Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 21. nóv. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 12. júní 2021

1152/2011

Reglugerð um einkennisfatnað lögreglunnar.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um einkennisfatnað og merkingar lögreglunnar. Öllum öðrum en lögreglu er óheimilt að nota einkenni, merki og/eða einkennisfatnað lögreglu opinberlega eða í ólögmætum tilgangi, eða einkenni/merki eða fatnað sem er svo áþekkur þeim er lögregla notar, að hætta er á að á verði villst. Brot á þessari reglugerð geta varðað refsingu sbr. 117. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Allir þeir sem taldir eru upp í 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 eiga kost á að fá úthlutað einkennisfatnaði. Við afgreiðslu einkennisfatnaðar lögreglu skal taka fullt tillit til þess að fatnaður henti báðum kynjum.

Öllum lögreglumönnum sem skipaðir eru til starfa samkvæmt 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er skylt að eiga tiltækan einkennisfatnað.

Ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar, aðstoðarlögreglustjórar, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins og staðgenglar lögreglustjóra fá einkennisfatnað samkvæmt reglugerð þessari.

2. gr. Skýringar.

Með lögreglumerki í reglugerð þessari er átt við íslenska lögreglumerkið og önnur einkenni lögreglunnar sbr. reglugerð um einkenni og merki lögreglunnar nr. 1151/2011.

Með einkennisfatnaði lögreglu er átt við þann einkennda lögreglufatnað sem ríkislögreglustjóri hefur samþykkt til notkunar hjá lögreglu.

II. KAFLI Einkennisfatnaður lögreglu.

3. gr. Lögreglunúmer.

Allir lögreglumenn, sem lokið hafa prófi frá Lögregluskóla ríkisins, svo og lögreglunemar, fá úthlutað fjögurra stafa lögreglunúmeri. Ríkislögreglustjóri annast úthlutun lögreglunúmera.

Fyrstu tveir stafir númersins ráðast af byrjunarári í lögreglu en þeir tveir síðari segja til um röðun þeirra sem ráðnir eru á sama ári. Ef tveir eða fleiri byrja á sama tíma skal sá sem eldri er fá lægra númer.

Númerin skulu vera ísaumuð gylltum þræði í svartan efnisbút, sem er 25 x 47 mm í þvermál. Númerin eru 12 mm á hæð og 37 mm á lengd (4 tölustafir). Letrið er gyllt og saumað með blokkskrift. Lögreglunúmer er saumað á smeyga á fatnaði lögreglumanna. Lögreglunúmer á ekki að nota á jakka 1.

Afleysingamenn og héraðslögreglumenn fá úthlutað svokölluðu "H-númeri", sem byrjar á bókstafnum H og er í hlaupandi númeraröð (H001-H9999), sem raðað er eftir skráðum byrjunardegi. Þegar tveir eða fleiri eru ráðnir á sama tíma gildir sama regla og um fastráðna lögreglumenn. Afleysingamenn, sem ekki hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, svo og héraðslögreglumenn, bera ekki lögreglunúmer á einkennisfatnaði sínum.

Aldrei má úthluta lögreglunúmeri sem annar maður hefur borið. Ríkislögreglustjóri getur sett nánari reglur um lögreglunúmer.

4. gr. Hátíðarfatnaður.

Hátíðarfatnaður lögreglunnar er svartur síður jakki og svartar buxur, hvít skyrta, svart bindi, svartir sokkar, svartir lágir skór og hvítir hanskar. Einkennishúfa er með hvítum kolli og merki lögreglunnar úr málmi. Svartur einhnepptur regnfrakki er með einkennistölum. Ekki er heimilt að nota annan fatnað við hátíðarfatnaðinn né að nota hátíðarfatnaðinn með öðrum fatnaði.

Þrátt fyrir 1. mgr. er yfirmönnum lögreglu heimilt að nota hvíta einkennisskyrtu með almennum lögreglufatnaði.

5. gr. Almennur lögreglufatnaður.

Almennur einkennisfatnaður er svartur að aðallit og samanstendur af einkennishúfu, jakka, samfestingi, peysu, skyrtu, buxum, bindi, skóm, hönskum, bol og regnfötum. Fatnaðurinn er með axlarsprotum sem á eru dregnir smeygar með viðeigandi stöðueinkennum. Lögreglumerki eru á báðum ermum. Á baki og hægra megin á brjósti er merkið "Lögreglan" en vinstra megin á brjósti merkið "Police". Ríkislögreglustjóra er heimilt í sérstökum tilvikum að merkja einnig með merkinu "Police" á baki.

6. gr. Lögreglustjórafatnaður.

Ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjórar, lögreglustjórar, aðstoðarlögreglustjórar, staðgenglar lögreglustjóra sem jafnframt eru sýslumenn og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins fá úthlutað einkennisfatnaði og klæðast einkennisfatnaði. Lögreglustjórum er heimilt að klæðast öllum almennum lögreglufatnaði, en skulu þá bera viðeigandi einkenni lögreglustjóra.

Ofangreindum er ekki skylt að klæðast einkennisfatnaði við dagleg störf en skulu að jafnaði klæðast einkennisfatnaði við opinber eða hátíðleg tækifæri, sérstakar móttökur og önnur viðeigandi tækifæri.

Lögreglustjórum er jafnframt heimilt að fá greiddan fatakostnað sem samsvarar allt að 100.000 krónum á ári.

7. gr. Óeinkennisklæddir lögreglumenn.

Lögreglustjóri getur heimilað lögreglumönnum að starfa óeinkennisklæddir við sérstök lögregluverkefni þar sem löggæsluþörf kallar á slíkt. Við slík störf er lögreglumönnum heimilt að einkenna sig með því að klæðast húfu 3 og/eða einkennisvesti.

Ákveði lögreglustjóri að einstakir lögreglumenn gangi í borgaralegum fatnaði, enda sé það óhjákvæmilegt starfsins vegna, er heimilt að greiða óeinkenndum lögreglumönnum fatakostnað sem samsvarar allt að 100.000 krónum á ári. Álitaefnum um hvort þörf sé á slíku í einstökum tilfellum getur lögreglustjóri skotið til ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.

8. gr. Sérstakur lögreglufatnaður.

Sérstakur lögreglufatnaður er vinnufatnaður einstakra starfseininga innan lögreglunnar svo sem einkennisfatnaður bifhjólamanna, tæknideildar og öryggisfatnaður þ.m.t. sérsveitar.

9. gr. Útvegun einkennisfatnaðar o.fl.

Lögreglustjórar útvega einkennisfatnað og annan búnað fyrir lögreglumenn skv. þörfum. Þeim ber að halda skrá yfir einkennisfatnað, tækjabelti og annan tilheyrandi búnað sem þeir afhenda. Ekki er heimilt að nota annan fatnað eða búnað en þann sem ríkislögreglustjóri hefur samþykkt til notkunar.

Lögreglustjórum ber að haga viðskiptum með einkennisfatnað og annan búnað samkvæmt þessari reglugerð í samræmi við fyrirmæli ríkislögreglustjóra.

Lögreglustjórar bera ábyrgð á því að lögreglumenn hirði vel um einkennisfatnaðinn og fái hann þrifinn eftir þörfum.

Eðlileg þrif einkennisfatnaðar lögreglustjóra og lögreglumanna eru greidd af viðkomandi aðila. Fatnaður skal hreinsaður eftir þörfum samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Meiriháttar tjón á einkennisfatnaði, sem rekja má til starfsins skal bætt með nýjum einkennisfatnaði.

10. gr. Eignarheimild og skil á einkennisfatnaði.

Einkennisfatnaði, ásamt tilheyrandi einkennum og búnaði sem lögreglumaður hefur fengið afhent ber að skila til viðkomandi lögreglustjóra við starfslok. Einkennisfatnaður og búnaður eru eign lögreglunnar.

11. gr. Notkun einkennisfatnaðar utan lögreglustarfs.

Lögreglumönnum er óheimilt að nota einkennisfatnaðinn utan lögreglustarfs, nema með heimild lögreglustjóra. Ef um er að ræða notkun erlendis skal óska heimildar ríkislögreglustjóra.

Ekki er heimilt að afhenda einkennisfatnað eða lögreglubúnað utanaðkomandi aðila nema með sérstakri heimild ríkislögreglustjóra.

12. gr. Lán eða leiga lögreglufatnaðar og búnaðar.

Lögreglustjórum er heimilt við sérstök undantekningartilvik að lána einkennisfatnað og lögreglubúnað.

Um útlán eða leigu einkennisfatnaðar gilda eftirfarandi reglur:

  1. Lögreglustjórum er heimilt að samþykkja útleigu á lögreglufatnaði til kvikmyndafyrirtækja vegna notkunar við gerð kvikmynda. Heimild til útláns skal stíluð á viðkomandi kvikmyndagerðarfyrirtæki samkvæmt leigusamningi sem lögreglustjóri staðfestir.
  2. Notkun á lögreglufatnaði skal takmörkuð við viðkomandi kvikmynd og meðan á tökum stendur. Óheimilt er að nota lögreglufatnaðinn við aðstæður sem teljast augljóslega vanvirðandi fyrir lögreglustarfið.
  3. Tilkynna skal hlutaðeigandi lögreglustjóra um allar kvikmyndatökur utandyra með hæfilegum fyrirvara.
  4. Óheimilt er að samþykkja lán eða leigu á lögreglufatnaði vegna auglýsinga nema um sé að ræða sérstakar forvarnarauglýsingar svo sem varðandi umferðaröryggi.
  5. Ökutæki lögreglu skulu ekki lánuð eða leigð en lögreglustjórum er heimilt að leggja til ökutæki með áhöfn vegna kvikmyndagerðar, ef þeir svo kjósa.
  6. Lán eða leiga lögregluökutækja vegna auglýsingagerðar er óheimil nema um sé að ræða sérstakar forvarnarauglýsingar svo sem varðandi umferðaröryggi.
  7. Óheimilt er að lána eða leigja annan lögreglubúnað hvort heldur er vegna kvikmyndagerðar, auglýsingagerðar eða annarra tilfella.

III. KAFLI Einkennisfatnaður í Lögregluskóla ríkisins.

13. gr. Lögreglunemar.

Fatnaður lögreglunema á fyrri önn grunnnáms er samkvæmt ákvörðun skólastjóra. Fatnaður lögreglunema í starfsþjálfun á síðari önn grunnnáms skal vera almennur einkennisfatnaður og búnaður lögreglumanna. Lögregluskóli ríkisins ber kostnað af fatnaði og búnaði lögreglunema sem þeim er úthlutað samkvæmt reglugerð þessari.

Skólastjóra er heimilt að ákveða að við störf í skólanum noti lögreglunemar annan nauðsynlegan fatnað. Fatnaður má vera merktur skólanum.

14. gr. Úthlutun og skil.

Lögreglunemum er einungis heimilt að nota fatnað þann og búnað sem þeir hafa fengið úthlutað samkvæmt reglugerð þessari við nám í Lögregluskóla ríkisins og við lögreglustörf ef því er að skipta.

Ef lögreglunemi hættir námi eða nær ekki tilskildum árangri í prófum námsannar, ber honum að skila þeim fatnaði og búnaði sem hann hefur fengið úthlutað þegar í stað.

Lögregluskóli ríkisins ber kostnað af einkennisfatnaði og búnaði lögreglumanna sem reglugerð þessi tekur til og starfa í fullu starfi við skólann.

IV. KAFLI Nánari útfærsla.

15. gr. Nafnmerki.

Lögreglustjórar geta ákveðið að lögreglumenn skuli bera nafnmerki í skyrtu og peysu innandyra. Ríkislögreglustjóri getur sett samræmdar reglur um nafnmerki og notkun þeirra, bæði innan- og utanhúss.

16. gr. Snyrtilegt útlit.

Einkennisfatnaður lögreglunnar er hluti af ásýnd lögreglunnar gagnvart almenningi. Það leggur þær kvaðir á lögreglumenn að hugsa vel um útlit sitt og einkennisfatnaðarins og að þeir beri hann með reisn. Öllum lögreglumönnum ber að vera snyrtilegir í útliti við lögreglustörf. Þeir skulu sýna sjálfum sér, einkennisfatnaði sínum og starfinu tilhlýðilega virðingu.

Hár skal vera hreint, vel klippt og snyrtilegt. Óheimilt er að lita það óvenjulegum eða skærum litum. Hár karla má ekki ná yfir skyrtukraga. Hár síðhærðra kvenna skal við störf vera tekið upp í hnút eða í eina fasta fléttu eða tagl í hnakka. Skegg skal vera vel snyrt. Af öryggisástæðum má það ekki vera sítt. Óheimilt er að lita það í óvenjulegum eða skærum litum.

Húðflúr og litstungur skulu ekki vera sýnileg við lögreglustörf. Þeir lögreglumenn sem eru við störf við gildistöku reglugerðarinnar og hafa húðflúr og litstungur sem ekki er hægt að hylja eru undanskildir frá framangreindri kröfu.

Neglur á fingrum skulu vera stuttklipptar. Lögreglumenn mega ekki við störf bera naglalakk í áberandi eða skærum litum.

17. gr. Skartgripir.

Hringir skulu af öryggisástæðum vera látlausir. Þeir mega ekki vera útstæðir, með hvössum hornum eða brúnum sem geta skaðað fólk eða festst í fatnaði eða öðru og valdið tjóni. Lögreglumenn mega ekki við lögreglustörf bera fleiri en tvo hringa að meðtöldum giftingar- eða trúlofunarhring.

Lögreglumenn mega bera látlausa eyrnalokka við lögreglustörf s.s. litlar perlur eða kúlur. Opnir eða lokaðir hringir og hangandi lokkar í eyrum eru af öryggisástæðum bannaðir. Lögreglumenn mega aðeins bera einn lokk í hvorum eyrnasnepli.

Lögreglumenn í starfi mega ekki bera skartgripi í andliti, s.s. í nefi, vörum eða augabrún.

18. gr. Fyrirmæli.

Ríkislögreglustjóri getur sett nánari fyrirmæli samkvæmt reglugerð þessari.

19. gr. Ágreiningsmál.

Innanríkisráðherra sker úr ágreiningi sem rísa kann vegna túlkunar á reglugerð þessari.

V. KAFLI Gildistaka.

20. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 40. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um einkennisfatnað, merki og búnað lögreglumanna nr. 8 frá 3. janúar 2007.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.