Fara beint í efnið

Prentað þann 23. des. 2024

Breytingareglugerð

1265/2019

Reglugerð um (7.) breytingu á reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. reglugerðarinnar:

  1. 2. mgr. verður svohljóðandi:
    Rými sem ætlað er farþegum í almenningssamgöngutækjum skal vera vel við haldið og því haldið hreinu. Farþega má eigi flytja svo marga eða á þann hátt að valdi þeim eða öðrum hættu. Notkun almenningssamgöngutækja skal þannig hagað að frá þeim stafi ekki hávaði eða loftmengun að óþörfu. Dýr má ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja, sbr. þó 3. mgr. Þetta gildir þó ekki um hjálparhunda, sbr. 19. gr.
  2. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem verður 3. mgr., sem orðast svo:
    Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd getur heimilað að gæludýr séu leyfð í almenningssamgöngutækjum í þéttbýli á sínu svæði að uppfylltum tilteknum skilyrðum, m.a. á hvaða tíma dags heimilt sé að ferðast með gæludýr í vögnunum, hvar gæludýr mega vera í vögnunum og hvernig umbúnaði dýra skuli háttað. Heimildin er bundin við hunda og ketti sem skráðir eru í samræmi við samþykktir um hunda- og kattahald í hlutaðeigandi sveitarfélögum og nagdýr, fugla, kanínur, froska, skrautfiska, skriðdýr og skordýr, enda sé heimilt að halda umrædd dýr á Íslandi. Séu gæludýr heimiluð skal hengja upp upplýsingar þess efnis á áberandi stað á vagninum sjálfum, innan sem utan, og auglýsa rækilega þær reglur og skilyrði sem farþegar og gæludýr þurfa að uppfylla. Farþegi sem ferðast með gæludýr skal hafa náð 18 ára aldri og ber hann ábyrgð á dýrinu. Ábyrgðarmanni gæludýrs ber að tryggja að öryggi annarra farþega og dýranna sjálfra sé tryggt, m.a. með því að hafa gæludýr í lokuðu búri, tryggum taumi, beisli eða í munnkörfu. Hver farþegi sem ber ábyrgð á gæludýri er einungis heimilt að bera ábyrgð á einu búri, einni tösku eða einum hundi í taumi í einu. Ábyrgðarmanni gæludýrs ber að tilkynna vagnstjóra um að tiltekið gæludýr sé með í för. Fullnægjandi þrif skulu fara fram á almenningsvögnum sem heimila gæludýr í lok hvers dags. Að öðru leyti gilda ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga.
  3. 3. mgr. verður 4. mgr.

2. gr.

Á eftir orðinu "Almenningssamgöngutæki" í fylgiskjali 3 með reglugerðinni kemur: að undanskildum almenningsvögnum í þeim sveitarfélögum þar sem heilbrigðisnefnd hefur veitt leyfi fyrir gæludýrum, sbr. 3. mgr. 55. gr.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 19. desember 2019.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.