Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 23. nóv. 2011 – 1. des. 2021 Sjá núgildandi

1067/2011

Reglugerð um þjónustuaðila brunavarna.

1. gr. Markmið.

Markmið með reglugerð þessari er að tryggja að þjónusta vegna brunavarna sé af viðunandi gæðum og með þeim hætti að brunavarnir séu að fullu virkar á hverjum tíma.

2. gr. Skilgreiningar og orðskýringar.

Ábyrgðarmaður: Hæfur starfsmaður sem þjónustuaðili tilnefnir og ber faglega ábyrgð á að sú þjónusta sem veitt er og fellur undir reglugerð þessa uppfylli gildandi kröfur, sbr. 2. mgr. 5. gr.

Brunavarnabúnaður: Reykköfunartæki, handslökkvitæki, úðakerfi, slökkvikerfi, viðvörunarkerfi, brunaþéttingar og loftgæðamælingar vegna hleðslu reykköfunartækja.

Hæfur starfsmaður: Einstaklingur sem sinnir lögbundnu eftirliti og viðhaldi á brunavarnabúnaði og hefur hlotið viðurkenningu Mannvirkjastofnunar til að vinna við brunavarnabúnað.

Viðhald: Allar aðgerðir sem miða að því að tryggja að brunavarnabúnaður sé að fullu virkur á hverjum tíma.

Starfsstöð: Staður þar sem brunavarnabúnaður er yfirfarinn og honum viðhaldið.

Þjónustuaðili: Fyrirtæki eða einstaklingur sem þjónustar brunavarnabúnað, sbr. 1. mgr. 3. gr.

3. gr. Starfsleyfi þjónustuaðila brunavarna.

Eftirfarandi þjónustuaðilar brunavarna skulu hafa starfsleyfi útgefið af Mannvirkjastofnun:

  1. Þeir sem bjóða þjónustu við viðhald, skoðun, áfyllingu og þrýstiprófun handslökkvitækja og reykköfunarbúnaðar.
  2. Þeir sem annast uppsetningu, viðhald og þjónustu brunaviðvörunarkerfa og slökkvikerfa, svo og þeir sem annast brunaþéttingar mannvirkja.

Skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis skv. 1. mgr. er að viðkomandi þjónustuaðili hafi nægan fjölda hæfra starfsmanna í sinni þjónustu og að tilnefndur hafi verið ábyrgðarmaður í samræmi við 2. mgr. 5. gr. Jafnframt er skilyrði að þjónustuaðilar sem falla undir a. lið 1. mgr. hafi yfir að ráða mælum og öðrum tækjabúnaði til að geta innt þjónustuna af hendi með fullnægjandi og öruggum hætti. Mannvirkjastofnun setur leiðbeiningar um nauðsynlegan búnað fyrir hvert sérsvið.

Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis samkvæmt þessari grein er að sett hafi verið upp fullnægjandi gæðastjórnunarkerfi vegna starfseminnar í samræmi við leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar. Gæðastjórnunarkerfi sem vottað er samkvæmt ÍST EN ISO 9001 uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til gæðastjórnunarkerfis samkvæmt þessari grein. Önnur gæðastjórnunarkerfi skulu hljóta samþykki Mannvirkjastofnunar.

4. gr. Reglur um starfsleyfi.

Áður en starfsleyfi er gefið út skal Mannvirkjastofnun gera úttekt á búnaði og starfsemi þjónustuaðila og ganga úr skugga um að hann uppfylli skilyrði 3. gr.

Starfsleyfi fyrir þjónustuaðila skal bundið við eitt eða fleiri eftirfarandi starfssvið:

  1. Reykköfunartæki.
  2. Handslökkvitæki.
  3. Slökkvikerfi.
  4. Brunaviðvörunarkerfi.
  5. Brunaþéttingar.
  6. Loftgæðamælingar vegna hleðslu reykköfunartækja.

Í starfsleyfi skal tilgreina á hvaða starfssviði þjónustuaðila er heimilt að starfa. Starfsleyfið er gefið út á nafn og kennitölu þjónustuaðila og fellur niður ef hann hættir starfsemi. Framsal starfsleyfis er óheimilt.

Starfsleyfi er veitt til allt að fimm ára í senn og í því skal koma fram flokkun þjónustuaðilans sbr. 2. mgr. og sérákvæði ef einhver eru, sbr. 10.-15. gr. Í starfsleyfi skal tekið fram hver er ábyrgðarmaður, sbr. 2. mgr. 5. gr. Starfsleyfið skal birt á heimasíðu Mannvirkjastofnunar.

5. gr. Skyldur starfsleyfishafa.

Einungis þeir sem Mannvirkjastofnun hefur viðurkennt í samræmi við ákvæði 9.-15. gr. mega inna af hendi þau störf hjá þjónustuaðila sem talin eru upp í 1. mgr. 3. gr. Starfsmönnum í starfsþjálfun er þó heimilt að starfa á ábyrgð og undir leiðsögn hæfra starfsmanna. Þjónustuaðili skal gæta þess að hafa á hverjum tíma í þjónustu sinni hæfa starfsmenn til að vinna þau störf sem starfsleyfið nær til og fullnægjandi búnað, sbr. 2. mgr. 3. gr.

Þjónustuaðili skal tilefna ábyrgðarmann úr hópi hæfra starfsmanna í hans þjónustu, sem ber faglega ábyrgð á allri vinnu þjónustuaðila við brunavarnabúnað sem fellur undir reglugerð þessa. Láti ábyrgðaraðili af störfum skal án tafar tilnefna nýjan ábyrgðarmann og tilkynna það Mannvirkjastofnun. Þjónustuaðila er óheimilt að veita þjónustu við brunavarnabúnað án ábyrgðarmanns.

Á starfsstöð skulu vera leiðbeiningar frá framleiðanda eða umboðsmanni brunavarnabúnaðar um það hvernig og hversu oft viðkomandi brunavarnabúnaður skal yfirfarinn sem og annað sem máli skiptir um þjónustu brunavarnabúnaðarins.

Þjónustuaðili skal halda skrá yfir allan brunavarnabúnað sem hann annast til að tryggja rekjanleika á viðhaldi búnaðarins. Í skránni skal koma fram framleiðandi, tegund og verksmiðjunúmer búnaðar eftir því sem við á. Mannvirkjastofnun skal hafa aðgang að skránni vegna eftirlits.

6. gr. Staðfesting vinnu.

Þegar yfirferð brunavarnabúnaðar er lokið skal hæfur starfsmaður þjónustuaðila staðfesta vinnu sína með því að árita þjónustumiða á eða við búnaðinn sem á stendur: Nafn og heimilisfang þjónustuaðila, dagsetning skoðunar, hvað gert var, hvenær næsta skoðun skal fara fram og kvittun starfsmanns. Miðinn skal gerður með þeim hætti að honum verði ekki breytt.

Viðkomandi starfsmaður skal árita miðann eigin hendi eða með rafrænni undirskrift. Með undirrituninni staðfestir hann að unnið hafi verið í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda og þessa reglugerð.

7. gr. Kvörðun voga og mælitækja.

Allur mælibúnaður, svo sem vogir, þrýstimælar og herslumælar á þjónustustöð, skulu uppfylla kröfur laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

8. gr. Þrýstiprófanir.

Um þrýstiprófanir gilda þær reglur Vinnueftirlits ríkisins sem eiga við hverju sinni.

9. gr. Kröfur um menntun og starfshæfni.

Þeir starfsmenn sem annast viðhald, skoðun, áfyllingu og þrýstiprófun handslökkvitækja og reykköfunarbúnaðar, annast uppsetningu, viðhald og þjónustu brunaviðvörunarkerfa og slökkvikerfa, svo og þeir sem annast brunaþéttingar mannvirkja skulu geta sýnt fram á fræðilega og verklega kunnáttu sína. Þeir skulu hafa sótt grunnnámskeið um þjónustu á brunavarnabúnaði sem Mannvirkjastofnun samþykkir og viðeigandi sérnámskeið, sbr. 10.-15. gr., staðist próf að þeim loknum og fengið vottorð þar að lútandi.

Starfsmenn sem annast þau störf sem talin eru upp í 1. mgr. skulu einnig geta sýnt fram á að þeir hafi fengið fullnægjandi þjálfun og leiðbeiningu hjá framleiðanda eða söluaðila hinna ýmsu gerða brunavarnabúnaðar um prófun og viðhald á þeim í samræmi við kröfur framleiðanda.

Þeir starfsmenn sem annast þrýstiprófun skulu hafa sótt námskeið þess efnis á vegum Vinnueftirlits ríkisins og hafa fengið í hendur vottorð þar að lútandi.

Ábyrgðarmaður skal, auk þess sem segir í 1. mgr., hafa minnst þriggja mánaða vottaða starfsreynslu hjá þjónustuaðila með starfsleyfi.

Mannvirkjastofnun gefur út viðurkenningu fyrir starfsmenn samkvæmt þessari grein.

10. gr. Sérákvæði vegna handslökkvitækja.

Í starfsleyfi þjónustuaðila skal koma fram hvaða gerðir handslökkvitækja þjónustuaðili hefur leyfi til að þjónusta.

Bjóði þjónustuaðili upp á þrýstiprófun skal það koma fram í starfsleyfi hans.

Starfsmaður sem veitir þjónustu við handslökkvitæki, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal hafa lokið sérnámskeiði sem Mannvirkjastofnun metur gilt. Inntökuskilyrði á námskeið er að viðkomandi hafi hlotið minnst 60 klst. verklega starfsþjálfun hjá þjónustuaðila með starfsleyfi. Í staðfestingu þjónustuaðila á starfsþjálfun skal koma fram hvaða gerðir handslökkvitækja viðkomandi hafi lært að þjónusta. Heimilt er að halda sérstök undirbúningsnámskeið fyrir þá sem ekki hafa hlotið samþykkta verklega þjálfun.

11. gr. Sérákvæði vegna reykköfunartækja.

Í starfsleyfi þjónustuaðila skal koma fram hvaða gerðir reykköfunartækja þjónustuaðili hefur leyfi til að þjónusta.

Starfsmaður sem veitir þjónustu við reykköfunartæki, sbr. 1. mgr. 9. gr., skal hafa lokið sérnámskeiði sem Mannvirkjastofnun metur gilt. Inntökuskilyrði á námskeið er að viðkomandi hafi hlotið minnst 60 klst. verklega starfsþjálfun hjá þjónustuaðila með starfsleyfi. Heimilt er að halda sérstök undirbúningsnámskeið fyrir þá sem ekki hafa hlotið samþykkta verklega þjálfun.

12. gr. Sérákvæði vegna loftgæðamælinga vegna hleðslu reykköfunartækja.

Loftgæði skulu mæld í samræmi við ákvæði reglugerðar um reykköfun með mælinákvæmni og aðferðum sem Mannvirkjastofnun viðurkennir. Starfsmenn sem sinna loftgæðamælingum skulu hafa lokið sérnámskeiði sem Mannvirkjastofnun metur gilt.

Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um fyrirkomulag loftgæðamælinga og rekstur á loftpressum sem notaðar eru til áfyllingar öndunarlofts á loftkúta.

13. gr. Sérákvæði vegna brunaviðvörunarkerfa.

Í starfsleyfi þjónustuaðila skal koma fram hvaða gerðir brunaviðvörunarkerfa þjónustuaðili hefur leyfi til að þjónusta.

Starfsmaður sem þjónustar brunaviðvörunarkerfi skal hafa lokið sérnámskeiði sem Mannvirkjastofnun metur gilt. Ábyrgðarmaður skal vera rafvirkjameistari eða með sambærilega menntun. Hætti þjónustuaðili afskiptum af brunaviðvörunarkerfi ber að tilkynna það til viðkomandi slökkviliðsstjóra.

14. gr. Sérákvæði vegna slökkvikerfa.

Í starfsleyfi þjónustuaðila skal koma fram hvaða gerðir slökkvikerfa þjónustuaðili hefur leyfi til að þjónusta.

Starfsmaður sem þjónustar slökkvikerfi skal hafa lokið sérnámskeiði sem Mannvirkjastofnun metur gilt. Ábyrgðarmaður skal vera pípulagningameistari eða með sambærilega menntun. Hætti þjónustuaðili afskiptum af slökkvikerfi ber honum að tilkynna það til viðkomandi slökkviliðsstjóra.

15. gr. Sérákvæði vegna brunaþéttinga.

Starfsmaður þjónustuaðila sem annast brunaþéttingar skal hafa lokið sérnámskeiði sem Mannvirkjastofnun metur gilt. Ábyrgðarmaður skal vera rafvirkjameistari, pípulagningameistari, húsasmíðameistari eða blikksmíðameistari.

16. gr. Eftirlit.

Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Rekstur og búnaður þjónustuaðila er háður eftirliti Mannvirkjastofnunar.

Þjónustuaðilum ber að veita Mannvirkjastofnun allar upplýsingar sem skilyrtar eru í starfsleyfi og nákvæma lýsingu á þeim brunavarnabúnaði sem þjónustaður er svo og efnum og viðhaldsbúnaði sem er notaður.

17. gr. Svipting starfsleyfis og viðurlög við brotum.

Mannvirkjastofnun getur svipt þjónustuaðila starfsleyfi ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu að mati Mannvirkjastofnunar, svo sem ef hann hefur ekki lengur í þjónustu sinni starfsmenn sem uppfylla hæfnisskilyrði reglugerðar þessarar, hefur ekki tilnefnt ábyrgðarmann eða hefur ekki yfir að ráða fullnægjandi búnaði. Sama á við ef þjónustuaðili hlítir ekki fyrirmælum Mannvirkjastofnunar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum laga um brunavarnir eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

Mannvirkjastofnun ber að tilkynna viðkomandi slökkviliðsstjóra um afturköllun starfsleyfis þjónustuaðila.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingum samkvæmt 34. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.

18. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 38. gr. a og 39. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

  1. Þjónustuaðilar skulu hafa sótt um starfsleyfi til Mannvirkjastofnunar innan sex mánaða frá gildistöku reglugerðar þessarar.
  2. Þjónustuaðilar hafa frest til 31. desember 2014 til að uppfylla skilyrði 3. mgr. 3. gr. um gæðastjórnunarkerfi.
  3. Þeir starfsmenn sem lokið hafa námskeiði Brunamálaskólans fyrir þjónustuaðila handslökkvitækja teljast uppfylla kröfur 10. gr.
  4. Þeir þjónustuaðilar brunavarna sem hafa fengið samþykki Brunamálastofnunar fyrir starfsemi sinni í gildistíð eldri reglugerða halda leyfi sínu í samræmi við ákvæði og gildistíma þess leyfis, þó ekki lengur en til 1. janúar 2013.

Umhverfisráðuneytinu, 8. nóvember 2011.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.