Prentað þann 14. nóv. 2024
980/2014
Reglugerð um vernd starfsmanna gegn áverkum af völdum beittra og oddhvassra áhalda við veitingu heilbrigðisþjónustu, þar á meðal á sjúkrahúsum.
I. KAFLI Gildissvið, markmið og orðskýringar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um hvers konar starfsemi sem veitir heilbrigðisþjónustu, þar á meðal sjúkrahús, og lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum eða sérreglum.
2. gr. Markmið.
Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að öruggu starfsumhverfi og koma í veg fyrir að starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, þar á meðal á sjúkrahúsum, eigi á hættu eða kunni að eiga á hættu að verða fyrir áverkum af völdum beittra og oddhvassra áhalda.
3. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- Atvinnurekandi: Hver sá sem rekur atvinnustarfsemi. Framkvæmdastjóri fyrirtækis telst atvinnurekandi eða ef um opinberan rekstur er að ræða, sá er hefur umsjón með starfseminni. Sé starfsemi rekin af tveimur einstaklingum eða fleiri í sameiningu, telst einungis einn þeirra atvinnurekandi en hinn/hinir starfsmenn. Skal það tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins hver sé talinn atvinnurekandi.
- Áhætta: Líkur á því að starfsmaður verði fyrir heilsutjóni eða slysi á vinnustað.
- Áhættumat: Greining áhættuþátta í starfi og mat á líkum á því að starfsmaður verði fyrir heilsutjóni eða slysi á vinnustað.
- Beitt og oddhvöss áhöld: Hlutir eða áhöld sem geta skorið, stungið eða orsakað áverka eða smit og eru nauðsynleg til að framkvæma sértækar aðgerðir við veitingu heilbrigðisþjónustu, þar á meðal á sjúkrahúsum.
- Forvarnir: Allar aðgerðir eða ráðstafanir sem hafa það að markmiði að fyrirbyggja eða draga úr hættu á atvinnutengdu heilsutjóni og slysum og stuðla að vellíðan starfsmanna eða aðgerðir sem miða að því að draga úr tjóni hafi orðið slys eða óhapp.
- Heilbrigðisþjónusta: Hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.
- Starfsmaður: Hver sá sem vinnur launað starf í annarra þjónustu þar á meðal á sjúkrahúsi, þar með taldir nemar og lærlingar, jafnvel þótt þeir inni af hendi vinnu án endurgjalds, enda sé vinna þeirra liður í skipulögðu námi.
- Sértækar forvarnir: Allar aðgerðir eða ráðstafanir sem hafa það að markmiði að fyrirbyggja að starfsmenn verði fyrir áverkum og/eða smiti af völdum beittra og oddhvassra áhalda við notkun þeirra við veitingu heilbrigðisþjónustu, þar á meðal á sjúkrahúsum, byggðum á áhættumati og öryggisreglum um meðhöndlun notaðra áhalda.
- Öryggisnefnd: Nefnd skipuð fulltrúum atvinnurekanda, öryggisvörðum, og fulltrúum starfsmanna, öryggistrúnaðarmönnum, í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri.
- Öryggistrúnaðarmaður: Fulltrúi starfsmanna í öryggismálum og heilsuvernd, í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru tíu eða fleiri.
- Öryggisvörður: Atvinnurekandi/fulltrúi atvinnurekanda í öryggismálum og heilsuvernd, í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru tíu eða fleiri.
II. KAFLI Skyldur atvinnurekanda.
4. gr. Almennt.
Atvinnurekandi ber ábyrgð á gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Áætlunin skal tryggja að vinnuverndarstarf fyrirtækisins verði markvisst. Skal hún meðal annars fela í sér sérstakt áhættumat, sbr. 5. gr. reglugerðar þessarar, sem og áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir, sem byggð er á áhættumati, sbr. 6. gr. reglugerðar þessarar. Áætlunin á að gefa gott yfirlit yfir áhættu- og álagsþætti og forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á heilsutjóni og slysum vegna vinnuaðstæðna og til að stuðla að öryggi, heilbrigði og vellíðan starfsmanna.
Atvinnurekandi skal sjá til þess að áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. sé framfylgt í daglegri starfsemi fyrirtækisins og að vinnuverndarstarfið sé órjúfanlegur þáttur hennar. Árangur af hinu kerfisbundna starfi skal metinn reglulega í samráði við öryggisvörð og öryggistrúnaðarmann eða öryggisnefnd fyrirtækisins og úrbætur gerðar eftir því sem niðurstöður árangursmatsins gefa tilefni til.
Áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. skal fela í sér ferli stöðugra umbóta. Áður en breytingar eru gerðar á starfsemi fyrirtækis skal atvinnurekandi meta, hvort þær feli í sér áhættu með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og hvort úrbóta sé þörf. Í forvarnaskyni skal gera a.m.k. árlega samantekt yfir vinnuslys, óhöpp og atvinnutengda sjúkdóma sem upp hafa komið frá síðustu samantekt.
Áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. skal vera aðgengileg innan fyrirtækisins fyrir þá sem annast vinnuverndarstarfið, svo og aðra starfsmenn. Á sama hátt skal áætlunin vera aðgengileg starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins óski þeir eftir því.
5. gr. Áhættumat.
Áhættumat skal vera skriflegt og taka til vinnuaðstæðna starfsmanna. Við gerð áhættumats skal meta áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Jafnframt skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að öryggi og heilsu starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Þar á meðal skal áhættumatið taka til allra þeirra aðstæðna þar sem áverkar geta orðið af völdum beittra og oddhvassra áhalda eða þar sem smithætta er fyrir hendi af völdum blóðs eða annarra líkamsvessa. Við áhættumatið skal vega saman alvarleika hættunnar og líkurnar á því að hætta skapist.
Áhættumat skv. 1. mgr. skal byggja á öllum tiltækum upplýsingum, þar á meðal upplýsingum um:
- þá tækni sem er fyrir hendi og tækniþekkingu,
- vinnuskipulag og vinnuskilyrði,
- menntun og hæfi starfsmanna,
- vinnutengda sálfræðilega og félagslega þætti, og
- áhrif frá þáttum sem tengjast vinnuumhverfi.
Áhættumat skv. 1. mgr. skal vera í fullu samræmi við það áhættumat sem framkvæmt er á grundvelli reglna um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum, taka tillit til þeirra áhættuþátta sem þar koma fram og byggja á sömu sjónarmiðum.
Í áhættumati skv. 1. mgr. skal tilgreina þá starfsmenn sem kunna að þarfnast sérstakra verndarráðstafana.
Atvinnurekandi skal láta Vinnueftirliti ríkisins í té þær upplýsingar sem áhættumat skv. 1. mgr. byggir á ef starfsmenn stofnunarinnar óska þess.
Atvinnurekandi skal endurskoða áhættumatið reglulega einkum ef orðið hafa verulegar breytingar á starfsemi í tengslum við beitt og oddhvöss áhöld.
6. gr. Áætlun um heilsuvernd.
Þegar áhættumat skv. 5. gr. reglugerðar þessarar liggur fyrir ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir. Áætlunin skal fela í sér að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur í samræmi við niðurstöður áhættumatsins.
Tilgreina skal til hvaða aðgerða er gripið af hálfu atvinnurekanda til að koma í veg fyrir eða draga úr þeirri áhættu sem kom í ljós við áhættumatið, svo sem úrbætur varðandi skipulag og framkvæmd vinnunnar, leiðbeiningar, fræðslu, þjálfun, val á tækjum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingar á vinnustað eða aðrar forvarnir.
7. gr. Forvarnir.
Atvinnurekandi skal grípa til nauðsynlegra forvarna til að sjá til þess að komið sé í veg fyrir að starfsmenn verði fyrir áverkum eða smiti af völdum beittra og oddhvassra áhalda eins og kostur er. Í þeim tilgangi skal hann beita þeim ráðstöfunum sem koma fram í 2.-6. mgr. í samræmi við áhættumatið skv. 5. gr. reglugerðar þessarar.
Þegar áhættumat skv. 5. gr. reglugerðar þessarar gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin vegna notkunar beittra og oddhvassra áhalda skal setja sérstakar verklagsreglur um örugga notkun og förgun framangreindra áhalda sem og mengaðs úrgangs á vinnustaðnum. Skal sérstaklega fjallað um förgun á einnota beittum og oddhvössum áhöldum. Verklagsreglurnar skulu ávallt vera aðgengilegar fyrir starfsmenn og vera hluti af þjálfun þeirra. Verklagsreglurnar skal jafnframt endurskoða reglulega.
Þegar áhættumat skv. 5. gr. reglugerðar þessarar gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin vegna notkunar beittra og oddhvassra áhalda skal tafarlaust banna þá framkvæmd að setja nálarhlíf aftur á notaða nál. Enn fremur skal koma í veg fyrir óþarfa notkun beittra og oddhvassra áhalda og í samræmi við áhættumatið skulu áhöld vera með innbyggðum öryggis- og hlífðarbúnaði.
Koma skal í veg fyrir smit með því að innleiða örugga verkferla, svo sem með:
- þróun forvarnarstefnu sem tekur til vinnustaðarins í heild, þar á meðal til þeirrar tækni sem er til staðar og tækniþekkingar, vinnuskipulags, vinnuskilyrða, vinnutengdra sálfræðilegra og félagslegra þátta auk áhrifa frá öðrum þáttum sem tengjast vinnuumhverfi,
- þjálfun starfsmanna, og
- að tryggja heilsuvernd starfsmanna í samræmi við reglur um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum.
Ílát sem ætluð eru til förgunar á einnota beittum og oddhvössum áhöldum skulu vera greinilega merkt, tæknilega örugg og staðsett nálægt þeim svæðum þar sem beitt og oddhvöss áhöld eru notuð eða geymd.
Atvinnurekandi skal sjá til þess að starfsmenn fái viðeigandi öryggis- og hlífðarbúnað.
8. gr. Bólusetning.
Leiði áhættumat skv. 5. gr. reglugerðar þessarar í ljós að öryggi og heilbrigði starfsmanna er hætta búin vegna líffræðilegra skaðvalda, sem virkt bóluefni er til gegn, skal atvinnurekandi gefa þeim kost á bólusetningu.
Bólusetning og endurbólusetning, ef þörf er á, skal fara fram í samræmi við reglugerð um bólusetningar á Íslandi.
Starfsmenn skulu upplýstir um kosti og galla þess að láta bólusetja sig og að þiggja ekki bólusetningu.
Bólusetning skal bjóðast öllum starfsmönnum á viðkomandi vinnustað þeim að kostnaðarlausu.
9. gr. Skráningarskylda.
Atvinnurekandi skal halda skrá yfir þá sjúkdóma og slys sem hann hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til notkunar beittra og oddhvassra áhalda við veitingu heilbrigðisþjónustu, þar á meðal á sjúkrahúsum, sbr. 78. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
10. gr. Upplýsingar til starfsmanna.
Atvinnurekandi skal meðal annars upplýsa starfsmenn sína um notkunarskilyrði beittra og oddhvassra áhalda, mismunandi áhættu sem fylgir notkun þeirra, gildandi löggjöf um þau og þá reynslu sem hefur á hverjum tíma fengist um hvernig best hafi reynst að nota þessi áhöld til að forðast áverka af þeirra völdum. Enn fremur skal atvinnurekandi sjá til þess að skriflegar leiðbeiningar, eftir því sem við á, liggi frammi á vinnustaðnum þar sem framangreindar upplýsingar skulu koma fram. Í slíkum reglum skal einnig koma fram hvaða starfsháttum skuli fylgt þegar slys eða óhapp verður af völdum beittra og oddhvassra áhalda.
11. gr. Þjálfun starfsmanna.
Atvinnurekandi skal tryggja að starfsmenn fái nægilega og viðeigandi þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Skal hún vera í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í reglum um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum, til þjálfunar starfsmanna. Auk þess skal hún fela í sér upplýsingar og leiðbeiningar um:
- rétta notkun beittra og oddhvassra áhalda, þar með talið með innbyggðum öryggis- og hlífðarbúnaði eftir því sem við á,
- áhættu sem fylgir því að komast í snertingu við líffræðilega skaðvalda, svo sem blóð og líkamsvessa,
- forvarnir, þ.m.t. staðlaðar varúðarráðstafanir, örugga verkferla, réttar notkunar- og förgunarráðstafanir og gildi ónæmisaðgerða,
- verklagsreglur við skýrslugjöf, viðbrögð, eftirlit og gildi þeirra, og
- ráðstafanir sem starfsmönnum ber að grípa til ef áverkar verða.
Þjálfun skv. 1. mgr. skal veitt þegar starfsmenn hefja störf sem fela í sér notkun beittra og oddhvassra áhalda, þar með talið með innbyggðum öryggis- og hlífðarbúnaði, þar sem við á. Enn fremur skal hún veitt með reglulegum hætti og skipulögð þannig að hún sé í samræmi við nýja og breytta áhættuþætti.
12. gr. Samráð við starfsmenn um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.
Atvinnurekandi skal hafa samráð við starfsmenn eða fulltrúa þeirra og tryggja að samstarf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggismál á því sviði sem reglugerð þessi tekur til verði sem best.
13. gr. Viðbrögð og eftirfylgni.
Verði slys eða óhapp af völdum beittra eða oddhvassra áhalda skal atvinnurekandi tafarlaust gera ráðstafanir til að hlúa að starfsmanni sem hefur hlotið áverka. Enn fremur skal atvinnurekandi sjá til þess að starfsmaðurinn njóti fyrirbyggjandi ráðstafana og nauðsynlegra rannsókna þar sem við á til að koma í veg fyrir hættu á heilsutjóni af völdum beittra og oddhvassra áhalda í samræmi við reglur um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda á vinnustöðum.
Starfsmenn skulu tilkynna atvinnurekanda samstundis eða svo fljótt sem auðið er um öll slys eða óhöpp vegna notkunar beittra og oddhvassra áhalda. Skal atvinnurekandi rannsaka orsakir slysa af völdum beittra og oddhvassra áhalda og grípa til viðeigandi ráðstafana til að þau endurtaki sig ekki. Atvinnurekandi þarf þó ekki að rannsaka orsök slyss ef Vinnueftirlit ríkisins ákveður að rannsaka slysið í samræmi við lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
Verði slys eða óhapp vegna notkunar beittra eða oddhvassra áhalda skal atvinnurekandi tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins í samræmi við 1. og 2. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
III. KAFLI Ýmis ákvæði.
14. gr. Eftirlit.
Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
15. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til velferðarráðuneytis innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
16. gr. Viðurlög.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað við ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
IV. KAFLI Gildistaka.
17. gr. Innleiðing.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 14., 38., 43., 65, 65. gr. a., 66., 67., 78. og 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, til innleiðingar á tilskipun nr. 2010/32/ESB, um framkvæmd rammasamnings um forvarnir gegn áverkum af völdum beittra og oddhvassra áhalda á sjúkrahúsum og í heilbrigðisþjónustu, sem félag vinnuveitenda á sjúkrahúsum og við heilsugæslu í Evrópusambandinu (HOSPEM), og Evrópusamtök stéttarfélaga opinberra starfsmanna (EPSU) hafa gert með sér, sem vísað er til í 16jg. lið í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 41/2011.
18. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Velferðarráðuneytinu, 17. október 2014.
Eygló Harðardóttir
félags- og húsnæðismálaráðherra.
Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.