Fara beint í efnið

Prentað þann 28. des. 2024

Breytingareglugerð

1315/2013

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, nr. 945/2009.

1. gr.

1. mgr. 3. gr. orðast svo:

Hver sá sem leggur fram meðlagsákvörðun, sbr. 2. gr., um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða ákvörðun um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur fengið fyrirfram greitt meðlag eða önnur framfærsluframlög frá Tryggingastofnun ríkisins.

2. gr.

4. gr. orðast svo:

Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal nema sömu fjárhæð á mánuði og barnalífeyrir eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar. Ef um er að ræða greiðslur fyrir hluta úr mánuði skal hver dagur reiknast sem 1/30 af mánaðarlegri fjárhæð meðlags.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr.:

  1. 1. mgr. orðast svo: Upphaf greiðslna skal vera samkvæmt þeirri dagsetningu sem fram kemur í meðlagsákvörðun, sbr. þó 7. gr. um greiðslur aftur í tímann.
  2. 2. mgr. orðast svo: Meðlag skal greiða fyrirfram fyrsta dag hvers mánaðar. Greiðslur skulu að jafnaði hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir að umsókn og nauðsynleg gögn hafa borist Tryggingastofnun skv. 5. gr. þessarar reglugerðar.

4. gr.

1. málsl. 8. gr. orðast svo:

Meðlagsgreiðslur falla niður frá þeim degi þegar barn verður 18 ára.

5. gr.

1. málsl. 3. mgr. 10. gr. orðast svo:

Greiðslur skv. 1. mgr. falla niður frá þeim degi þegar ungmennið nær 20 ára aldri.

6. gr.

Í stað orðanna "dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins" í 4. mgr. 11. gr. kemur: innanríkisráðuneytisins.

7. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 12. gr.:

  1. Í stað orðanna "frumriti ákvörðunarinnar" í 1. málsl. kemur: ákvörðuninni.
  2. Í stað orðsins "frumrit" í 2. málsl. kemur: ákvörðun.

8. gr.

Við 13. gr. bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Um fyrirframgreiðslu meðlags á grundvelli meðlagsákvörðunar frá öðru norrænu landi fer skv. 11. gr. Norðurlandasamnings um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu, sbr. lög nr. 66/1966.

9. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr.:

  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsl. sem orðast svo: Þá er stofnuninni heimilt, samkvæmt umsókn, að hafa milligöngu um meðlag í þeim tilvikum að staðfest er að meðlagsmóttakandi telst falla áfram undir lög um almannatryggingar samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga enda séu önnur skilyrði reglugerðarinnar uppfyllt.
  2. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo: Skilyrði er að fyrir liggi skrifleg staðfesting þar til bærra stjórnvalda þess efnis að ekki sé um fyrirframgreiðslu meðlags að ræða í búsetu- eða dvalarlandi og að meðlagsgreiðandi sé búsettur hér á landi. Um upplýsingaskyldu vegna breytinga fer skv. 15. gr.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 30. desember 2013.

Eygló Harðardóttir
félags- og húsnæðismálaráðherra.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.