Prentað þann 21. des. 2024
1130/2016
Reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða.
Efnisyfirlit
1. gr. Heimild sem stæðiskort veitir.
Stæðiskort veitir handhafa þess heimild, í tengslum við flutning hans í ökutæki til að leggja ökutækinu í bifreiðastæði (stöðureit) sem eingöngu er ætlað fyrir hreyfihamlaðan einstakling og auðkennt er með þar til gerðu umferðarmerki, sbr. reglugerð um umferðarmerki, eða með öðrum sambærilegum hætti.
Handhafa stæðiskorts er heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði (stöðureit) án greiðslu.
2. gr. Umsýsla.
Sýslumenn gefa út stæðiskort fyrir hreyfihamlaðan einstakling á grundvelli læknisvottorðs, sbr. 3. gr.
Sótt er um stæðiskort með rafrænum hætti á vefnum Ísland.is, en einnig er hægt að sækja um á eyðublaði sem sýslumenn láta í té og aðgengilegt er á vefsíðu embættanna.
Stæðiskort skal gefa út í tiltekinn tíma, að hámarki í tíu ár, þó ekki skemur en sex mánuði.
Um málsmeðferð vegna útgáfu stæðiskorta fer að stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu skal, að höfðu samráði við landlæknisembættið, gefa út verklagsreglur um umsókn og útgáfu stæðiskorts samkvæmt reglugerð þessari.
3. gr. Skilyrði fyrir útgáfu stæðiskorts.
Skilyrði fyrir útgáfu stæðiskorts er að læknisvottorð liggi fyrir þar sem fram komi að sökum hreyfihömlunar sé umsækjanda nauðsyn, sem ökumaður eða farþegi í ökutæki, að geta lagt í bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða og í stöðureit án gjaldskyldu.
Við mat og afgreiðslu á beiðni um stæðiskort skulu almenn læknisfræðileg viðmið sem landlæknisembættið setur fram um heilsufar umsækjanda eða umbjóðenda umsækjanda í tilfelli stofnunar lögð til grundvallar, í samræmi við verklagsreglur skv. 5. mgr. 2. gr.
4. gr. Heimild þess sem flytur hreyfihamlaðan farþega.
Ökumaður ökutækis, sem skv. skráningarvottorði er sérstaklega útbúið fyrir hreyfihamlaðan einstakling í samræmi við ákvæði reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, hefur sömu heimild til að leggja ökutæki í bifreiðastæði (stöðureit) og stæðiskort veitir, sbr. 1. gr. Þetta á þó eingöngu við þegar verið er að flytja hreyfihamlaðan einstakling.
Stofnun eða heimili þar sem dvelja hreyfihamlaðir einstaklingar getur sótt um sameiginlegt stæðiskort fyrir bifreið í sinni eigu til flutnings fyrir hreyfihamlaða einstaklinga. Skilyrði fyrir útgáfu slíks korts er að það sé eingöngu notað við slíkan flutning en ekki við annars konar nýtingu bifreiðarinnar. Læknisfræðileg viðmið, sbr. 2. mgr. 3. gr., skulu lögð til grundvallar við mat á beiðni og afgreiðslu.
Heimild skv. 1. og 2. mgr. er bundin við þann tíma sem tekur að aðstoða farþega í eða úr ökutækinu og eftir atvikum að því og frá.
5. gr. Gerð og notkun stæðiskorts.
Útlit og stærð stæðiskorts skal vera í samræmi við ákvæði í viðauka við reglugerð þessa.
Þegar ökutæki er lagt í bifreiðastæði, skal stæðiskort sett innan við framrúðu þess, þannig að framhlið kortsins sjáist vel að utan.
Skylt er, sé þess krafist, að sýna stæðiskort lögreglumanni eða stöðuverði sem annast eftirlit með stöðureitum. Heimilt er að leggja hald á stæðiskort til bráðabirgða, vakni grunur um misnotkun þess.
6. gr. Erlent stæðiskort.
Heimilt er að nota stæðiskort hér á landi sem gefið er út af stjórnvöldum erlendra ríkja, enda beri stæðiskortið táknmynd áþekka þeirri sem viðauki við reglugerð þessa kveður á um.
7. gr. Afturköllun stæðiskorts.
Sýslumaður getur afturkallað stæðiskort ef í ljós kemur að það hefur verið misnotað eða handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum reglugerðar þessarar.
8. gr. Kæruheimild.
Synjun um útgáfu stæðiskorts samkvæmt og 2. og 3. mgr. 4. gr. og afturköllun samkvæmt 7. gr. er heimilt kæra til ráðuneytisins. Um málsmeðferð fer samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.
9. gr. Viðauki.
Viðauki um gerð og útlit stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða fylgir reglugerð þessari og er hluti hennar.
10. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 78. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, svo og með hliðsjón af tilmælum 98/376/EB, sbr. 90. tölulið XIII. viðauka við EES-samninginn. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 369/2000 með síðari breytingum.
Reglugerð þessi öðlast gildi þann 1. janúar 2017.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.