaverndarkerfis, tryggingar eða annars ámóta fyrirkomulags.
Fjárhagsleg trygging skal veita farmanni sem starfar á skipi, sem siglir undir fána aðildarríkisins, og er skilinn eftir, milliliðalausan, fullnægjandi og skjótan aðgang að fjárhagslegum stuðningi til lífsviðurværis um borð í skipi, þar með talið fullnægjandi fæði, húsnæði, birgðir af drykkjarvatni, og nauðsynlega læknishjálp.
Vanræki útgerð að gera viðhlítandi ráðstafanir til að mæta kostnaði við heimferð farmanna sem þeir eiga rétt á, gerir Samgöngustofa ráðstafanir um heimferð skipverja. Samgöngustofa gerir ekki ráðstafanir um heimferð skipverja erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir nema fánaríki skipsins hafi ekki eða muni ekki gera ráðstafanir um heimferð skipverja. Þá getur Samgöngustofa lagt farbann á skipið þar til trygging hefur verið lögð fram eða endurgreiðsla vegna heimferðar hefur farið fram. Slíkt farbann skal tilkynnt skipstjóra, eiganda eða útgerðarmanni skipsins og fánaríki og skráningarríki skipsins þegar við á. Eigandi eða útgerðarmaður skipsins getur kært farbann og fer um framkvæmd farbanns að öðru leyti samkvæmt skipalögum.
6. gr. Skráning og ráðning.
Fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna og starfa hér á landi skulu starfa í samræmi við gæðastjórnunarkerfi sem fullnægir þeim viðmiðunum sem mælt er fyrir um í reglu 1.4 og staðli A1.4 í MLC-kóðanum. Þau skulu m.a. tryggja:
- Að ekki sé unnið gegn því að farmenn séu ráðnir til starfa sem þeir hafa hæfi til.
- Að farmenn beri ekki kostnað vegna skráningar, ráðningar eða við útvegun vegabréfsáritunar.
- Að skrá sé haldin yfir alla farmenn sem fyrirtæki ræður eða skráir.
- Að farmenn séu hæfir til þeirra starfa sem þeir eru ráðnir í og hafi tilskilin leyfi.
- Eins og kostur er, að skipaeigandi hafi burði til að vernda farmenn frá því að vera strandaðir í erlendri höfn.
- Að brugðist sé við kvörtunum vegna starfsemi þeirra.
- Að farmenn séu tryggðir fyrir fjártjóni sem hlýst af vanefndum þeirra eða viðeigandi eigenda skipa.
Útgerðir sem nota fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna og eru staðsett í löndum eða á yfirráðasvæðum þar sem alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna gildir ekki skulu tryggja að þessi fyrirtæki uppfylli kröfurnar sem vísað er til í 1. mgr. þessarar greinar.
Samgöngustofa hefur eftirlit með að skráningar- og ráðningarþjónusta uppfylli þær kröfur sem vísað er til í 1. mgr. þessarar greinar.
7. gr. Aðgangur að velferðarmiðstöðvum.
Farmönnum skal tryggður aðgangur að tiltækum velferðarmiðstöðvum án mismununar.
8. gr. MLC-skírteini.
Skip yfir 500 brúttótonn í millilandasiglingum og skip yfir 500 brúttótonn í strandsiglingum innan annars ríkis skulu hafa tiltækt skírteini sem staðfestir samræmi við reglur alþjóðasamþykktarinnar.
Skip skulu skoðuð með hliðsjón af kröfum MLC-alþjóðasamþykktarinnar að lágmarki á 3 ára fresti.
Skírteini um samræmi við alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna (MLC-skírteini) skal gefið út af Samgöngustofu í samræmi við form í viðauka við þessa reglugerð. Skírteinið skal gefið út til allt að fimm ára. Gildi skírteinis skal vera háð milliskoðun af hálfu Samgöngustofu eða viðurkennds flokkunarfélags. Ef einungis ein milliskoðun er framkvæmd og gildistími skírteinisins er fimm ár skal hún fara fram milli annarrar og þriðju árlegu dagsetninganna á skírteininu. Umfang og yfirgrip milliskoðunar skal vera jafnt skoðun til endurnýjunar skírteinisins. Skírteinið skal áritað að lokinni fullnægjandi milliskoðun. Auk skírteins skal gefin út yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna (MLC-samræmisyfirlýsing) þar sem fram koma íslensk ákvæði í samræmi við MLC-samþykktina að því er varðar lífskjör farmanna og mælt er fyrir um þær ráðstafanir sem samþykktar eru af hálfu útgerðar til að tryggja að kröfur um borð í skipinu séu uppfylltar.
Skip undir stærðarmörkunum sem tilgreind eru í 1. mgr. geta fengið útgefið MLC-skírteini og MLC-samræmisyfirlýsingu að undangenginni skoðun skv. 2. mgr. ef útgerð óskar þess.
9. gr. Vistarverur áhafna.
Vistarverur áhafna flutninga- og farþegaskipa skulu vera í samræmi við ákvæði MLC-alþjóðasamþykktarinnar.
10. gr. Eintak af reglum um borð í skipi.
Eintak af MLC-alþjóðasamþykktinni skal vera um borð í öllum skipum. Skip, sem sigla undir íslenskum fána í alþjóðlegum siglingum, skulu jafnframt vera með eintak af þessari reglugerð um borð.
11. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett á grundvelli 8. og 61. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, 37. gr. laga um áhafnir skipa, nr. 82/2022 og 3. mgr. 24. gr., 25. gr. og 1. mgr. 30. gr. skipalaga nr. 66/2021.
Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2023. Reglur nr. 492/1979 um vistarverur áhafna flutningaskipa og farþegaskipa falla brott.
Innviðaráðuneytinu, 30. nóvember 2022.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.