Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 27. des. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 30. des. 2011 – 18. jan. 2017 Sjá núgildandi

1260/2011

Reglugerð um lýðheilsusjóð.

1. gr. Hlutverk lýðheilsusjóðs.

Hlutverk lýðheilsusjóðs er að styrkja lýðheilsustarf sem samræmist markmiðum laga um landlækni og lýðheilsu, bæði innan og utan embættisins, í þeim tilgangi að stuðla að heilsueflingu og forvörnum.

2. gr. Stjórn lýðheilsusjóðs.

Velferðarráðherra skipar stjórn lýðheilsusjóðs. Hún skal skipuð sjö fulltrúum. Ráðherra skipar formann stjórnarinnar án tilnefningar, fjórir fulltrúar eru tilnefndir sameiginlega af fagráðum, sbr. 3. gr. b laga um landlækni og lýðheilsu, og tveir fulltrúar eru tilnefndir af landlækni. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Sé einhver stjórnarmanna forfallaður tekur varamaður hans sæti í stjórninni. Við tilnefningu og skipun fulltrúa í lýðheilsusjóð skal gæta fyrirmæla 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Stjórn lýðheilsusjóðs hefur á hendi stjórn sjóðsins og tekur ákvarðanir um úthlutun styrkja úr sjóðnum í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar og starfsreglur er sjóðurinn setur sér.

Embætti landlæknis annast daglega umsýslu og reikningshald sjóðsins.

Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

3. gr. Tekjur sjóðsins.

Árlegar tekjur lýðheilsusjóðs eru:

  1. 1% af innheimtu áfengisgjaldi þeirra sem gjaldskyldir eru skv. 1. mgr. 2. gr. laga um gjald á áfengi, nr. 96/1995, með síðari breytingum.
  2. 0,9% af brúttósölu tóbaks skv. 15. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, með síðari breytingum.
  3. Fjárveitingar samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
  4. Framlög sem félagasamtök, einstaklingar, fyrirtæki eða aðrir kunna að leggja til lýðheilsusjóðs.

4. gr. Viðmið við ráðstöfun.

Framlög úr lýðheilsusjóði skulu nýtt í verkefni sem eru í samræmi við stefnu og áætlanir stjórnvalda.

Úr lýðheilsusjóði skal ráðstafa allt að 35% af tekjum sjóðsins skv. a- c lið 3. gr. annars vegar til verkefna samkvæmt umsóknum, sbr. 5. gr., og hins vegar til að standa undir kostnaði við rekstur sjóðsins, sbr. 4. mgr. 2. gr.

Stjórn lýðheilsusjóð skal úthluta að minnsta kosti 65% af tekjum sjóðsins til lýðheilsu- og forvarnastarfs embættis landlæknis eða annarra verkefna sem unnin eru á vegum embættisins.

Við úthlutun úr lýðheilsusjóði skal stjórn sjóðsins styðjast við sérstök viðmið sem nánar er kveðið á um í starfsreglum um lýðheilsusjóð. Í reglunum skal m.a. kveðið á um að við úthlutun skuli tekið mið af gildi og mikilvægi verkefnis, auk kynja- og búsetudreifingar

5. gr. Umsóknir um styrk og afgreiðsla.

Stjórn lýðheilsusjóðs auglýsir að minnsta kosti einu sinni á ári eftir umsóknum um styrki úr lýðheilsusjóði. Veittir styrkir sem eru hærri en sett viðmið í starfsreglum sjóðsins hverju sinni eru að jafnaði greiddir í tvennu lagi og síðari hluti einungis gegn framvinduskýrslu og öðrum umbeðnum gögnum.

Umsóknir um styrki skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af embætti landlæknis og nálgast má á heimasíðu embættisins. Umsóknareyðublöð ásamt fylgigögnum skulu send embætti landlæknis innan frestsins sem getið er um í auglýsingu. Styrkir skulu almennt veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsóknarverkefna.

Vegna umfjöllunar um styrkumsóknir er stjórn sjóðsins heimilt að:

  1. Óska eftir umsögnum fagaðila og óska eftir nánari upplýsingum um verkefni, framkvæmdaraðila og fjármögnun.
  2. Skilyrða styrkveitingar og ákveða að styrkir verði greiddir út í samræmi við gang verkefnis.

Stjórn lýðheilsusjóðs svarar öllum umsóknum skriflega.

6. gr. Skyldur styrkþega.

Styrkþegar skulu skila stjórn lýðheilsusjóðs skýrslu og endurskoðuðu fjárhagsuppgjöri að verkefni loknu. Aðili sem hlýtur styrk og skilar ekki fullnægjandi skýrslu og uppgjöri getur verið endurkrafinn um veittan styrk og útilokaður frá frekari styrkveitingum.

Þegar stjórn lýðheilsusjóðs óskar er styrkþega skylt að gera stjórninni grein fyrir gangi verkefnisins, ráðstöfun styrks og fjármögnun verkefnisins.

7. gr. Skyldur stjórnar.

Með allar umsóknir, upplýsingar um verkefni, samstarfsaðila og annað sem fram kemur í umsókn, fylgigögnum og sérstökum upplýsingum til stjórnar lýðheilsusjóðs fer stjórnin með sem trúnaðarmál, sbr. þó 1. tölul. 3. mgr. 5. gr.

Áfangaskýrslur eða skýrslur um verkefni, að þeim loknum, skulu ásamt reikningum vera opinberar og ekki háðar trúnaðarskyldu nema þess sé óskað af sérstökum ástæðum og stjórn sjóðsins samþykki.

Við meðferð og afgreiðslu styrkja skal stjórn lýðheilsusjóðs hafa til hliðsjónar leiðbeinandi reglur um reikningshaldslega meðferð styrkja hjá ríkisstofnunum í A-hluta, sem Fjársýsla ríkisins gaf út í apríl 2010.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. gr. b laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, með síðari breytingum, tekur gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 361/1999, um Forvarnarsjóð.

Velferðarráðuneytinu, 13. desember 2011.

Guðbjartur Hannesson.

Vilborg Ingólfsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.