Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Fyrri útgáfa

Prentað þann 1. apríl 2025

Reglugerð með breytingum síðast breytt 8. des. 2016
Sýnir breytingar gerðar 8. des. 2016 af rg.nr. 1074/2016

975/2013

Reglugerð um manneldiskröfur varðandi aldinsafa og sambærilegar vörur.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um ávaxtasafa og sambærilegar vörur sem skilgreindar eru í 2. gr. Reglugerðin gildir ekki um vörur sem ætlaðar eru til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. gr. Skilgreiningar.

Aldinsafi (áður ávaxtasafi) er ógerjuð vara, sem er gerjanleg, unnin úr ætum hluta aldins sem er óskemmt og þroskað, ferskt eða rotvarið með kælingu eða frystingu, af einni eða fleiri tegundum, sem blandað er saman, með lit, ilm og bragð sem einkennir safa aldinsins sem hann kemur úr. Í þykktan aldinsafa er hægt, með viðeigandi eðlisfræðilegum aðferðum, að endurheimta ilm, aldinkjöt og safabelgi, allt úr sömu aldintegund. Þegar um er að ræða sítrusávexti skal ávaxtasafinn vera úr afhýdda ávextinum. Súraldinsafa er þó hægt að vinna úr öllum ávextinum. Ef safar eru unnir úr aldinum með steinum, fræjum eða hýði mega hlutar eða brot úr steinum, fræjum eða hýði ekki fara með í safann. Þetta ákvæði gildir ekki í tilvikum þegar ekki er unnt að fjarlægja hluta eða brot úr steinum, fræjum eða hýði með góðum framleiðsluháttum. Við framleiðslu á aldinsafa er heimilt að blanda aldinsafa með aldinmauki.

Aldinsafi úr þykkni er vara sem er unnin með því að endurgera þykktan aldinsafa með drykkjarhæfu vatni sem uppfyllir viðmiðanirnar sem settar eru fram í reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn, með síðari breytingum. Innihald leysanlegra þurrefna í fullunnu vörunni skal uppfylla lægsta Brix-gildið fyrir safa, sem hefur verið endurgerður með því að bæta í hann vatni, eins og tilgreint er í viðauka 4, sem birtur er með reglugerð þessari. Ef safi úr þykkni er unninn úr aldini, sem ekki er getið um í viðauka 4, skal lægsta Brix-gildi safans, sem hefur verið endurgerður með því að bæta í hann vatni, vera það Brix-gildi sem safinn hefur þegar hann er unninn úr aldininu sem notað er til að framleiða þykknið. Í aldinsafa úr þykkni er hægt, með viðeigandi eðlisfræðilegum aðferðum, að endurheimta ilm, aldinkjöt og safabelgi, allt úr sömu aldintegund. Aldinsafi úr þykkni er tilreiddur með viðeigandi ferlum sem viðhalda nauðsynlegum eðlisrænum, efnafræðilegum og skynrænum eiginleikum og næringareiginleikum í venjulegum safa úr aldininu sem hann er unninn úr. Við framleiðslu á aldinsafa úr þykkni er heimilt að blanda aldinsafa og/eða þykktan aldinsafa með aldinmauki og/eða þykktu aldinmauki.

Þykktur aldinsafi er vara sem er unnin úr safa úr einni eða fleiri tegundum af aldinum með því að fjarlægja með eðlisrænum aðferðum ákveðið hlutfall af innihaldsefninu vatni. Ef varan er ætluð til beinnar neyslu skal fjarlægja a.m.k. 50% af innihaldsefninu vatni. Í safann sem skilst frá við vinnslu, er hægt, með viðeigandi eðlisfræðilegum aðferðum, að endurheimta ilm, aldinkjöt og safabelgi, allt úr sömu aldintegund.

Vatnsútdreginn aldinsafi er vara sem fæst með útdrætti vatns úr kjötkenndum, heilum aldinum sem ekki er unnt að draga safann úr með neinum eðlisrænum aðferðum eða með útdrætti vatns úr heilum, þurrkuðum aldinum.

Þurrkaður aldinsafi/aldinsafi í duftformi er vara sem er unnin úr safa úr einni eða fleiri tegundum af aldinum með því að fjarlægja með eðlisrænum aðferðum nánast allt vatnsinnihaldið.

Aldinnektar er ógerjuð vara, sem er gerjanleg, sem er unnin með því að vatni, með eða án viðbætts sykurs og/eða hunangs, er bætt í vörurnar sem eru skilgreindar í 1.-6. mgr., í aldinmauk og/eða í þykkt aldinmauk og/eða í blöndu af þessum vörum. Hún uppfyllir einnig kröfurnar í viðauka 3, sem birtur er með reglugerð þessari. Ef aldinnektar er framleitt án viðbætts sykurs eða með skertu orkugildi má setja sætuefni í stað sykursins, að öllu leyti eða að hluta til, í samræmi við annars vegar reglugerð nr. 978/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum, með síðari breytingum, og hins vegar reglugerð nr. 327/2010 sem innleiddi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1925/2006 um íblöndun vítamína og steinefna. Í þykktan aldinsafa er hægt að endurheimta ilm, aldinkjöt og safabelgi allt úr sömu aldintegund, enda fengin með viðeigandi eðlisfræðilegum aðferðum.

3. gr. Skilyrði fyrir framleiðslu og dreifingu.

Vörum, sem bera heiti, sem skilgreind eru í 2. gr., má einungis dreifa ef þær eru í samræmi við skilgreiningarnar og uppfylla önnur ákvæði reglugerðarinnar. Við framleiðslu þeirra má einungis nota þær aðferðir og auk vatns þau efni sem koma fram í 3. tölulið viðauka 1 og hráefni sem uppfylla skilyrði í viðauka 2 að teknu tilliti til reglugerðar nr. 978/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum, með síðari breytingum. Aldinnektar skal ennfremur uppfylla ákvæði í viðauka 3.

4. gr. Vöruheiti og merkingar.

Auk þess að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 406/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1924/2006 um næringar- og heilsufullyrðingar er varða matvæli, með síðari breytingum, skal eftirfarandi koma fram á umbúðum:

  1. Heiti vörunnar í samræmi við skilgreiningu í 2. gr. Fyrir vörur unnar úr einni tegund aldina kemur heiti þeirrar tegundar í staðinn fyrir orðið "aldin";
  2. Þegar um er að ræða vörur sem eru framleiddar úr tveimur eða fleiri aldinum, nema þegar sítrónusafi og/eða súraldinsafi er notaður samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 2. tölulið viðauka 1, skal heiti vörunnar sett saman úr skrá yfir þau aldin sem eru notuð, í lækkandi röð eftir minnkandi rúmmáli aldinsafans eða mauksins sem bætt er út í, eins og tilgreint er í skránni yfir innihaldsefni. Þegar um er að ræða vörur sem eru framleiddar úr þremur eða fleiri tegundum aldina geta orðin "nokkur aldin" eða svipað orðalag eða fjöldi aldintegundanna, sem eru notaðar, þó komið í stað aldinheitanna;
  3. ekki skal tilgreina í innihaldslýsingu efni sem skiljast frá við framleiðslu og bætt er aftur í þær vörur sem skilgreindar eru í 2. gr. nema notað sé meira af aldinkjöti eða safabelgjum, sbr. skilgreiningu í viðauka 2, en nauðsynlegt er til að koma vörunni í upprunalegt ástand;
  4. fyrir blöndur af aldinsafa og þykktum aldinsafa og fyrir nektar, sem fenginn er að öllu leyti eða að hluta úr einni eða fleiri þykktum vörum, skal merkingin "framleitt úr þykkni" eða "framleitt að hluta til úr þykkni" koma fram með skýru letri í sama sjónsviði og vöruheitið;
  5. þegar um nektarsafa er að ræða skal tilgreina lágmarksmagn aldinsafa, aldinmauks eða blöndu þeirra, sbr. "aldinmagn: minnst: .... %". Upplýsingarnar skulu vera í sama sjónsviði og vöruheitið.

5. gr. Viðbættur sykur.sítrónusafi, súraldinsafi eða sýrustillar.

Í merkingu á þykktum aldinsafa (áður ávaxtaþykkni), sem um getur í 3. mgr. 2. gr., sem er ekki ætlaður til afhendingar til lokaneytenda skal vera tilvísun þar sem fram kemur hvort og í hvaða magni viðbættur sítrónusafi, súraldinsafi eða sýrustillar, sem eru heimilaðir samkvæmt reglugerð nr. 978/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum, með síðari breytingum, eru fyrir hendi. Þessi tilvísun skal koma fram á einu af eftirfarandi:

- á umbúðunum,
- á merkimiða, sem er festur á umbúðirnar, eða
- á fylgiskjali.

6. gr. Ábyrgð framleiðenda.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að þær vörur sem um getur í 2. gr. séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

7. gr. Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Matvælastofnunar, hver á sínum stað, eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

8. gr. Þvingunarúrræði.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. og 31. gr. a laga um matvæli nr. 93/1995, með síðari breytingum. Hún er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/12/ESB um breytingu á tilskipun ráðsins 2001/112/EB varðandi aldinsafa og tilteknar álíka vörur til manneldis, sem var tekin inn í XII. kafla II. viðauka við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 62/2013 frá 4. maí 2013. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 577/2003 um ávaxtasafa og sambærilegar vörur, með síðari breytingum, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Setja má vörur áfram á markað til 28. apríl 2015, sem voru settar á markað eða merktar fyrir 28. október 2013 í samræmi við reglugerð nr. 577/2003 með síðari breytingum.

II.

Yfirlýsingin: "frá og með 28. október 2015 innihalda aldinsafar ekki viðbættan sykur," má fram til 28. október 2016 koma fram á merkimiða á því sjónsviði vörunnar, sem um getur í 1.-5. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar.

 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 28. október 2013. 

 F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

 Halldór Runólfsson. 

 Baldur P. Erlingsson. 

Leyfð innihaldsefni, aðferðir og efni.

  1. Samsetning.

    Nota skal þær tegundir aldina sem svara til grasafræðiheitanna í viðauka 4 við tilreiðslu aldinsafa, aldinmauks og aldinnektars ef heiti viðkomandi aldins eða almennt heiti þess kemur fram í vöruheitinu. Að því er varðar aldintegundir sem ekki eru skráðar í viðauka 4 skal nota rétt grasafræðilegt heiti eða almennt heiti.

    Að því er varðar aldinsafa skal Brix-gildið vera það sama og fyrir safa þegar hann er dreginn úr aldininu og því má ekki breyta nema safinn sé blandaður með safa úr sömu aldintegund.

    Lægsta Brix-gildið, sem er fastsett í viðauka 4, fyrir aldinsafa, sem hefur verið endurgerður með því að bæta í hann vatni, og aldinmauk, sem hefur verið endurgert með því að bæta í það vatni, er án leysanlegra þurrefna í viðbættum, valkvæðum innihaldsefnum og aukefnum.

  2. Leyfð innihaldsefni.

    Einungis má bæta eftirfarandi innihaldsefnum í vörurnar sem um getur í 2. gr. reglugerðarinnar:

    – Vítamín og steinefni eins og heimilt er samkvæmt reglugerð nr. 327/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1925/2006 um íblöndun vítamína og steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli, með síðari breytingum.

    – Matvælaaukefni sem eru heimiluð í samræmi við reglugerð nr. 978/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum, með síðari breytingum.

    Þar að auki:

    – Að því er varðar aldinsafa, aldinsafa úr þykkni og þykktan aldinsafa: endurheimtur ilmur, aldinkjöt og safabelgir.

    – Að því er varðar þrúgusafa: endurheimt sölt vínsýru.

    – Að því er varðar aldinnektar: endurheimtur ilmur, aldinkjöt og safabelgir; sykur og/eða hunang allt að 20% af heildarþyngd fullunnu vörunnar; og/eða sætuefni.

    Aðeins má nota fullyrðingu þess efnis að aldinnektar sé án viðbætts sykurs og allar fullyrðingar, sem er líklegt að hafi sömu merkingu fyrir neytendur, ef varan er án viðbættra ein- eða tvísykra eða annarra matvæla sem notuð eru til að sæta mat, þ.m.t. sætuefni eins og skilgreint er í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1333/2008, sem öðlaðist gildi hér á landi með reglugerð nr. 978/2011. Sé sykur í aldinnektar frá náttúrunnar hendi skulu eftirfarandi upplýsingar einnig koma fram á merkimiðanum: „inniheldur sykur frá náttúrunnar hendi“.

    – Að því er varðar vörur, sem eru skilgreindar í 2. gr. þessarar reglugerðar, til að stilla súr-leika: sítrónusafi og/eða súraldinsafi og/eða þykktur sítrónusafi og/eða þykktur súraldinsafi, allt að 3 g á hvern lítra af safa, gefinn upp sem vatnsfrí sítrónusýra.

    – Að því er varðar tómatsafa og tómatsafa úr þykkni: salt, krydd og ilmandi kryddjurtir.

  3. Leyfðar aðferðir og efni.

    Einungis má beita eftirfarandi aðferðum og bæta eftirtöldum efnum í vörurnar sem um getur í 2.

    gr. reglugerðarinnar: – Vélrænar útdráttaraðferðir.

    – Venjulegar eðlisrænar aðferðir, þ.m.t. aðferð (flæðiaðferð) við að draga vatn út úr neyslu-hæfum hluta aldina, annarra en vínberja, til framleiðslu á þykktum aldinsafa, að því tilskildu að aldinsafinn, sem fæst á þann hátt, uppfylli skilyrðin í 1. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

    – Þegar um er að ræða þrúgusafa þar sem þrúgurnar eru meðhöndlaðar með brennisteins-díoxíði er heimilt að hreinsa brennisteininn úr með því að nota eðlisfræðilegar aðferðir, að því tilskildu að heildarmagn SO2 í endanlegu vörunni fari ekki yfir 10 mg/l.

    – Ensímblöndur: Pektínasar (til að brjóta niður pektín), próteasar (til að brjóta niður prótín) og amýlasar (til að brjóta niður sterkju) uppfylla kröfur reglugerðar nr. 977/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1332/2008 um ensím í matvælum.

    – Æt gelatín.

    – Tannín.

    – Kíslkvoða (e. silica sol).

    – Viðarkol.

    – Köfnunarefni.

    – Bentónít sem áseygur leir.

    – Efnafræðilega hvarftreg síunarhjálparefni og úrfellingarefni (t.d. perlusteinn, þvegið díatómít, sellulósi, óleysanlegt pólýamíð, pólývínylpólýpýrrólídón, pólýstýren) sem uppfylla skilyrðin í reglugerð nr. 398/2008 um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli.

    – Efnafræðilega hvarftreg aðsogshjálparefni sem uppfylla skilyrðin í reglugerð nr. 398/2008 um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins um efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, og sem eru notuð til að minnka magn límonóíðs og naringíns í sítrussafa án þess að hafa veruleg áhrif á límonóíðglúkósíða, sýru, sykrur (þ.m.t. fásykrur) eða steinefnainnihald.

     - Plöntuprótín úr hveiti, baunum eða kartöflum til fellingar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.