Fara beint í efnið

Prentað þann 24. des. 2024

Stofnreglugerð

1267/2021

Reglugerð um upplýsingagjöf og tilkynningarskyldu samkvæmt lögum nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um reglulegar upplýsingar útgefenda verðbréfa, aðrar skyldur útgefenda um veitingu upplýsinga og breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar (flöggun), sbr. lög nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.

II. KAFLI Breyting á verulegum hlut atkvæðisréttar (flöggun).

2. gr. Flöggunarskylda við sérstakar aðstæður.

Flöggunarskylda sem stofnast í kjölfar aðstæðna sem tilgreindar eru í a-lið 13. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu hvílir sameiginlega á öllum aðilum samkomulags.

Flöggunarskylda sem stofnast í kjölfar aðstæðna sem tilgreindar eru í b-h-lið 13. gr. laga nr. 20/2021 hvílir á sérhverjum eiganda eða sérhverjum einstaklingi eða lögaðila sem tilgreindur er í 13. gr., eða báðum, í þeim tilvikum sem hlutfall atkvæðisréttar sem hvor aðili fer með nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir eitthvert þeirra marka sem tilgreind eru í 1. mgr. 12. gr. sömu laga.

3. gr. Efni tilkynningar vegna fjármálagerninga.

Tilkynning skv. 14. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu skal m.a. innihalda upplýsingar um:

  1. atkvæðisrétt eftir breytingu,
  2. eignatengsl við dótturfélög þar sem flöggunarskyldur aðili hefur yfirráð yfir atkvæðisréttinum, ef við á,
  3. dagsetningu þegar flöggunarskylda stofnaðist,
  4. þann dag eða það tímabil þar sem hluta verður aflað eða er heimilt að afla, ef við á, vegna fjármálagerninga með tilteknum gildistíma,
  5. dagsetningu uppgjörs eða lok gildistíma fjármálagerningsins,
  6. fullt nafn handhafa fjármálagerningsins og
  7. nafn undirliggjandi útgefanda.

Hlutfall atkvæðisréttar eftir breytingu, sbr. a-lið 1. mgr., skal reiknað út á grundvelli heildarfjölda atkvæðisréttar og nafnverði hlutafjár eins og það var síðast birt opinberlega skv. 19. gr. laga nr. 20/2021.

Ef fjármálagerningur tengist hlutum í fleiri en einum útgefanda, skal senda sérstaka tilkynningu til sérhvers útgefanda.

4. gr. Viðskiptadagatal.

Íslenskt viðskiptadagatal gildir gagnvart útgefendum með Ísland sem heimaríki hvað varðar:

  1. frest flöggunarskylds aðila til að tilkynna skv. 21. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu,
  2. frest útgefanda til að birta upplýsingar í tilkynningu skv. 22. gr. laganna og
  3. frest útgefanda til að birta upplýsingar vegna öflunar eða ráðstöfunar á eigin hlutum skv. 29. gr. laganna.

Fjármálaeftirlitið skal birta á heimasíðu sinni viðskiptadagatal allra skipulegra markaða sem staðsettir eru eða starfræktir innan lögsögu þess.

5. gr. Eftirlit vegna viðskiptavaka.

Viðskiptavaki sem hyggst nýta heimild 25. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, til undanþágu frá flöggunarskyldu, skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu að hann vakti eða hyggist vakta tiltekinn útgefanda eigi síðar en næsta viðskiptadag eftir að vöktun hefst. Þegar viðskiptavaki hættir að vakta útgefanda skal viðskiptavakinn tilkynna Fjármálaeftirlitinu það.

Óski Fjármálaeftirlitið eftir því við viðskiptavaka sem hyggst nýta heimild 25. gr. laga nr. 20/2021 til undanþágu frá flöggunarskyldu að hlutir eða fjármálagerningar sem nota á til viðskiptavöktunar skuli sérgreindir, skal sérgreiningin framkvæmd með þeim hætti að unnt sé að ganga úr skugga um að hún sé fullnægjandi.

Óski Fjármálaeftirlitið eftir því skal viðskiptavaki afhenda samninginn sem gerður var við útgefanda um viðskiptavakt skv. 84. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.

6. gr. Undanþáguheimildir móðurfélags.

Móðurfélag rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis sem nýtir heimild til undanþágu við framkvæmd flöggunarskyldu skv. 27. eða 28. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu er óheimilt, með beinum eða óbeinum fyrirmælum eða með öðrum hætti, að hafa áhrif á hvernig atkvæðisréttar hjá rekstrarfélaginu eða fjármálafyrirtækinu er neytt. Móðurfélaginu ber að tryggja að viðkomandi rekstrarfélagi eða fjármálafyrirtæki sé frjálst að beita atkvæðisrétti vegna þeirra eigna sem það stýrir óháð móðurfélaginu.

Með beinum fyrirmælum í 1. mgr. er átt við hvers konar fyrirmæli móðurfélags, eða annars dótturfélags þess, sem tilgreina hvernig atkvæðisréttur skuli nýttur af hálfu rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis í tilteknu tilviki.

Með óbeinum fyrirmælum í 1. mgr. er átt við hvers konar almenn eða sértæk fyrirmæli móðurfélags, eða annars dótturfélags þess, óháð formi þeirra, sem takmarka sjálfræði rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis varðandi nýtingu atkvæðisréttar sem gefin eru í þeim tilgangi að þjóna tilteknum viðskiptahagsmunum móðurfélagsins eða annars dótturfélags þess.

7. gr. Upplýsingaskylda móðurfélags vegna undanþáguheimildar.

Móðurfélag rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis sem hyggst nýta heimildir til undanþágu við framkvæmd flöggunarskyldu skv. 27. eða 28. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu skal án tafar senda Fjármálaeftirlitinu:

  1. lista yfir heiti viðkomandi rekstrarfélaga og fjármálafyrirtækja og upplýsingar um lögbær stjórnvöld sem eftirlit hafa með þeim, ef við á, og
  2. yfirlýsingu móðurfélagsins þess efnis að það hlíti skilyrðum 1. mgr. 6. gr. vegna sérhvers rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis á listanum. Þetta á þó ekki við ef undanþága skv. 27. eða 28. gr. laga nr. 20/2021 er eingöngu nýtt í tengslum við fjármálagerninga skv. 14. gr. laganna.

Móðurfélag skal sjá til þess að upplýsingar skv. a-lið 1. mgr. séu uppfærðar með viðvarandi hætti.

8. gr. Skyldur móðurfélags gagnvart Fjármálaeftirlitinu.

Móðurfélag rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis skal, að mati Fjármálaeftirlitsins, staðfesta að skipulag móðurfélagsins og viðkomandi rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis sé með þeim hætti að hin síðastnefndu neyti atkvæðisréttar sjálfstætt og óháð móðurfélaginu og að þeir einstaklingar sem fara með atkvæðisréttinn starfi sjálfstætt.

Skilyrði 1. mgr. um að rekstrarfélag eða fjármálafyrirtæki neyti atkvæðisréttar sjálfstætt og óháð móðurfélaginu skal að minnsta kosti fela í sér að móðurfélagið og viðkomandi rekstrarfélag eða fjármálafyrirtæki setji sér skriflegar reglur og verklag sem komi í veg fyrir skipti á upplýsingum á milli fyrirtækjanna um nýtingu atkvæðisréttar.

Ef móðurfélag er viðskiptavinur rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis síns, eða á eignarhlut í þeim eignum sem rekstrarfélagið eða fjármálafyrirtækið stýrir, skal móðurfélagið geta sýnt Fjármálaeftirlitinu fram á að til séu skýr skrifleg fyrirmæli um viðskipti milli móðurfélagsins og rekstrarfélagsins eða fjármálafyrirtækisins sem taki mið af viðskiptum á milli óskyldra aðila (armslengdarsjónarmiðum).

III. KAFLI Opinber birting upplýsinga skv. lögum nr. 20/2021.

9. gr. Opinber birting.

Útgefandi verðbréfa skal birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar samkvæmt lögum nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli, sbr. 35. gr. laganna. Upplýsingunum skal dreift með þeim hætti að þær geti náð til eins margra og kostur er í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu samtímis.

Upplýsingar skulu sendar fjölmiðlum í óstyttum orðréttum texta. Þegar um ræðir ársreikning og árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins telst opinber birting þó fullnægjandi ef tilkynning um upplýsingarnar er send fjölmiðlum og í henni greinir tilvísun til vefsíðu þar sem unnt er að nálgast þær.

Upplýsingar skulu sendar fjölmiðlum með aðferð sem tryggir örugg samskipti, lágmarkar hættu á óheimilum aðgangi og veitir fullvissu um uppruna upplýsinganna. Öryggi móttöku upplýsinga skal tryggt með því að bæta eins fljótt og kostur er úr hvers konar misbresti eða röskun á samskiptum við miðlun upplýsinga. Útgefandi fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði, aðili sem óskað hefur eftir töku fjármálagerninga útgefanda til viðskipta á skipulegum markaði án samþykkis útgefanda er ekki ábyrgur vegna tæknilegra bilana eða galla hjá fjölmiðli sem upplýsingum hefur verið miðlað til.

Upplýsingar sem þannig eru veittar fjölmiðlum skulu bera eftirfarandi skýrlega með sér:

  1. að um upplýsingar sem skylt er að birta opinberlega sé að ræða,
  2. hver viðkomandi útgefandi er,
  3. efni upplýsinganna og
  4. tímasetningu og dagsetningu miðlunar þeirra.

Í skilningi reglugerðar þessarar telst fjölmiðill vera upplýsingamiðill, sem er sérhæfður í rafrænni birtingu upplýsinga og skjótri dreifingu þeirra til almennings.

10. gr.

Fjármálaeftirlitið getur krafið útgefanda fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði, aðila sem óskað hefur eftir töku fjármálagerninga útgefanda til viðskipta á skipulegum markaði án samþykkis útgefanda um neðangreind atriði í tengslum við sérhverja opinbera birtingu tilkynningaskyldra upplýsinga:

  1. fullt nafn þess einstaklings sem miðlaði upplýsingunum til fjölmiðla,
  2. staðfestingu uppruna tilkynningar,
  3. tíma og dagsetningu miðlunar upplýsinga til fjölmiðla,
  4. hvaða miðill var notaður til miðlunar upplýsinganna og
  5. nákvæmar upplýsingar um hvers konar takmarkanir sem útgefandi hefur lagt á upplýsingarnar, ef við á.

11. gr. Samhliða opinberri birtingu skal upplýsingum miðlað til Fjármálaeftirlits.

Samhliða opinberri birtingu upplýsinga skal útgefandi senda upplýsingarnar til Fjármálaeftirlitsins. Um sendingarhátt og móttöku upplýsinganna, auk forms tilkynninga, fer samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands.

IV. KAFLI Opinber fyrirmæli ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins.

12. gr. Ársreikningaskrá og Fjármálaeftirlitið.

Ársreikningaskrá metur hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins teljist hliðstæðar ákvæðum laga nr. 3/2006 um ársreikninga með hliðsjón af 13.-17. gr. reglugerðar þessarar, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.

Fjármálaeftirlitið metur hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins teljist hliðstæðar ákvæðum laga nr. 20/2021, með hliðsjón af 18.-22. gr. reglugerðar þessarar, sbr. 4. mgr. 30. gr og 3. mgr. 34. gr. laga nr. 20/2021.

13. gr. Hliðstæðar kröfur um skýrslu stjórnar.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur til ársreikninga og um skýrslu stjórnar, sbr. III. og VI. kafla laga nr. 3/2006 um ársreikninga, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að skýrsla stjórnar innihaldi a.m.k. eftirtaldar upplýsingar:

  1. glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri útgefanda og stöðu hans og lýsi helstu áhættu- og óvissuþáttum sem útgefandi stendur frammi fyrir, þannig að yfirlitið geymi skýra greiningu á fyrrgreindum þáttum, í samræmi við stærð og umfang rekstrarins,
  2. upplýsingar um mikilvæga atburði sem átt hafa sér stað frá lokum reikningsársins og
  3. upplýsingar um líklega framtíðarþróun útgefanda.

Að því marki sem það er nauðsynlegt til að skilja þróun, árangur og stöðu útgefanda skal yfirlit skv. a-lið 1. mgr. innihalda helstu fjárhagslegu lykilmælikvarða vegna viðkomandi rekstrar, svo og ófjárhagslega mælikvarða, ef við á.

14. gr. Hliðstæðar kröfur um árshlutaskýrslu stjórnar vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um árshlutaskýrslu stjórnar vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, sbr. 87. gr. b. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins í styttu formi, sbr. 2. mgr. 87. gr. a. sömu laga, auk árshlutaskýrslu stjórnar vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins og að viðkomandi árshlutaskýrsla stjórnar innihaldi a.m.k. eftirtaldar upplýsingar:

  1. yfirlit yfir viðkomandi tímabil,
  2. upplýsingar um líklega framtíðarþróun útgefanda á þeim sex mánuðum sem eftir eru af reikningsárinu og
  3. í tilviki útgefanda hlutabréfa, upplýsingar um viðskipti tengdra aðila, ef slíkum upplýsingum er ekki þegar miðlað með viðvarandi hætti.

15. gr. Hliðstæðar kröfur um ábyrgð á árshlutareikningi og árshlutayfirlýsingu stjórnarmanna.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um árshlutareikning og árshlutayfirlýsingu stjórnarmanna, sbr. 87. gr. a. og 87. gr. c. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að hjá útgefanda séu einn eða fleiri einstaklingar ábyrgir fyrir árshlutareikningnum vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, þar á meðal því að árshlutareikningurinn sé saminn í samræmi við viðeigandi reglur eða reikningsskilastaðla og því að yfirlitið í skýrslu stjórnar gefi glögga mynd af stöðu útgefanda.

16. gr. Hliðstæðar kröfur um samstæðureikningsskil.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um skyldu útgefanda til að semja samstæðureikning, sbr. 67. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga, þegar bindandi opinber fyrirmæli þess ríkis gera samningu ársreiknings dótturfélags móðurfélagsins ekki að skilyrði en sérhver útgefandi með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki skal, þegar hann semur samstæðureikning, veita neðangreindar upplýsingar um móðurfélagið:

  1. útreikning arðs og getu til að greiða arð, þegar um ræðir útgefendur hlutabréfa og
  2. um lágmarks hlutafé, lágmarks eigið fé og gjaldþol, ef við á.

Auk þess sem greinir í 1. mgr. verður útgefandi jafnframt að geta afhent lögbæru stjórnvaldi í heimaríki sínu á Evrópska efnahagssvæðinu, skv. 5. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, endurskoðaðar viðbótarupplýsingar um reikningsskil útgefandans sjálfs í samræmi við upplýsingar skv. a- og b-lið 1. mgr. Framangreindar viðbótarupplýsingar mega vera samdar í samræmi við bindandi opinber fyrirmæli viðkomandi ríkis skv. 1. mgr.

17. gr. Hliðstæðar kröfur um ársreikning móðurfélags.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um ársreikning móðurfélags, sbr. lög nr. 3/2006 um ársreikninga, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla ekki fyrir um að útgefanda með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki sé skylt að semja samstæðureikning, en honum er skylt að semja ársreikning móðurfélags í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem viðurkenndir eru á Evrópska efnahagssvæðinu skv. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, sbr. lög nr. 3/2006 um ársreikninga, eða í samræmi við sambærilega innlenda reikningsskilastaðla viðkomandi ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ef ársreikningur útgefanda er ekki í samræmi við þá staðla sem vísað er til í 1. mgr. verður að leggja hann fram í formi endurgerðs ársreiknings.

Ársreikningur skv. 1. mgr. skal vera endurskoðaður sjálfstætt.

18. gr. Hliðstæðar kröfur um frest útgefanda til að birta upplýsingar í tilkynningu.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um frest útgefanda til að birta upplýsingar í tilkynningu opinberlega, sbr. 22. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að samanlagður frestur flöggunarskylds aðila til að senda útgefanda með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki tilkynningu og frestur útgefandans til að birta tilkynninguna opinberlega skuli vera sjö viðskiptadagar eða minna.

19. gr. Hliðstæðar kröfur um eigin hluti.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um eigin hluti útgefanda, sbr. 29. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, þegar bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að útgefandi með skráða skrifstofu í ríkinu:

  1. megi eiga allt að 5% af eigin hlutum sem atkvæðisréttur fylgir og verði tilkynningarskyldur þegar þessu marki er náð eða farið er yfir það,
  2. megi eiga 5-10% af eigin hlutum sem atkvæðisréttur fylgir og verði tilkynningarskyldur þegar 5% mörkunum eða efri mörkunum er náð eða farið er yfir þau,
  3. megi eiga meira en 10% af eigin hlutum sem atkvæðisréttur fylgir og verði tilkynningarskyldur þegar 5% eða 10% mörkunum er náð eða farið er yfir þau.

20. gr. Hliðstæðar kröfur um breytingar á hlutafé eða atkvæðisrétti.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um breytingar á hlutafé eða atkvæðisrétti, sbr. 19. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að útgefandi með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki verði að birta opinberlega breytingar á heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða innan 30 daga frá því að hækkun eða lækkun hlutafjár og/eða fjölgun eða fækkun atkvæða á sér stað.

21. gr. Hliðstæðar kröfur um hluthafafundi.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um hluthafafundi, sbr. a-lið 3. mgr. 32. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að útgefandi með skráða skrifstofu í viðkomandi ríki skuli hið minnsta birta opinberlega upplýsingar um staðsetningu, tíma og dagskrá hluthafafunda.

22. gr. Hliðstæðar kröfur um sjálfstæði móðurfélags.

Ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins telst gera hliðstæðar kröfur um sjálfstæði gagnvart móðurfélagi, sbr. 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, ef bindandi opinber fyrirmæli ríkisins mæla fyrir um að rekstrarfélagi eða fjármálafyrirtæki með leyfi til verðbréfaviðskipta skuli vera frjálst að neyta atkvæðisréttar þeirra eigna sem rekstrarfélagið eða fjármálafyrirtækið stýrir sjálfstætt og óháð móðurfélaginu, undir hvaða kringumstæðum sem er, og að rekstrarfélagið eða fjármálafyrirtækið skuli virða að vettugi hagsmuni móðurfélagsins, eða annars dótturfélags þess, ef til hagsmunaárekstra kemur.

Móðurfélag skal framfylgja ákvæðum a-liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar um upplýsingaskyldu gagnvart lögbæru stjórnvaldi. Móðurfélag skal þar að auki lýsa því yfir, vegna sérhvers rekstrarfélags eða fjármálafyrirtækis, að móðurfélagið hlíti skilyrðum 1. mgr. um sjálfstæði.

Óski Fjármálaeftirlitið eftir því skal móðurfélag geta sýnt fram á að ákvæðum 8. gr. reglugerðar þessarar sé framfylgt.

V. KAFLI Lokaákvæði.

23. gr. Lögleiðing.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 55. gr. laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.

Með reglugerðinni eru ákvæði eftirfarandi tilskipana innleidd:

  1. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/14/EB um nákvæmar reglur um innleiðingu tiltekinna ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB um samræmingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem skráð eru á skipulegan markað. Tilskipun 2007/14/EB var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2008 frá 1. febrúar 2008 sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 33 frá 12. júní 2008.
  2. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/50/ESB frá 22. október 2013 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/14/EB um nákvæmar reglur til framkvæmdar tilteknum ákvæðum tilskipunar 2004/109/EB, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 81/2020 frá 12. júní 2020. Tilskipunin var birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 7 frá 28. janúar 2021, bls. 424-438.
  3. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/891/EB um notkun útgefenda með skráða skrifstofu í þriðja ríki á upplýsingum sem samdar eru í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Ákvörðunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2007 frá 8. júní 2007 sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 48 frá 11. október 2007.

24. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 707/2008 um upplýsingagjöf og tilkynningarskyldu skv. lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 28. október 2021.

F. h. r.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Benedikt Hallgrímsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.