Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 21. nóv. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 5. jan. 2006 – 1. jan. 2021 Sjá núgildandi

1192/2005

Reglugerð um fjárvörslureikninga lögmanna o.fl.

I. KAFLI Gildissvið.

1. gr.

Lögmanni er skylt að halda fjármunum þeim sem hann tekur við í þágu annarra aðgreindum frá eigin fé, nema hann hafi fengið undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. laga um lögmenn. Honum er jafnframt skylt að veita stjórn Lögmannafélags Íslands upplýsingar um vörslufé, svo sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

2. gr.

Reglur þessar taka til lögmanna með eigin rekstur og lögmanna sem starfa hjá lögaðilum nema þeir hafi fengið undanþágu samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lögmannalaga.

Þar sem í reglum þessum er fjallað um lögmenn er einnig átt við lögaðila skv. 1. mgr., eftir því sem við á.

II. KAFLI Vörslufé.

3. gr.

Lögmaður, sem varðveitir fé umbjóðanda síns, skal færa sérstakan viðskiptareikning í bókhaldi sínu, sem sýnir inneign umbjóðandans á hverjum tíma. Á reikninginn skal færa allt fé, sem lögmaðurinn tekur við til varðveislu, þ.m.t. fyrirframgreiðslu kostnaðar og tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar og þóknunar lögmannsins. Lögmanni er ekki skylt að færa á reikninginn fé, sem hann tekur við og skilar samdægurs.

Þá skal lögmaður færa sérstakan, sameiginlegan viðskiptareikning, fjárvörslureikning, sem sýni á hverjum tíma samanlagðar innstæður allra umbjóðenda hans á viðskiptareikningum skv. 1. mgr. Þegar sérstakar aðstæður mæla með því er heimilt að færa fjárvörslureikninga vegna einstakra umbjóðenda.

4. gr.

Fjárhæð, sem samsvarar stöðu fjárvörslureiknings í bókhaldi lögmanns, skal varðveitt á sérstökum bankareikningi/-reikningum í viðskiptabanka eða sparisjóði, fjárvörslureikningi.

Fjárvörslureikning skal stofna á nafni lögmanns og hefur hann formlega ráðstöfunarheimild yfir reikningnum. Lögmaður er ekki eigandi innstæðu á reikningi skv. þessari grein og er innstæðan ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum eða grundvöllur trygginga fyrir viðskiptum hans eða annarra. Reikningur þessi skal aðgreindur frá eigin fé lögmanns og stendur innstæða á honum utan skuldaraðar við skipti á búi lögmanns.

5. gr.

Fjárvörslureikninga er einungis heimilt að stofna í viðskiptabönkum eða sparisjóðum, sem með tilkynningu til stjórnar Lögmannafélags Íslands, sem hún metur fullnægjandi, hafa skuldbundið sig til þess að fylgja eftirfarandi reglum:

  1. Banka eða sparisjóði skal óheimilt að skuldfæra á fjárvörslureikning nokkurn kostnað vegna viðskipta við lögmann eða nota innstæðuna til skuldajöfnunar krafna gegn honum eða einstökum umbjóðendum hans.
  2. Banka eða sparisjóði skal óheimilt að taka peninga af fjárvörslureikningi nema gegn skriflegum eða rafrænum fyrirmælum frá lögmanni. Skulu slík fyrirmæli varðveitt hjá viðkomandi innlánsstofnun eins og bókhaldsgögn.
  3. Banka eða sparisjóði er skylt að senda stjórn Lögmannafélags Íslands staðfest yfirlit yfir stöðu og hreyfingar á fjárvörslureikningi hvenær sem stjórnin kallar eftir slíku yfirliti.
  4. Banka eða sparisjóði er skylt að sæta því að stjórn Lögmannafélags Íslands stöðvi notkun fjárvörslureiknings. Hafi notkun verið stöðvuð er óheimilt að greiða af reikningnum án heimildar trúnaðarmanns, sem stjórn Lögmannafélags Íslands tilnefnir.

6. gr.

Lögmaður skal, án ástæðulauss dráttar, leggja allt fé, sem hann tekur við og honum ber að færa á fjárvörslureikning í bókhaldi sínu skv. 3. gr., á fjárvörslureikning í banka eða sparisjóði.

7. gr.

Út af fjárvörslureikningi má aðeins taka ef og þegar:

  1. fé greiðist til umbjóðanda eða er notað til greiðslu fyrir hans hönd;
  2. lögmaður á fé hjá umbjóðanda samkvæmt rétt bókfærðri stöðu viðskiptareiknings hans, enda sé fullnægt skilyrðum til skuldajöfnunar;
  3. rétt uppgjör og afstemming fjárvörslureiknings hefur farið fram og sannreynt er að á honum er fé, sem er umfram skuldbindingar.

8. gr.

Lögmaður skal á minnst þriggja mánaða fresti bera saman og staðreyna að innstæða á fjárvörslureikningi samsvari bókfærðri stöðu fjárvörslureiknings í bókhaldi. Á sama hátt skal hann bera saman og staðreyna að samtala viðskiptareikninga umbjóðenda hans samsvari stöðu fjárvörslureiknings í bókhaldi. Komi í ljós, að innstæða á fjárvörslureikningi er lægri en nemur heildarskuldbindingum lögmanns skv. fjárvörslureikningi í bókhaldi hans, skal hann tafarlaust bæta úr því. Gögn, sem sýna afstemmingu fjárvörslureiknings í banka og bókhaldi, skal lögmaður varðveita eins og önnur bókhaldsgögn.

III. KAFLI Verðbréf í vörslu lögmanna.

9. gr.

Lögmaður, sem varðveitir og hefur umsýslu með verðbréfum fyrir umbjóðendur sína eða hefur heimild til að ráðstafa verðbréfum, innstæðum á bankareikningum o.þ.h. í eigu þriðja aðila, skal halda skrá um verðmæti þessi. Skráningarskyldan nær til verðbréfa og inn- og útlánsreikninga í hvers kyns inn- og útlánastofnunum og nær því m.a. til skuldabréfa, hlutabréfa, hlutdeildarskírteina, svo og banka-, sparisjóða- og gíróreikninga, þ.m.t. yfirdráttarreikninga.

Skrá skv. 1. mgr. skal vera nákvæm og í henni skýr sundurgreining verðmætanna, þar sem glöggt megi sannreyna frá hverjum þau stafa og hver sé eigandi þeirra. Verðmæti þessi skulu aðgreind frá eigin fé lögmanns.

10. gr.

Fyrir 1. mars ár hvert skal lögmaður senda þeim umbjóðendum sínum, sem hann annast umsýslu fyrir skv. 9. gr., skrá og upplýsingar um verðbréf þessi og fjármunahreyfingar vegna þeirra. Gögnin skulu vera fyrir síðastliðið almanaksár og staðfest með dagsetningu og nafnritun lögmanns. Lögmaður skal varðveita afrit af útsendum upplýsingum skv. þessari grein eins og önnur bókhaldsgögn.

IV. KAFLI Eftirlit.

11. gr.

Lögmaður, sem reglur þessar taka til, skal fyrir 1. október ár hvert senda stjórn Lögmannafélags Íslands, á þar til gerðu eyðublaði, yfirlýsingu, staðfesta af löggiltum endurskoðanda, um að staða fjárvörslureiknings í banka þann 31. desember á umliðnu ári sé ekki lægri en staða vörslufjár skv. bókhaldi. Samtímis skal lögmaður senda stjórn Lögmannafélags Íslands samantekt og niðurstöðutölur skrár skv. 9. gr., staðfestar af löggiltum endurskoðanda.

12. gr.

Lögmaður sem opnar nýja lögmannsskrifstofu eða tekur við lögmannsskrifstofu sem annar lögmaður hefur rekið, skal tilkynna það stjórn Lögmannafélags Íslands innan mánaðar.

Áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að lögmaður hefur rekstur lögmannsskrifstofu skal hann senda stjórn Lögmannafélags Íslands yfirlýsingu um heildarfjárhæð vörslufjár fyrir umbjóðendur sína, miðað við dagsetningu sem stjórnin ákveður.

Lögmaður sem tekur við lögmannsskrifstofu sem annar lögmaður hefur rekið skal auk framangreinds tilkynna stjórn Lögmannafélags Íslands innan mánaðar að hann hafi yfirfarið og sannreynt rétta stöðu fjárvörslureikninga og verðbréfa skv. III. kafla sem hann tók við en ella tilkynna um frávik.

Tilkynningar skv. þessari grein skulu útbúnar og staðfestar með sama hætti og tilkynningar skv. 11. gr.

13. gr.

Stjórn Lögmannafélags Íslands getur hvenær sem er krafist þess að lögmaður láti henni í té, með fyrirvara sem stjórnin ákveður, yfirlýsingu og fylgigögn, sem getið er í 11. og 12. gr.

14. gr.

Ef færslu og meðferð lögmanns á fjárvörslureikningi eða verðbréfum er ábótavant eða brjóti lögmaður á annan hátt í bága við reglur þessar um meðferð vörslufjár og verðbréfa getur stjórn Lögmannafélags Íslands krafist þess af lögmanni að hann sendi stjórninni ársfjórðungslega eða oftar yfirlýsingu og nauðsynleg fylgigögn um vörslufé fyrir umbjóðendur sína.

15. gr.

Þegar svo stendur á, sem lýst er í 14. gr., eða stjórn Lögmannafélags Íslands telur sérstaka ástæðu til, getur hún ákveðið að fela trúnaðarendurskoðanda sínum að rannsaka hvort lögmaður fari eftir reglum þessum og fullnægi bókhaldslögum að öðru leyti. Gefi rannsókn tilefni til getur stjórn Lögmannafélags Íslands ákveðið að honum sé óheimilt að ráðstafa innstæðum á fjárvörslureikningum eða verðbréfum, nema með leyfi trúnaðarmanns, sem stjórnin tilnefnir.

16. gr.

Lögmanni, sem stjórn Lögmannafélags Íslands hefur ákveðið að beina rannsókn að eða tilkynningum til, er skylt að láta stjórninni eða trúnaðarmanni hennar í té allar upplýsingar um rekstur sinn og efnahag, sem krafist kann að verða, svo og að veita aðgang að öllum bókhaldsgögnum og öðrum gögnum, sem sá, sem rannsókn annast, telur hafa þýðingu fyrir rannsóknina.

17. gr.

Lögmannafélag Íslands ber kostnað við rannsókn skv. 15. og 16. gr. Heimilt er félaginu að krefja lögmann þann er rannsóknin beinist að um greiðslu kostnaðar við rannsóknina enda sé hún yfirgripsmikil og leiði í ljós misfellur í starfi lögmannsins.

18. gr.

Gerist lögmaður brotlegur við ákvæði reglna þessara og sinnir ekki áskorun um að starfa í samræmi við þær ber stjórn Lögmannafélags Íslands að leggja til við dómsmálaráðherra að hann felli úr gildi réttindi lögmannsins skv. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn.

19. gr.

Reglur um fjárvörslureikninga og verðbréf gilda þar til innstæðu á reikningi skv. 4. gr. og verðbréfum hefur að fullu verið ráðstafað í samræmi við reglur þessar.

V. KAFLI Gildistaka.

20. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga um lögmenn, nr. 77 15. júní 1998 sbr. 14. gr. laga nr. 93/2004, öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um fjárvörslureikninga lögmanna o.fl. nr. 201/1999.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 15. desember 2005.

Björn Bjarnason.

Bryndís Helgadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.