Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Stofnreglugerð

1047/2011

Reglugerð um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Almennt.

1. gr. Markmið.

Reglugerð þessi á að stuðla að skilvirku skipulagi á skráningu og úthlutun tíðna með það að markmiði að nýting tíðna sé bæði hagkvæm og skynsamleg. Með því er m.a. átt við að tíðnir nýtist í fjarskiptaþjónustu fyrir sem flesta landsmenn og með sem mestri útbreiðslu um landið allt.

Skipulag tíðna skal vera gagnsætt og úthlutun þeirra byggjast á jafnræðissjónarmiðum og vera til þess fallin að örva samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði um leið og staðinn er vörður um eðlilegt framboð tíðna. Með skipulaginu skal stuðla að sem minnstum truflunum við notkun tíðna.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skipulag, notkun og úthlutun tíðna úr tíðnirófinu frá 9 kHz og til 3.000 GHz innan íslensks yfirráðasvæðis á grundvelli laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Reglugerðin gildir auk þess um truflanir og eftirlit með truflunum af völdum rafsegulbylgna frá þráðlausum sendibúnaði, öðrum fjarskiptabúnaði og rafmagns- og rafeindabúnaði.

Ákvæði reglugerðarinnar um úthlutun á tíðnum, samkvæmt köflum III og IV, taka ekki til notkunar á tíðnum vegna almennrar fjarskiptaþjónustu um borð í loftförum í yfir 3.000 metra hæð yfir jörðu.

3. gr. Orðskýringar.

Almenn fjarskiptaþjónusta: Hvers konar þjónusta sem er opin almenningi og að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet.

Fjarskiptatíðnir: Rafsegulbylgjur í tíðnirófinu undir 3.000 GHz sem dreifast í gegnum andrúmsloftið en ekki eftir þræði.

Opin tíðnisvið: Tiltekin tíðnisvið eru ætluð fyrir tiltekna þjónustu án sérstakrar úthlutunar á tíðnum til einstakra notenda.

Skaðleg truflun: Truflun sem setur í hættu, rýrir alvarlega, hindrar eða truflar endurtekið þráðlausa fjarskiptaþjónustu.

Skilgreint tíðnisvið: Tíðnisvið sem afmarkað hefur verið til notkunar fyrir eina eða fleiri tegundir þráðlausrar fjarskiptaþjónustu, samkvæmt sérstökum skilyrðum þar sem við á.

Tíðniheimild: Heimild til skilyrtra afnota af tilteknu tíðnisviði um ákveðinn tíma, sem hvorki leiðir til eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar yfir þeim.

Tíðnirétthafi: Aðili sem hefur fengið úthlutað tíðniheimild.

Tíðnirófið: Svið allra mögulegra tíðna rafsegulbylgna.

Tíðniskipulag: Skráning Póst- og fjarskiptastofnunar á skiptingu tíðnirófsins í skilgreind tíðnisvið.

Tæknilegt hlutleysi: Leyfileg notkun tíðnisviðs er ekki bundin við ákveðna tækni- eða þjónustustaðla.

Útvarp: Hvers konar útsending dagskrárefnis sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum, hvort heldur er í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust, hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst.

4. gr. Skipulag tíðnirófsins.

Póst- og fjarskiptastofnun skipuleggur tíðnirófið innan þeirra marka sem alþjóðlegar reglur og samþykktir setja. Stofnunin ákveður hvaða tíðnisvið eru laus til ráðstöfunar, skilgreinir hvort tíðnisvið skuli vera tæknilega hlutlaus eða þau bundin við ákveðna tækni eða tegundir fjarskiptaþjónustu, s.s. hljóðvarp, sjónvarp, farsíma, talstöðvar, fastasambönd, lágaflsbúnað, gervihnattafjarskipti, fjarskipti amatöra o.s.frv.

Opinber birting hins íslenska tíðniskipulags á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar er bindandi um hvaða notkun er heimil á hverju tíðnisviði fyrir sig. Skal tíðniskipulagið vera birt í formi töflu sem að lágmarki hefur að geyma upplýsingar um:

  1. Afmörkun einstakra tíðnisviða í mælieiningunni Hz.
  2. Hvernig tíðnisviðum hefur verið ráðstafað samkvæmt alþjóða radíóreglugerðinni (samþykktum Alþjóða fjarskiptastofnunarinnar ITU).
  3. Tilvísanir í viðeigandi ákvarðanir, reglugerðir og/eða tilmæli frá öðrum þar til bærum alþjóðasamtökum.
  4. Hvernig tíðnisviðum hefur verið ráðstafað hér á landi.
  5. Dagsetningu síðustu breytingar á tíðniskipulaginu.

Íslenska tíðniskipulagið skal jafnframt birta í evrópskum gagnabanka um tíðnirófið (EFIS: ERO Frequency Information System, www.ero.dk). Komi upp misræmi milli upplýsinga í þeim gagnagrunni og upplýsinga í töflunni sem birt er á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar gilda síðastnefndu upplýsingarnar.

5. gr. Ákvarðanir um skilgreiningu og ráðstöfun tíðnirófsins.

Ákvæði Alþjóðlegu radíóreglugerðarinnar (ITU Radio Regulation) og ákvarðanir og tilmæli evrópsku fjarskiptanefndarinnar (The Electronic Communications Committee (ECC) sem starfar innan European Conference of Postal and Telecommunications Administrations (CEPT)), varðandi skipulag og nýtingu tíðnirófsins, teljast vera bindandi á Íslandi þegar þeirra hefur verið getið í íslenska tíðniskipulaginu með opinberri birtingu samkvæmt 4. gr. reglnanna.

6. gr. Alþjóðleg ráðstöfun tíðna til tiltekinna nota.

Tíðnisviðum sem á alþjóða tíðniráðstefnum er ráðstafað til tiltekinnar notkunar, sem í eðli sínu er alþjóðleg og ekki bundin við einstök ríki, t.d. fjarskipti við flugvélar og skip, flugöryggis- og leiðsöguþjónustu, fjarskipti radíóáhugamanna o.s.frv. er óheimilt að úthluta til annarra nota á Íslandi.

Við ráðstöfun tíðna á stuttbylgju, millibylgju og langbylgju, þ.e. á tíðnisviðinu undir 30 MHz, svo og við úthlutun tíðna fyrir fjarskipti um gervihnetti, ber að gæta að alþjóðlegum skuldbindingum Íslands varðandi hugsanleg áhrif á fjarskipti í öðrum ríkjum. Slík fjarskiptastarfsemi skal vera í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt alþjóða radíóreglugerðinni (ITU Radio Regulation).

7. gr. Skráning og birting tíðniréttinda.

Tíðniheimildir teljast til opinberra upplýsinga sem gerðar skulu aðgengilegar almenningi. Undanskilja má upplýsingar í tíðniheimildum opinberri birtingu ef sanngjarnt og eðlilegt er að þær fari leynt vegna mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna tíðnirétthafa. Tíðniheimildir til eigin nota og/eða til tímabundinnar notkunar til skamms tíma, sbr. 9. og 10. gr. reglugerðarinnar, má undanskilja opinberri birtingu.

Póst- og fjarskiptastofnun heldur skrá yfir allar tíðniheimildir og rétthafa þeirra. Stofnunin birtir töflu á heimasíðu sinni sem hefur að geyma yfirlit yfir þær tíðniheimildir sem gefnar hafa verið út til að veita almenna fjarskiptaþjónustu, þar sem fram koma upplýsingar um:

  1. Nafn tíðnirétthafa.
  2. Tegund þjónustu.
  3. Skilgreint tíðnisvið og bandbreidd.
  4. Útgáfudag tíðniheimildar og gildistíma hennar.
  5. Landfræðilega afmörkun tíðniheimildar.
  6. Aðrar viðeigandi athugasemdir.

II. KAFLI Opin tíðnisvið, úthlutun til eigin nota o.fl.

8. gr. Opin tíðnisvið.

Póst- og fjarskiptastofnun birtir á vefsíðu sinni upplýsingar um opin tíðnisvið, svo sem fyrir lágaflsbúnað, þráðlausa talsíma og almenningstalstöðvar.

Enga tíðniheimild þarf fyrir eignarhaldi og starfrækslu þráðlauss sendibúnaðar, ef búnaðurinn sendir eingöngu út á opnu tíðnisviði.

Skilyrði fyrir notkun á opnum tíðnisviðum er að allur búnaður, sem notaður er, sé CE-merktur af framleiðanda til staðfestingar á því að hann uppfylli viðeigandi tæknilegar kröfur.

Póst- og fjarskiptastofnun getur fyrirskipað um takmörkun eða bann á notkun slíks búnaðar ef það er nauðsynlegt til að tryggja skilvirka og hagkvæma notkun viðkomandi tíðni og til að koma í veg fyrir skaðlegar truflanir. Banni Póst- og fjarskiptastofnun notkun tiltekins búnaðar getur hún látið innsigla búnaðinn eða kyrrsett hann.

9. gr. Úthlutun tíðna til eigin nota.

Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar aðilum tíðnum til eigin nota. Í umsókn skal koma fram nafn og kennitala umsækjanda, lýsing á fyrirhugaðri notkun, áætlaður rekstrartími, auk nánari upplýsinga fyrir hvern eftirtalinna flokka sendibúnaðar:

  1. Talstöðvarásir á metra- og desimetrabylgju (VHF/UHF).

    Sértíðnum á VHF (146-174 MHz) og UHF (440-470 MHz) tíðnisviðum er úthlutað til fyrirtækja, stofnana og félaga en ekki til einstaklinga. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að takmarka úthlutanir með þeim hætti að rásir séu samnýttar og notaður sé sítónsbúnaður.

    Á VHF tíðnisviðinu (146-174 MHz) er mesta leyfilega útgeislaða afl 25 wött en 15 wött á UHF tíðnisviðinu (440-470 MHz). Útgeislað afl er mælt með því að margfalda sendiafl talstöðvar með stefnuvirknisstuðli (mögnun) loftnets. Ef um verulegt tap er að ræða í flæðilínu frá sendi til loftnets er heimilt að taka tillit til þess við ákvörðun geislaðs afls.

    Í umsókn um VHF/UHF tíðni þarf eftirfarandi að koma fram:

    1. Staðsetning móðurstöðvar (ef um móðurstöð er að ræða).
    2. Þjónustusvæði.
    3. Hvort um er að ræða einnar eða tveggja tíðna notkun (simplex eða duplex).
    4. Hvort óskað er eftir VHF eða UHF rás.
    5. Fjöldi talstöðva.

    Ekki má flytja móðurstöðvar nema að fengnu samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.

    Tíðnirétthafa er heimilt að leyfa öðrum afnot af úthlutuðu tíðnisviði sínu til eigin nota, s.s. fyrir talstöðvar og fjarstýringar. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að ákveða að tíðnirétthafi haldi skrá um þá notendur sem hafa heimild til slíkra afnota og senda Póst- og fjarskiptastofnun uppfært afrit af skránni eigi síðar en 15. desember ár hvert.

    Geti notandi ekki sýnt fram á að hafa skriflegt samþykki tíðnirétthafa fyrir notkun á tíðnisviðinu telst hún vera ólögmæt. Búnað sem stilltur hefur verið inn á tíðnisvið án samþykkis tíðnirétthafa, er heimilt að gera upptækan í samræmi við 4. mgr. 74. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, sbr. og 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  2. Fastasambönd.

    Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram í umsókn um tíðnir fyrir fastasambönd:

    1. Afmörkun tíðnisviðs.
    2. Sendistaður A (heiti staðar, staðsetning, lengd og breidd).
    3. Sendistaður B (heiti staðar, staðsetning, lengd og breidd).
    4. Vegalengd og stefnur.
    5. Gerð búnaðar.
    6. Sendiafl.
    7. Loftnetsmögnun.

    Viðmiðunarreglur um val á tíðnisviði:

    1. Fyrir fastasambönd undir 10 km að lengd eru notuð tíðnisvið yfir 20 GHz.
    2. Fyrir fastasambönd 10 – 20 km að lengd eru notuð tíðnisvið á bilinu 10 – 20 GHz.
    3. Fyrir fastasambönd yfir 20 km að lengd eru notuð tíðnisvið undir 10 GHz.
  3. Fjarstýringar, fjarmælingar og annað. Í umsóknum um tíðnir fyrir slíkt skulu koma fram upplýsingar um:

    1. Sendiafl.
    2. Sendistað og þjónustusvæði.
    3. Bandbreidd.

    Póst- og fjarskiptastofnun er einnig heimilt að krefjast annarra upplýsinga ef þörf er á áður en umsókn er afgreidd.

10. gr. Tímabundin notkun þráðlauss sendibúnaðar.

Erlendir ferðamenn og aðrir sem vilja nota þráðlausan sendibúnað tímabundið hér á landi skulu sækja um það til Póst- og fjarskiptastofnunar á þar til gerðu umsóknareyðublaði.

Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram:

  1. Nafn og heimilisfang (ef Íslendingur þá einnig kennitala).
  2. Hvar og hvenær búnaðurinn kemur til landsins og fer úr landi.
  3. Hvaða tíðnir óskað er eftir að nota.
  4. Um búnaðinn (tegund og raðnúmer).
  5. Sendiafl.
  6. Hvar nota eigi búnaðinn.

Ef umsókn er samþykkt er áritað umsóknareyðublað notað sem leyfisbréf og skal það sýnt tollyfirvöldum bæði við komu búnaðar til landsins og brottför úr landi.

11. gr. Úthlutun tilraunaleyfa.

Póst- og fjarskiptastofnun getur úthlutað tilraunaleyfum, til prófana á ákveðinni tækni eða þjónustu. Gildistími slíkra leyfa skal að jafnaði vera 6 mánuðir.

Póst- og fjarskiptastofnun skal við útgáfu tilraunaleyfis tilgreina leyfilegar tíðnir og hvort tilraunir skuli vera landfræðilega staðbundnar.

Óheimilt er að veita almenna fjarskiptaþjónustu eða endurselja hana í hagnaðarskyni á grundvelli tilraunaleyfis.

Póst- og fjarskiptastofnun getur við útgáfu tilraunaleyfis sett skilyrði fyrir tilraunaleyfum, m.a. um að niðurstöður prófana skuli tilkynntar til stofnunarinnar.

III. KAFLI Úthlutun tíðna til almennrar fjarskiptaþjónustu og útvarps.

12. gr. Almenn skilyrði fyrir úthlutun tíðna.

Fjarskiptatíðnum til að veita almenna fjarskiptaþjónustu og til útvarps er aðeins úthlutað til einstaklinga og lögaðila sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og hafa verið skráð sem fjarskiptafyrirtæki hjá Póst- og fjarskiptastofnun, eða fjölmiðlaveita sem hlotið hafa leyfi fjölmiðlanefndar til hljóð- og myndmiðlunar.

13. gr. Sérstök skilyrði fyrir úthlutun tíðna.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja sérstök skilyrði varðandi hæfi umsækjanda til að fá úthlutað fjarskiptatíðnum til að veita almenna fjarskiptaþjónustu og til útvarps, s.s.:

  1. um að hann hafi fjárhagslega burði til uppbyggingar og reksturs fjarskiptanets sem ætlað er til að nota þær tíðnir sem sótt er um. Stofnunin getur t.d. sett skilyrði um að umsækjandi sýni fram á að fjárhagsstaða hans uppfylli tiltekið hlutfall eiginfjár af áætlaðri fjárfestingu við uppbyggingu fjarskiptanets eða að hann skuli leggja fram bankaábyrgð fyrir tiltekinni upphæð. Einnig að umsækjandi geti greitt lágmarksboð fyrir tíðniheimild ef úthlutun fer fram á grundvelli uppboðs;
  2. um að hann hafi tæknilega getu og reynslu umsækjanda til að reka almenna fjarskiptaþjónustu;
  3. um að umsækjandi hafi ekki brotið alvarlega gegn fjarskiptalögum eða vanefnt verulega skilmála sem sérstök réttindi, samkvæmt þeim lögum, hafa verið bundin.

14. gr. Skilyrði fyrir úthlutun á tíðnum fyrir útvarp.

Setja má skilyrði við úthlutun tíðna fyrir hljóðvarp og sjónvarp, sem byggjast á menningarlegum sjónarmiðum s.s. til þess að stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Þetta á t.d. við um úthlutun tíðna fyrir endurvarp erlendra dagskráa, þegar skortur er á tíðnum fyrir íslenskar dagskrár. Einnig má setja skorður við úthlutun tíðna, ef úthlutun getur orðið til þess að stuðla að eða auka samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, sem hindrað geti virka samkeppni. Leita skal álits fjölmiðlanefndar um þau skilyrði sem fyrirhugað er að setja samkvæmt ákvæði þessu.

15. gr. Umsókn um tíðnir fyrir almenna fjarskiptaþjónustu eða útvarp.

Þegar umsókn berst Póst- og fjarskiptastofnun um heimild til að nota tíðnir sem eru ætlaðar til ákveðinnar notkunar í tíðniskipulaginu skal að öllu jöfnu afgreiða umsóknina innan sex vikna.

Umsókn skal taka til meðferðar án tafar ef hún lýtur eingöngu að óverulegum hluta af skilgreindu tíðnisviði og úthlutun hefur þannig ekki teljandi áhrif á framboð þess eða umsókn varðar hagræðingu eða viðbótarúthlutun við tiltekið tíðnisvið sem fyrirtæki hefur þegar til umráða, enda hafi slík ráðstöfun ekki neikvæð áhrif á samkeppnistöðu á viðkomandi markaði.

Nú berst Póst- og fjarskiptastofnun umsókn um tíðnir til að veita almenna fjarskiptaþjónustu eða til útvarps, sem ekki fellur undir 2. mgr., og skal stofnunin þá með tilkynningu á heimasíðu sinni kanna hugsanlegan vilja annarra til að fá úthlutun á umræddu tíðnisviði. Í tilkynningunni skal m.a. tiltaka skilgreint umfang tíðnisviðsins, hversu stóran hlut af því fram komin umsókn tekur til og hvort tíðnisviðið verði tæknilega hlutlaust eða bundið við einhverja tiltekna þjónustu eða tiltekið landsvæði. Frestur til að svara tilkynningu skal að jafnaði vera 2 vikur. Póst- og fjarskiptastofnun getur einnig ákveðið að kanna áhuga á úthlutunum úr tilteknum tíðnisviðum að eigin frumkvæði, án þess að fyrir liggi umsókn um tíðnir.

Lýsi aðili yfir vilja sínum til að fá úthlutað tíðnum á umræddu tíðnisviði skal hann innan tilskilins frests afhenda Póst- og fjarskiptastofnun greinargerð, þar sem fram koma allar nauðsynlegar upplýsingar svo að hægt sé að leggja mat á viljayfirlýsinguna. Meðal þess sem skal koma fram í greinargerðinni er hvers konar þjónustu viðkomandi aðili hyggist veita, hversu stóru tíðnisviði þörf væri á og upplýsingar um fjárhagslega burði hans til þess að hrinda áætlunum sínum í framkvæmd.

Meti Póst- og fjarskiptastofnun viljayfirlýsingar, eins eða fleiri aðila, á þann veg að raunhæf eftirspurn eftir auglýstu tíðnisviði hafi áhrif á framboð þess ákveður hún hvort haldið skuli útboð samkvæmt IV. kafla eða tillaga lögð fyrir innanríkisráðherra um að halda uppboð í samræmi við V. kafla. Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun tíðna er heimilt að framlengja málsmeðferðarfrestinn skv. 1. mgr., þó ekki lengur en um átta mánuði.

Berist stofnuninni á hinn bóginn, innan tilskilins frests, engar viljayfirlýsingar frá hagsmunaaðilum, sem hún metur raunhæfar, úthlutar stofnunin tíðnum á grundvelli fyrirliggjandi umsóknar án frekari málsmeðferðar, enda komi þar fram allar upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar fyrir úthlutun og áform umsækjanda um notkun eru að mati stofnunarinnar raunhæf, í samræmi við gildandi tíðniskipulag og ekki líkleg til þess að valda skaðlegum truflunum.

IV. KAFLI Útboð á tíðnum.

16. gr. Tilkynning um útboð.

Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að halda útboð á tíðnum skal auglýsa með tilkynningu í blöðum og á heimasíðu stofnunarinnar a.m.k. 2 vikum fyrir útgáfu útboðslýsingar. Í tilkynningunni skulu koma fram helstu atriði sem skipta máli, s.s. um heildarstærð þess tíðnisviðs sem boðið er út, hversu margar tíðniheimildir boðnar verða út, hvort heimildirnar verði tæknilega hlutlausar eða bundnar við tiltekna tækni eða tegund þjónustu, auk þess sem dagsetja skal hvenær útboðslýsing verður gefin út.

17. gr. Samráð við hagsmunaaðila og upplýsingagjöf vegna útboða.

Á tímabilinu frá því að Póst- og fjarskiptastofnun hefur tilkynnt um ákvörðun sína um að efna til útboðs og þar til útboðslýsing hefur verið gefin út skal stofnunin hafa samráð við hugsanlega hagsmunaaðila. Skal hagsmunaaðilum gefast kostur á því að gera skriflegar athugasemdir við fyrirhugaða útboðslýsingu. Póst- og fjarskiptastofnun birtir á heimasíðu sinni allar innsendar athugasemdir ásamt svörum sínum við þeim. Ekki skal viðhafa trúnað um nafn umsagnaraðila eða efni umsagna nema ríkir fjárhags-, viðskipta- og/eða samkeppnishagsmunir mæli með því. Fyrirspurnir frá væntanlegum bjóðendum á útboðstímanum og svör við þeim skulu birt með sama hætti.

18. gr. Útboðslýsing.

Auglýsa skal í blöðum og á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar þegar útboðslýsing liggur fyrir. Póst- og fjarskiptastofnun ákveður hvort útboðslýsing er birt á heimasíðu stofnunarinnar eða er afhent gegn gjaldi sem byggt er á kostnaði við gerð útboðsgagna, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun.

Útboðslýsing skal innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að bjóðanda sé unnt að leggja fram tilboð í tíðniheimild. Skal hún tilgreina hvaða upplýsingar bjóðendur þurfi að veita til þess að teljast hæfir til þátttöku í útboðinu. Lýsa skal lágmarkskröfum sem gerðar eru til bjóðenda sbr. 13. gr. reglugerðarinnar. Útboðslýsingin skal tiltaka hvernig tilboð skulu úr garði gerð, hvaða skilmálar gildi annars vegar um útboðið sjálft og hins vegar um notkun og nýtingu á því tíðnisviði sem boðið er út. Skýrar upplýsingar skulu koma fram um hvernig mismunandi tilboð verða vegin og metin gegn hvert öðru, t.d. með stigagjöf, sbr. 22. gr.

19. gr. Útboðsfrestur.

Frestur til að skila tilboði skal vera hæfilegur miðað við umfang útboðsins og að lágmarki 4 vikur frá útgáfu útboðslýsingar. Óheimilt er að opna tilboð sem berast eftir að liðinn er sá frestur sem settur var til að skila tilboðum. Gögn sem kunna að liggja fyrir hjá Póst- og fjarskiptastofnun fyrir upphaf útboðsfrests, s.s. umsóknir um tíðnir og tilboð úr fyrri útboðum, hafa ekkert gildi nema þau séu lögð fram með nýju tilboði innan útboðsfrestsins.

20. gr. Frávikstilboð og fjöldi tilboða.

Óheimilt er að leggja fram frávikstilboð, nema að það sé sérstaklega heimilað í útboðslýsingu. Tilboð sem inniheldur frávikstilboð án þess að það sé heimilt telst vera ógilt í heild sinni. Aðeins eitt tilboð frá hverjum bjóðanda skal tekið gilt. Skili sami bjóðandi, eða aðili úr sömu samstæðu, fleiri en einu tilboði til Póst- og fjarskiptastofnunar skal það tilboð látið gilda sem stofnunin metur best, en önnur talin ógild.

21. gr. Forval og lokað útboð.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að efna til forvals á þátttakendum í útboði. Er þá lagt mat á hæfi bjóðenda til að byggja upp og starfrækja þá fjarskiptaþjónustu sem væntanlegt útboð lýtur að. Hæfiskröfur eru nánar skilgreindar í skilmálum forvalsins.

Þeir umsækjendur sem taldir eru fullnægja hæfiskröfum öðlast þátttökurétt í lokuðu útboði sem haldið skal a.m.k. 4 vikum eftir tilkynningu Póst- og fjarskiptastofnunar um niðurstöðu forvals.

22. gr. Mat á tilboðum.

Mat á tilboðum skal ráðast af einkunnagjöf þannig að því tilboði sé tekið sem hlýtur flest stig samkvæmt fyrirfram skilgreindum viðmiðum. Póst og fjarskiptastofnun ákveður hlutfallslegt vægi viðmiða innbyrðis og hagar framsetningu með þeim hætti að tilboðsgjafi geti, eftir því sem kostur er, reiknað sjálfur út hversu mörg stig tilboð hans muni hljóta.

Póst- og fjarskiptastofnun skal að jafnaði meta tilboð með það að markmiði að úthlutun á tíðni feli í sér sem mesta útbreiðslu á þjónustu, með sem mestum gæðum á sem lægstu verði og sé til þess fallin að örva samkeppni. Meðal atriða sem Póst- og fjarskiptastofnun getur haft til viðmiðunar er:

  1. Stærð útbreiðslusvæðis.
  2. Útbreiðsla þjónustu m.v. íbúafjölda.
  3. Hraði uppbyggingar fjarskiptanets.
  4. Skilvirk nýting tíðnisviðs.
  5. Gæði og þjónustustig.
  6. Möguleikar á aðgangi þriðja aðila að fjarskiptanetinu.
  7. Fjárhagsleg staða og fjárfestingamöguleikar bjóðenda.
  8. Reynsla bjóðenda á fjarskiptasviði.
  9. Umhverfissjónarmið.
  10. Samkeppnissjónarmið.

V. KAFLI Uppboð á tíðnum.

23. gr. Ákvörðun um uppboð.

Ráðherra ákveður, að fenginni tillögu Póst- og fjarskiptastofnunar, hvort uppboð verður haldið á tilteknum tíðniheimildum. Hafni ráðherra tillögu Póst- og fjarskiptastofnunar, skal viðkomandi tíðniheimildum úthlutað í útboði.

Í ákvörðun um uppboð skal koma fram hvort tíðniheimildir verði bundnar skilyrðum sem þjóna eiga samfélagslegum markmiðum t.d. að ákveðin þjónusta verði boðin á tilteknu útbreiðslusvæði.

Ef ráðherra ákveður að uppboð skuli haldið skal Póst- og fjarskiptastofnun, auglýsa fyrirhugað uppboð og hafa samráð við hagsmunaaðila varðandi uppboðsskilmála með sambærilegum hætti og lýst er í 16. gr.

24. gr. Uppboðsskilmálar.

Að samráðsferli loknu ákveður Póst- og fjarskiptastofnun skilmála fyrirhugaðs uppboðs. Uppboðsskilmálar marka grundvöll uppboðsins, forsendur úthlutunar, skilyrði sem uppboðsandlagið kann að vera bundið, kröfur til bjóðenda og réttindi þeirra og skyldur nema annað leiði af lögum eða reglugerð þessari. Í uppboðsskilmálum skulu koma fram allar þær upplýsingar sem bjóðendum eru nauðsynlegar til að geta tekið þátt í uppboðinu, m.a. atriði sem talin eru upp í eftirfarandi málsgreinum eftir því sem við á.

Fram skulu koma upplýsingar um uppboðsandlagið:

  1. Fjöldi heimilda sem boðnar verða upp og afmörkun tíðnisviðs fyrir hverja þeirra.
  2. Gildistími heimilda og möguleikar á framlengingu ef við á.
  3. Skilmálar sem gilda munu um notkun tíðna, t.d. hvort notkun er bundin við ákveðna tækni eða þjónustutegund.
  4. Hvort gerðar eru kröfur um gæði þjónustu.
  5. Hvort gerðar eru kröfur um útbreiðslu þjónustu og/eða uppbyggingu fjarskiptanets.
  6. Hvort tíðniheimildir verði framseljanlegar.

Tilgreina skal þær kröfur sem varða bjóðanda:

  1. Lágmarkskröfur sem gerðar eru til bjóðenda.
  2. Hvernig skráningu tilvonandi bjóðenda er háttað.
  3. Hvort takmarkanir eru settar varðandi tengsl milli bjóðenda.
  4. Hvort takmarkanir eru settar vegna tíðniheimilda sem bjóðandi hefur þegar fengið á tíðnisviði fyrir sambærilega þjónustu.
  5. Hvort hver bjóðandi megi bjóða í fleiri en eina tíðniheimild ef við á.

Fjalla skal ítarlega um atriði sem varða framkvæmdina:

  1. Þátttökugjald sem standi straum af kostnaði við undirbúning og framkvæmd uppboðs.
  2. Lýsing á formi og framkvæmd uppboðs.
  3. Upplýsingar sem bjóðendum munu verða veittar meðan á uppboði stendur og hvenær þær verða veittar, eftir því sem við á.
  4. Viðeigandi upplýsingar um þann rafræna búnað sem notaður er, ef við á, ásamt upplýsingum um hvernig og að uppfylltum hvaða tæknilegum kröfum bjóðandi getur tengst rafrænu uppboðskerfi.
  5. Upphafs- og lokatími uppboðs, fjölda fyrirfram ákveðinna umferða uppboðs ef við á og tímamörk fyrir hverja umferð.
  6. Ef fjöldi umferða er ótilgreindur skal koma fram hversu mörgum umferðum þurfi að ljúka án þess að skilyrðum um lágmarkshækkun sé fullnægt þannig að uppboðinu teljist vera lokið.
  7. Skilyrði varðandi tilboð bjóðenda, einkum varðandi lágmarksbreytingu á nýju tilboði ef um slíkt skilyrði er að ræða.
  8. Greiðslutryggingar.
  9. Greiðsluskilmálar.

Önnur atriði sem fram skulu koma í uppboðsskilmálum:

  1. Gjald sem tekið er af bjóðanda sem ekki stendur við tilboð sitt.
  2. Sektir fyrir að draga tilboð tilbaka.
  3. Hvort veittir séu afslættir af tilboðsfjárhæð ef náð er tilteknum markmiðum um gæði og/eða útbreiðslu þjónustu eða uppbyggingu á fjarskiptaneti, sbr. 28. gr.
  4. Beiting þvingunarúrræða samkvæmt 36. gr.
  5. Viðurlög við brotum gegn uppboðsskilmálum, en þau geta m.a. varðað brottvísun úr uppboði án endurgreiðslu á þátttökugjaldi, eða afturköllun á tíðniheimild sem veitt er í kjölfar uppboðs.
  6. Önnur atriði sem talin eru nauðsynleg til að framfylgja markmiðum laga um fjarskipti.

25. gr. Upplýsingagjöf og skráning í uppboð.

Uppboðsskilmálar skulu birtir á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar a.m.k. fjórum vikum áður en uppboð hefst. Auglýsa skal í blöðum að uppboðsskilmálar hafi verið birtir og að uppboð muni hefjast á tilteknum degi. Auglýsing og uppboðsskilmálar skulu vera á íslensku. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að birta auglýsingu og uppboðsskilmála einnig á ensku.

Aðilar sem óska þess að taka þátt í uppboðinu skulu senda Póst- og fjarskiptastofnun beiðni um skráningu, ásamt öllum upplýsingum sem krafist er í uppboðsskilmálum, þátttökugjaldi og greiðslutryggingu ef við á, eigi síðar en tveimur vikum fyrir upphaf uppboðs.

Ef upplýsingar eða önnur atriði skv. 2. mgr. eru ófullnægjandi getur Póst- og fjarskiptastofnun gefið aðila færi á að bæta úr því áður en uppboð hefst. Tveimur vikum áður en uppboð hefst skal Póst- og fjarskiptastofnun ákveða hvort aðili uppfylli skilyrði til þátttöku. Kæra aðila á synjun um þátttöku frestar ekki framkvæmd uppboðs, nema úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála taki sérstaka ákvörðun um frestun.

26. gr. Framkvæmd uppboðs.

Uppboð getur farið fram í einni eða fleiri umferðum eftir því sem mælt er fyrir í uppboðsskilmálum. Heimilt er að setja nánari fyrirmæli um framsetningu tilboða í hverri umferð.

Eftir að uppboð er hafið geta bjóðendur sent inn tilboð hvenær sem er þar til uppboði lýkur. Tilboð skulu birt á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar jafnóðum og þau berast. Birta skal upphæð tilboðs en ekki nafn bjóðanda.

Uppboði lýkur með þeim hætti sem ákveðið er í uppboðsskilmálum en það getur verið:

  1. Með því að tilgreina fyrirfram ákveðinn lokatíma í uppboðsskilmálum.
  2. Þegar ekki berast fleiri tilboð sem fullnægja kröfum um lágmarksbreytingar til hækkunar, sbr. 27. gr. Í þeim tilvikum skal í uppboðsskilmálum tiltaka þann tíma sem þarf að líða frá því að síðasta tilboð barst eða þann fjölda umferða sem þarf að ljúka áður en uppboðinu telst vera lokið.
  3. Þegar þeim fjölda umferða sem kveðið var á um í uppboðsskilmálum hefur verið lokið.

Þegar ljúka á uppboði í samræmi við c-lið, eftir atvikum einnig með vísan til þeirrar aðferðar sem um getur í b-lið, skal tímaáætlun fyrir hverja umferð uppboðs koma fram í uppboðsskilmálum.

Að loknu uppboði eru tíðniheimildir gefnar út til hæstbjóðenda gegn greiðslu þess gjalds sem boðið var. Ef fleiri en ein heimild er boðin upp í sama uppboði er þeim úthlutað til þeirra aðila sem eiga hæstu tilboðin, þó að teknu tilliti til þess að takmarkanir kunna að vera á því hversu margar tíðniheimildir sami aðili eða tengdir aðilar geta fengið sbr. c- og e-lið 3. mgr. 24. gr.

Tilboð eru bindandi og skal greiða það gjald sem boðið er á þeim tíma sem tilskilinn er í uppboðsskilmálum. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að innheimta gjaldið með því að ganga að greiðslutryggingu eða með hefðbundnum innheimtuaðferðum ef greiðslutrygging dugar ekki. Ef ekki tekst að innheimta allt gjaldið fellur tilboð úr gildi eða tíðniheimild hafi hún þegar verið gefin út og á þá sá aðili sem átti næsta tilboð fyrir neðan rétt á að fá úthlutað viðkomandi tíðniheimild. Sé tilboð eða tíðniheimild felld niður samkvæmt þessari málsgrein er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að innheimta févíti, eftir því sem segir í uppboðsskilmálum og má taka það af greiðslutryggingu bjóðanda.

27. gr. Lágmarksboð og lágmarkshækkanir tilboða.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að mæla fyrir um lágmarksboð í tíðniheimild. Getur fjárupphæðin verið breytileg eftir stærð tíðnisviðsins, staðsetningu innan tíðnirófsins og gildistíma réttindanna, auk annarra atriða. Lágmarksboð getur þó aldrei orðið hærra en sem nemur fimmtánföldu árgjaldi fyrir viðkomandi tíðnir eins og það er ákveðið í 14. gr. a. í lögum nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Ef mælt er fyrir um tiltekna fjárhæð sem lágmarksboð, eru boð sem berast fyrir lægri upphæð ekki tekin gild.

Ef uppboð fer fram í tilteknum eða ótilgreindum fjölda umferða er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að mæla fyrir um nauðsynlega lágmarkshækkun tilboða á milli umferða. Getur krafa um lágmarkshækkun þó aldrei farið fram úr 5% hækkun á hæsta boði fyrri umferðar, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í uppboðsskilmálum. Ef fjöldi umferða er ekki ákveðinn fyrirfram í uppboðsskilmálum getur stofnunin ákveðið að uppboði ljúki ef tilteknum fjölda umferða er lokið án þess að tilboð hafi hækkað umfram tilskilda lágmarkshækkun. Þá getur stofnunin einnig mælt fyrir um hvort bjóðanda sé heimilt að sitja hjá í einni eða fleiri umferðum.

28. gr. Afsláttur af verði tíðniheimildar í uppboði.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að ákveða að tiltekinn afsláttur komi til frádráttar á verði sem fengist hefur fyrir tíðniheimild á uppboði ef tilboðsgjafi hefur samkvæmt uppboðsskilmálum tekið á sig skuldbindingar um að ná fram, að hluta eða öllu leyti, skilgreindum markmiðum um gæði og/eða útbreiðslu þjónustu eða uppbyggingu á fjarskiptaneti. Afsláttinn skal miða við áætlaðan kostnað við að uppfylla kröfur um tiltekin þjónustugæði eða til að ná fram ákveðinni útbreiðslu þjónustu eða uppbyggingu á fjarskiptaneti, að viðbættu hæfilegu álagi eftir því sem framkvæmdin telst vera óarðbær, en þó að hámarki 50% af áætluðum kostnaði. Afsláttur getur þó aldrei orðið meiri en sem nemur 30% af uppboðsverði tíðniheimildar.

VI. KAFLI Um breytingu, lok og endurnýjun tíðniréttinda.

29. gr. Breyting á skilyrðum tíðniheimilda.

Póst- og fjarskiptastofnun er, þegar sérstaklega stendur á, heimilt á gildistíma tíðniheimildar að breyta skilyrðum hennar án samþykkis tíðnirétthafa, ef það er nauðsynlegt vegna breytinga í skilgreindu tíðniskipulagi, breytinga á lögum eða reglum um tíðnir eða vegna alþjóðlegra skuldbindinga, eða ef það er réttlætanlegt til að fyrirbyggja eða koma í veg fyrir truflanir fjarskipta. Auk þess má breyta skilyrðum tíðniheimildar ef þess gerist brýn nauðsyn vegna breytinga á hagfræðilegum eða tæknilegum forsendum rekstrargrundvallar fjarskiptafyrirtækis á fjarskiptamarkaði, eða vegna innkomu nýs fjarskiptafyrirtækis á fjarskiptamarkað eða annarrar sambærilegrar þarfar fyrir að endurskipuleggja notkun á tíðnirófinu vegna breytinga á markaðsaðstæðum.

30. gr. Gildistími tíðniheimilda.

Úthlutun tíðniheimilda skal vera tímabundin og við lok gildistímans falla niður öll réttindi og skyldur samkvæmt þeim og viðkomandi tíðnisvið verður laust til ráðstöfunar hjá Póst- og fjarskiptastofnun.

Tíðniheimild til að veita almenna fjarskiptaþjónustu skal vera tímabundin og gefin út með gildistíma sem að jafnaði er til 10-15 ára. Sérstakar aðstæður á fjarskiptamarkaði, t.d. fyrirséð eða fyrirhuguð breyting á skilgreindri notkun tíðnisviðs, geta réttlætt mun skemmri gildistíma.

Gildistími tíðniréttinda til að veita útvarpsþjónustu skal að jafnaði taka mið af gildistíma leyfis til hljóð- og myndmiðlunar sem fjölmiðlanefnd úthlutar.

Tíðniréttindum til annarra afnota skal úthluta til hæfilega langs tíma, en þó að jafnaði ekki lengur en ætla má að sé hámarksafskriftartími þess fjarskiptabúnaðar sem notaður er.

31. gr. Afturköllun tíðniheimildar.

Póst- og fjarskiptastofnun getur afturkallað tíðniheimild að hluta til eða að fullu ef:

  1. tíðnirétthafi stendur ekki í skilum með greiðslur gagnvart Póst- og fjarskiptastofnun, er veitt greiðslustöðvun eða verður gjaldþrota,
  2. um alvarleg eða endurtekin brot er að ræða á lögum um fjarskipti, lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, reglugerðum um fjarskipti eða reglum settum af Póst- og fjarskiptastofnun, en þó ekki fyrr en tíðnirétthafa hefur verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum innan 30 daga frá tilkynningu Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi brotið,
  3. skilyrði sem sett eru fyrir veitingu tíðniheimildar eru ekki lengur uppfyllt eða ef brotið er gegn ákvæðum og skilyrðum heimildarinnar,
  4. um verulegar og skaðlegar truflanir frá radíósendum er að ræða sem ekki reynist unnt að koma í veg fyrir,
  5. uppbygging og útbreiðsla fjarskiptanetsins og þjónusta við notendur þess er ekki í samræmi við skuldbindingar sem fram koma í umsókn tíðnirétthafa, eða ef tíðnirétthafi stendur að öðru leyti ekki við þær yfirlýsingar sem hann gaf í umsókn sinni og sem liggja til grundvallar heimildinni, s.s. skuldbindingar um uppbyggingu, þjónustu, þjónustusvæði og útbreiðsluhraða,
  6. tíðnirétthafi notar ekki úthlutaðar tíðnir til að veita þjónustu innan sanngjarns tímafrests, sem ákveðinn er af Póst- og fjarskiptastofnun,
  7. það reynist nauðsynlegt vegna alþjóðlegra skuldbindinga.

32. gr. Endurnýjun tíðniheimildar.

Óski tíðnirétthafi þess að fá tíðniheimild sína endurnýjaða skal hann tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um það 12 mánuðum áður en að gildistími tíðniheimildar rennur út.

Póst- og fjarskiptastofnun skal að jafnaði endurnýja tíðniheimild tíðnirétthafa, enda hafi sú ráðstöfun ekki neikvæð áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaði eða á skipulag og nýtingu tíðnirófsins.

Við endurnýjun á tíðniheimild skal Póst- og fjarskiptastofnun endurmeta þau skilyrði sem heimildin hefur verið bundin við. Getur Póst- og fjarskiptastofnun afnumið, bætt við eða breytt skilyrðum, m.a. til að ná fram markmiðum um aukna samkeppni, skilvirka nýtingu tíðnirófsins, öryggiskröfur, gæði og útbreiðslu þjónustu.

Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að hafna því að endurnýja tíðniheimild við lok gildistíma hennar getur byggst á því að uppfyllt sé eitt eða fleiri af eftirtöldum skilyrðum:

  1. Breytingar hafa orðið á alþjóðasamþykktum og/eða íslenska tíðniskipulaginu um skilgreinda notkun á tíðnisviðinu. Þjónusta á viðkomandi tíðnisviði styðst við eldri tækni eða staðla sem nauðsynlegt þykir að uppfæra.
  2. Meiri eftirspurn en framboð er af því tíðnisviði sem um ræðir.
  3. Tíðnirétthafi hefur brotið skilmála í tíðniheimildinni eða gerst sekur um alvarleg brot á fjarskiptalögum. Verulega skortir á að þjónustan hafi náð þeirri útbreiðslu sem tíðniheimild kveður á um.
  4. Markaðshlutdeild þjónustunnar er undir 10%.
  5. Ekki hefur náðst samkomulag við tíðnirétthafa um þær breytingar sem Póst- og fjarskiptastofnun telur nauðsynlegt að gera á skilmálum tíðniheimildar samkvæmt 3. mgr.

Fyrir utan 1. mgr. gildir ákvæði þetta um önnur tíðniréttindi en til að veita almenna fjarskiptaþjónustu eftir því sem við á.

VII. KAFLI Ýmis ákvæði.

33. gr. Truflanir.

Tíðnirétthafi skal tryggja að búnaður í umráðum hans valdi ekki truflunum á öðrum löglegum fjarskiptum.

Tíðnirétthafa ber án tafar að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um truflanir sem honum eru kunnar, hvort sem eigin radíóbúnaður veldur þeim eða verður fyrir þeim.

Sé hætta á skaðlegum truflunum frá radíósendum, getur Póst- og fjarskiptastofnun sett sérstök skilyrði þess efnis að slíkur búnaður sé ekki tekinn í notkun þar til hann hefur verið yfirfarinn og samþykktur af Póst- og fjarskiptastofnun.

Póst- og fjarskiptastofnun getur gert kröfur um breytingar á búnaði tíðnirétthafa í því skyni að koma í veg fyrir vanda vegna skaðlegra truflana. Tíðnirétthafi skal fyrir eigin reikning hlíta fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar um að bæta úr truflanavanda sem stafar af búnaði þess. Póst- og fjarskiptastofnun skal í samráði við fyrirtækið leitast við að halda kostnaði við slíkar breytingar í lágmarki.

Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla búnað sem veldur skaðlegum truflunum eða bannað notkun hans, sbr. 64. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Ef um verulegar og skaðlegar truflanir er að ræða sem ekki reynist unnt að koma í veg fyrir getur Póst- og fjarskiptastofnun afturkallað réttindi til tíðninotkunar, sbr. 31. gr.

34. gr. Ráðstafanir vegna rafsegulgeislunar.

Tíðnirétthafi skal gera ráðstafanir til að halda í lágmarki áhættu almennings af rafsegulgeislun sem stafar frá radíóbúnaði. Leitast skal við að staðsetja fjarskiptavirki þar sem almenningur verður fyrir sem minnstum áhrifum af slíkri geislun.

Tíðnirétthafi skal fara eftir fyrirmælum og reglum sem stjórnvöld kunna að setja um rafsegulgeislun, þ.m.t. að fylgt sé ákveðnum stöðlum.

Ef í ljós kemur að rafsegulgeislun frá fjarskiptavirkjum er yfir viðmiðunarmörkum í reglum eða viðeigandi stöðlum skal fyrirtækið bæta úr því án tafar eða að öðrum kosti hætta notkun viðkomandi fjarskiptavirkis.

Ef samanlögð rafsegulgeislun frá fjarskiptavirkjum sem staðsett eru nálægt hvort öðru fer yfir viðmiðunarmörk, án þess að nokkur einstakur búnaður fari yfir mörkin, skal það fyrirtæki sem síðast setti upp búnað bæta úr ástandinu eða hætta notkun hans.

35. gr. Upplýsingaskylda og eftirlit.

Tíðnirétthafi skal sæta eftirliti með starfsemi sinni og fjárhag af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar, eins og kveðið er á um í 4. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003. Póst- og fjarskiptastofnun er ennfremur heimilt að grípa til úrræða sem kveðið er á um í 5. gr. laga nr. 69/2003, þ.e. að krefjast allra upplýsinga sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsingar þessar skulu veittar munnlega eða skriflega allt eftir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar og innan þeirra tímamarka sem hún setur. Þar með talið getur stofnunin krafið tíðnirétthafa um ársreikninga, milliuppgjör, greinargerðir endurskoðenda þess og aðrar sambærilegar upplýsingar við eftirlit með starfsemi og fjárhagsstöðu tíðnirétthafa.

Póst- og fjarskiptastofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað tíðnirétthafa og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum um fjarskipti eða um Póst- og fjarskiptastofnun, reglum eða ákvörðunum stofnunarinnar. Við þessar aðgerðir skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mál um leit og hald á munum.

Tíðnirétthafi skal láta Póst- og fjarskiptastofnun í té allar þær tölfræðilegu upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegt að safna í þeim tilgangi að fylgjast með þróun á fjarskiptamörkuðum, t.d. upplýsingar varðandi fjölda notenda, stærðir farsímaneta, umferð um farsímanet, fjölda bilana, fjölda kvartana, notendagjöld, tekjur, útgjöld og fjárfestingar. Póst- og fjarskiptastofnun getur í þessum tilgangi sent út spurningalista með reglulegu millibili og ber tíðnirétthafa að svara þeim innan þess tíma sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður.

Tíðnirétthafi skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun ef breyting er gerð á nafni þess, heimilisfangi eða fyrirsvari.

Tíðnirétthafi skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um breytingar á eignaraðild þess ef um er að ræða 5% hlutafjár eða meira. Tíðnirétthafi skal veita Póst- og fjarskiptastofnun aðgang að hlutaskrá sinni þegar þess er óskað.

Tíðnirétthafi skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um eignaraðild sína að öðrum fjarskiptafyrirtækjum, sem eru virk á íslenskum fjarskiptamarkaði, og breytingar þar að lútandi skulu tilkynntar jafnóðum.

36. gr. Þvingunarúrræði.

Fari tíðnirétthafi ekki að ákvæðum laga, reglugerða, skilyrðum í tíðniheimild, eða einstökum ákvörðunum stofnunarinnar eða veitir ekki þær upplýsingar sem honum er skylt að afhenda stofnuninni, getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt á og innheimt dagsektir á tíðnirétthafa til að tryggja að eftir fyrirmælum stofnunarinnar sé farið, sbr. 12. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun.

Vanefni tíðnirétthafi að uppfylla þær skuldbindingar sem tíðniheimild kveður á um, t.d. varðandi uppbyggingu nets og útbreiðslu þjónustu, getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt á hann dagsektir sem skulu vera fyrirfram ákveðnar í skilmálum réttindanna og geta að hámarki numið 500.000 kr. fyrir hvern dag sem vanefndin stendur, sbr. 8. mgr. 11. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti.

37. gr. Gildistaka og heimild.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 10. mgr. 11. gr., 2. mgr. 14. gr. og 75. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003 eins og þeim var breytt með lögum nr. 34/2011 um breytingar á lögum um fjarskipti, og öðlast þegar gildi.

Jafnframt falla úr gildi eftirtaldar reglugerðir:

  1. Reglugerð nr. 336/1984 um starfrækslu talstöðva í landfarstöðvaþjónustu í metra- og desímetrabylgjusviðinu.
  2. Reglugerð nr. 373/1994 um þráðlausa fjarskiptaþjónustu.

Innanríkisráðuneytinu, 6. október 2011.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.