Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Stofnreglugerð

1320/2020

Reglugerð um starfsleyfi til einkaaðila sem veita félagsþjónustu.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um starfsleyfi fyrir einkaaðila sem veita eða hyggjast veita þjónustu samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum.

2. gr. Markmið og skilgreiningar.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að og tryggja að umgjörð félagsþjónustu sem veitt er af einkaaðilum sé í samræmi við lög og reglur á sviðinu og uppfylli þær faglegu kröfur sem gera má til slíkra þjónustuaðila. Valdefling skal höfð að leiðarljósi í þjónustunni sem skal miða að því að einstaklingurinn taki virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Þjónustan skal taka mið af einstaklingsbundnum þörfum og aðstæðum.

Með einkaaðila í skilningi reglugerðar þessarar er átt við félagasamtök, sjálfseignarstofnun, fyrirtæki eða annan ópersónulegan aðila sem starfar á einkaréttarlegum grundvelli.

Einstaklingur getur talist einkaaðili í skilningi þessarar reglugerðar ef hann hefur með samningi við sveitarfélag skuldbundið sig til að veita þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

II. KAFLI Leyfisveitingar.

3. gr. Starfsleyfisskylda.

Einkaaðilar sem reka og veita þjónustu sem fellur undir ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skulu hafa gilt starfsleyfi.

Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi sem fellur undir ákvæði þessarar reglugerðar áður en starfsleyfi hefur verið gefið út.

Einstaklingar sem starfa sem verktakar fyrir starfsleyfishafa, að þeim þáttum þjónustunnar sem liggja til grundvallar starfsleyfinu, starfa á ábyrgð viðkomandi starfsleyfishafa og undir starfsleyfi hans.

Starfsleyfishafa er óheimilt að semja við annan ópersónulegan aðila um að annast einhverja þá þætti sem liggja til grundvallar veitingu starfsleyfis nema viðsemjandi hafi gilt starfsleyfi til þess að sinna þeim þætti þjónustu sem um ræðir. Starfsleyfishafa er þó heimilt að semja við þriðja aðila um að annast afmarkaða rekstrar- eða þjónustuþætti sem ekki liggja til grundvallar veitingu starfsleyfis.

4. gr. Umsókn um starfsleyfi.

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar annast meðferð starfsleyfisumsókna og útgáfu starfsleyfa.

Umsókn ásamt fylgigögnum er varða skilyrði skv. 5. gr. skal skila stafrænt á þar til gerðu eyðublaði til Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar.

Telji stofnunin að umsókn sé ófullnægjandi eða að upplýsingar vanti skal stofnunin leiðbeina umsækjanda um nauðsynlegar úrbætur, t.d. hvaða upplýsingar vanti, gefa honum hæfilegan frest til úrbóta og leiðbeina um að skortur á gögnum eða ófullnægjandi gögn geti leitt til þess að umsókn sé synjað.

5. gr. Skilyrði starfsleyfis.

Til þess að einkaaðili fái útgefið starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari skal hann gera grein fyrir því hvernig hann hyggst uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Virkt innra eftirlit verði til staðar með starfseminni.
  2. Húsnæði þar sem fyrirhugað er að starfsemi fari fram fullnægi kröfum laga og reglugerða á sviði hollustuhátta, byggingar- og brunamála.
  3. Sýnt sé fram á rekstrarhæfi starfseminnar.
  4. Forsvarsmaður umsækjanda, hafi ekki hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Hafi viðkomandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, meðal annars að teknu tilliti til eðlis starfseminnar og alvarleika brotsins.
  5. Starfsemi uppfylli að öðru leyti kröfur laga og reglugerða, svo sem um aðbúnað starfsmanna, áhættumat og reikningsskil.
  6. Þjónusta sé veitt með viðeigandi aðlögun sbr. 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga eftir því sem við á.

Í umsókn um starfsleyfi skal gera grein fyrir því hvernig umsækjandi hyggst uppfylla skilyrði skv. 1. mgr. Öll viðeigandi gögn skulu fylgja umsókn, þ.m.t. lýsing á innra eftirliti, upplýsingar um húsnæði og leyfi sem hafa verið veitt vegna þess, rekstraráætlun þar sem tilgreindar eru leiðir til öflunar rekstrarfjár og fyrirhugaða nýtingu þess og sakavottorð.

Ef umsækjandi uppfyllir framangreind skilyrði og ekki liggja fyrir önnur málefnaleg sjónarmið sem mæla gegn veitingu starfsleyfis með tilliti til þess rekstrar sem um ræðir og starfsleyfið nær til skal leyfi veitt.

6. gr. Synjun umsóknar.

Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði 5. gr. reglugerðar þessarar skal umsókn um starfsleyfi synjað. Tilkynna skal umsækjanda um starfsleyfi ákvörðunina skriflega og eftir atvikum leiðbeina um rétt til að krefjast rökstuðnings fyrir henni.

7. gr. Umsögn notendaráða.

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar skal afla umsagnar notendaráða í því sveitarfélagi þar sem starfsemin er, áður en umsókn um starfsleyfi er tekin til afgreiðslu. Ef fyrirhugað er að reka starfsemi á fleiri en einu svæði skal afla umsagna frá notendaráði á hverju svæði fyrir sig.

Félagsmálaráðuneytið skal útbúa leiðbeiningar fyrir notendaráð varðandi umsagnir, en slíkar leiðbeiningar skulu unnar í samvinnu við hagsmunasamtök og Samband íslenskra sveitarfélaga.

8. gr. Útgáfa starfsleyfis.

Starfsleyfi skulu almennt vera tímabundin til þriggja ára. Þó er heimilt að veita starfsleyfi til skemmri tíma, binda leyfið við tiltekinn árstíma eða veita starfsleyfi með skilyrðum sem þarf að uppfylla innan tiltekins tíma mæli eðli starfseminnar með því. Hefjist starfsemi leyfishafa ekki innan eins árs frá dagsetningu útgáfu starfsleyfis fellur leyfið úr gildi.

Starfsleyfi veitir eingöngu heimild til þeirrar starfsemi sem mælt er fyrir um í leyfinu. Í starfsleyfi skal koma fram:

Nafn umsækjanda og hver er forsvarsmaður hans ef við á.
Tegund þjónustu sem heimilt er að veita.
Sveitarfélag þar sem starfsemi fer fram og aðsetur, ef við á.
Gildistími leyfisins og ef við á, tímabil þjónustu.

Yfirlit gildra starfsleyfa skal birt á heimasíðu Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar.

9. gr. Bráðabirgðaleyfi.

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar er heimilt að veita starfsleyfi til bráðabirgða á meðan umsókn er til meðferðar hjá stofnuninni. Við mat á því hvort veita eigi bráðabirgðaleyfi skal m.a. líta til hagsmuna notenda og hvort líklegt sé að umsókn um starfsleyfi verði samþykkt.

III. KAFLI Breytingar á leyfisskyldri starfsemi.

10. gr. Breytingar á starfsemi.

Starfsleyfishafa ber að tilkynna allar breytingar sem geta haft áhrif á forsendur eða skilyrði útgáfu starfsleyfis til Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar. Sem dæmi um slíkar breytingar má nefna ef starfsemi flyst í annað húsnæði, breytingar verða á fjölda notenda eða nýr forsvarsmaður tekur við. Starfsleyfishafi skal jafnframt upplýsa sveitarfélagið um breytingarnar.

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar skal meta upplýsingar skv. 1. mgr. innan fjögurra vikna frá móttöku þeirra og tilkynna starfsleyfishafa skriflega um hvort hin breytta starfsemi rúmist innan gildandi starfsleyfis eða hvort sækja þurfi um nýtt starfsleyfi fyrir starfsemina.

Þegar starfsleyfisskyldri starfsemi er hætt ber að tilkynna það til Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar án ástæðulauss dráttar. Starfsleyfi fellur úr gildi við lok starfseminnar.

11. gr. Annmarkar á starfsemi og afturköllun starfsleyfis.

Liggi fyrir upplýsingar um að starfsleyfishafi uppfylli ekki lengur skilyrði 5. gr. reglugerðar þessarar eða aðrir annmarkar séu á starfsemi starfsleyfishafa skal Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar tilkynna honum um upphaf máls þar sem úrbóta er krafist.

Í tilkynningu skal tilgreina hvaða upplýsingar liggi fyrir og eftir atvikum bent á nauðsynlegar úrbætur. Starfsleyfishafa skal þá gefinn frestur til úrbóta m.t.t. alvarleika annmarka.

Eftir að frestur til úrbóta er liðinn skal Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar tilkynna starfsleyfishafa niðurstöðu stofnunarinnar um hvort úrbætur eru fullnægjandi eða ekki.

Verði starfsleyfishafi ekki við tilmælum um úrbætur er Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar heimilt að afturkalla starfsleyfið. Ef til greina kemur að afturkalla starfsleyfi skal Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar tilkynna starfsleyfishafa um upphaf slíks máls samhliða niðurstöðu um að úrbætur séu ekki fullnægjandi.

Sé rekstri starfsleyfishafa verulega ábótavant er stofnuninni heimilt að afturkalla starfsleyfi án þess að veittur sé frestur til úrbóta. Skal starfsleyfishafi þá stöðva starfsemi um leið og starfsleyfi er afturkallað.

12. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 10. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga öðlast gildi 1. janúar 2021. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1034/2018, um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra þjónustu- og rekstraraðila sem veita félagsþjónustu.

Endurskoða skal reglugerð þessa að fenginni reynslu af útgáfu starfsleyfa innan þriggja ára frá gildistöku hennar.

Félagsmálaráðuneytinu, 16. desember 2020.

Ásmundur Einar Daðason.

Gissur Pétursson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.