Prentað þann 19. des. 2024
970/2013
Reglugerð um efni sem valda rýrnun ósonlagsins.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Skilgreiningar.
- 4. gr. Framleiðsla, markaðssetning og notkun.
- 5. gr. Undanþágur.
- 6. gr. Inn- og útflutningur.
- 7. gr. Neyðarnotkun halóna.
- 8. gr. Menntun starfsfólks.
- 9. gr. Eftirlit.
- 10. gr. Þvingunarúrræði.
- 11. gr. Viðurlög.
- 12. gr. Lögbært yfirvald.
- 13. gr. Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.
- 14. gr. Innleiðing tiltekinna gerða Evrópusambandsins.
- 15. gr. Lagastoð og gildistaka.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að vernda ósonlagið í heiðhvolfinu með því að sjá til þess að framleiðslu, innflutningi, markaðsetningu og notkun ósoneyðandi efna verði hætt og að notkun þeirra verði bönnuð nema í undantekningartilvikum þar sem engin önnur efni eða aðferðir geta komið í staðinn.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um ósoneyðandi efni, ný efni og vörur og búnað sem innihalda ósoneyðandi efni eða virka ekki án þeirra.
3. gr. Skilgreiningar.
Endurvinnsla: Endurnotkun endurheimts, ósoneyðandi efnis í kjölfar grunnhreinsunar.
Innflutningur: Aðflutningur efna, vöru og búnaðar, sem fellur undir þessa reglugerð, inn á tollsvæði innan Evrópska efnahagssvæðisins svo fremi að fullgilding ríkis á Montreal-bókuninni nái til svæðisins og þessi reglugerð gildi.
Markaðssetning: Það að afhenda eða bjóða þriðja aðila efni, vöru eða búnað gegn greiðslu eða án endurgjalds, þ.m.t. setning í frjálsa dreifingu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þegar um er að ræða vöru og búnað sem eru hluti af fasteignum eða hluti af flutningatæki nær þetta einungis til þess að afhenda eða bjóða vöruna og búnaðinn fram innan Evrópska efnahagssvæðisins í fyrsta sinn.
Montreal-bókunin: Montreal-bókunin frá 1987 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, eins og henni var síðast breytt og hún síðast aðlöguð.
Notkun: Nýting ósoneyðandi efna eða nýrra efna til framleiðslu, viðhalds eða viðgerða, þ.m.t. enduráfylling, á vörum og búnaði eða nýting þeirra í öðrum ferlum.
Ný efni: Efni sem skráð eru í II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1005/2009, um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, hvort sem þau eru ein sér eða í blöndu og hvort sem þau eru ónotuð, endurheimt, endurunnin eða uppunnin.
Ósoneyðandi efni (takmörkunarskyld efni): Efni sem talin eru upp í I. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1005/2009.
Ósoneyðingarmáttur (ODP): Talan sem er tilgreind í I. og II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1005/2009 og sýnir hugsanleg áhrif hvers efnis á ósonlagið.
Uppvinnsla: Endurmeðhöndlun endurheimts, ósoneyðandi efnis til að ná fram jafngildri virkni og hjá ónotuðu efni, að teknu tilliti til fyrirhugaðrar notkunar.
Útflutningur: Brottflutningur efna, vara og búnaðar, sem falla undir þessa reglugerð og hafa stöðu vara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, eða endurútflutningur efna, vara og búnaðar, sem falla undir þessa reglugerð, ef þau hafa stöðu vara frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, út af tollsvæði innan Evrópska efnahagssvæðisins, svo fremi að fullgilding ríkis á Montreal-bókuninni nái til svæðisins og þessi reglugerð taki til svæðisins.
Vetnisflúorkolefni: Efni sem eru tilgreind í VIII. flokki í I. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1005/2009, þ.m.t. hverfur þeirra.
4. gr. Framleiðsla, markaðssetning og notkun.
Um bann við framleiðslu, markaðssetningu og notkun ósoneyðandi efna og vöru og búnaðar sem innihalda ósoneyðandi efni fer samkvæmt II. kafla reglugerðar (EB) nr. 1005/2009.
Óheimilt er að flytja inn eða setja upp búnað sem notar ósoneyðandi efni. Við breytingar og meiriháttar viðgerðir á kælikerfum með ósoneyðandi efnum skal skipta yfir í efni sem hafa engan ósoneyðingarmátt.
5. gr. Undanþágur.
Um undanþágur frá banni við framleiðslu, markaðssetningu og notkun ósoneyðandi efna og vöru og búnaðar sem innihalda ósoneyðandi efni fer samkvæmt III. kafla reglugerðar (EB) nr. 1005/2009.
Markaðssetning ósoneyðandi efna til óhjákvæmilegrar notkunar við rannsóknir og greiningar, sbr. 10. gr. og 2. mgr. 11. gr. reglugerðar (EB) nr. 1005/2009, er háð samþykki Umhverfisstofnunar.
6. gr. Inn- og útflutningur.
Inn- og útflutningur ósoneyðandi efna er bannaður.
Umhverfisstofnun veitir undanþágu fyrir innflutningi ósoneyðandi efna vegna notkunar sem undanþegin er banni skv. III. kafla reglugerðar (EB) nr. 1005/2009. Umhverfisstofnun getur skilyrt veitingu undanþágu við t.d. tiltekið magn, skráningu á notkun og meðhöndlun efnaleifa.
Undanþágu fyrir innflutningi vetnisklórflúorkolefna til notkunar skv. 2. mgr. 6. gr. má aðeins veita ef fyrir liggur vottorð frá óháðri rannsóknarstofu um að efnin séu uppunnin og staðfesting frá viðeigandi yfirvöldum í útflutningsríki.
Umhverfisstofnun veitir undanþágu fyrir útflutningi ósoneyðandi efna til ríkja sem eru aðilar að Montreal-bókuninni. Undanþágu má aðeins veita að fenginni innflutningsheimild í innflutningsríki.
7. gr. Neyðarnotkun halóna.
Um neyðarnotkun halóna fer samkvæmt 13. gr. reglugerðar (EB) nr. 1005/2009.
Markaðssetning halóna, sbr. 1. mgr., er einungis heimil að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar. Lögaðili skal, áður en hann markaðssetur halón, óska eftir samþykki Umhverfisstofnunar. Samþykki Umhverfisstofnunar fyrir markaðssetningu halóna er bundið því skilyrði að stofnuninni sé gerð grein fyrir markaðsetningunni, þ.e. gerð halónanna, magni og viðtakanda, fyrir 31. janúar ár hvert, fyrir undangengið ár.
Tilkynna skal til Umhverfisstofnunar um starfrækslu slökkvikerfa og slökkvitækja sem innihalda halón og falla undir undanþágu um neyðarnotkun halóna í 13. gr. reglugerðar (EB) nr. 1005/2009 og reglugerð (ESB) nr. 744/2010 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1005/2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, að því er varðar neyðarnotkun á halónum.
Fyrirtæki sem halda birgðir af halónum til neyðarnotkunar skulu tilkynna gerð og magn halóna til Umhverfisstofnunar fyrir 1. desember ár hvert.
8. gr. Menntun starfsfólks.
Þeir einir mega sinna viðhaldi búnaðar sem inniheldur ósoneyðandi efni, þ.m.t. áfyllingu, lekaleit og endurheimt kælimiðla, sem lokið hafa menntun sem er að lágmarki námskeið í kælitækni. Skal slíkt námskeið uppfylla kröfur í reglugerð um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. 4. mgr. 23. gr. reglugerðar (EB) nr. 1005/2009.
9. gr. Eftirlit.
Um eftirlit með reglugerð þessari fer samkvæmt XI. kafla efnalaga nr. 61/2013. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfisskyldri starfsemi sem heyrir undir þau starfsleyfi sem nefndin gefur út á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, sbr. 1. mgr. 6. gr. efnalaga. Eftirlit með meðferð, notkun og merkingum efna um borð í skipum og loftförum er í höndum Samgöngustofu, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda nr. 33/2004.
10. gr. Þvingunarúrræði.
Um þvingunarúrræði samkvæmt reglugerð þessari fer samkvæmt XIII. kafla efnalaga.
11. gr. Viðurlög.
Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt XIV. kafla efnalaga.
12. gr. Lögbært yfirvald.
Umhverfisstofnun gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds við framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 1005/2009, um efni sem valda rýrnun ósonlagsins.
13. gr. Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.
Eftirfarandi EES-gerðir skulu öðlast gildi hér á landi:
-
Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1005/2009 frá 16. september 2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, sem vísað er til í tölulið 21aa, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2012, þann 26. október 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9 frá 7. febrúar 2013, bls. 289 til 318.
Þrátt fyrir 1. málsl. 1-liðar 1. mgr. hér á undan öðlast eftirfarandi atriði EB-reglugerðarinnar ekki gildi hér á landi:
- tilvísun til reglugerðar (EB) nr. 450/2008,
- 4. mgr. 8. gr. og b-liður 5. mgr. 8. gr.,
- orðin "magnið, eftir því sem við á, innan hvaða tímabils undanþágan gildir og hvaða notendur geta nýtt sér þetta ákvæði um óhjákvæmilega notkun á rannsóknarstofu og við greiningar" í 2. mgr. 10. gr.
- 6. mgr. 10. gr.,
- tilvísun til 6. mgr. 10. gr. í 2. mgr. 11. gr.
- 5. mgr. 11. gr.,
- 1. mgr., 3. mgr. og 4. mgr. 14. gr.,
- IV. kafli,
- ákvæði 24. gr. hvað varðar inn- og útflutning,
- 27 gr. og
- 28 gr.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 744/2010 frá 18. ágúst 2010 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1005/2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, að því er varðar neyðarnotkun á halónum, sem vísað er til í tölulið 21aa, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2012, þann 26. október 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9 frá 7. febrúar 2013, bls. 319 til 325.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 291/2011 frá 24. mars 2011 um óhjákvæmilega notkun á takmörkunarskyldum efnum í Sambandinu, öðrum en vetnisklórflúorkolefnum fyrir rannsóknarstofur og til efnagreininga, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1005/2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, sem vísað er til í tölulið 21aaa, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2012, þann 26. október 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 9 frá 7. febrúar 2013, bls. 326 til 327.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1087/2013 frá 4. nóvember 2013 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1005/2009 að því er varðar skýrslugjöf um metýlbrómíð, sem vísað er til í tölulið 21aa, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2015, þann 25. febrúar 2015. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16 frá 19. mars 2015, 2015/EES/16/52, bls. 899.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/605 frá 29. mars 2017 um breytingu á VI. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1005/2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, sem vísað er til í tl. 21aa, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2017, þann 22. september 2017. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67 frá 19. október 2017, bls. 373.
14. gr. Innleiðing tiltekinna gerða Evrópusambandsins.
Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum:
- Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1005/2009 frá 16. september 2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, sem vísað er til í tölulið 21aa, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2012, þann 26. október 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 744/2010 frá 18. ágúst 2010 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1005/2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, að því er varðar neyðarnotkun á halónum, sem vísað er til í tölulið 21aa, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2012, þann 26. október 2012.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 291/2011 frá 24. mars 2011 um óhjákvæmilega notkun á takmörkunarskyldum efnum í Sambandinu, öðrum en vetnisklórflúorkolefnum fyrir rannsóknarstofur og til efnagreininga, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1005/2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, sem vísað er til í tölulið 21aaa, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2012, þann 26. október 2012.
15. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 8. tölul. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013, 29. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Reglugerðin er sett að höfðu samráði við innanríkisráðuneytið hvað varðar þátt Samgöngustofu.
Reglugerðin öðlast þegar gildi. Á sama tíma falla úr gildi reglugerð nr. 586/2002 um efni sem eyða ósonlaginu, reglugerð nr. 533/1993 um kæli- og varmadælukerfi með ósoneyðandi kælimiðlum og reglugerð nr. 268/1993 um varnir gegn mengun of völdum klórflúorkolefna (CFC) og halóna.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.