Prentað þann 21. des. 2024
1000/2018
Reglugerð um vöktun á sýklalyfjaþoli í lifandi dýrum, matvælum, fóðri, áburði og sáðvöru.
1. gr.
Með þessari reglugerð eru settar nákvæmar reglur um vöktun á þoli gegn sýklalyfjum sbr. reglugerð nr. 1048/2011 um vöktun súna og súnuvalda.
2. gr.
Matvælastofnun skipuleggur vöktun og ber ábyrgð á skýrslugjöf á þoli gegn sýklalyfjum sem greinast í dýrum, dýraafurðum eða matvælum, fóðurefnum til fóðurgerðar, fóðri, fiskimjöli, vatni, umhverfi eða öðrum sýnum sem tengjast eftirliti stofnunarinnar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.
Vöktun og skýrslugjöf á þoli gegn sýklalyfjum hjá súnuvöldum og gistilífsbakteríum sem greinast í tilteknum stofnum dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og tilteknum matvælum skulu fara fram í samræmi við framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/1729 um vöktun og skýrslugjöf varðandi þol gegn sýkingalyfjum hjá bakteríum, sem valda sjúkdómi sem berst milli manna og dýra, og hjá gistilífsbakteríum og um niðurfellingu á framkvæmdarákvörðun 2013/652/ESB.
3. gr.
Matvælastofnun fer með framkvæmd þessarar reglugerðar skv. 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, 3. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og 3. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með framkvæmd þessarar reglugerðar í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 93/1995 um matvæli, lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, öll með síðari breytingum. Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2013/652/ESB um vöktun og skýrslugjöf varðandi þol gegn sýkingalyfjum hjá bakteríum, sem valda sjúkdómi sem berst milli manna og dýra, og hjá gistilífsbakteríum. Ákvörðunin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 166/2014, frá 25. september 2014. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 55, frá 17. september 2015, bls. 484. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Á sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 714/2012 um vöktun á lyfjaþoli.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.