Prentað þann 22. des. 2024
1330/2023
Reglugerð um opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að opinberum innkaupum á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum í því skyni að draga úr losun vegna samgangna á landi.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
-
Vistvænt og orkunýtið ökutæki:
- ökutæki í flokki M1, M2 eða N1 þar sem útblástur fer ekki yfir 50 CO2 g/km og 0 CO2 g/km frá 1. janúar 2026.
- ökutæki í flokki M3, N2 eða N3 sem er a.m.k. að hluta til knúið áfram af annarri orku en jarðefnaeldsneyti og getur þannig stuðlað að minnkun kolefnislosunar og bætt árangur í umhverfismálum í flutningageiranum.
- Þungt ökutæki með engri losun: vistvænt ökutæki, eins og það er skilgreint í 2. tl. a-liðar þessarar greinar, án brunahreyfils eða með brunahreyfli sem losar minna en 1 g CO2/kWh.
- Opinberir kaupendur: aðilar sem lög um opinber innkaup nr. 120/2016 taka til skv. 3. gr. laganna og opinberir aðilar skv. 9. gr. sömu laga sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu.
3. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um öflun opinberra aðila á ökutækjum til flutninga á vegum í eftirtöldum ökutækjaflokkum:
- Fólksbifreiðir (M1)
- Hópbifreiðir (M2)
- Sendibifreiðir (N1)
- Vörubifreiðir (N2 og N3)
- Ökutæki í flokki M3 í undirflokki I og undirflokki A.
Með öflun opinberra aðila á ökutækjum til flutninga á vegum er átt við innkaup sem eru útboðsskyld samkvæmt lögum um opinber innkaup nr. 120/2016, yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu eins og þær eru auglýstar á hverjum tíma skv. 4. mgr. 23. gr. laganna. Sama á við skv. 2. mgr. 9. gr. sömu laga um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Eftirtaldir samningar falla hér undir:
- samningar sem opinberir kaupendur gera um kaup, langtímaleigu, skammtímaleigu eða kaupleigu á ökutækjum til flutninga á vegum,
- opinberir þjónustusamningar um farþegaflutninga skv. IV. kafla laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017,
-
þjónustusamningar um eftirtalda þjónustu sbr. tilgreinda CPV-kóða í sameiginlega innkaupaorðasafni Evrópusambandsins:
- almenn flutningaþjónusta á vegum (60112000-6),
- þjónusta tengd sérstökum farþegaflutningum á vegum (60130000-8),
- óreglubundnir farþegaflutningar (60140000-1),
- sorphirðuþjónusta (90511000-2),
- póstflutningar á vegum (60160000-7),
- bögglaflutningar (60161000-4),
- póstútburður (64121100-1),
- bögglaútburður (64121200-2).
4. gr. Undantekningar.
Reglugerð þessi gildir ekki um:
- Ökutæki sem eru hönnuð og smíðuð aðallega til notkunar á byggingarsvæðum eða í grjótnámum, höfnum eða flugvöllum,
- ökutæki sem eru hönnuð og smíðuð eða breytt fyrir löggæslu, almannavarnir, slökkvilið, landhelgisgæslu og annan liðsafla sem sér um að halda uppi allsherjarreglu,
- ökutæki fyrir landbúnað eða skógrækt,
- ökutæki á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjól,
- beltaökutæki,
- færanlegur krani,
- brynvarið ökutæki,
- sjúkrabifreið,
- ökutæki með hjólastólaaðgengi,
- sjálfknúin ökutæki sem eru sérstaklega hönnuð og smíðuð sem vinnuvélar og sökum smíðaeiginleika þeirra henta ekki til farþega- eða vöruflutninga og sem er ekki vélbúnaður sem festur er á undirvagn fyrir vélknúin ökutæki,
- líkvagn.
5. gr. Ábyrgð á innkaupum og markmið.
Opinber aðili sem ræðst í innkaup skv. 3. gr. ber ábyrgð á því að skv. tæknilýsingu séu umsamin ökutæki til flutninga á vegum vistvæn og orkunýtin í a.m.k. sama hlutfalli og lágmarksmarkmið sem fram kemur í viðauka við reglugerð þessa nema þau falli undir undantekningar 4. gr. Miða skal við dagsetningu samnings.
Ef ný markmið verða ekki samþykkt fyrir tímabilið eftir 1. janúar 2030 skulu markmið seinna viðmiðunartímabilsins þ.e. frá 1. janúar 2026 til 31. desember 2030 gilda áfram sbr. töflur í viðauka.
6. gr. Lagastoð, innleiðing og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1161 frá 20. júní 2019 um breytingu á tilskipun 2009/33/EB um að stuðla að notkun á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum. Reglugerðin er í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 288/2022 frá 28. október 2022 og felur í sér breytingu á viðauka XX við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 32. gr. b. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, öðlast gildi við birtingu en kemur til framkvæmda 1. janúar 2024.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 29. nóvember 2023.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Stefán Guðmundsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.