Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 23. nóv. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 19. des. 2012 – 1. maí 2020 Sjá núgildandi

1126/2012

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur stoðtækjafræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um stoðtækjafræðinga sem hafa starfsleyfi landlæknis skv. 2. gr.

II. KAFLI Starfsleyfi.

2. gr. Starfsheiti.

Rétt til að kalla sig stoðtækjafræðing og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis.

3. gr. Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

Leyfi skv. 2. gr. má veita þeim sem lokið hafa að minnsta kosti þriggja ára BS-námi í stoðtækjafræði frá háskóla sem viðurkenndur er sem slíkur af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað. Til grundvallar mati á námi skal nám í stoðtækjafræði á Norðurlöndunum haft til hliðsjónar.

Einnig má veita starfsleyfi á grundvelli menntunar frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi stoðtækjafræðings sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011.

Þá er heimilt að veita starfsleyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

Umsækjandi um starfsleyfi sem stoðtækjafræðingur, skv. 2. gr., frá ríki utan EES og Sviss sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skal meðal annars leggja fram gögn um ríkisfang, innihald náms og námslengd, ásamt prófskírteini, starfsleyfi ef starfsgreinin er löggilt í því landi sem umsækjandi kemur frá, fyrirhuguð störf hér á landi svo og önnur gögn og vottorð sem landlæknir telur nauðsynleg vegna útgáfu starfsleyfis.

Áður en umsókn um starfsleyfi er tekin til efnislegrar meðferðar þarf eftir atvikum að liggja fyrir staðfest afrit umsóknar um atvinnu- og dvalarleyfi ásamt undirrituðum ráðningarsamningi.

Heimilt er að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf svo og öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem talin eru nauðsynleg til að geta starfað sem stoðtækjafræðingur, einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga.

Hafi að mati landlæknis ekki verið sýnt fram á að nám umsækjanda uppfylli kröfur skv. 1. mgr. að teknu tilliti til starfsreynslu er heimilt að krefjast þess að umsækjandi gangist undir próf sem sýni fram á að hann búi yfir þeirri faglegu þekkingu og hæfni sem krafist er af stoðtækjafræðingi. Landlæknir skal skipuleggja prófið í samráði við Félag stoðtækjafræðinga.

Starfsleyfi skv. 3. mgr. er gefið út við komu umsækjanda til starfa hér á landi.

4. gr. Umsagnir.

Áður en leyfi er veitt skv. 2. gr. skal landlæknir leita umsagnar Félags stoðtækjafræðinga um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um menntun skv. 1. mgr. 3. gr. fyrir útgáfu starfsleyfis.

Landlækni er heimilt að leita umsagnar annarra aðila eftir þörfum.

III. KAFLI Réttindi og skyldur.

5. gr. Faglegar kröfur og ábyrgð.

Stoðtækjafræðingur skal sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við þær faglegu kröfur sem gerðar eru til stéttarinnar á hverjum tíma.

Stoðtækjafræðingi ber að þekkja skyldur sínar og virða siðareglur stéttarinnar, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

Stoðtækjafræðingur skal kynna sér þau lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli eftir því sem við á.

Stoðtækjafræðingur ber ábyrgð á starfi sínu í samræmi við þá menntun sem hann hefur hlotið.

Stoðtækjafræðingur skal virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

6. gr. Upplýsingaskylda og færsla sjúkraskrár.

Um upplýsingaskyldu stoðtækjafræðings gagnvart sjúklingi fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

Um skyldu stoðtækjafræðings til að veita landlækni upplýsingar, meðal annars vegna eftirlits og til gerðar heilbrigðisskýrslna, fer samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

Stoðtækjafræðingur skal, eftir því sem við á, færa sjúkraskrá samkvæmt ákvæðum laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.

7. gr. Aðstoðarmenn og nemar.

Stoðtækjafræðingur ber ábyrgð á því að aðstoðarmenn og nemar, sem starfa undir hans stjórn, hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar og tilsögn til að inna af hendi störf sem hann felur þeim.

8. gr. Trúnaður og þagnarskylda.

Stoðtækjafræðingur skal gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða er til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.

Samþykki sjúklings eða forráðamanns, ef við á, leysir stoðtækjafræðing undan þagnarskyldu.

Þagnarskylda samkvæmt þessari grein nær ekki til atvika sem stoðtækjafræðingi ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Í þeim tilvikum ber stoðtækjafræðingi skylda til að koma upplýsingum um atvik á framfæri við þar til bær yfirvöld.

Um trúnaðar- og þagnarskyldu stoðtækjafræðings gilda jafnframt ákvæði laga um réttindi sjúklinga, ákvæði laga um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

9. gr. Gjaldtaka.

Um gjaldtöku vegna útgáfu starfsleyfis fer skv. 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

Um gjaldtöku vegna hvers konar umsýslu landlæknis vegna umsókna um starfsleyfi til viðbótar gjaldi skv. 1. mgr. og vegna prófa í faglegri þekkingu og færni, fer samkvæmt reglugerð um gjaldtöku vegna umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi heilbrigðisstarfsmanna, nr. 951/2012.

10. gr. Almenn ákvæði.

Ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, laga um sjúkraskrár, nr. 55/2009, laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli gilda eftir því sem við á um stoðtækjafræðinga.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5., 30. og 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, öðlast gildi 1. janúar 2013. Frá sama tíma fellur brott reglugerð um menntun, réttindi og skyldur stoðtækjafræðinga, nr. 460/2007, með síðari breytingum.

Velferðarráðuneytinu, 11. desember 2012.

Guðbjartur Hannesson.

Vilborg Ingólfsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.