Fara beint í efnið

Prentað þann 13. des. 2024

Stofnreglugerð

1240/2019

Reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

1. gr.

Sektir allt að 500.000 krónum og sviptingu ökuréttar vegna einstakra brota á ákvæðum umferðarlaga og reglna, settra samkvæmt þeim, skal ákvarða í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar sem birtast í viðaukum I-III við reglugerð þessa. Brot sem ekki eru sérstaklega tilgreind í viðaukum með reglugerð þessari, varða sektum frá kr. 20.000 allt að kr. 500.000 eftir eðli og umfangi brots.

Heimilt er að víkja frá ákvæðum í viðaukum ef veigamikil rök mæla með því.

2. gr.

Þegar ákvörðun er tekin um sekt vegna brota á tveimur eða fleiri ákvæðum umferðarlaga, eða reglna settra samkvæmt þeim, skal sektin vera samtala sekta vegna hvers brots um sig. Samtala sekta sem lögreglustjóri lýkur með lögreglustjórasekt má þó aldrei fara fram úr þeirri hámarksfjárhæð sem ákveðin er í reglugerð um lögreglustjórasektir.

Lögreglustjóra ber að veita sakborningi 25% afslátt af sektarfjárhæð sem ákveðin er í lögreglustjórasekt, ef sakborningur greiðir sektina ásamt sakarkostnaði að fullu innan 30 daga frá dagsetningu sektar á vettvangi, sektarboðs eða undirritun sektargerðar sem sakborningur hefur gengist skriflega undir.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 97. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, öðlast gildi 1. janúar 2020. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 288/2018 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 18. desember 2019.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.