Fara beint í efnið

Prentað þann 28. jan. 2022

Stofnreglugerð

1082/2004

Reglugerð um tóbaksgjald og merkingar tóbaks.

I. KAFLI Almennt.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til þeirra aðila sem flytja inn og framleiða tóbak í atvinnuskyni, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og vörsluhafa á ótollafgreiddu tóbaki og varðar álagningu tóbaksgjalds og eftirlit með merkingum tóbaks.

II. KAFLI Gjaldskylda, gjaldskyldir aðilar.

2. gr. Gjaldskylda.

Greiða skal til ríkissjóðs sérstakt gjald, tóbaksgjald, af tóbaki sem flutt er til landsins eða er framleitt hér á landi.

Tóbak telst samkvæmt reglugerð þessari vera sérhver vara sem flokkast í 24. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

3. gr. Gjaldskyldir aðilar.

Gjaldskyldir eru allir þeir sem selja tóbak í smásölu, sbr. 8. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

III. KAFLI Tilkynningarskylda.

4. gr. Tilkynningarskylda innflytjanda og framleiðanda.

Innflytjandi, sem flytur inn tóbak í atvinnuskyni, skal áður en innflutningur tóbaks hefst tilkynna atvinnurekstur sinn til tollstjórans í Reykjavík. Tollstjórinn skal úthluta innflytjanda einkvæmu tilvísunarnúmeri, sem honum ber að skrá í aðflutningsskýrslu þegar innflutningur tóbaks fer fram. Með skráningu tilvísunarnúmersins lýsir innflytjandi því yfir að innflutningur viðkomandi vörusendingar og ráðstöfun hennar eftir tollafgreiðslu sé og verði samkvæmt ákvæðum og skilyrðum reglugerðar þessarar.

Framleiðandi tóbaks skal áður en framleiðsla tóbaks hefst tilkynna um framleiðslu sína til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

IV. KAFLI Álagning og innheimta.

5. gr. Álagning og innheimta tóbaksgjaldsins.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins leggur á og innheimtir tóbaksgjald af tóbaki sem hefur verið flutt hingað til lands eða framleitt hér á landi.

Fjárhæð tóbaksgjaldsins fer eftir ákvæðum laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal greiða tollstjóranum í Reykjavík innheimt tóbaksgjald eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils. Uppgjörstímabil tóbaksgjalds samkvæmt þessari grein er einn mánuður. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er fimmti dagur næsta mánaðar eftir lok þess. Greiðslunni skal fylgja skilagrein, staðfest af forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eða ábyrgum starfsmanni hans, með þeim upplýsingum, er tollstjóri telur fullnægjandi.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal tilkynna tollstjóranum í Reykjavík hverjir teljist vera ábyrgir starfsmenn í skilningi ákvæðisins með fullnægjandi hætti.

V. KAFLI Merkingar tóbaks.

6. gr. Um merkingar tóbaks.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal tryggja að allt tóbak sem flutt er til landsins eða framleitt hér á landi í atvinnuskyni og ætlað er til neyslu, hvort heldur er unnið eða óunnið, sé merkt. Um merkingar tóbaks fer eftir 6. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

Ef merkingum tóbaks er ábótavant skal Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins merkja tóbakið gegn greiðslu hóflegs gjalds.

VI. KAFLI Geymsla og afhending tóbaks.

7. gr. Um geymslu á innfluttu tóbaki.

Allt innflutt tóbak, sem ætlað er til aðvinnslu eða sölu innanlands, skal geymt í vörslu farmflytjanda, í tollvörugeymslu eða á frísvæði þar til Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins óskar eftir því til heildsöludreifingar.

8. gr. Um afhendingu á tóbaki til heildsöludreifingar.

Vörsluhöfum tóbaks samkvæmt 7. gr., er óheimilt að afhenda öðrum en starfsmönnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins innflutt tóbak. Þá er vörsluhöfum tóbaks óheimilt að afhenda starfsmönnum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins innflutt tóbak fyrr en að fenginni afhendingarheimild tollstjóra.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal senda farmflytjendum og forstöðumönnum tollvörugeymslna og frísvæða skrá með nöfnum þeirra starfsmanna Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem hafa heimild til þess að veita tóbaki viðtöku, sbr. 1. mgr.

VII. KAFLI Eftirgjöf tóbaksgjalds.

9. gr. Undanþágur frá tóbaksgjaldi.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal ekki leggja tóbaksgjald á:

  1. Tóbak sem selt er til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög nr. 110/1951 og tóbak sem selt er í tollfrjálsar forðageymslur, enda sé sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að mati Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að tóbakið hafi verið selt og flutt til rétthafa samkvæmt þessum tölulið. Tollstjórar skulu veita Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins upplýsingar um magn þess tóbaks sem selt er til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög nr. 110/1951 og í tollfrjálsar forðageymslur.
  2. Tóbak sem selt er til aðila sem njóta skattfrelsis hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, enda hafi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins borist beiðni frá viðkomandi aðila, árituð af utanríkisráðuneytinu, um kaup á tilgreindu magni án greiðslu tóbaksgjalds.

VIII. KAFLI Ýmis ákvæði.

10. gr. Stofn til virðisaukaskatts.

Tóbaksgjald myndar stofn til virðisaukaskatts hvort sem tóbakið er flutt inn eða framleitt hér á landi.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 12. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum, og 14. gr. laga nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, öðlast gildi 17. janúar 2005.

Fjármálaráðuneytinu, 30. desember 2004.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.

Elmar Hallgríms.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.