Prentað þann 24. nóv. 2024
1092/2018
Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 1030/2017, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85.
1. gr.
Orðskýring b-liðar 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Vottunaraðili: Aðili sem annast vottun og hefur hlotið faggildingu eða bráðabirgðastarfsleyfi frá Jafnréttisstofu, sbr. 4. og 5. gr.
2. gr.
Við 5. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, sem verður 3. mgr., og orðast svo:
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er vottunaraðila, sem ekki hefur hlotið faggildingu, heimilt að framkvæma úttektir og votta jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana samkvæmt staðlinum ÍST 85 á grundvelli bráðabirgðastarfsleyfis sem gefið er út af Jafnréttisstofu að fenginni niðurstöðu faggildingarsviðs Einkaleyfastofunnar um að vottunaraðili uppfylli þær kröfur sem koma fram í ákvæði þessu og gildir leyfið í allt að 12 mánuði frá útgáfu þess. Skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðastarfsleyfis er að fyrirhugaður vottunaraðili hafi lokið fyrstu úttekt í umsóknarferli um faggildingu. Vottunaraðili skal hafa unnið nauðsynlega stefnumótunarvinnu, byggt upp innri gæðakerfi og nauðsynlegar vottunaraðferðir samkvæmt kröfum staðlanna ÍST EN ISO 17021-1: 2015 og ÍST 85. Þá skal vottunaraðili hafa á sínum vegum að minnsta kosti einn úttektarmann sem staðist hefur kröfur námskeiðs velferðarráðuneytisins vegna jafnlaunavottunar skv. 6. gr. þessarar reglugerðar. Vottunaraðili skal hafa lokið umsóknarferlinu innan gildistíma bráðabirgðastarfsleyfisins. Jafnréttisstofu er heimilt að framlengja gildistíma bráðabirgðastarfsleyfis vottunaraðila um allt að þrjá mánuði að því gefnu að umsögn faggildingarsviðs Einkaleyfastofunnar liggi fyrir um að málefnalegar ástæður séu fyrir seinkun umsóknarferlis um faggildingu. Komi í ljós að leyfishafi fari ekki eftir þeim skilyrðum sem sett eru fyrir veitingu bráðabirgðastarfsleyfis skal faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar tilkynna um það til Jafnréttisstofu sem skal þá afturkalla bráðabirgðastarfsleyfi vottunarstofunnar.
3. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 11. mgr. 19. gr. sem og 33. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum, sem og skv. 1. mgr. 4. gr. laga um faggildingu o.fl., nr. 24/2006, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Velferðarráðuneytinu, 30. nóvember 2018.
Ásmundur Einar Daðason
félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ellý Alda Þorsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.