Prentað þann 3. des. 2024
976/2024
Reglugerð um starfsemi og skipulag þróunarsjóðs innflytjendamála.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Tilgangur.
- 2. gr. Stjórn og skipulag.
- 3. gr. Fjármunir, varsla og umsýsla.
- 4. gr. Úthlutun styrkja.
- 5. gr. Auglýsing um styrki.
- 6. gr. Umsóknir um styrki.
- 7. gr. Styrkveiting.
- 8. gr. Forsendur fyrir styrkveitingu og skuldbindingar.
- 9. gr. Meðferð umsókna.
- 10. gr. Reikningar og endurskoðun.
- 11. gr. Gildistaka.
1. gr. Tilgangur.
Tilgangur þróunarsjóðs innflytjendamála er að efla rannsóknir og þróunarverkefni í tengslum við málefni innflytjenda með það að markmiði að styðja við inngildingu innflytjenda í þágu samfélagsins.
2. gr. Stjórn og skipulag.
Stjórn þróunarsjóðs innflytjendamála er í höndum innflytjendaráðs sem gerir tillögur um úthlutun styrkja og fjárhæð þeirra hverju sinni til þess ráðherra er fer með málefni innflytjenda.
3. gr. Fjármunir, varsla og umsýsla.
Sá ráðherra er fer með málefni innflytjenda ákvarðar árlegt framlag til þróunarsjóðs innflytjendamála. Það ráðuneyti sem fer með málefni innflytjenda semur við óháðan aðila sem innflytjendaráð tilnefnir um að taka að sér vörslu og umsýslu sjóðsins.
4. gr. Úthlutun styrkja.
Sá ráðherra sem fer með málefni innflytjenda skal úthluta styrkjum úr þróunarsjóði innflytjendamála einu sinni á ári að jafnaði. Miða skal við að styrkur nemi aldrei hærri fjárhæð en 75% af heildarkostnaði við verkefni og á það einnig við um heildarframlag opinbers fjár til sérhvers verkefnis. Þó skal styrkur vegna verkefnis aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur 40% af úthlutunarfé sjóðsins hverju sinni.
Sá aðili sem sér um vörslu og umsýslu þróunarsjóðs innflytjendamála og styrkþegi skulu undirrita samning í tengslum við úthlutun styrks úr sjóðnum. Komi til þess að samningur er ekki undirritaður innan fjögurra mánaða frá tilkynningu um úthlutun styrks eða hluti styrks er ekki greiddur út sökum þess að verkefni það sem styrkinn hlaut fellur niður skal heimilt að endurúthluta þeim fjármunum við næstu úthlutun úr sjóðnum.
5. gr. Auglýsing um styrki.
Innflytjendaráð skal auglýsa styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála einu sinni á ári að jafnaði. Í auglýsingum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála getur innflytjendaráð ákveðið að leggja áherslu á ákveðin svið í tengslum við málefni innflytjenda og skal það þá koma fram í auglýsingu hverju sinni. Í auglýsingu skulu jafnframt koma fram upplýsingar um helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, hvar og hvernig skuli sækja um, sem og upplýsingar um umsóknarfrest og hvenær gert sé ráð fyrir að umsóknir verði afgreiddar.
6. gr. Umsóknir um styrki.
Við umsókn um styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála skal fylla út sérstök eyðublöð sem innflytjendaráð lætur útbúa. Í umsókn skal m.a. koma fram eftirfarandi:
- Almenn lýsing verkefnis, fjárhæð sem sótt er um og ábyrgðarmaður verkefnisins.
- Hvaða aðilar vinna að verkefninu og verkaskipting þeirra sem og upplýsingar um forsvarsmenn verkefnisins, ef við á, þar með talið aðsetur, símanúmer og netföng viðkomandi.
- Markmið verkefnis, til hverra verkefninu er ætlað að ná og mat umsækjanda á væntanlegri niðurstöðu verkefnis.
- Framkvæmdaáætlun með tímasetningum og greinargóð lýsing á framkvæmd verkefnisins.
- Árangursmat verkefnis með skilgreindum mælikvörðum um árangur.
- Fjárhagsáætlun þar sem gerð er skýr grein fyrir heildarfjármögnun verkefnis, framlagi umsækjanda og annarra og upplýsingar um þann aðila sem sér um bókhald verkefnisins.
- Lýsing á samstarfi við aðra aðila í tengslum við verkefnið, þar með talin félagasamtök, einkaaðila og opinbera aðila.
- Áætlun um kynningu á niðurstöðum og sýnileika verkefnis.
Innflytjendaráði er heimilt að óska eftir nánari upplýsingum, m.a. um verkefni, framkvæmdaaðila og fjármögnun sem og að óska eftir umsögnum um verkefni frá viðeigandi sérfræðingum hverju sinni.
7. gr. Styrkveiting.
Styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála skulu almennt greiddir í tvennu lagi, helmingur fjárhæðar við undirritun samnings vegna styrks, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 4. gr., og helmingur þegar styrkþegi hefur skilað til þess aðila sem sér um vörslu og umsýslu sjóðsins lokaskýrslu sem og endanlegu fjárhagsuppgjöri og fyrrnefndur aðili hefur yfirfarið og samþykkt framangreind gögn. Innflytjendaráði er heimilt að skilyrða styrkveitingar og ákveða að styrkir verði greiddir út í samræmi við framgang verkefnis.
Í kjölfar tilkynningar um úthlutun styrks skal sá aðili sem sér um vörslu og umsýslu þróunarsjóðs innflytjendamála senda styrkþega drög að samningi, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 4. gr., þar sem fram koma þær skuldbindingar sem fylgja úthlutun styrks hverju sinni, m.a. að skilyrði fyrir styrkveitingu sé að styrkþegi geri grein fyrir ráðstöfun fjárins og standi eftir atvikum skil á ytri staðfestingum. Jafnframt skal koma fram að styrkþegi verji styrknum einungis til þess verkefnis sem getið er í umsókn um styrk. Þá skal koma fram staðfesting á að styrkþegi sé ekki í vanskilum samkvæmt vanskilaskrám fjárhagsupplýsingastofa sem hafa starfsleyfi til að miðla upplýsingum um vanskil. Þegar umsækjandi og sá aðili sem sér um vörslu og umsýslu sjóðsins hafa undirritað samninginn skal styrkurinn greiddur út í samræmi við 1. mgr.
Þegar úthlutun hefur farið fram skal það ráðuneyti sem fer með málefni innflytjenda birta á vef ráðuneytisins nöfn styrkþega, heiti verkefna, stutta lýsingu á verkefnunum og fjárhæð hvers styrks.
8. gr. Forsendur fyrir styrkveitingu og skuldbindingar.
Verði óhóflegur frestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða verði skilyrði sem úthlutun styrks kann að vera bundin ekki uppfyllt innan eðlilegra tímamarka teljast forsendur brostnar fyrir styrkveitingu. Það sama á við ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem getið var um í umsókn. Í slíkum tilvikum áskilur það ráðuneyti sem fer með málefni innflytjenda sér rétt til að ógilda úthlutun styrksins og krefja styrkþega um endurgreiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild eftir því sem við á, sem og um innheimtukostnað. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðuneytið.
Reynist útgjöld vegna verkefnis samkvæmt umsókn lægri en útborguð styrkfjárhæð skal styrkþegi endurgreiða ofgreiddan styrk innan 30 daga frá því að fjárhagsuppgjör liggur fyrir. Að öðrum kosti innheimtir það ráðuneyti sem fer með málefni innflytjenda ofgreiddan styrk sem og innheimtukostnað.
Upplýsingar um úthlutun styrkja skulu birtar almenningi samkvæmt nánari fyrirmælum innflytjendaráðs.
Styrkþegar skulu skila lokaskýrslu og endanlegu fjárhagsuppgjöri að verkefni loknu til þess aðila sem sér um vörslu og umsýslu þróunarsjóðs innflytjendamála. Um mitt framkvæmdatímabil verkefnis skulu styrkþegar einnig skila áfangaskýrslu til sama aðila. Innflytjendaráði er eftir atvikum heimilt að óska eftir áfangaskýrslu hvenær sem er á framkvæmdatímabili verkefnisins. Styrkþegi sem ekki skilar á tilskildum tíma fullnægjandi áfangaskýrslu, lokaskýrslu og endanlegu fjárhagsuppgjöri getur búist við að verða krafinn um endurgreiðslu á greiddum styrk sem og um greiðslu á innheimtukostnaði. Víki framkvæmd verkefnis í grundvallaratriðum frá lýsingu verkefnis í umsókn um styrk ber innflytjendaráði að meta hvort styrkþegi verði krafinn um endurgreiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild, sem og um greiðslu innheimtukostnaðar. Jafnframt skal innflytjendaráð meta hvort ógreiddur styrkur skuli felldur niður. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við innflytjendaráð.
9. gr. Meðferð umsókna.
Farið er með allar umsóknir og upplýsingar í fylgigögnum með umsókn um styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála sem trúnaðarmál, sbr. þó 2. mgr. 6. gr. Skýrslur um verkefni sem og fjárhagsuppgjör verkefnis skal vera undanþegið trúnaðarskyldum nema trúnaðar sé sérstaklega óskað og innflytjendaráð samþykkir þá beiðni.
Öllum umsóknum um styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála skal svarað skriflega.
10. gr. Reikningar og endurskoðun.
Reikningsár þróunarsjóðs innflytjendamála miðast við almanaksár.
11. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 6. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, öðlast þegar gildi. Frá gildistöku reglugerðar þessarar falla brott reglur um úthlutun styrkja úr þróunarsjóði innflytjenda, dags. 19. nóvember 2010.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, 15. ágúst 2024.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Bjarnheiður Gautadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.