Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

1033/2021

Reglugerð um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna sóttkvíar eða einangrunar vegna COVID-19 farsóttarinnar.

I. KAFLI Kosning á sérstökum kjörstað.

1. gr.

Sýslumenn, hver í sínu umdæmi og í samráði við sóttvarnayfirvöld, skulu skipuleggja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á sérstökum kjörstað fyrir þá sem ekki geta greitt atkvæði á kjörstað eða greitt atkvæði á almennum utankjörfundarstað sökum þess að þeir eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 farsóttarinnar.

Sýslumaður skal auglýsa hvar og hvenær slík atkvæðagreiðsla fer fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Atkvæðagreiðsla á sérstökum kjörstað má ekki hefjast fyrr en fimm dögum fyrir kjördag. Sýslumanni er heimilt að lengja opnunartímann frá þegar auglýstum tíma, ef staða farsóttarinnar í umdæminu er slík að það sé nauðsynlegt. Skal það auglýst á vefsíðu sýslumanna.

Kjósendur sem hafa gefið sig fram fyrir auglýstan lokunartíma sérstaks kjörstaðar eiga rétt á að greiða atkvæði.

2. gr.

Sérstakir kjörstaðir skulu útbúnir þannig að unnt sé að taka á móti kjósanda sem kemur í bifreið á kjörstaðinn. Kjósandi skal gera grein fyrir sér og greiðir atkvæði án þess að annar sjái eða heyri. Kjósanda er óheimilt að opna dyr eða glugga bifreiðarinnar og skal hann vera einn í bifreið.

Kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun er heimilt að yfirgefa dvalarstað sinn í bifreið til að greiða atkvæði á sérstökum kjörstað fyrir þá sem eru í sóttkví eða einangrun.

3. gr.

Kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun telst hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréf og því skal kjörstjóri veita honum aðstoð við það án þess að nokkur annar sjái.

Kjósandi upplýsir kjörstjóra um hvernig hann vill greiða atkvæði, t.a.m. með því að sýna kjörstjóra blað með listabókstaf framboðs eða á annan hátt sem kjörstjóri telur öruggan og nægilega skýran.

4. gr.

Kjósandi getur óskað þess að fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur, aðstoði hann við að greiða atkvæði á sérstökum kjörstað og fer um slíka beiðni og atkvæðagreiðslu eftir 4. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, eftir því sem við á.

Fulltrúi kjósanda sem heimilað er að aðstoða kjósanda við atkvæðagreiðslu má hvorki vera í sóttkví né einangrun vegna COVID-19 farsóttarinnar og má ekki ferðast með kjósanda í bifreið. Fulltrúi kjósanda skal fara út úr bifreið sinni þegar hann aðstoðar kjósandann komi hann akandi á kjörstaðinn.

II. KAFLI Kosning á dvalarstað.

5. gr.

Kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördag sökum þess að hann er í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 farsóttarinnar er heimilt að greiða atkvæði á dvalarstað. Kjósandi í sóttkví þarf jafnframt að uppfylla það skilyrði að vera ókleift að greiða atkvæði á sérstökum kjörstað fyrir þá sem eru í sóttkví eða einangrun.

Atkvæðagreiðsla á dvalarstað má ekki hefjast fyrr en fimm dögum fyrir kjördag.

Kjósandi sem svo er ástatt um sem segir í 1. mgr. skal senda beiðni um að greiða atkvæði á dvalarstað sínum til sýslumanns í því umdæmi sem kjósandi dvelur. Beiðni skal senda með tölvupósti eða öðrum tryggum hætti og skal hafa borist sýslumanni eigi síðar en kl. 10.00 á kjördag, sé dvalarstaður kjósanda í því kjördæmi sem hann á kosningarrétt í, en annars eigi síðar en kl. 10.00 tveimur dögum fyrir kjördag.

Í beiðni um að greiða atkvæði á dvalarstað skal koma fram:

  1. Dagsetning beiðni.
  2. Nafn, kennitala og lögheimili kjósanda.
  3. Upplýsingar um dvalarstað kjósanda.
  4. Upplýsingar um hvort kjósandi sé í sóttkví eða einangrun.
  5. Upplýsingar um hvers vegna kjósanda, sem er í sóttkví, sé ókleift að greiða atkvæði á sérstökum kjörstað fyrir þá sem eru í sóttkví eða einangrun.
  6. Upplýsingar um hvort kjósandi óski aðstoðar fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur við atkvæðagreiðsluna, hver sá fulltrúi sé og undirritað þagnarheit hans skal fylgja með.

Beiðni skal jafnframt fylgja staðfesting sóttvarnayfirvalda á að viðkomandi sé í einangrun eða sóttkví fram yfir kjördag.

6. gr.

Við atkvæðagreiðslu á dvalarstað skal kjörstjóri nota viðeigandi hlífðarbúnað og skal kjósandi bera andlitsgrímu. Gæta skal að því að ávallt séu a.m.k. tveir metrar á milli kjósanda og kjörstjóra eða þeir aðskildir á annan hátt, s.s. með gleri.

Kjósandi skal að jafnaði vera inni á dvalarstað sínum og kjörstjóri skal að jafnaði vera utan við dvalarstaðinn, s.s. á stigagangi fjölbýlishúss. Kjörstjóri skal ganga úr skugga um að aðrir sjái hvorki né heyri hvernig kjósandi greiðir atkvæði. Kjósanda er ekki heimilt að dvelja í sameiginlegu rými á dvalarstað sínum, s.s. stigagangi, og greiða þar atkvæði.

Kjósanda er þó heimilt að greiða atkvæði fyrir utan dvalarstað sinn, s.s. í garði eða á bifreiðastæði, enda sé það mat kjörstjóra að öruggt sé að aðrir sjái hvorki né heyri hvernig kjósandi greiðir atkvæði og að sóttvarnir séu nægilega tryggðar, sbr. 1. mgr.

Við atkvæðagreiðslu á dvalarstað skal gæta að því að aðrir, s.s. heimilisfólk kjósanda eða nágrannar, sjái hvorki né heyri hvernig kjósandi greiðir atkvæði.

7. gr.

Kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun telst hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréf og því skal kjörstjóri veita honum aðstoð við það án þess að nokkur annar sjái eða heyri.

8. gr.

Kjósandi getur óskað þess að fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur, aðstoði hann við að greiða atkvæði á dvalarstað og fer um slíka beiðni og atkvæðagreiðslu eftir 4. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, eftir því sem við á og ákvæðum 6. gr. reglugerðar þessarar.

Fulltrúi kjósanda sem heimilað er að aðstoða kjósanda við atkvæðagreiðslu má hvorki vera í sóttkví né einangrun vegna COVID-19 farsóttarinnar.

9. gr.

Kjörstjóri má synja kjósanda um að greiða atkvæði á dvalarstað telji sóttvarnayfirvöld að atkvæðagreiðslu verði ekki við komið án þessa að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu, s.s. ef kjósandi fer ekki að fyrirmælum reglugerðarinnar um grímunotkun og nálægðarmörk og aðra framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

III. KAFLI Gildistaka o.fl.

10. gr.

Að atkvæðagreiðslu lokinni skal sýslumaður koma atkvæði til hlutaðeigandi kjörstjórnar eða hlutast til um að slíkt sé gert, sé kjósandi staðsettur í kjördæmi sínu. Sé kjósandi ekki staðsettur í kjördæmi sínu, skal kjörstjóri setja atkvæðið í póst eða afhenda það þeim sem kjósandi tilgreinir.

11. gr.

Um atkvæðagreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fer að öðru leyti eftir XII. kafla laga um kosningar til Alþingis, eftir því sem við á.

12. gr.

Um sóttvarnir við atkvæðagreiðslu samkvæmt reglugerð þessari, þ.m.t. sóttvarnir sem kjósanda er skylt að viðhafa, fer að öðru leyti eftir reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Kjósanda ber að fara að fyrirmælum kjörstjóra um sóttvarnir og aðra framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

13. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VI laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, sbr. 8. gr. laga nr. 67/2021, og tekur þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 14. september 2021.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.