Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 27. des. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 27. des. 2016 – 12. nóv. 2020 Sjá núgildandi

1165/2016

Reglugerð um fasta starfsstöð.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fasta starfsstöð samkvæmt 3. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Við túlkun ákvæðisins skal hafa hliðsjón af tvísköttunarsamningsfyrirmynd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

2. gr. Skilgreiningar.

Eftirfarandi hugtök skulu hafa þá þýðingu sem fyrir mælir í þessari reglugerð:

  1. Föst starfsstöð: Föst atvinnustöð þar sem starfsemi fyrirtækis fer að nokkru eða öllu leyti fram. Hugtakið tekur einkum til:

    1. aðseturs framkvæmdastjórnar,
    2. útibús,
    3. skrifstofu,
    4. verksmiðju,
    5. verkstæðis og
    6. námu, olíu- eða gaslindar, grjótnámu eða annars staðar þar sem náttúruauðlindir eru nýttar.
  2. Fyrirtæki: Aðili sem stundar hvers kyns starfsemi sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi.
  3. Milligönguaðili: Aðili sem kemur fram fyrir hönd erlends fyrirtækis, svo sem miðlari, umboðsmaður eða umboðsaðili.
  4. Háður milligönguaðili: Aðili sem kemur fram fyrir hönd erlends fyrirtækis í samningagerð og hefur heimild til að ljúka samningum, eða á annan hátt gegnir lykilhlutverki í lúkningu samninga í nafni fyrirtækisins, án þess að það geri efnislegar breytingar á samningunum.
  5. Óháður milligönguaðili: Aðili sem kemur fram fyrir hönd erlends fyrirtækis innan marka venjulegs atvinnureksturs síns við samningagerð en gerir ekki samninga í nafni fyrirtækisins án þess að það geti gert efnisbreytingar á samningum sem gerðir eru í þess nafni. Komi milligönguaðili aftur á móti fram fyrir hið erlenda fyrirtæki að öllu eða mestu leyti og samningar milli hans og fyrirtækisins eru frábrugðnir þeim samningum sem eru milli óskyldra aðila, skal hann teljast háður milligönguaðili, sbr. 4. tölul.
  6. Undirbúnings- og aðstoðarstarfsemi: Starfsemi sem er til undirbúnings eða til aðstoðar aðalstarfsemi erlends fyrirtækis, þ.m.t. að nýta aðstöðu til geymslu gagna, sýningar eða birgðahalds á vörum eða öflunar upplýsinga fyrir fyrirtækið. Slík starfsemi telst ekki vera nauðsynlegur eða órjúfanlegur hluti af heildarstarfsemi fyrirtækis.
  7. Netþjónar og tengdur tölvubúnaður: Tölvuforrit eða vélbúnaður og tölvur sem virkja annan vélbúnað, tölvur eða tölvuforrit og deilir til þeirra gögnum og upplýsingum. Með tengdum búnaði er átt við búnað sem er nauðsynlegur þáttur í virkni netþjóns og nýtist eingöngu umráðanda viðkomandi netþjóns.
  8. Aðilar með náin tengsl við fyrirtæki: Aðilar teljast hafa náin tengsl við fyrirtæki ef annar aðilinn hefur yfirráð yfir hinum eða báðir lúta yfirráðum sömu aðila að teknu tilliti til allra staðreynda og aðstæðna er máli skipta. Í öllu falli teljast tveir aðilar hafa náin tengsl ef annar aðilinn á beint eða óbeint meira en helming raunverulegs hlutar í hinum aðilanum eða fer með meira en helming heildaratkvæða og á meira en helming heildarverðmætis hlutabréfa eða raunverulegrar eignarhlutdeildar ef um félag er að ræða eða ef þriðji aðili á beint eða óbeint meira en helming raunverulegs hlutar í báðum aðilum eða fer með meira en helming heildaratkvæða og á meira en helming heildarverðmætis hlutabréfa eða raunverulegrar eignarhlutdeildar ef um félag er að ræða.

3. gr. Skattskylda vegna fastrar starfsstöðvar.

Þeir aðilar sem reka hér á landi fasta starfsstöð, taka þátt í rekstri fastrar starfsstöðvar eða njóta hluta af ágóða slíkrar starfsstöðvar skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eftirfarandi viðmið skulu höfð til hliðsjónar við mat á því hvort föst starfsstöð aðila sé til staðar hér á landi:

  1. um er að ræða fasta atvinnustöð, til að mynda aðstöðu eins og húsakynni, lóð, landareign, athafnasvæði, framkvæmdasvæði, vélbúnað eða tækjabúnað þar sem starfsemi fyrirtækis fer fram,
  2. aðstaðan þarf að vera "föst" í þeim skilningi að hún sé á tilteknum stað og standi yfir í ákveðinn tíma,
  3. starfsemin fer fram út frá föstu atvinnustöðinni. Í þessu felst að meginstefnu til að starfsmenn eða verktakar á vegum þess fyrirtækis sem telst vera með fasta atvinnustöð hér á landi starfrækja starfsemi eða gera fyrirtæki kleift að reka starfsemi út frá aðstöðu fyrirtækisins hér á landi.

4. gr. Starfsemi sem felur ekki í sér fasta starfsstöð.

Þrátt fyrir ákvæði reglugerðar þessarar tekur hugtakið "föst starfsstöð" ekki til þeirrar starfsemi sem tilgreind er í eftirfarandi stafliðum, enda telst hún vera til undirbúnings eða til aðstoðar aðalstarfsemi erlends fyrirtækis:

  1. nýtingar aðstöðu sem einskorðuð er við geymslu, sýningu eða afhendingu á vörum eða varningi í eigu fyrirtækis,
  2. birgðahalds á vörum eða varningi í eigu fyrirtækis sem eingöngu er ætlað til geymslu, sýningar eða afhendingar,
  3. birgðahalds á vörum eða varningi í eigu fyrirtækis sem eingöngu er ætlaður til vinnslu hjá öðru fyrirtæki,
  4. fastrar atvinnustöðvar sem eingöngu er notuð í sambandi við kaup á vörum eða varningi eða öflun upplýsinga fyrir fyrirtæki,
  5. fastrar atvinnustöðvar sem eingöngu er notuð til að annast sérhverja aðra starfsemi fyrir fyrirtæki,
  6. umráða fyrirtækis yfir netþjónum og tengdum tölvubúnaði hér á landi,
  7. fastrar atvinnustöðvar sem nýtt er eingöngu til að reka hvers konar starfsemi sem samsett er úr þáttum sem falla undir a-f-liði þessarar málsgreinar.

Ákvæði 1. mgr skal ekki gilda um fasta atvinnustöð sem er notuð eða starfrækt af fyrirtæki hér á landi, ef fyrirtækið eða fyrirtæki sem það hefur náin tengsl við hafa með höndum starfsemi á sama stað eða á öðrum stað hér á landi og

  1. fyrirtækið eða fyrirtæki sem það hefur náin tengsl við teljast hafa myndað fasta starfsstöð á þeim stað eða öðrum stað hér á landi, eða
  2. heildarstarfsemi beggja fyrirtækja á sama staða eða fyrirtækisins og fyrirtækja sem það hefur náin tengsl við á þeim sama stað eða öðrum stað hér á landi, felst ekki í því að vera undirbúnings- eða aðstoðarstarfsemi, samkvæmt a-g-liðum 1. mgr.,

að því tilskildu að starfsemi fyrirtækjanna eða sama fyrirtækis og fyrirtækis sem það hefur náin tengsl við á þeim stað eða öðrum stað myndi samverkandi aðgerðir sem bæta hvor aðra upp og eru hluti af samþættri starfsemi fyrirtækjanna.

5. gr. Byggingarstarfsemi.

Byggingarsvæði eða byggingar- eða uppsetningarframkvæmd þ.m.t. samsetningarvinna telst vera föst starfsstöð ef hún stendur lengur yfir en sex mánuði. Tímabilið telst frá upphafi verks og til verkloka. Reikna skal með þann tíma sem til fellur vegna rofs á verkframkvæmdum þegar metið er hvort framkvæmdir standi lengur yfir en sex mánuði og skiptir ekki máli í þessu sambandi af hvaða orsökum verkrof verður. Sama á við sé verki skipt niður í smærri áfanga.

Byggingarsvæði eða byggingar- eða uppsetningarframkvæmd þ.m.t. samsetningarvinna skal vera álitið sem eitt svæði eða ein framkvæmd þrátt fyrir að fleiri en einn samningur liggi að baki framkvæmdum, þó að því gefnu að samningarnir tengist með viðskiptalegum og landfræðilegum hætti og að um aðila með náin tengsl við fyrirtæki sé að ræða.

Ekki skiptir máli hvort að samningi hafi verið skipt upp og hlutum hans útvistað til aðila með náin tengsl við fyrirtæki við mat á því hvort að fyrirtæki myndi fasta starfsstöð hér á landi í skilningi 1. og 2. mgr. Þegar þannig háttar til skal litið á tímabil kaupa eða framkvæmda hjá fyrirtæki og aðilum með náin tengsl við fyrirtæki sem eina heild við mat á því hvort að föst starfsstöð sé til staðar hér á landi skv. 1. málsl. 1. mgr.

6. gr. Milligönguaðilar.

Ef háður milligönguaðili hefur aðkomu að samningagerð fyrir erlent fyrirtæki og samningar eru:

  1. í nafni viðkomandi fyrirtækis eða
  2. varða yfirfærslu eignarréttar eða veitingu notkunarréttar á eign í eigu fyrirtækis eða eign sem fyrirtæki hefur umráðarétt yfir eða rétt til notkunar á eða
  3. eru komnir til vegna þjónustustarfsemi fyrirtækis hér á landi,

skal fyrirtækið teljast hafa fasta starfsstöð vegna hvers konar starfsemi sem milligönguaðilinn hefur með höndum fyrir fyrirtækið. Þetta á þó ekki við ef starfsemi milligönguaðilans er takmörkuð við þá starfsemi sem um ræðir í 4. gr. og felur þar af leiðandi ekki í sér myndun fastrar starfsstöðvar samkvæmt ákvæðum þeirrar greinar.

Fyrirtæki skal ekki teljast hafa fasta starfsstöð hér á landi samkvæmt 1. mgr., ef það hefur með höndum starfsemi út frá óháðum milligönguaðila sem kemur fram innan venjulegs atvinnurekstrar þess. Komi milligönguaðili hins vegar einvörðungu eða næstum einvörðungu fram fyrir hönd eins fyrirtækis eða fleiri, sem hann hefur náin tengsl við, sbr. 8. tölul. 2. gr., skal sá milligönguaðili ekki talinn vera óháður aðili í skilningi þessarar málsgreinar að því er varðar slík fyrirtæki. Við mat á því hvort milligönguaðili sé háður eða óháður skal m.a. líta til tímalengdar vinnu eða verkefnis, sjálfstæðis ásamt inntaki skilgreininga í 4. og 5. tölul. 2. gr.

Við mat á því hvort að samningur sé bindandi milli fyrirtækis og viðsemjenda þess með aðkomu milligönguaðila, skal líta til allra atriða við samningsgerðina, t.a.m. samþykkis milligönguaðila, undirritunar hans undir skjöl o.fl. Þrátt fyrir að undirritun samnings fari fram erlendis skal slík undirritun þó ekki ein og sér leiða til þess að fyrirtæki myndi ekki fasta starfsstöð á Íslandi, ef að önnur atriði við samningsgerðina benda til þess að fyrirtæki myndi fasta starfsstöð hér á landi með aðkomu háðs milligönguaðila.

7. gr. Netþjónar.

Líta skal til almennra viðmiða ákvæðis 3. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og ákvæða reglugerðar þessarar við mat á því hvort að föst starfsstöð sé til staðar hér á landi vegna reksturs netþjóna í umráðum erlends fyrirtækis.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal erlent fyrirtæki sem aðeins hefur umráð yfir netþjónum og tengdum tölvubúnaði ekki teljast hafa myndað fasta starfsstöð hér á landi ef starfsemin sem fram fer í netþjónum eða tengdum tölvubúnaði felst eingöngu í að annast undirbúnings- eða aðstoðarstarfsemi fyrirtækisins, sbr. 4. gr.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 7. mgr. 3. gr. a laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tekur gildi 1. janúar 2017.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 19. desember 2016.

F. h. r.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.

Ása Ögmundsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.