Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 25. júlí 2023

969/2014

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs.

1. gr.

Skilgreining lífræns úrgangs í 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Lífrænn úrgangur: lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, veitingastöðum, veisluþjónustufyrirtækjum og smásölum og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla.

2. gr.

Ákvæði 5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Stefna um meðhöndlun úrgangs.

Ráðherra gefur út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt. Í stefnunni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála í landinu, hlutverk stjórnvalda og einkaaðila við meðhöndlun úrgangs og stefnu til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun.

Umhverfisstofnun vinnur tillögu að stefnu um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir, sbr. 6. gr., og leggur fyrir ráðherra. Umhverfisstofnun skal við gerð tillögunnar hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, hlutaðeigandi haghafa og fleiri aðila eftir því sem við á. Ráðherra skal auglýsa drög að stefnu í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við þau. Ráðherra gefur stefnu út að loknu umsagnarferli og skal hún vera aðgengileg almenningi. Ráðherra skal á a.m.k. sex ára fresti meta og taka ákvörðun um hvort þörf er á að endurskoða stefnuna. Í þeim tilvikum þegar stefna þarfnast endurskoðunar skal hún unnin í samræmi við þessa grein. Ráðherra er þó heimilt að uppfæra stefnu án þess að auglýsa slíkar uppfærslur sérstaklega.

3. gr.

Á eftir 5. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 6. gr., og breytast greinanúmer reglugerðarinnar samkvæmt því, svohljóðandi:

Stefna um úrgangsforvarnir.

Ráðherra gefur út almenna stefnu um úrgangsforvarnir til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt. Stefnan skal taka mið af lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs. Í stefnunni skulu m.a. koma fram markmið um úrgangsforvarnir, lýsing á þeim ráðstöfunum sem þegar eru fyrir hendi til að minnka úrgang og mat á gagnsemi tiltekinna ráðstafana.

Stefna um úrgangsforvarnir skal innihalda mælikvarða til að unnt sé að meta framgang ráðstafana og aðgerða sem fjallað er um í stefnunni.

Í II. viðauka er fjallað um dæmi um ráðstafanir til að koma í veg fyrir myndun úrgangs.

4. gr.

Ákvæði 8. gr. reglugerðarinnar, er verður 9. gr., orðast svo:

Svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs.

Sveitarstjórn, ein eða fleiri í sameiningu, skal semja og staðfesta svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir, sbr. 5. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Áætlunin skal taka mið af lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Í áætluninni skulu m.a. koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Í áætluninni skal jafnframt fjalla um úrgangsforvarnir. Við gerð áætlunarinnar skal sveitarstjórn auglýsa hana í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við hana. Kynna skal áætlunina í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Sveitarstjórn skal að því loknu staðfesta áætlunina og skal hún vera aðgengileg almenningi. Sveitarstjórn skal á a.m.k. sex ára fresti meta og taka ákvörðun um hvort þörf sé á að endurskoða svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Í þeim tilvikum þegar áætlunin þarfnast endurskoðunar skal hún unnin í samræmi við þessa grein. Sveitarstjórn er þó heimilt að uppfæra áætlunina án þess að auglýsa slíkar uppfærslur sérstaklega.

Eftir því sem við á og að teknu tilliti til landfræðilegra aðstæðna og umfangs svæðisins sem áætlunin tekur til skal a.m.k. koma fram í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs:

  1. yfirlit yfir tegund, magn og myndunarstaði úrgangs sem verður til innan svæðisins sem áætlunin tekur til, hvaða úrgangur er líklegt að verði fluttur frá svæðinu eða til þess og mat á þróun á straumum úrgangs í framtíðinni,
  2. gildandi kerfi fyrir söfnun úrgangs og stórar förgunar- og endurnýtingarstöðvar, þ.m.t. sérstakt fyrirkomulag vegna olíuúrgangs, spilliefna eða strauma úrgangs sem fjallað er um í lögum og reglugerðum,
  3. mat á þörfinni fyrir ný söfnunarkerfi, lokun starfandi móttökustöðva og, ef nauðsyn krefur, fjárfestingar í tengslum við þetta,
  4. upplýsingar um hvar hagkvæmast er að hafa förgunar- og endurnýtingarstöðvar í framtíðinni, sé þörf á þeim,
  5. almenn stefna varðandi úrgangsstjórnun, þ.m.t. áætluð tækni og aðferðir til úrgangsstjórnunar, eða stefna vegna úrgangs sem skapar sérstök vandamál við stjórnun.

Með tilliti til landfræðilegra aðstæðna og umfangs skipulagssvæðisins geta svæðisáætlanir um meðhöndlun úrgangs tekið til eftirfarandi:

  1. skipulagsþátta, sem tengjast úrgangsstjórnun, þ.m.t. lýsing á því hvernig ábyrgð dreifist á opinbera aðila og einkaaðila sem fara með úrgangsstjórnun,
  2. mats á gagnsemi og heppileika þess að nota efnahagsleg stjórntæki og önnur stjórntæki til að takast á við ýmis vandamál er varða úrgang,
  3. beitingar herferða til vitundarvakningar og upplýsingamiðlunar til almennings eða tiltekins hóps neytenda,
  4. aflagðra, mengaðra förgunarstaða og ráðstafana til að lagfæra þá.

Í svæðisáætlunum sveitarfélaga skal gera grein fyrir leiðum til að ná þeim markmiðum að lífrænn heimilisúrgangur sem berst til urðunarstaða hafi, eigi síðar 1. júlí 2020, minnkað niður í 35% af heildarmagni þess lífræna heimilisúrgangs sem féll til árið 1995.

Í svæðisáætlunum sveitarfélaga skal einnig gera grein fyrir leiðum til að ná þeim markmiðum að annar lífrænn úrgangur, svo sem lífrænn rekstrarúrgangur, sem berst til urðunarstaða hafi, eigi síðar 1. júlí 2020, minnkað niður í 35% af heildarmagni þess úrgangs sem féll til árið 1995.

5. gr.

Ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar, er verður 10. gr., orðast svo:

Sveitarstjórn setur sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Heimilt er að samþykkt taki til tveggja eða fleiri sveitarfélaga. Í slíkri samþykkt er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði. Um gerð og staðfestingu samþykktarinnar fer skv. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. reglugerðarinnar, er verður 11. gr.:

Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Sveitarfélög skulu innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laga um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar þessarar, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál.

Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Gjaldið má innheimta með aðför.

7. gr.

Á eftir 4. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar, er verður 12. gr., kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Óheimilt er að losa úrgang annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát, þ.m.t. grenndargáma.

8. gr.

Ákvæði 12. gr. reglugerðarinnar, er verður 13. gr., orðast svo:

Forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs.

Við meðhöndlun úrgangs og setningu reglna um stjórnun og stefnu í úrgangsmálum skal eftirfarandi forgangsröðun lögð til grundvallar:

  1. úrgangsforvarnir,
  2. undirbúningur fyrir endurnotkun,
  3. endurvinnsla,
  4. önnur endurnýting, t.d. orkuvinnsla, og
  5. förgun.

Undirbúningur fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangsefna, a.m.k. pappírs, málma, plasts og glers frá heimilum og hugsanlega frá öðrum upprunastöðum ef þeir straumar úrgangs líkjast úrgangi frá heimilum, skal að lágmarki aukast í heild upp í 50% miðað við þyngd eigi síðar en 2020.

Undirbúningur fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu efniviðar, þ.m.t. við fyllingar þar sem úrgangur er notaður í stað annars efniviðar, í tengslum við almennan úrgang frá byggingar- og niðurrifsstarfsemi, annan en náttúrulegan efnivið, skal aukast að lágmarki upp í 70% miðað við þyngd eigi síðar en 2020.

Komið skal í veg fyrir myndun umbúðaúrgangs og endurnota skal umbúðir. Endurnýta skal minnst 50% og mest 65% af þyngd umbúðaúrgangs, þar sem minnst 25% og mest 45% af þyngd allra umbúðaefna í umbúðaúrgangi er endurunnið og þar af minnst 15% af þyngd hvers umbúðaefnis fyrir sig.

Endurnotkun og endurvinnsla úr sér genginna ökutækja skal eigi síðar en 1. janúar 2006 vera að lágmarki 85% og á sama tíma skal endurnotkun og endurvinnsla vera að lágmarki 80% af meðalþyngd ökutækis. Eigi síðar en 1. janúar 2015 skal endurnotkun og endurnýting allra úr sér genginna ökutækja vera að lágmarki 95% og á sama tíma skal endurnotkun og endurvinnsla vera að lágmarki 85% af meðalþyngd ökutækis.

Stefnt skal að því að árlega verði að jafnaði safnað 4 kílóum raf- og rafeindatækjaúrgangs á hvern íbúa, sem verði meðhöndlaður á viðeigandi hátt.

9. gr.

Á eftir 18. gr. reglugerðarinnar, er verður 19. gr., kemur svohljóðandi ný grein, 20. gr., og breytast greinanúmer reglugerðarinnar í samræmi við það:

Spilliefni frá heimilum.

Ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs um eftirlit með spilliefnum, merkingu, skráningu og bann við blöndun þeirra eiga ekki við um heimilisúrgang fyrr en hann hefur verið flokkaður og móttekin til söfnunar, förgunar eða endurnýtingar.

10. gr.

Á eftir 19. gr. reglugerðarinnar, er verður 21. gr., kemur svohljóðandi ný grein, 22. gr., og breytast greinanúmer reglugerðarinnar í samræmi við það:

Eftirlit og skoðanir.

Heilbrigðisnefndir annast eftirlit með meðhöndlun á úrgangi og eftirlit með atvinnurekstri sem heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir.

Umhverfisstofnun annast eftirlit með atvinnurekstri sem stofnunin gefur út starfsleyfi fyrir. Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar um meðhöndlun úrgangs að öðru leyti.

Starfsleyfishafar skv. 1. og 2. mgr. sæta eftirliti er varða söfnun og flutning úrgangs. Eftirlit skal ná til uppruna, eðlis, magns og áfangastaðar þess úrgangs sem safnað er og fluttur.

11. gr.

Á eftir I. viðauka reglugerðarinnar, um meðferð á sérstökum úrgangi frá heilbrigðisstofnunum, bætist við nýr viðauki, II. viðauki um dæmi um ráðstafanir til að koma í veg fyrir myndun úrgangs, sem birtur er með reglugerð þessari.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang og um niðurfellingu tiltekinna tilskipana, sem vísað er til í tölulið 32ff í V. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2011 þann 1. júlí 2011.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í g., k., l., n. og z. liðum 43. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 30. október 2014.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.