Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Stofnreglugerð

1101/2022

Reglugerð um vöruval og innkaup tollfrjálsra verslana á áfengi.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið og gildissvið.

Reglugerðin miðar að því að tryggja jafnræði og gagnsæi við vöruval og innkaup á áfengi hjá tollfrjálsri verslun.

Reglugerð þessi gildir um innkaup og vöruval á áfengi í tollfrjálsri verslun sem er í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga eða fyrirtækja í þeirra eigu.

2. gr. Reglur tollfrjálsrar verslunar og vefsvæði.

Reglur og viðmið sem tollfrjáls verslun setur eða ber að setja samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar skulu miða að því að tryggja jafnræði og gagnsæi við vöruval og innkaup á áfengi.

Tollfrjáls verslun með áfengi skal halda úti opnu vefsvæði þar sem m.a. skal auglýsa allar tilboðsbeiðnir í innkaup á nýrri áfengri vöru, birta almenna viðskiptaskilmála ásamt reglum og viðmiðum sem tollfrjáls verslun setur.

Tollfrjáls verslun skal endurskoða reglulega þær reglur og viðmið sem henni ber að setja samkvæmt reglugerð þessari.

II. KAFLI Vöruúrval tollfrjálsrar verslunar á áfengi.

3. gr. Vöruúrval.

Tollfrjáls verslun ákveður vöruúrval í verslun á hverjum tíma m.a. á grundvelli fjölbreytni í vöruúrvali, eftirspurnar viðskiptavina, framboðs í öðrum fríhafnarverslunum, stærðar verslunarrýmis, framlegðar og sérstöðu verslunarinnar sem fríhafnarverslunar.

Vöruúrvali tollfrjálsrar verslunar skal skipt í þrjá flokka: grunnvöruúrval, sérvörur og vörur í tímabundinni sölu.

Tollfrjáls verslun skal skipta vöruúrvali í hverjum flokki í söluflokka eftir megineinkennum vöru. Hver söluflokkur skal síðan greinast í vöruflokka eftir nánari séreinkennum vöru. Tollfrjálsri verslun er heimilt að greina vöruflokka enn frekar niður eftir nánari viðmiðum sem tollfrjáls verslun skilgreinir.

4. gr. Grunnvöruúrval.

Grunnvöruúrval er megin flokkur vöruúrvals tollfrjálsrar verslunar. Í grunnvöruúrvali eru annars vegar þær vörur sem skila bestum söluárangri hverju sinni og hins vegar nýjar vörur í sölu.

Tollfrjáls verslun skal birta upplýsingar um skiptingu vöruúrvals og lágmarksfjölda vara í hverjum vöruflokki.

Tollfrjáls verslun skal tryggja að á ársgrundvelli séu nýjar vörur að jafnaði 20% af vöruúrvali hvers vöruflokks í grunnvöruúrvali.

5. gr. Sérvörur.

Í flokknum sérvörur eru vörur sem er ætlað að tryggja fjölbreytileika og gæði í vöruúrvali, mæta eftirspurn og auka sérstöðu og samkeppni gagnvart öðrum fríhafnarverslunum.

Sérvörur eru viðbót við grunnvöruúrval tollfrjálsrar verslunar. Tollfrjálsri verslun er heimilt að færa vörur sem ná ekki viðmiðum um söluárangur grunnvöruúrvals yfir í sérvörur og auglýsa eftir vörum í sérvöruflokk.

Tollfrjáls verslun skal setja reglur um þau viðmið og skilyrði sem vara þarf að uppfylla til að geta fallið undir sérvöruflokk.

Vörur í sérvöruflokki mega að hámarki nema 10% af heildarfjölda vara sem eru í sölu hjá tollfrjálsri verslun hverju sinni. Tollfrjáls verslun skal birta upplýsingar um þær vörur sem eru í sérvöruflokki.

6. gr. Vörur í tímabundinni sölu.

Vörur í tímabundinni sölu eru framleiddar og seldar á árstíðatengdu tímabili. Vörur í tímabundinni sölu eru viðbót við grunnvöruúrval tollfrjálsrar verslunar.

Tollfrjáls verslun skal birta upplýsingar um hámarksfjölda vara í hverjum vöruflokki í tímabundinni sölu.

Tollfrjáls verslun skal setja reglur um þau viðmið og skilyrði sem vara þarf að uppfylla til að teljast vara í tímabundinni sölu, sölutímabil o.fl.

Að jafnaði skal 20% af vörum í tímabundinni sölu innan hvers sölutímabils vera vörur sem ekki voru í sölu á síðasta sams konar sölutímabili hjá tollfrjálsri verslun.

III. KAFLI Mat á söluárangri.

7. gr. Söluárangur.

Tollfrjáls verslun skal reglulega meta söluárangur vara í hverjum vöruflokki. Markmið matsins er að halda vörum áfram í sölu sem skila mestri framlegð, taka úr sölu vörur sem skila minnstri framlegð og koma nýjum vörum að í sölu. Framlegð er mismunur á söluverði og innkaupsverði vöru að meðtöldum flutningskostnaði og áfengisgjöldum og að frádregnum virðisaukaskatti. Tollfrjáls verslun setur nánari reglur um mat á söluárangri, viðmiðunartímabil o.fl.

Tollfrjáls verslun skal birta mánaðarlega upplýsingar um söluárangur innan hvers vöruflokks. Birta skal að lágmarki númeraröð þannig að í fyrsta sæti er sú vara sem var með hæstu uppsöfnuðu framlegðina og svo koll af kolli.

8. gr. Söluárangur vara í grunnvöruúrvali.

Söluárangur í grunnvöruúrvali skal metinn að minnsta kosti tvisvar á hverju tólf mánaða tímabili fyrir hvern vöruflokk. Vara skal að lágmarki vera fjóra mánuði í sölu áður en söluárangur hennar er metinn. Tollfrjáls verslun setur reglur um tímabil söluárangurs fyrir hvern vöruflokk.

Við mat á söluárangri raðast vörur innan hvers vöruflokks í sæti eftir árangri. Vara sem skilar hæstri framlegð á tímabilinu nær bestum árangri og er þar með í efsta sæti en í neðsta sæti er sú vara sem lægstri framlegð skilar á tímabilinu.

Þær vörur sem skipa sæti fyrir neðan þau fjöldaviðmið sem tilgreind eru fyrir hvern vöruflokk, sbr. 4. gr., falla úr grunnvöruúrvali tollfrjálsrar verslunar. Vara sem hefur verið innan við tólf mánuði í sölu í tollfrjálsri verslun og fellur úr grunnvöruúrvali verður að jafnaði ekki tekin á ný inn í grunnvöruúrval fyrr en að tólf mánuðum liðnum frá því að hún féll úr vöruúrvali. Á því tímabili tekur tollfrjáls verslun ekki við tilboðum um sölu á vörunni nema ef breytingar hafa orðið sem ætla má að hafi áhrif á söluárangur vöru svo sem á innkaupsverð, eftirspurn eða annað.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að færa vöru, sem fellur úr grunnvöruúrvali, yfir í sérvöruflokk enda uppfylli varan skilyrði þess flokks.

Vörur sem halda sæti sínu í vöruflokknum skipa grunnvöruúrval þar til söluárangur vöruflokksins er metinn næst.

9. gr. Söluárangur vara í sérvöruflokki.

Tollfrjáls verslun setur reglur um söluárangur vara í sérvöruflokki. Tollfrjáls verslun skal tryggja að vöruúrval flokksins sé endurskoðað að lágmarki á tólf mánaða fresti.

10. gr. Söluárangur vara í tímabundinni sölu.

Vörur í tímabundinni sölu falla úr sölu að sölutímabili loknu. Söluárangur á síðastliðnu sölutímabili ræður vali á tilboðum fyrir næsta sölutímabil, sbr. IV. kafla. Í þeim tilvikum þegar vara í tímabundinni sölu, sem framleidd er í takmörkuðu upplagi, selst upp hjá tollfrjálsri verslun áður en sölutímabili lýkur er tollfrjálsri verslun heimilt að ákvarða söluárangur vörunnar fyrir tímabilið í heild sinni í réttu hlutfalli af söluárangri vörunnar á þeim tíma meðan hún var til sölu.

IV. KAFLI Innkaup tollfrjálsrar verslunar á áfengi.

11. gr. Tilhögun á innkaupum á nýjum vörum.

Við innkaup á áfengum vörum skal tollfrjáls verslun m.a. hafa hagkvæmni í rekstri sínum, jafnræði seljenda og gagnsæi í ákvarðanatöku að leiðarljósi.

Tollfrjáls verslun skal leita tilboða í innkaup á áfengum vörum m.a. í þeim tilgangi að tryggja fjölbreytni í vöruúrvali, mæta væntingum viðskiptavina og tryggja hagstæð innkaup.

Tollfrjáls verslun skal auglýsa reglulega á vefsvæði sínu eftir tilboðum í innkaup á nýjum vörum. Tollfrjáls verslun skal auglýsa að lágmarki tvisvar á hverju tólf mánaða tímabili eftir tilboðum fyrir hvern vöruflokk í grunnvöruúrvali. Tollfrjáls verslun skal auglýsa eftir tilboðum í innkaup fyrir vörur í tímabundinni sölu fyrir hvert sölutímabil.

Tollfrjálsri verslun er enn fremur heimilt að birta reglulega upplýsingar um áformuð innkaup.

12. gr. Skilmálar tilboðs.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að setja það sem skilyrði fyrir þátttöku seljanda í tilboði að hann hafi samþykkt almenna viðskiptaskilmála tollfrjálsrar verslunar sem geta meðal annars innihaldið skilyrði um viðskipti, svo sem greiðslukjör, greiðslufresti, reikningagerð og afhendingu vöru. Almennir viðskiptaskilmálar tollfrjálsrar verslunar skulu vera gagnsæir, hlutlægir og án mismununar.

Tollfrjáls verslun skal útbúa tilboðsbeiðni fyrir hvert tilboð þar sem m.a. koma fram kröfur um séreinkenni vöru og önnur skilyrði sem vara þarf að uppfylla. Í beiðninni skal gerð grein fyrir þeim upplýsingum og gögnum sem seljanda ber að leggja fram og tollfrjáls verslun metur nauðsynlegar til að meta tilboð seljanda.

Tollfrjálsri verslun er m.a. heimilt að krefjast eftirfarandi gagna og upplýsinga með tilboði:

  1. Vöruheiti,
  2. innkaupsverð,
  3. framleiðandi vöru,
  4. staðfesting frá framleiðanda eða eiganda vörumerkis um að seljandi hafi heimild til dreifingar vöru sem tilboð tekur til í tollfrjálsa verslun,
  5. árgangur vöru,
  6. uppruni vöru,
  7. styrkleiki vínanda,
  8. stærð umbúða,
  9. tegund umbúða,
  10. hvort varan sé í vöruframboði annarra fríhafna eða hvort um nýja vöru er að ræða,
  11. hvort varan sé í sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR),
  12. upplýsingar um leiðbeinandi söluverð vöru í tollfrjálsri verslun,
  13. strikamerki, EAN eða UPC, á vörunni,
  14. sýnishorn af vöru,
  15. upplýsingar um ytri smásöluumbúðir þegar við á,
  16. myndir af vöru,
  17. staðfesting á greiðslu umsýslugjalds, sbr. 14. gr.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að setja það sem skilyrði í tilboðsbeiðni að umbúðir áfengrar vöru megi ekki líkjast svo umbúðum annarrar vöru, sem ekki telst áfengi og boðin er til sölu eða auglýst á markaði, að ruglingshætta skapist eða að neytendur geti ekki auðveldlega greint á milli þeirra.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að setja skilyrði í tilboðsbeiðni sem snýr að stærð og tegund söluumbúða, sölueiningum, áhengi, fylgihlutum og kynningarefni.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að takmarka fjölda tilboða frá hverjum framleiðanda áfengis í hvert auglýst tilboð.

Gögn sem seljandi leggur fram vegna þátttöku í tilboði eru að jafnaði óafturkræf.

Tilboðsbeiðni skal vera aðgengileg á vefsvæði tollfrjálsrar verslunar. Frestur til að skila inn tilboðum skal vera minnst 7 almanaksdagar frá því að tilkynning um fyrirhugað tilboð er birt á vefsvæði tollfrjálsrar verslunar.

Seljandi skal senda tilboð, ásamt öllum umbeðnum fylgigögnum, til tollfrjálsrar verslunar innan tilboðsfrests og með þeim hætti sem kveðið er á um í tilboðsbeiðni. Tilboð sem uppfyllir ekki skilyrði sem sett eru fram í tilboðsbeiðni eða sem berst eftir að tilboðsfresti lýkur telst ógilt og verður ekki skoðað frekar. Tilkynna skal seljanda ef tilboð telst ógilt.

Seljanda er heimilt að afturkalla tilboð sitt áður en tollfrjáls verslun tekur ákvörðun um val sitt á tilboði enda tilkynnir hann tollfrjálsri verslun um það með sannanlegum hætti.

13. gr. Val á tilboði.

Tollfrjáls verslun skal opna öll framkomin tilboð eftir að tilboðsfresti lýkur.

Gild tilboð skulu metin samkvæmt skilgreindum viðmiðum sem tollfrjáls verslun setur og m.a. taka mið af fjárhagslegri hagkvæmni innkaupa sem og eftirspurn, sölumöguleikum og aukinni fjölbreytni eða sérstöðu í vöruúrvali. Tollfrjáls verslun skal setja nánari reglur um mat á tilboðum þar sem jafnræðis og gagnsæis er gætt.

Við val á tilboði skal tollfrjáls verslun, eftir því sem við á, hafa hliðsjón af ákvæðum laga um matvæli og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli laganna.

Þegar tilboð hefur verið valið gerir tollfrjáls verslun samning um innkaup við viðkomandi seljanda. Í innkaupasamningi skal m.a. kveðið á um vanefndarúrræði, gildistíma og uppsagnarfrest.

Tollfrjáls verslun telst hafa hafnað tilboði ef hún er búin að semja við annan seljanda. Tollfrjálsri verslun er heimilt að hafna öllum tilboðum ef ekkert þeirra uppfyllir þau skilyrði sem sett voru fram í tilboðsbeiðni eða aðrar málefnalegar ástæður standa til þess.

Tollfrjáls verslun tilkynnir öllum þátttakendum formlega um niðurstöðu tilboðs. Niðurstaða tollfrjálsrar verslunar til framkominna tilboða skal að jafnaði liggja fyrir innan fjögurra vikna frá því að frestur til að skila inn tilboði rann út.

Seljandi getur óskað eftir að tollfrjáls verslun veiti rökstuðning fyrir því að tilboði hans var hafnað. Beiðni um slíkt skal berast tollfrjálsri verslun innan 7 daga frá því að seljanda var tilkynnt um niðurstöðuna. Rökstuðningur skal liggja fyrir eigi síðar en 14 dögum eftir að beiðni um hann barst.

14. gr. Umsýslugjald.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að innheimta gjald vegna kostnaðar sem leiðir af umsýslu við vöruval. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna nauðsynlegra ráðstafana af hálfu tollfrjálsrar verslunar við innkaup á áfengi, könnunar og skráningar. Umsýslugjald fæst ekki endurgreitt. Tollfrjáls verslun setur gjaldskrá um greiðslu umsýslugjalds og birtir hana á vefsvæði sínu, sbr. 2. gr. Fjárhæð umsýslugjalds skal endurskoðað reglulega.

15. gr. Verðboð.

Seljanda er heimilt að bjóða tollfrjálsri verslun til sölu vöru sem þegar er í vöruúrvali hennar. Tollfrjáls verslun skal setja reglur um framkvæmd verðboða sem tryggja skulu jafnræði allra hlutaðeigandi aðila.

16. gr. Dreifing í verslanir.

Við dreifingu vöruúrvals í verslanir skal tollfrjáls verslun m.a. taka mið af eftirspurn og væntingum viðskiptavina, framlegð, söluárangri, rými verslana og hagkvæmnisjónarmiðum. Tollfrjáls verslun setur nánari reglur um dreifingu vöruúrvals í verslanir.

17. gr. Framstilling vara, sérmerkingar, kynningar og tilboð.

Tollfrjáls verslun tekur ákvörðun um staðsetningu og framstillingu áfengrar vöru í tollfrjálsri verslun. Tollfrjáls verslun skal tryggja að nýjar áfengar vörur séu kynntar fyrir viðskipavinum með samræmdum og markvissum hætti. Tollfrjálsri verslun er heimilt að hafa svæði til sérmerkinga og kynninga á áfengri vöru og skal setja reglur um úthlutun og notkun slíkra kynningarsvæða sem tryggja jafnræði og gagnsæi. Leigutekjur af kynningarsvæðum teljast ekki hluti af framlegð áfengrar vöru við mat á söluárangri.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að bjóða áfengar vörur á tilboði í fríhafnarverslun. Tollfrjáls verslun skal setja reglur um tilhögun og framkvæmd tilboða sem tryggja skuli jafnræði milli áfengra vörutegunda og seljenda.

18. gr. Verðlagning.

Tollfrjáls verslun ákveður söluverð vöru. Ákvörðun um söluverð skal tekin á viðskiptalegum forsendum og skal m.a. taka mið af samkeppni, framlegð sambærilegra vara sem þegar eru í vöruúrvali, framlegðarkröfum tollfrjálsrar verslunar að frádregnum gjöldum og að um sölu á frísvæði er að ræða.

19. gr. Vöru- og verðbreytingar.

Óheimilt er að breyta umbúðum eða innihaldi áfengrar vöru í vöruúrvali án fyrir fram skriflegs samþykkis tollfrjálsrar verslunar. Vörubreytingar skulu tilkynntar tollfrjálsri verslun sem metur, með hliðsjón af umfangi breytinga á innihaldi eða umbúðum, hvort vörubreytingin rúmast innan marka gildandi innkaupasamnings. Tilkynningu um vörubreytingu skulu fylgja nauðsynleg gögn og sýnishorn sem metin eru fullnægjandi af tollfrjálsri verslun.

Verðbreytingar skulu tilkynntar tollfrjálsri verslun sem metur hvort verðbreytingin rúmist innan marka gildandi innkaupasamnings.

V. KAFLI Vörugæði, geymsluþol, gölluð vara og skil á vörubirgðum.

20. gr. Vörugæði.

Tollfrjálsri verslun er heimilt á kostnað og ábyrgð seljanda að kalla eftir sýnishorni af innihaldi vöru vegna gæðaeftirlits.

21. gr. Geymsluþol.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að setja sérstök viðmið um geymsluþol vöru sem ber "best fyrir" merkingu (síðasti sölu- eða neysludagur).

22. gr. Viðkvæm vara.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að setja sérstök viðmið um hámarksaldur viðkvæmrar áfengrar vöru og getur hafnað móttöku áfengrar vöru sem er eldri en viðmiðaður hámarksaldur. Tollfrjáls verslun getur krafist staðfestingar á framleiðsludegi viðkvæmrar áfengrar vöru.

23. gr. Gölluð vara.

Seljandi skal taka til baka, á sinn kostnað, gallaða áfenga vöru og vöru sem berst skemmd á afhendingarstað tollfrjálsrar verslunar. Tollfrjáls verslun setur nánari reglur um meðhöndlun gallaðrar áfengrar vöru.

24. gr. Skil á vörubirgðum.

Seljandi skal taka til sín eða gera ráðstafanir með vörubirgðir áfengrar vöru sem honum ber að taka til sín skv. reglugerð þessari eða reglum tollfrjálsrar verslunar innan tímaramma sem tollfrjáls verslun setur.

VI. KAFLI Afhending vörubirgða.

25. gr. Afhending áfengrar vöru.

Hver vörupöntun skal afhent sérstaklega á afhendingarstað sem tollfrjáls verslun tilgreinir. Tollfrjáls verslun setur nánari reglur um frágang og móttöku áfengrar vöru, greiðslukjör, fylgiskjöl og reikninga. Uppfylli vörupöntun eða fylgiskjöl ekki þær kröfur sem tollfrjáls verslun setur er heimilt að stöðva móttöku pöntunar og seljanda veittur frestur til úrbóta. Ef seljandi hefur ekki brugðist við innan gefins frests er tollfrjálsri verslun heimilt að endursenda vörupöntun í heild sinni á kostnað seljanda.

26. gr. Afhendingardráttur.

Tollfrjálsri verslun er heimilt að fella innkaupasamning úr gildi og afpanta óafgreiddar pantanir ef vörupöntun hefur ekki verið afgreidd úr vöruhúsi seljanda innan 14 daga frá því að pöntunin var gerð.

VII. KAFLI Kæruheimild, lagastoð og gildistaka.

27. gr. Kæruheimild.

Ákvarðanir tollfrjálsrar verslunar um val á áfengri vöru eru kæranlegar til ráðherra. Tollfrjáls verslun skal leiðbeina seljendum um kæruheimildina eftir því sem við á.

28. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. mgr. 104. gr. tollalaga, nr. 88/2005.

29. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. október 2022. Reglugerð þessi hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði tilskipunar 2015/1535/ESB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 23. september 2022.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Guðlaug María Valdemarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.