Prentað þann 21. des. 2024
1120/2023
Reglugerð um eftirlit með flutningi á hlutum með tvíþætt notagildi.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um hvers konar flutning, miðlunarþjónustu og tækniþjónustu í tengslum við hluti með tvíþætt notagildi eins og þeir eru skilgreindir í reglugerð þessari.
Um flutning á hergögnum og varnartengdum vörum gildir reglugerð um flutning á hergögnum og varnartengdum vörum.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari merkir:
- Flutningur: útflutningur, umflutningur, endurútflutningur, gegnumferð, umferming og miðlun.
- Hernaðarleg not: notkun hlutar eða íhlutar í hergögnum, notkun á framleiðslu-, prófunar- eða greiningarbúnaði og íhlutum í slíkan búnað, til þróunar, framleiðslu eða viðhalds á hergögnum og notkun á hvers konar ófullunnum hlutum í verksmiðju sem framleiðir hergögn.
- Hlutir fyrir neteftirlit: hlutir með tvíþætt notagildi sem eru sérhannaðir til að hafa leynilegt eftirlit með einstaklingum með því að vakta, draga út eða greina gögn frá upplýsinga- og fjarskiptakerfum.
- Hlutir með tvíþætt notagildi: hlutir, þ.m.t. hugbúnaður og tækni, sem nota má bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi, þ.m.t. hlutir sem nota má við hönnun, þróun, framleiðslu eða notkun kjarnavopna, efnavopna eða lífefnavopna eða burðarkerfa þeirra, þ.m.t. allir hlutir sem nota má bæði þannig að þeir springi ekki og þannig að þeir nýtist á einhvern hátt við framleiðslu kjarnavopna eða annars kjarnasprengibúnaðar.
- Miðlari: einstaklingur eða lögaðili sem veitir miðlunarþjónustu.
- Miðlunarþjónusta: tekur til samningaviðræðna eða fyrirkomulags viðskipta vegna innkaupa, sölu eða afhendingar hluta með tvíþætt notagildi til og frá öðrum ríkjum en Íslandi og sölu eða kaupa á hlutum með tvíþætt notagildi sem staðsettir eru utan Íslands vegna tilflutnings til annars ríkis en Íslands.
- Tækniaðstoð: tæknilegur stuðningur í tengslum við viðgerðir, þróun, framleiðslu, samsetningu, prófun, viðhald eða hvers konar aðra tæknilega þjónustu og getur verið í formi kennslu, ráðgjafar, þjálfunar, yfirfærslu þekkingar eða kunnáttu, þ.m.t. rafrænt, svo og í gegnum síma eða með annars konar munnlegri aðstoð.
- Útflutningur: er útflutningur og umflutningur í skilningi tollalaga, nr. 88/2005, svo og endurútflutningur, með eða án endurgjalds. Hugtakið gildir einnig um flutning á hugbúnaði eða tækni með rafrænum miðlum, þ.m.t. með bréfsíma, síma, tölvupósti eða á annan rafrænan hátt til annars ríkis. Það felur í sér að gera slíkan hugbúnað og tækni tiltæk á rafrænu formi eða munnlega yfirfærslu tækni þegar tækni er lýst í gegnum talflutningamiðil fyrir einstakling eða lögaðila í öðru ríki.
- Útflytjandi: aðili sem hefur heimild til að ákveða að hlutur verði sendur frá Íslandi, hefur ávinning af rétti til að ráðstafa hlut til útflutnings eða hefur meðferðis hlut sem á að flytja út og geymdur er í einkafarangri þess aðila.
- Vopnasölubann: tekur til þvingunaraðgerða í formi banns við sölu á vopnum, sem innleiddar eru samkvæmt lagaákvæðum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, nr. 68/2023.
3. gr. Innleiðing.
Eftirtalin gerð Evrópusambandsins um eftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi skal öðlast gildi hér á landi, með þeirri aðlögun sem getið er í 4. gr.:
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/821 frá 20. maí 2021 um að koma á reglum Sambandsins um eftirlit með útflutningi, miðlun, tæknilegri aðstoð, tilflutningi og flutningi hluta með tvíþætt notagildi. Reglugerðin er birt á vef Stjórnartíðinda ESB:
https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX%3A32021R0821.
4. gr. Aðlögun.
Gerð skv. 3. gr. skal aðlöguð með eftirfarandi hætti:
- ákvæði varðandi ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða aðildarríki Evrópusambandsins ("EB", "ESB", "Bandalagsins" eða "sameiginlega markaðarins") eiga við um íslenska ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða Ísland, eftir því sem við á,
- ákvæði um tilkynningar eða skýrslugerðir til aðildarríkja Evrópusambandsins eða stofnana gilda ekki. Hið sama á við um ákvæði um gildistöku eða hvenær gerðir skuli koma til framkvæmda,
- tilvísanir í gerðir, sem eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), eiga við um þau ákvæði íslensks réttar sem innleiða þær gerðir, eftir því sem við á, og
- tilvísanir í gerðir, sem eru ekki hluti EES-samningsins, eiga við um hliðstæð ákvæði íslensks réttar, eftir því sem við á, þ.m.t. ákvæði tollalaga nr. 88/2005.
Gerð sem tilgreind er í 3. gr. bindur einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir án frekari lögfestingar, eftir því sem við getur átt.
Ákvæði sem varða tilflutning á hlutum með tvíþætt notagildi og öðru milli ríkja Evrópusambandsins eiga við um flutning til EES-ríkja.
Síðari breytingar og uppfærslur á lista yfir hluti með tvíþætt notagildi í viðauka I og almennu útflutningsleyfi Evrópusambandsins í viðauka II við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/821, sbr. 1. tl. 3. gr. reglugerðar þessarar, öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins (http://eurlex.europa.eu), sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit, nr. 67/2023.
5. gr. Leyfisskylda.
Enginn má flytja út hluti með tvíþætt notagildi eins og þeir eru nánar skilgreindir í viðauka I við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/821, sbr. 1. tl. 3. gr.
Enginn má flytja út hluti með tvíþætt notagildi sem ekki falla undir 1. mgr. ef útflytjanda er kunnugt um, hann má ætla eða utanríkisráðuneytið tilkynnir honum að þeir séu eða kunni að vera ætlaðir, í heild eða að hluta:
- til notkunar í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða við þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn,
- til hernaðarlegra nota ef innkaupalandið eða viðtökulandið sætir vopnasölubanni,
- í tengslum við hryðjuverk, bælingu innan lands og/eða alvarleg brot á mannréttindum og mannúðarlögum eða þannig að það ógni varnar- eða öryggishagsmunum Íslands eða bandalagsríkja, eða
- til notkunar sem hlutir eða íhlutir í hlut til hernaðarlegra nota og sem hafa verið fluttir frá Íslandi án leyfis eða í trássi við leyfi sem mælt er fyrir um í lögum.
Enginn má flytja út hluti fyrir neteftirlit sem ekki falla undir 1. mgr., ef utanríkisráðuneytið hefur tilkynnt útflytjandanum að hlutirnir sem um ræðir séu eða kunni að vera ætlaðir, í heild eða að hluta, til notkunar í tengslum við bælingu innan lands og/eða alvarleg brot á mannréttindum og alþjóðlegum mannúðarlögum.
Ef útflytjandi hefur vitneskju um að hlutir til neteftirlits sem hann fyrirhugar að flytja út en ekki falla undir 1. mgr. séu ætlaðir, í heild eða að hluta, til einhverra þeirra nota sem um getur í 3. mgr. skal hann tilkynna utanríkisráðuneytinu um slíkt. Utanríkisráðuneytið tekur ákvörðun um hvort gera eigi viðkomandi útflutning leyfisskyldan.
Enginn má veita miðlunarþjónustu í tengslum við hluti með tvíþætt notagildi, nema með leyfi ráðherra, ef utanríkisráðuneytið hefur tilkynnt miðlaranum að hlutirnir sem um ræðir séu eða kunni að vera ætlaðir, í heild eða að hluta, til einhverra þeirra nota sem um getur í 2. mgr.
Ef miðlari fyrirhugar að veita miðlunarþjónustu í tengslum við hluti með tvíþætt notagildi skv. 1. mgr. og hann hefur vitneskju um að þeir hlutir séu ætlaðir, í heild eða að hluta, til einhverra þeirra nota sem um getur í 2. mgr. skal miðlarinn tilkynna utanríkisráðuneytinu um það. Utanríkisráðuneytið tekur ákvörðun um hvort gera eigi viðkomandi útflutning leyfisskyldan.
Enginn má veita tækniaðstoð í tengslum við hluti með tvíþætt notagildi, nema með leyfi ráðherra, ef utanríkisráðuneytið hefur tilkynnt veitanda tækniaðstoðar að hlutirnir sem um ræðir séu eða kunni að vera ætlaðir, í heild eða að hluta, til einhverra þeirra nota sem um getur í 2. mgr.
Ef veitandi tækniaðstoðar fyrirhugar að veita tækniaðstoð í tengslum við hluti með tvíþætt notagildi skv. 1. gr. og hann hefur vitneskju um að þeir hlutir séu ætlaðir, í heild eða að hluta, til einhverra þeirra nota sem um getur í 2. mgr. skal veitandi tækniaðstoðar tilkynna utanríkisráðuneytinu um það. Utanríkisráðuneytið tekur ákvörðun um hvort gera eigi viðkomandi útflutning leyfisskyldan.
6. gr. Leyfisveiting.
Ráðherra er heimilt að gefa út eða innleiða eftirfarandi tegundir útflutningsleyfa:
- Stakt leyfi: leyfi sem veitt er einum tilgreindum útflytjanda fyrir einn endanlegan notanda eða viðtakanda í öðru ríki og sem nær yfir einn eða fleiri hluti með tvíþætt notagildi.
- Heildarútflutningsleyfi: leyfi sem veitt er einum tilgreindum útflytjanda, að því er varðar tegund eða flokk hluta með tvíþætt notagildi, sem getur gilt fyrir útflutning til eins eða fleiri tilgreindra endanlegra notenda og/eða í einu eða fleiri tilgreindum ríkjum.
- Útflutningsleyfi vegna umfangsmikilla verkefna: stakt útflutningsleyfi sem veitt er einum tilgreindum útflytjanda, að því er varðar tegund eða flokk hluta með tvíþætt notagildi, sem getur gilt fyrir útflutning til eins eða fleiri tilgreindra endanlegra notenda í einu eða fleiri tilgreindum ríkjum að því er varðar tilgreint umfangsmikið verkefni.
- Almennt útflutningsleyfi: útflytjendum skal heimill útflutningur á hlutum með tvíþætt notagildi samkvæmt almennu útflutningsleyfi, vegna útflutnings til tiltekinna viðtökulanda, að uppfylltum sérstökum skilyrðum og kröfum um notkun, sbr. 8. gr.
7. gr. Umsókn um leyfi.
Umsókn um leyfi fyrir flutningi skv. a-c-lið 6. gr. skal senda utanríkisráðuneytinu eigi síðar en 14 dögum áður en flutningur er fyrirhugaður nema sérstakar aðstæður komi upp þar sem flutningur er nauðsynlegur með styttri fyrirvara.
Umsókn skal útfyllt á þar til gerðu eyðublaði sem utanríkisráðuneytið útfærir og gerir aðgengilegt á vefsetri ráðuneytisins. Með umsókn skulu jafnframt fylgja vottorð um lokanotanda vöru og kvittun fyrir greiðslu leyfis.
Umsækjendum um leyfi ber að ábyrgjast áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fram koma í umsókn þeirra. Hafi umsækjandi vitneskju um önnur atriði sem geta haft áhrif á mat á því hvort veita skuli leyfi, m.a. um það hvort þau tilvik sem rakin eru í 2. mgr. 5. gr. eigi við um viðkomandi hluti, ber umsækjanda að upplýsa um slíkt í umsókn sinni.
8. gr. Almenn leyfi.
Útflytjanda er heimilt að flytja út ákveðna hluti með tvíþætt notagildi án þess að sótt sé um leyfi skv. 7. gr. vegna útflutnings til tiltekinna viðtökulanda, að uppfylltum sérstökum skilyrðum og kröfum um notkun.
Nánar er kveðið á um skilyrði og kröfur fyrir notkun almenns leyfis, þ.m.t. hver hin tilteknu viðtökulönd eru og hvaða hlutir falla undir almennt leyfi, í II. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/821 með síðari breytingum og uppfærslum, sbr. 1. tl. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr. þessarar reglugerðar.
Áður en útflytjandi notar almennt leyfi í fyrsta sinn skal hann tilkynna utanríkisráðuneytinu um slíkt skriflega.
Ef útflytjandi notar almennt leyfi í fleiri en einni sendingu skal hann skila skriflegu yfirliti til utanríkisráðuneytisins fyrir hvern ársfjórðung, frá 1. janúar að telja, innan 30 daga frá lokum hvers ársfjórðungs. Þar skulu koma fram upplýsingar um eftirfarandi:
- dagsetningu útflutnings og áfangastað,
- lýsinga á hlut/hlutum sem fluttir eru út skv. almennu leyfi, virði hverrar sendingar og númer hlutar í I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/821, sbr. 1. tl. 3. gr. þessarar reglugerðar,
- upplýsingar um viðtakanda, nafn og heimilisfang, og
- upplýsingar um lokanotanda, lokastaðsetningu og lokanotkun.
9. gr. Málsmeðferð og mat á leyfisumsóknum.
Við ákvörðun um hvort veita skuli leyfi skv. a-c-lið 6. gr. skal utanríkisráðuneytið meta eftirfarandi:
- hvort flutningurinn muni stuðla að því að grafa undan friði og öryggi, eða
- hvort hlutirnir eða annað sem fellur undir reglugerð þessa gæti nýst:
-
- til notkunar í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða við þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn,
- til hernaðarlegra nota ef innkaupalandið eða viðtökulandið sætir vopnasölubanni,
- í tengslum við hryðjuverk, bælingu innan lands og/eða alvarleg brot á mannréttindum og mannúðarlögum eða þannig að það ógni varnar- eða öryggishagsmunum Íslands eða bandalagsríkja, eða
- til notkunar sem hlutir eða íhlutir í hlut til hernaðarlegra nota sem hafa verið fluttir frá Íslandi án leyfis sem mælt er fyrir um í lögum. Það sama gildir ef í ljós kemur að útflutningur var ekki í samræmi við útflutningsleyfi.
Leiði mat og könnun utanríkisráðuneytisins á leyfisumsókn í ljós hættu á að einhver af þeim neikvæðu afleiðingum sem getið er um í 2. mgr. geti átt við skal utanríkisráðuneytið ekki heimila flutninginn.
Utanríkisráðuneytið getur óskað eftir umsögnum annarra stjórnvalda um umsóknir skv. 7. gr.
Utanríkisráðuneytið getur einnig, að höfðu samráði við umsækjanda, óskað eftir sérfræðiáliti óháðra aðila á viðkomandi sviði ef umsóknir skv. 7. gr. krefjast sérstakrar skoðunar eða úttektar utanaðkomandi sérfræðinga. Umsækjandi ber allan kostnað af slíkri umsögn, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit, nr. 68/2023.
Telji utanríkisráðuneytið að fallast megi á umsókn gefur ráðuneytið út leyfi fyrir flutningi. Gildistími skv. a-c-lið 6. gr. skal að jafnaði ekki vera lengri en tvö ár, nema sérstakar ástæður mæli með öðru.
Leyfi sem veitt eru skv. þessari reglugerð má afturkalla, fella niður eða takmarka ef útflytjandi misnotar leyfið eða brýtur skilmála þessa eða hefur gefið upp rangar upplýsingar í leyfisumsókn skv. 7. gr. Sama gildir ef útflytjandi brýtur ákvæði reglugerðar þessarar eða laga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit, nr. 67/2023 eða ef fram koma nýjar pólitískar eða málefnalegar aðstæður í viðtökuríki sem breytir verulega grundvelli leyfisins.
Utanríkisráðuneytið skal halda skrár um útgáfu leyfa skv. reglugerð þessari.
10. gr. Undanþágur.
Eftirfarandi hlutir með tvíþætt notagildi eru undanþegnir leyfisskyldu skv. þessari reglugerð:
- björgunartæki eða búnaður sem fluttur er út í tengslum við hjálparstörf eða neyðaraðstoð,
- hergögn og varnartengdar vörur sem falla undir 6. gr. a. vopnalaga, nr. 16/1998, og reglugerð um flutning á hergögnum og varnartengdum vörum,
- vörur sem eingöngu eru í beinni gegnumferð um íslenskt tollyfirráðasvæði, þegar sendandi og móttakandi eru staðsettir utan íslensks tollyfirráðasvæðis. Þessi undanþága á þó ekki við ef umræddir hlutir falla undir 2. mgr. 5. gr.,
- tímabundinn útflutningur íslenskra stjórnvalda á varnartengdum vörum og hergögnum til eigin nota erlendis, viðgerðar, viðhalds eða uppfærslu.
11. gr. Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varðar refsingu skv. 26. gr. laga nr. 67/2023 um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
12. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 2. og 3. mgr. 24. gr. og 25. gr. laga nr. 67/2023 um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 10. október 2023.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Martin Eyjólfsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.