Fara beint í efnið

Prentað þann 18. des. 2024

Stofnreglugerð

1025/2012

Reglugerð um flugvirkt.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um samræmdar aðgerðir opinberra aðila sem og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm, til þess að einfalda formsatriði og greiða fyrir afgreiðslu, með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum, þannig að flutningur geti gengið snurðulaust fyrir sig.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin tekur til afgreiðslu farþega, farangurs og farms þ.m.t. dýra og þjónustu við loftför á millilandaflugvöllum hér á landi nema annað sé sérstaklega tekið fram.

3. gr. Orðskýringar.

Í texta þessara reglna er hugtakið "þjónusta" notað sem sértækt nafnorð er táknar starfsemi eða veitta þjónustu.

Þegar eftirfarandi orð eða orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð hafa þau þá merkingu sem hér greinir:

Aðgangur (admission): Leyfi til einstaklings til að koma inn í landið sem veitt er af viðkomandi yfirvöldum.

Afferming (unloading): Fjarlæging farms, pósts, farangurs eða birgða úr loftfari eftir lendingu.

Afhending vara (release of goods): Sú aðgerð þegar tollayfirvöld leyfa að vörur í tollmeðferð afhendist til viðkomandi einstaklinga.

Alþjóðaflugvöllur (international airport): Flugvöllur, tilgreindur af því aðildarríki sem flugvöllurinn tilheyrir sem komu- og brottfararflugvöllur í millilandaflugi, þar sem tilfallandi formsatriði er snúa að tollafgreiðslu, innflutningi fólks, lýðheilsu, sóttkví dýra og jurta og þess háttar verkferlum eru afgreidd.

Ítarlegar farþegaupplýsingar (API, Advance Passenger Information): Rafrænt samskiptakerfi sem safnar og sendir nauðsynlegar upplýsingar til landamærastofnana fyrir brottför eða komu flugs og gerir upplýsingarnar aðgengilegar við landamæraafgreiðslu.

Áfangaflug (through-flight): Tiltekin starfræksla loftfars, auðkennd af flugrekanda með notkun sama táknsins út förina, frá upphafsstað um sérhverja viðkomustaði til áfangastaðarins.

Áhættumat vegna brottvísunar (risk assessment): Mat sem fer fram á því hvort henti að flytja brottvísaðan einstakling úr landi með áætlunarflugi fylgdarlaust eður ei. Matið skal taka til greina alla viðkomandi þætti, þ.m.t. heilsufarslega, andlega og líkamlega hæfni fyrir flutning með áætlunarflugi, vilja eða tregðu til að ferðast, hegðunarmynstur og fyrri ofbeldishegðun.

Áhættustjórnun við landamæraeftirlit (risk management): Kerfisbundin beiting stjórnunaraðferða og starfshátta sem veita landamærastofnunum þær upplýsingar sem þær þurfa til að taka á áhættusömum ferðum eða flutningum.

Birgðir (vistir) (stores (supplies)): a) Birgðir (vistir) til neyslu; og b) Birgðir (vistir) sem teknar verða burtu.

Birgðir (vistir) (stores (supplies)) sem verða teknar burtu: Vörur til sölu til farþega og flugliða loftfars sem ætlunin er að lenda með.

Birgðir (vistir) til neyslu (stores (supplies) for consumption): Vörur, til sölu eður ei, ætlaðar til neyslu af farþegum og flugliðum um borð í loftfari, og vörur sem eru nauðsynlegar fyrir starfrækslu og viðhald loftfars, þ.m.t. eldsneyti og smurning.

Borðganga (embarkation): Þegar gengið er um borð í loftfar í þeim tilgangi að hefja flug, að undanskildum flugliðum eða farþegum sem hafa gengið um borð á fyrri tímapunkti í sama áfangaflugi.

Bráð ógn við lýðheilsuna sem varðar þjóðir heims (public health emergency of international concern): Óvenjulegur atburður sem er skilgreindur, eins og kveðið er á um í alþjóðaheilbrigðisreglugerð (2005) Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar: (i) sem hætta fyrir lýðheilsuna í öðrum ríkjum vegna útbreiðslu sjúkdóms milli landa og (ii) sem atburður sem gæti útheimt samstillt, alþjóðleg viðbrögð.

Brottvísun einstaklings (removal of a person): Aðgerð af hálfu opinberra yfirvalda í samræmi við lög og reglur sem felur í sér að einstaklingi eru gefin fyrirmæli um að yfirgefa landið.

Dreifilyklaskrá Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO Public Key Directory [ICAO PKD]): Miðlægur gagnagrunnur sem þjónar sem safn og inniheldur skírteini undirritenda (Document Signer Certificates (CDS)), dreifilykla undirritenda (Document Signer Public Keys), CSCA grunnlista (CSCA Master List [MLCSCA]), staðfestingarskjal ríkis (Country Signing CA Link Certificates (lCCSCA)) og lista yfir skírteini sem hafa verið afturkölluð (Certificate Revocation Lists) gefnir út af þátttakendum, ásamt kerfi fyrir dreifingu þeirra um allan heim sem viðhaldið er af Alþjóðaflugmálastofnuninni fyrir hönd þátttakenda í þeim tilgangi að auðvelda staðfestingu gagna í tölvulesanlegum ferðaskilríkjum (eMRTDs).

Einstaklingur með ófullnægjandi skilríki (improperly documented person): Einstaklingur sem ferðast, eða reynir að ferðast: (a) með útrunnin ferðaskilríki eða ógilda vegabréfsáritun; (b) með grunnfölsuð, breytingafölsuð eða breytt ferðaskilríki eða vegabréfsáritun; (c) með ferðaskilríki eða vegabréfsáritun einhvers annars; (d) án ferðaskilríkja; eða (e) án vegabréfsáritunar, ef þessa er krafist.

Einstaklingur sem vísað hefur verið úr landi (deportee): Einstaklingur sem hefur með löglegum hætti verið leyft að koma til landsins eða sem hafði með ólöglegum hætti komið til þess, en sem á einhverjum seinni tímapunkti er með formlegum hætti skipað af lögbærum yfirvöldum að yfirgefa landið.

Farþegaaðstaða (passenger amenities): Aðstaða fyrir farþega sem ekki er nauðsynleg fyrir afgreiðslu farþega.

Ferðaskilríki (travel document): Vegabréf eða önnur opinber skilríki gefin út af ríki eða stofnun, sem réttmætur handhafi má nota til ferðalaga milli landa.

Fíkniefnaeftirlit (narcotics control): Ráðstafanir til að hafa eftirlit með ólöglegum flutningi í lofti á fíkniefnum eða geðvirkum efnum.

Flugvirkt (facilitation): Samræmdar aðgerðir opinberra aðila og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm á flugvöllum til þess að einfalda formsatriði og greiða fyrir afgreiðslu þeirra.

Frísvæði (free zone): Hluti af yfirráðasvæði ríkis þar sem sérhverjar vörur sem koma inn á svæðið eru almennt álitnar, að því leyti sem viðkemur innflutningsgjöldum og sköttum, vera utan tollsvæðisins.

Fylgdarlaus farangur (unaccompanied baggage): Farangur sem er fluttur sem farmur og kann eða kann ekki að vera fluttur með sama loftfari og einstaklingurinn sem á farangurinn.

Hamfarir (disaster): Alvarleg truflun á virkni samfélagsins sem veldur víðtækum skaða á fólki, eignum og umhverfi sem er meiri en samfélagið sem varð fyrir skaðanum getur ráðið við, einungis með eigin úrræðum (skilgreining Sameinuðu þjóðanna).

Hjálparflug (relief flights): Flug sem farið er í af mannúðarástæðum með hjálparstarfsfólk og vistir á borð við mat, fatnað, skýli, búnað til lækninga og aðra hluti á meðan á neyðarástandi og/eða hamförum stendur eða eftir slíkt ástand og/eða eru notuð til að flytja einstaklinga á brott frá stað þar sem lífi þeirra eða heilsu er ógnað af slíku neyðarástandi og/eða hamförum til öruggs staðar innan sama ríkis eða annars ríkis sem er reiðubúið til að taka á móti slíkum einstaklingum.

Hætta fyrir lýðheilsuna (public health risk): Líkur á atburði sem getur haft skaðleg áhrif á heilbrigði hópa fólks og er þar sérstaklega átt við sjúkdóm eða mengun sem gæti náð að berast milli landa eða gæti skapað alvarlega og beina hættu.

Innflutningsgjöld og skattar (import duties and taxes): Tollar og allir aðrir skattar eða gjöld sem eru innheimt á eða í tengslum við innflutning vara. Innifalin eru ekki sérhver gjöld þar sem upphæð takmarkast við áætlaðan kostnað veittrar þjónustu eða innheimt eru af tollgæslunni fyrir hönd annars innlends yfirvalds.

Innflytjendaeftirlit (immigration control): Ráðstafanir yfirvalda til að hafa eftirlit með komu flugfarþega til, ferð þeirra í gegnum og brottför þeirra frá landinu.

Landganga (disembarkation): Þegar loftfar er yfirgefið eftir lendingu, að undanskildum flugliðum eða farþegum sem halda áfram á næsta viðkomustað sama áfangaflugs.

Neyðarástand (emergency): Skyndilegur, óvenjulegur og ófyrirséður atburður sem krefst umsvifalausra aðgerða til að lágmarka neikvæðar afleiðingar hans (skilgreining Sameinuðu þjóðanna).

Óskilafarangur (unclaimed baggage): Farangur sem kemur á flugvöll og farþegi hvorki sækir né gerir tilkall til.

Óþekktur farangur (unidentified baggage): Farangur á flugvelli, með eða án farangursmiða, sem ekki er sóttur af eða tengdur við farþega.

Óæskilegur einstaklingur (inadmissible person): Einstaklingi sem er eða mun verða meinað að fara inn í landið af yfirvöldum þess.

Ráðstafanir fyrir beina gegnumumferð (direct transit arrangements): Sérstakar ráðstafanir yfirvalda vegna umferðar sem stöðvar stuttlega á ferð sinni í gegnum íslenskt yfirráðasvæði og getur verið undir stjórn íslenskra yfirvalda.

Skipun um brottvísun (deportation order): Skrifleg skipun, gefin út af viðkomandi yfirvaldi, sem afhent er einstaklingi og skipar honum að yfirgefa landið.

Skipun um brottflutning (removal order): Skrifleg skipun frá viðkomandi yfirvaldi til flugrekanda sem flutt hefur óæskilegan einstakling til landsins sem felur í sér að mælt er fyrir um að honum beri að flytja einstaklinginn af landinu.

Eftirlitsmaður með almenningsflugi (civil aviation inspector): Eftirlitsmaður í almenningsflugi er einstaklingur, tilnefndur af viðkomandi yfirvaldi ríkisins og sem er falið eftirlit með öryggi, vernd eða skyldum atriðum varðandi flugsamgöngur eins og mælt er fyrir um af því.

Skordýraeyðing (disinsection): Ferli þar sem gerðar eru heilbrigðisráðstafanir til að halda í skefjum eða eyða skordýrum sem hafast við í loftförum, farangri, farmi, gámum, vörum og póstbögglum.

Skýrslugjafi (declarant): Sérhver einstaklingur sem gerir vöruskýrslu eða í hvers nafni slík skýrsla er gerð.

Sótthreinsun (disinfection): Ferli þar sem gerðar eru heilbrigðisráðstafanir til að halda sýklum á líkama manna eða dýra eða í eða á loftförum, farangri, farmi, vörum eða gámum í skefjum eða eyða þeim með efnafræðilegum eða eðlisfræðilegum aðferðum.

Svæði fyrir beina gegnumumferð (direct transit area): Sérstakt svæði sem komið er á fót innan millilandaflugvallar, samþykkt af viðkomandi yfirvöldum og undir beinu eftirliti eða stjórn þeirra, þar sem farþegar geta dvalist þegar millilent er eða farið í tengiflug án þess að óskað sé eftir því að fara inn í landið.

Tímabundinn aðgangur (temporary admission): Tollmeðferð, þar sem ákveðnar vörur geta verið fluttar inn á tollsvæði, og með skilyrðum eru að fullu eða að hluta lausar undan greiðslu innflutningsgjalda og skatta. Þessar vörur eiga að vera fluttar inn í ákveðnum tilgangi og vera ætlaðar til endurútflutnings innan tiltekins tíma án þess að hafa tekið breytingum fyrir utan venjulega rýrnun vegna notkunar.

Tollafgreiðsla vara (clearance of goods): Framkvæmd formsatriða við tollafgreiðslu sem eru nauðsynleg til að vörur komist í heimilisnotkun, séu fluttar út eða meðhöndlaðar samkvæmt annarri reglu um tollmeðferð.

Traust landamæri (border integrity): Framfylgd ríkis á lögum þess og reglugerðum varðandi flutning vara og einstaklinga yfir landamæri þess.

Tölvulesanleg ferðaskilríki (eMRTD Machine Readable Travel Documents): Tölvulesanleg ferðaskilríki (vegabréf, vegabréfsáritun eða kort) sem eru með innbyggðri snertifrírri samrás og geta verið notuð sem lífkenni handhafa skilríkjanna í samræmi við staðla sem tilgreindir eru í leiðbeiningarefni ICAO Doc 9303 - Tölvulesanleg ferðaskilríki.

Upphaf ferðar (commencement of journey): Staðurinn þar sem einstaklingur hóf ferð sína, án þess að tekið sé tillit til flugvallar þar sem einstaklingurinn stöðvaði í beinni gegnumumferð, annaðhvort í áfangaflugi eða tengiflugi, ef hann yfirgaf ekki svæðið fyrir beina gegnumumferð á viðkomandi flugvelli.

Viðskila farangur (mishandled baggage): Farangur sem óvart eða af vangá hefur orðið viðskila við farþega eða flugverja.

Viðurkenndur umboðsmaður (authorized agent): Einstaklingur sem er fulltrúi flugrekanda og sem er viðurkenndur af eða fyrir hönd slíks aðila til að framfylgja formsatriðum sem tengjast komu og afgreiðslu loftfars á vegum hans, flugliðum, farþegum, farmi, pósti, farangri eða birgðum og tekur til, þar sem lög leyfa, þriðja aðila með leyfi til að meðhöndla farm í loftfarinu.

Vistir fyrir farþega (commissary supplies): Vörur, annaðhvort einnota eða fjölnota, sem notaðar eru af flugrekanda til þjónustu meðan á flugi stendur, einkum fyrir veitingar, og fyrir þægindi farþega.

4. gr. Leiðbeiningarefni.

Víða í reglugerð þessari er vísað til krafna og leiðbeiningarefnis í viðauka 9 við Chicago-samninginn. Einnig er vísað í leiðbeinandi efni útgefið af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO). Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja þeim kröfum sem í reglugerð þessari er lýst eða er þeim til frekari uppfyllingar. Fylgja skal þessu leiðbeiningarefni til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar eftir því sem við á. Þegar vísað er til tölusettra viðauka í reglugerð þessari er átt við viðauka við Chicago-samninginn.

Helsta leiðbeiningarefni sem stuðst er við og vísað til um framkvæmd flugvirktar er eftirfarandi:

  1. Viðauki 11 - Flugumferðarþjónusta (Air Traffic Services), leiðbeiningar um gerð viðbragðsáætlana fyrir flugumferðarþjónustu vegna bráðra ógnana við lýðheilsuna sem varða þjóðir heims og leiðbeiningar vegna beitingar aðgerða til að tryggja öryggi hjálparflugs.
  2. Viðauki 14 - Flugvellir (Aerodromes), bindi I - Hönnun og rekstur flugvalla (Volume I - Aerodrome Design and Operations) um gerð viðbragðsáætlana fyrir flugvelli, vegna bráðra ógnana við lýðheilsuna sem varða þjóðir heims.
  3. Viðauki 6 - Starfræksla loftfara (Operation of Aircraft) lýsir sjúkragögnum "um borð" sem gerð er krafa um að séu í loftförum.
  4. Tæknilegar leiðbeiningar um flutning hættulegs farms með flugi (ICAO Technical Instructions for the Safe Transport of Dangerous Goods by Air, Doc 9284).
  5. Staðlar fyrir rafræna greiningu ferðaskilríkja (ICAO Specifications for machine readable travel documents, Doc 9303).
  6. Stefnuyfirlýsing Evrópusambands flugmálastjórna um flugvirkt (European Civil Aviation Conference ECAC, Policy Statement in the Field of Civil Aviation Facilitation, Doc 30).
  7. Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin (International Health Regulation). Reglugerð sem samþykkt hefur verið af þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (World Health Organization) í samræmi við stofnskrá hennar og innleidd af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi.

5. gr. Eftirlitsstjórnvald.

Flugmálastjórn Íslands fer með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Þar sem einstök verkefni eða framkvæmd þeirra fellur undir valdsvið annarra stofnana veitir Flugmálastjórn leiðbeiningar eða kemur með ábendingar um skuldbindingar á gildissviði reglugerðarinnar og breytingar á þeim. Flugmálastjórn ber ábyrgð á tilkynningum frávika til Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Eftirlitsskyldum aðilum skv. lögum um loftferðir og lögum um Flugmálastjórn Íslands ber að fara að fyrirmælum stofnunarinnar um framkvæmd reglugerðar þessarar. Ákvarðanir og fyrirmæli Flugmálastjórnar Íslands sem og frávik frá viðauka 9 skulu birt í Flugmálahandbók eftir því sem við á.

6. gr. Handbækur.

Þjónustu-, afgreiðslu- og eftirlitsaðili á flugvelli skal útbúa handbók með leiðbeiningum til starfsmanna um framkvæmd þjónustu. Í handbók skal setja fyrirmæli um framkvæmd þátta er varða flugvirkt þ.m.t. um framkvæmd sóttvarnaráðstafana.

Fyrirmæli í handbók binda viðkomandi þjónustu-, afgreiðslu- og eftirlitsaðila og starfsmenn þeirra um framkvæmd fyrirmæla. Handbókin skal vera hlutaðeigandi starfsmönnum aðgengileg og heimilt er að hún sé á ensku. Breyting á handbók skal kynnt þeim starfsmönnum er hana varðar svo fljótt sem auðið er ásamt gildistöku breytinga. Flugmálastjórn Íslands þarf að staðfesta handbókina og breytingar á henni.

II. KAFLI Flugvirktarráð.

7. gr. Hlutverk.

Ráðherra skipar flugvirktarráð til þriggja ára í senn. Hlutverk ráðsins er m.a.: að samhæfa og samræma starfsemi þeirra opinberu aðila og annarra sem koma að afgreiðslu eða þjónustu við loftför, farþega, farangur og farm á flugvöllum til þess að einfalda formsatriði og greiða fyrir flutningi og afgreiðslu þeirra þannig að flutningur geti gengið snurðulaust fyrir sig.

Ráðið skal leitast við að leysa úr ágreiningi milli opinberra aðila er varða úrlausnaratriði sem hefur áhrif á rekstur alþjóðlegs almenningsflugs. Ráðið skal samræma innleiðingu og breytingar á reglum sem varða flugvirkt eins og kostur er og eiga um það samráð við hagsmunaaðila.

Þá skal ráðið hafa umsjón með og ber ábyrgð á að gerð verði sérstök áætlun um framkvæmd flugvirktar sem miði að því að bæta úr og fullnægja kröfum sem samræmast skuldbindingum ríkisins sem af viðauka 9 leiðir eins og þær eru á hverjum tíma. Tillögur ráðsins sem leiða til aukins kostnaðar fyrir rekstraraðila flugvalla og aukinnar gjaldtöku af flugrekstraraðilum skulu teknar til umfjöllunar hjá notendanefnd flugvallar áður en þær eru endanlega afgreiddar.

Ráðið getur fjallað um einstök mál sem ráðherra beinir til þess er varða flugvirkt.

8. gr. Skipun.

Ráðherra skipar tvo fulltrúa í flugvirktarráð án tilnefningar. Skal annar vera formaður en hinn varaformaður. Auk þess skal ráðherra skipa fulltrúa frá tolla-, lögreglu-, heilbrigðis- og flugmálayfirvöldum og öðrum þeim aðilum sem koma að framkvæmd flugvirktar og bera ábyrgð á skilvirkri framkvæmd tollamála, skattamála, vegabréfa, vegabréfaáritana, heilbrigðismála, sóttvarna, flugverndar, rekstri flugvalla og annarri afgreiðslu á flugvöllum, samkvæmt tilnefningu þar um.

9. gr. Skipulag og fundir.

Formaður flugvirktarráðs ber ábyrgð á og fer með yfirstjórn á starfsemi ráðsins, boðar til funda og undirbýr dagskrá. Boðað skal til funda með skriflegum hætti eða með tölvupósti á tölvupóstfang sem nefndarmenn tiltaka. Fundi skal boða með sjö sólarhringa fyrirvara, en þó aldrei skemur en með tveggja sólarhringa fyrirvara. Dagskrá fundar skal fylgja fundarboði. Fund í flugvirktarráði skal halda eftir þörfum eða ef fleiri en einn nefndarmanna óska þess, en eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Ef ósk berst frá nefndarmönnum um fund skal boðað til hans innan viku frá því að ósk berst.

Halda skal fundargerð um það sem gerist á fundum flugvirktarráðs og skal hún send til nefndarmanna innan viku frá fundi til staðfestingar. Í fundargerð skal bóka hvaða nefndarmenn eru mættir, hvað sé á dagskrá fundarins og hvaða málefni voru rædd og afgreidd á fundinum. Nefndarmenn eiga rétt á því að leggja fram stutta skriflega lýsingu á afstöðu sinni og fá bókaða í fundargerð.

Fundarmönnum er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi ráðsins og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Ráðið setur sér nánari reglur um starfsemina.

III. KAFLI Málskot, gildistaka, viðurlög o.fl.

10. gr. Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

11. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari, viðauka hennar ásamt ákvæðum í handbókum öðlast gildi hér á landi viðauki 9 um flugvirkt við stofnsáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um alþjóðlegt almenningsflug (Chicago-samningurinn).

Ákvæði reglugerðarinnar eða viðaukans koma ekki í veg fyrir að beitt sé strangari reglum vegna krafna á sviði flugverndar eða vegna annarra krafna í þágu almannaöryggis.

12. gr. Viðauki.

Viðauki sem fylgir reglugerð þessari skal vera hluti hennar.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 56. gr., 1. mgr. 57. gr., 1. mgr. 57. gr. b., 57. gr. c., 57. gr. d. og 57. gr. e., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 15. nóvember 2012.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.