Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Breytingareglugerð

996/2009

Reglugerð um breytingu á reglugerð um ættleiðingar nr. 238/2005.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Við 2. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:

Nú hafa umsækjendur þegar ættleitt erlent barn og er þeim þá heimilt að leggja fram beiðni um forsamþykki fyrir ættleiðingu annars erlends barns að liðnum sex mánuðum frá heimkomu barnsins.

2. gr.

Við 11. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:

Þegar svo stendur á að gildistími forsamþykkis eða framlengds forsamþykkis til ættleiðingar rennur út eftir að umsækjandi hefur náð 45 ára aldri og umsókn hans um ættleiðingu er þegar til meðferðar hjá stjórnvöldum í upprunaríki, sem heimilar ættleiðingar til umsækjenda sem eru eldri en 45 ára, er heimilt að gefa út nýtt forsamþykki eða framlengja forsamþykki sem getur gilt þar til sá umsækjenda sem yngri er, sé um hjón, samvistarmaka eða sambúðarfólk að ræða, nær 50 ára aldri.

3. gr.

Við 3. mgr. 15. gr. bætist nýr málsliður er orðast svo:

Jafnframt skal greint frá því hvort ættmennum látins kynforeldris barns, sem notið hafa umgengni við það samkvæmt ákvörðun barnaverndaryfirvalda, hafi verið kynnt að umsókn um ættleiðingu þess sé til meðferðar eða, ef það á við, ástæður þess að það hafi ekki verið gert.

4. gr.

Við 20. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:

Heimilt er þó að gefa út forsamþykki áður en umsækjendur hafa sótt námskeið samkvæmt 1. mgr. hafi slíkt námskeið ekki verið haldið frá því að umsókn um forsamþykki barst sýslumanni og öll önnur skilyrði fyrir útgáfu þess eru uppfyllt. Sé slíkt forsamþykki gefið út skulu umsækjendur staðfesta skriflega að þeir muni sækja fyrsta mögulega námskeið.

5. gr.

Á eftir 20. gr. bætist við ný grein er verður 20. gr. a er orðast svo:

Skráning barns.

Þeir sem búsettir eru hér á landi og hafa annað hvort fengið leyfi erlendra stjórnvalda til ættleiðingar barns, á grundvelli forsamþykkis sýslumanns, eða hafa fengið heimild erlends ríkis til að barn verði ættleitt hér á landi, á grundvelli forsamþykkis sýslumanns, skulu innan 7 daga frá komu barns hingað til lands skrá það í þjóðská. Framvísa skal erlendum ættleiðingargögnum s.s. erlendu ættleiðingarskjali eða dómi, sem sýni að lögráð barns hafi verið fengin umsækjendum í því skyni að það verði ættleitt hér á landi. Þá skal og framvísa ferðaskilríkjum barns. Við skráningu barnsins í þjóðskrá verður því úthlutað kennitölu.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 16. gr. og 41. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130 21. desember 1999, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, 7. desember 2009.

Ragna Árnadóttir.

Kristrún Kristinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.