Prentað þann 23. des. 2024
950/2017
Reglugerð um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Tilgangur, gildissvið, skilgreiningar og almennar meginreglur.
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Meginreglur við veitingu sérleyfis.
- 4. gr. Opinber þjónusta og önnur þjónustu í almannaþágu.
- 5. gr. Orðskýringar.
- 6. gr. Opinberir aðilar.
- 7. gr. Opinber fyrirtæki og aðrir aðilar sem starfa á grundvelli sérstakra réttinda eða einkaréttar.
- 8. gr. Viðmiðunarfjárhæð og útreikningur virðis sérleyfa.
- 9. gr. Endurskoðun viðmiðunarfjárhæðar.
- II. KAFLI Undanþáguákvæði.
- 10. gr. Undanþágur sem gilda um sérleyfi sem kaupandi veitir.
- 11. gr. Undanþágur sem gilda um sérleyfi vegna alþjóðasamskipta og öryggis- og varnarmála.
- 12. gr. Sérstakar undanþágur sem varða sérleyfissamninga um þjónustu.
- 13. gr. Sérstakar undantekningar á sviði rafrænna fjarskipta.
- 14. gr. Sérstakar undantekningar á sviði vatns.
- 15. gr. Sérleyfi sem veitt eru eignatengdu fyrirtæki.
- 16. gr. Sérleyfi sem veitt eru fyrirtæki um sameiginlegt verkefni eða kaupanda sem á hlut að fyrirtæki um sameiginlegt verkefni.
- 17. gr. Tilkynning upplýsinga.
- 18. gr. Undanþága á grundvelli beinnar samkeppni.
- 19. gr. Sérleyfi milli opinberra aðila.
- III. KAFLI Almennar reglur.
- 20. gr. Tímalengd sérleyfis.
- 21. gr. Sérreglur um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu.
- 22. gr. Blandaðir samningar.
- 23. gr. Innkaup sem taka til margs konar starfsemi og snúa að vörnum eða öryggi.
- 24. gr. Samningar sem taka bæði til starfsemi sem um getur í II. viðauka og annarrar starfsemi.
- 25. gr. Sérleyfi sem taka bæði til starfsemi sem um getur í II. viðauka og starfsemi sem hefur hliðar sem snúa að vörnum og öryggi.
- IV. KAFLI Sérstakar aðstæður.
- V. KAFLI Almennar reglur.
- VI. KAFLI Reglur um veitingu sérleyfa, almennar meginreglur og kröfur um framkvæmd.
- VII. KAFLI Framkvæmd sérleyfis.
- VIII. KAFLI Framkvæmd sérleyfa.
- IX. KAFLI Lokaákvæði.
- I. KAFLI Tilgangur, gildissvið, skilgreiningar og almennar meginreglur.
- I. Viðauki
- II. Viðauki
- III. Viðauki
- IV. Viðauki
- V. Viðauki
- VI. Viðauki
- VII. Viðauki
- VIII. Viðauki
- IX. Viðauki
- X. Viðauki
- XI. Viðauki
I. KAFLI Tilgangur, gildissvið, skilgreiningar og almennar meginreglur.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja jafnræði fyrirtækja og stuðla að hagkvæmni með virkri samkeppni við gerð sérleyfissamninga.
Með reglugerðinni er kveðið á um sameiginlegar reglur við veitingu sérleyfa á vegum hins opinbera í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga um opinber innkaup.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerðin tekur til sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum, skv. 8. gr., sem gerðir eru af hálfu:
- Opinberra aðila í samræmi við 6. gr.
- Opinberra fyrirtækja, og aðila sem starfa á grundvelli sérstakra réttinda eða einkaréttar, í samræmi við 7. gr., að því marki sem verkið eða þjónustan varði starfsemi á sviði gass eða hita, raforku, vatns, flutningaþjónustu, hafnar- eða flugvallarmála, póstþjónustu eða olíu- og gasvinnslu eða vinnslu á öðru eldsneyti í föstu formi, sbr. II. viðauki.
Samningar, ákvarðanir eða aðrir lagagerningar þar sem vald eða ábyrgð til að framkvæma verkefni sem heyra undir hið opinbera færast milli kaupenda skv. 6. og 7. gr. eða hópa þeirra, og sem kveða ekki á um endurgjald fyrir samningsefndir, teljast vera innri málefni þeirra og falla utan gildissviðs þessarar reglugerðar.
3. gr. Meginreglur við veitingu sérleyfis.
Gæta skal jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis við valferli fyrir sérleyfi. Óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða takmarka samkeppni með óeðlilegum hætti.
Valferli fyrir sérleyfi, þ.m.t. mat á verðmæti þess, skal ekki hagað af ásetningi þannig að það falli utan gildissviðs þessarar reglugerðar eða þannig að það sé með óréttmætum hætti gert hagstæðara eða óhagstæðara tilteknum fyrirtækjum eða tilteknum verkum, vörum eða þjónustu.
4. gr. Opinber þjónusta og önnur þjónustu í almannaþágu.
Hinu opinbera er frjálst að ákveða hvernig staðið skuli að framkvæmd verks eða veitingu þjónustu, einkum til að tryggja hátt gæðastig, öryggi og viðráðanlegt verð, jafna meðferð og stuðla að almennum aðgangi og réttindum notenda í tengslum við opinbera þjónustu.
Reglugerðin hefur ekki áhrif á svigrúm opinberra aðila til að skilgreina þjónustu í almannaþágu sem hefur almenna, efnahagslega þýðingu, hvernig skipuleggja skuli þessa þjónustu og fjármagna hana, í samræmi við reglur um ríkisaðstoð og hvaða sérstöku skuldbindingar skulu gilda um hana.
Reglugerðin tekur ekki til þjónustu í almannaþágu sem ekki er af efnahagslegum toga.
5. gr. Orðskýringar.
Að teknu tilliti til séreinkenna þeirrar starfsemi sem fellur undir gildissvið reglugerðarinnar skal merking orða í reglugerð þessari vera í samræmi við orðskýringar í 2. gr. laga um opinber innkaup.
Í reglugerð þessari er merking hugtaka að öðru leyti sem hér segir:
- Einkaréttur: Réttindi sem þar til bært stjórnvald veitir með því að setja hvers konar lög eða birt stjórnsýslufyrirmæli, þannig að samrýmist EES-rétti, sem hafa þau áhrif að takmarka starfsemina við einungis eitt fyrirtæki og sem hafa veruleg áhrif á möguleika annarra fyrirtækja til slíkrar starfsemi.
-
Framkvæmd verka:
- Framkvæmd, eða bæði hönnun og framkvæmd verka sem tengjast starfsemi á sviði gass eða hita, raforku, vatns, flutningaþjónustu, hafnar- og flugvallamála, póstþjónustu eða olíu-, gasvinnslu eða vinnslu á öðru eldsneyti í föstu formi eða verks,
- eða hvers konar framkvæmd verks sem svarar til krafna sem settar eru fram af kaupanda, sem er opinber aðili skv. 6. gr., sem hefur afgerandi áhrif á gerð eða hönnun verksins.
- Fyrirtæki: Samheiti notað til einföldunar. Hver sá einstaklingur, lögaðili eða opinber aðili, eða hópur slíkra einstaklinga eða aðila, þ.m.t. tímabundin samtök fyrirtækja, sem býður framkvæmd verka og/eða verk, vöruafhendingu eða þjónustustarfsemi á markaðnum.
- Kaupandi: Opinber aðili skv. 6. gr., opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar á grundvelli sérstakra réttinda eða einkaréttar skv. 7. gr., sem fara með starfsemi á sviði gass eða hita, raforku, vatns, flutningaþjónustu, hafnar- og flugvallamála, póstþjónustu eða olíu-, gasvinnslu eða vinnslu á öðru eldsneyti í föstu formi.
- Sérleyfi: Sérleyfissamningar um verk eða þjónustu, eins og skilgreint er í 6. og 7. lið. Gerð sérleyfissamnings um verk eða þjónustu skal fela í sér yfirfærslu til sérleyfishafans á rekstraráhættu við að hagnýta þessi verk eða þjónustu. Rekstraráhætta nær til eftirspurnaráhættu eða framboðsáhættu eða hvors tveggja. Sérleyfishafinn telst bera rekstraráhættu þegar ekki er tryggt, við venjulegar rekstraraðstæður, að hann endurheimti fjárfestingar eða kostnað sem stofnað hefur verið til við starfrækslu verka eða þjónustu sem sérleyfið snýst um. Raunveruleg áhætta af duttlungum markaðarins skal vera hluti þeirrar áhættu sem flyst til sérleyfishafans, þannig að mögulegt áætlað tap sérleyfishafans skal ekki aðeins vera tap að nafninu til eða óverulegt.
- Sérleyfissamningur um verk: Skriflegur samningur, fjárhagslegs eðlis, þar sem einn eða fleiri kaupendur fela framkvæmd verka í hendur einu eða fleiri fyrirtækjum þar sem endurgjaldið felst annaðhvort eingöngu í rétti til að hagnýta verkin sem samningurinn tekur til eða í þeim rétti ásamt greiðslu.
- Sérleyfissamningur um þjónustu: Skriflegur samningur, fjárhagslegs eðlis, þar sem einn eða fleiri kaupendur fela veitingu og rekstur þjónustu, annarrar en framkvæmd verka sem um getur í 6. lið, í hendur einu eða fleiri fyrirtækjum, þar sem endurgjaldið felst annaðhvort eingöngu í rétti til að hagnýta þjónustuna sem samningurinn tekur til eða í þeim rétti ásamt greiðslu.
- Sérleyfishafi: Fyrirtæki sem veitt hefur verið sérleyfi.
- Sérstök réttindi: Réttindi sem þar til bært stjórnvald veitir með því að setja hvers konar lög eða birt stjórnsýslufyrirmæli, þannig að samrýmist EES-rétti, sem hafa þau áhrif að takmarka starfsemina við tvö eða fleiri fyrirtæki og sem hafa veruleg áhrif á möguleika annarra fyrirtækja til slíkrar starfsemi.
- Skjal sem varðar sérleyfi: Hvert það skjal sem kaupandi lætur í té eða vísar til, til þess að lýsa eða ákvarða þætti sérleyfisins eða ferlisins, þ.m.t. tilkynning um sérleyfi, tækni- og virknikröfur, fyrirhuguð skilyrði sérleyfisins, form fyrir framlagningu umsækjenda og bjóðenda á skjölum, upplýsingar um þær skyldur sem gilda almennt og viðbótarskjöl ef einhver eru.
- Skriflegt: Hvers konar tjáning með orðum eða tölum sem lesa má, kalla fram og miðla, þar á meðal upplýsingar sem miðlað er og varðveittar með rafrænum aðferðum.
- Tilskipunin (sérleyfistilskipunin): Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/23/ESB um gerð sérleyfissamninga eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðunsameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2016 frá 29. apríl 2016.
- Umsækjandi: Fyrirtæki sem hefur leitað eftir að taka þátt, eða verið boðið að taka þátt, í valferli fyrir sérleyfi.
- Verk: Heildarafrakstur af byggingarframkvæmdum eða mannvirkjagerð sem getur, sem slíkt, þjónað fjárhagslegu eða tæknilegu hlutverki.
6. gr. Opinberir aðilar.
Opinberir aðilar samkvæmt reglugerð þessari eru ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og aðrir opinberir aðilar, skv. 2. mgr., þó ekki aðilar sem fara með einhverja þá starfsemi sem fellur undir II. viðauka og veita sérleyfi fyrir þá starfsemi sem þar er getið. Samtök sem opinberir aðilar, einn eða fleiri, hafa með sér geta einnig talist til opinberra aðila.
Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta og iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:
- Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélags, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.
- Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meirihluta.
- Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkisins eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af árlegum rekstrarkostnaði.
7. gr. Opinber fyrirtæki og aðrir aðilar sem starfa á grundvelli sérstakra réttinda eða einkaréttar.
Reglugerðin tekur til opinberra aðila skv. 6. gr. og opinberra fyrirtækja sem fara með einhverja þá starfsemi sem fellur undir II. viðauka og veita sérleyfi fyrir þá starfsemi sem þar er getið.
Opinbert fyrirtæki samkvæmt reglugerð þessari er hver sá aðili sem opinberir aðilar geta haft, beint eða óbeint, ráðandi áhrif á vegna eignarhalds, fjárhagslegrar þátttöku eða reglna sem um það gilda.
Ráðandi áhrif skulu teljast vera fyrir hendi þegar opinberir aðilar, beint eða óbeint:
- Eiga meirihluta skráðs hlutafjár í hlutaðeigandi fyrirtæki.
- Ráða yfir meirihluta atkvæða sem tengjast hlutafjáreign í fyrirtækinu.
- Hafa rétt til að skipa meira en helming fulltrúa í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækisins.
Reglugerðin tekur einnig til sérleyfa sem aðrir aðilar veita sem fara með starfsemi sem fellur undir II. viðauka og starfa á grundvelli sérstakra réttinda eða einkaréttar sem opinberir aðilar hafa veitt þeim.
Fyrirtæki skulu teljast starfa á grundvelli sérstakra réttinda eða einkaréttar, þegar þeim hefur verið veittur slíkur réttur á grundvelli laga- eða stjórnsýslufyrirmæla, sem takmarka starfsemi, skv. II. viðauka, við einn eða fleiri aðila og hafa veruleg áhrif á möguleika annarra aðila á því að stunda slíka starfsemi. Þó skulu réttindi sem hafa verið veitt með opinberri og gagnsærri málsmeðferð, þar sem veiting réttindanna byggist á hlutlægum viðmiðum, ekki teljast vera sérstök réttindi eða einkaréttur í þessum skilningi.
8. gr. Viðmiðunarfjárhæð og útreikningur virðis sérleyfa.
Reglugerðin gildir um sérleyfi þar sem áætlað verðmæti samnings, án virðisaukaskatts, er jafnt eða meira en 805.486.000 kr.
Verðmæti sérleyfis skal vera heildarvelta sérleyfishafans sem til verður á gildistíma samningsins, án virðisaukaskatts, samkvæmt mati kaupanda, sem endurgjald fyrir verk eða þjónustu sem sérleyfið snýst um, auk vara sem tengjast slíkum verkum og þjónustu. Matið skal miðast við þann tíma þegar tilkynning um sérleyfi er send eða, þegar ekki er kveðið á um slíka tilkynningu, á þeim tíma sem kaupandi hefur valferli fyrir sérleyfi, til dæmis með því að hafa samband við fyrirtæki í tengslum við sérleyfin.
Ef verðmæti sérleyfis á þeim tíma sem veitingin fer fram er meira en 20% hærra en áætlað verðmæti þess, skal matið sem gildir, að því er varðar 1. mgr., vera verðmæti sérleyfisins þegar veitingin fer fram.
Áætlað verðmæti sérleyfisins skal reiknað út með hlutlægri aðferð sem tilgreind er í gögnum sem varða sérleyfi. Þegar áætlað verðmæti sérleyfisins er reiknað skal kaupandi, þar sem við á, einkum taka tillit til:
- Virðis hvers kyns valmöguleika og framlengingar á tímalengd sérleyfisins.
- Tekna af greiðslu gjalda og sekta, annarra en þeirra sem kaupandi innheimtir, sem notendur verka eða þjónustu greiða.
- Greiðslna eða fjárhagslegs ávinnings í hvaða formi sem er, frá kaupanda eða öðrum opinberum aðila til sérleyfishafans, þ.m.t. bóta fyrir að gegna þeirri skyldu að veita opinbera þjónustu og styrkja í formi opinberra fjárfestinga.
- Verðmætis styrkja eða annars fjárhagslegs ávinnings, í hvaða formi sem er, frá þriðju aðilum vegna framkvæmdar sérleyfisins.
- Tekna af sölu hvaða eigna sem er, sem eru hluti af sérleyfinu.
- Verðmætis allra vara og þjónustu sem kaupandi fær sérleyfishafanum til ráðstöfunar, að því tilskildu að það sé nauðsynlegt til að framkvæma verkin eða veita þjónustuna.
- Hvers konar verðlauna eða greiðslna til umsækjenda eða bjóðenda.
Óheimilt er að skipta verðmæti sérleyfis í því skyni að verðmætið verði undir viðmiðunarfjárhæðum, nema slíkt sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.
Taka skal tillit til áætlaðs heildarverðmætis allra samningshluta þegar fyrirhugað verk eða þjónusta getur leitt til þess að sérleyfi sé veitt í aðgreindum hlutum.
Ef samanlagt verðmæti hlutanna er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., eða meira gildir reglugerðin um veitingu hvers hluta.
9. gr. Endurskoðun viðmiðunarfjárhæðar.
Viðmiðunarfjárhæðin sem sett er fram í 1. mgr. 8. gr. skal endurskoðuð eftir því sem þörf krefur eða á tveggja ára fresti, fyrst árið 2018.
II. KAFLI Undanþáguákvæði.
10. gr. Undanþágur sem gilda um sérleyfi sem kaupandi veitir.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfissamninga um þjónustu sem gerðir eru við opinbera aðila eða samtök þeirra á grundvelli einkaréttar. Reglugerðin gildir ekki um sérleyfissamninga um þjónustu sem gerðir eru við fyrirtæki á grundvelli einkaréttar, sem hefur verið veittur í samræmi við EES-rétt og réttargerðir EES þar sem mælt er fyrir um sameiginlegar reglur um aðgang að markaðnum sem gilda um þá starfsemi sem fellur undir II. viðauka.
Þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr., skal 33. gr. gilda þegar EES-löggjöf, sem bundin er við þá starfsemi sem getið er um í 2. málsl. 1. mgr., kveður ekki á um skyldur um gagnsæi sem miðast sérstaklega við þá starfsemi.
Þegar fyrirtæki er veittur einkaréttur til að sinna einhverri þeirri starfsemi sem fellur undir II. viðauka skal það tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA innan eins mánaðar frá því að einkarétturinn var veittur.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi fyrir flutningaþjónustu í lofti sem byggist á veitingu flugrekstrarleyfis í skilningi reglugerðar um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins, eða um sérleyfi til almennra farþegaflutninga í skilningi reglugerðar um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1370/2007 um almenna farþegaflutninga á járnbrautum og á vegum og um niðurfellingu á reglugerðum ráðsins (EBE) nr. 1191/69 og (EBE) nr. 1107/70.
11. gr. Undanþágur sem gilda um sérleyfi vegna alþjóðasamskipta og öryggis- og varnarmála.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi sem kaupanda er skylt að gera eða skipuleggja í samræmi við önnur valferli en mælt er fyrir um í reglugerðinni, sem komið er á með eftirfarandi hætti:
- Með samningi eða samkomulagi sem felur í sér þjóðréttarskuldbindingu, þ.e. alþjóðasamningi sem gerður er í samræmi við EES-samninginn, milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og eins eða fleiri þriðju landa eða hluta þeirra og sem tekur til verka, vara eða þjónustu vegna verkefna sem undirritunaraðilar ætla að framkvæma eða nýta sameiginlega.
- Af alþjóðastofnun.
Sérhvern samning eða samkomulag sem um getur í a-lið 1. mgr. skal senda til Eftirlitsstofnunar EFTA. Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi sem kaupandi veitir í samræmi við reglur um innkaup sem kveðið er á um af alþjóðastofnun eða alþjóðlegri fjármálastofnun, ef slík stofnun fjármagnar að öllu leyti viðkomandi sérleyfi. Þegar um er að ræða sérleyfi sem eru fjármögnuð að mestu leyti af alþjóðastofnun eða alþjóðlegri fjármálastofnun skulu aðilarnir semja um gildandi innkaupaferli. Ákvæði þessarar málsgreinar tekur ekki til sérleyfa á sviði varnar- og öryggismála.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi á sviði varnar- og öryggismála er varða varnir og öryggi sem kaupanda er skylt að gera eða skipuleggja í samræmi við önnur valferli en mælt er fyrir um í reglugerð þessari, sem komið er á með eftirfarandi hætti:
- Með alþjóðasamningi eða samkomulagi, milli EES-ríkis og eins eða fleiri þriðju landa eða hluta þeirra og sem tekur til verka, vara eða þjónustu fyrir verkefni sem undirritunaraðilar ætla að framkvæma eða nýta sameiginlega.
- Með alþjóðasamningi eða samkomulagi sem tengist veru herliðs og varðar starfsemi ríkisins eða þriðja lands.
- Af alþjóðastofnun.
Sérhvern samning eða samkomulag sem um getur í a-lið 4. mgr. skal senda til Eftirlitsstofnunar EFTA.
Reglugerðin gildir um veitingu sérleyfa á sviði varnar- og öryggismála, sbr. reglugerð um innkaup stofnana á sviði varnar- og öryggismála með eftirfarandi undantekningum:
- Sérleyfi þar sem beiting þessarar reglugerðar myndi leiða til þess að hinu opinbera væri skylt að veita upplýsingar sem er andstætt mikilvægum öryggishagsmunum þess, eða þar sem lýst hefur verið yfir að innkaupin eða framkvæmd sérleyfisins sé leynileg eða þeim verði að fylgja sérhæfðar öryggisráðstafanir í samræmi við gildandi lög eða stjórnsýslufyrirmæli.
- Sérleyfi sem veitt eru innan ramma samvinnuáætlunar, sem um getur í c-lið 22. gr. reglugerðar um innkaup stofnana á sviðið varnar- og öryggismála.
- Sérleyfi sem ríkisstjórn veitir annarri ríkisstjórn í tengslum við verk og þjónustu sem tengjast beint hergögnum eða viðkvæmum búnaði, eða verk eða þjónustu sem eru sérstaklega í þágu hernaðar, eða viðkvæm verk og viðkvæma þjónustu.
- Sérleyfi sem veitt eru í þriðja landi, sem eru framkvæmd þegar herafli er staðsettur utan yfirráðasvæðis aðildarríkja EES, þar sem rekstrarþarfir valda því að sérleyfin eru veitt rekstraraðilum sem staðsettir eru á rekstrarsvæðinu.
- Sérleyfi sem eru annars undanþegin samkvæmt þessari reglugerð.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi sem annars eru ekki undanþegin með öðrum hætti skv. 6. mgr., að því marki sem ekki er hægt að tryggja öryggishagsmuni hins opinbera með aðgerðum sem ekki ganga eins langt, t.d. með því að setja kröfur sem miða að því að varðveita leynd upplýsinga sem kaupandi lætur í té í valferli fyrir sérleyfi eins og kveðið er á um í þessari reglugerð.
12. gr. Sérstakar undanþágur sem varða sérleyfissamninga um þjónustu.
Reglugerð þessi gildir ekki um sérleyfissamninga um þjónustu er varða:
- Kaup eða leigu, gegn hvers konar fjárhagslegu endurgjaldi á jörð, byggingum sem þegar hafa verið reistar eða öðrum fasteignum eða réttindum yfir þeim.
- Kaup, þróun og framleiðslu á dagskrárefni fyrir útvarp og sjónvarp eða sérleyfi fyrir útsendingartíma.
- Gerðardóma og sáttameðferð.
- Málflutning lögmanns fyrir hönd skjólstæðings eða sáttaumleitan fyrir opinberum stofnunum, dómstólum eða gerðardómi eða fyrir öðrum alþjóðlegum dómstólum eða stofnunum.
- Lögfræðiráðgjöf sem veitt er við undirbúning málsmeðferðar skv. d-lið.
- Lögfræðiþjónustu sem fjárhaldsmaður eða talsmaður skipaður af dómstól eða undir eftirliti dómstóls veitir lögum samkvæmt.
- Vottun skjala og sannvottunarþjónustu sem lögbókandi veitir.
- Aðra lögfræðiþjónustu sem tengist beitingu opinbers valds.
- Fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum sambærilegum fjármálagerningum.
- Lán, hvort sem þau eru eða eru ekki í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum fjármálagerningum.
- Almannavarnir og aðra forvarnarþjónustu gegn hættum sem stofnanir eða samtök, sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, veita, að undanskildum flutningi sjúklinga með sjúkraflutningaþjónustu.
- Þjónustu fyrir stjórnmálabaráttu í tengslum við kosningar.
Reglugerðin tekur ekki til sérleyfissamninga um happdrættisþjónustu við fyrirtæki á grundvelli einkaréttar sem þeir njóta samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem eru í samræmi við reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi sem kaupandi, sem ekki er opinber aðili skv. 6. gr., veitir vegna starfsemi sinnar í þriðju löndum, við aðstæður þar sem ekki er um að ræða áþreifanlega notkun kerfis eða landsvæðis innan Evrópska efnahagssvæðisins.
13. gr. Sérstakar undantekningar á sviði rafrænna fjarskipta.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi þar sem megintilgangurinn er að veita opinberum aðilum leyfi til að bjóða fram almenn fjarskiptanet eða hagnýta þau eða veita almenningi eina eða fleiri tegundir rafrænnar fjarskiptaþjónustu.
14. gr. Sérstakar undantekningar á sviði vatns.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi veitt þeim sem:
- Bjóða fram eða starfrækja föst veitukerfi sem eiga að þjóna almenningi í tengslum við framleiðslu, flutning eða dreifingu drykkjarvatns.
- Afhenda drykkjarvatn til slíkra veitukerfa.
Reglugerðin gildir ekki um sérleyfi sem tengjast starfsemi sem um getur í 1. mgr. sem varða annað af eftirfarandi:
- Verkefni í tengslum við vatnsvirkjun, áveitur eða framræslu, að því tilskildu að magn vatnsins, sem afhenda á sem drykkjarvatn, sé meira en 20% af heildarvatnsmagninu sem er gert aðgengilegt með slíkum verkefnum eða áveitu- og framræslubúnaði.
- Förgun eða hreinsun skólps.
15. gr. Sérleyfi sem veitt eru eignatengdu fyrirtæki.
Með "eignatengdu fyrirtæki" er átt við sérhvert fyrirtæki sem hefur ársreikninga sem hafa verið felldir inn í samstæðureikningsskil kaupanda.
Ef í hlut eiga aðilar, sem ekki falla undir lög um ársreikninga merkir "eignatengt fyrirtæki" sérhvert fyrirtæki sem:
- Getur verið, beint eða óbeint, undir ráðandi áhrifum kaupanda.
- Getur beitt ráðandi áhrifum gagnvart kaupanda.
- Er ásamt kaupanda undir ráðandi áhrifum annars fyrirtækis vegna eignarhalds, fjárhagslegrar þátttöku eða reglna sem gilda um það.
Með ráðandi áhrifum í 2. mgr. er átt við sömu merkingu og fram kemur í 3. mgr. 7. gr.
Þrátt fyrir sérleyfi milli opinberra aðila, sbr. 19. gr. og að uppfylltum skilyrðum 5. mgr. gildir reglugerð þessi ekki um sérleyfi sem:
- Kaupandi gerir við eignatengd fyrirtæki.
- Fyrirtæki um sameiginlegt verkefni, sem nokkrir kaupendur, stofna eingöngu í því augnamiði að stunda starfsemi sem fellur undir II. viðauka, gerir við fyrirtæki sem er í eignatengslum við einn af þessum kaupendum.
Ákvæði 4. mgr. gilda um:
- Sérleyfissamninga um þjónustu að því tilskildu að a.m.k. 80% af meðalheildarveltu eignatengda fyrirtækisins á undangengnum þremur árum, að teknu tilliti til allrar þjónustu sem það fyrirtæki veitir, megi rekja til veitingar þjónustu til kaupanda, eða annarra fyrirtækja sem eru í eignatengslum við það.
- Sérleyfissamninga um verk að því tilskildu að a.m.k. 80% af meðalheildarveltu eignatengda fyrirtækisins á undangengnum þremur árum, að teknu tilliti til allra verka sem það fyrirtæki framkvæmir, megi rekja til verka sem framkvæmd eru fyrir kaupanda, eða önnur fyrirtæki sem eru í eignatengslum við það.
Þegar velta eignatengds fyrirtækis undanfarin þrjú ár liggur ekki fyrir, sökum dagsetningar stofnunar þess eða upphafs reksturs, skal nægja að það fyrirtæki geti sýnt fram á að tölur um veltu, sem um getur í a- eða b-lið 5. mgr., séu trúverðugar, einkum í ljósi viðskiptaáætlana.
Ef tvö eða fleiri fyrirtæki, sem eru í eignatengslum við kaupanda, og mynda með honum samstæðu, láta í té sömu eða svipaða þjónustu eða verk, skal hlutfallið reiknað með tilliti til heildarveltunnar af þeirri þjónustu eða verkum sem þessi eignatengdu fyrirtæki láta í té.
Með kaupanda í skilningi þessa ákvæðis er nánar tiltekið átt við opinbert fyrirtæki eða annan aðila sem starfar á grundvelli sérstakra réttinda eða einkaréttar kaupanda í samræmi við 7. gr.
16. gr. Sérleyfi sem veitt eru fyrirtæki um sameiginlegt verkefni eða kaupanda sem á hlut að fyrirtæki um sameiginlegt verkefni.
Þrátt fyrir ákvæði 19. gr. og að því tilskildu að fyrirtækið um sameiginlegt verkefni hafi verið stofnað með það fyrir augum að inna af hendi viðkomandi starfsemi á a.m.k. þriggja ára tímabili og að kveðið sé á um það í stofngerningi fyrirtækisins um sameiginlegt verkefni að kaupendur, sem mynda það, verði aðilar að því í a.m.k. jafnlangan tíma, gildir reglugerð þessi ekki um sérleyfi sem eftirfarandi aðilar veita:
- Fyrirtæki um sameiginlegt verkefni, sem nokkrir kaupendur stofna eingöngu í því augnamiði að stunda starfsemi sem fellur undir II. viðauka, við einn af þessum kaupendum.
- Kaupandi gerir við slíkt fyrirtæki um sameiginlegt verkefni sem hann er hluti af.
Með kaupanda í skilningi þessa ákvæðis er nánar tiltekið átt við opinbert fyrirtæki eða annan aðila sem starfar á grundvelli sérstakra réttinda eða einkaréttar kaupanda í samræmi við 7. gr.
17. gr. Tilkynning upplýsinga.
Kaupandi skal senda Eftirlitsstofnun EFTA eftirfarandi upplýsingar varðandi beitingu 2. og 3. mgr. 15. gr. og 16. gr. ef óskað er eftir því:
- Nöfn fyrirtækja eða samstarfsaðila um sameiginlegt verkefni.
- Hvers eðlis viðkomandi sérleyfi eru og verðmæti þeirra.
- Þau gögn sem Eftirlitsstofnun EFTA telur nauðsynleg, um að tengslin milli fyrirtækis eða fyrirtækis um sameiginlegt verkefni sem sérleyfi eru veitt til og kaupanda, standist kröfur 15. gr. eða 16. gr.
18. gr. Undanþága á grundvelli beinnar samkeppni.
Sérleyfi, sem varða starfsemi sem opinber fyrirtæki veita, falla ekki undir reglugerðina ef staðfest er með ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA að sú starfsemi fari fram í beinni samkeppni á mörkuðum hér á landi og að aðgangur að markaðinum sé ekki takmarkaður.
19. gr. Sérleyfi milli opinberra aðila.
Reglugerð þessi tekur ekki til sérleyfa sem gerð eru við lögaðila á vegum hins opinbera ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
- Lögaðili lýtur stjórn opinbers aðila eða sameiginlegri stjórn fleiri en eins opinbers aðila.
- Yfir 80% af starfsemi lögaðilans eru innt af hendi við framkvæmd verkefna sem honum eru falin af þeim opinbera aðila eða aðilum sem hann lýtur stjórn eða öðrum aðilum sem lúta stjórn opinberra aðila.
- Starfsemi lögaðilans er ekki fjármögnuð með beinni fjárfestingu frá einkaaðilanum, að undanskilinni einkafjárfestingu, sem krafist er samkvæmt sérlögum og hefur ekki áhrif á stjórn hins opinbera yfir lögaðilanum.
Lögaðili telst lúta stjórn opinbers aðila þegar hinn opinberi aðili hefur afgerandi áhrif bæði á skipulag og ákvarðanir lögaðilans Þá telst lögaðili lúta sameiginlegum yfirráðum opinberra aðila skv. a-lið 1. mgr. ef eftirfarandi skilyrði eru til staðar:
- Opinber aðili lýtur sérstakri stjórn sem opinberir aðilar skipa.
- Opinberir aðilar geta sameiginlega haft afgerandi áhrif á skipulag og ákvarðanir viðkomandi lögaðila.
- Lögaðili lýtur stjórn opinberra aðila og hefur ekki öndverðra hagsmuna að gæta gagnvart þeim.
Reglugerðin tekur ekki til samninga sem gerðir eru milli tveggja eða fleiri opinberra aðila ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
- Samningurinn kemur á eða hrindir í framkvæmd samvinnu milli opinberra aðila um að tryggja að opinber þjónusta sem þeir veita nái sameiginlegu markmiði.
- Samvinna þessara aðila varðar almannahagsmuni.
- Þeir opinberu aðilar sem um ræðir annist innan við 20% af starfseminni, sem samvinnan varðar, á almennum markaði.
Við mat hlutfalls á starfsemi skv. b-lið 1. mgr. og c-lið 3. mgr., skal taka tillit til meðalheildarveltu eða annars viðeigandi mælikvarða, svo sem kostnaðar sem viðkomandi aðili hefur stofnað til er varðar þjónustu, vörur eða verk undanfarin þrjú ár fyrir veitingu sérleyfisins. Ef nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir skal mælikvarði fyrir starfsemina metinn út frá viðskiptaáætlun.
III. KAFLI Almennar reglur.
20. gr. Tímalengd sérleyfis.
Sérleyfi skulu vera tímabundin og skal kaupandi meta tímalengdina á grundvelli verkanna og þjónustunnar sem óskað er eftir.
Vari sérleyfi lengur en fimm ár skal hámarkslengd sérleyfis ekki vera meiri en sem nemur þeim tíma sem raunhæft er að ætla að taki sérleyfishafann að endurheimta fjárfestingu sína við starfrækslu verkanna eða þjónustunnar, ásamt ávöxtun fjárfestinga, að teknu tilliti til þeirra fjárfestinga sem nauðsynlegar eru til að ná sérstöku samningsmarkmiðunum. Bæði upphaflegar fjárfestingar og fjárfestingar sem gerðar eru á meðan sérleyfið varir skulu vera meðal fjárfestinganna sem tekið er tillit til við útreikninginn.
21. gr. Sérreglur um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu.
Lágmarksreglur gilda um sérleyfi fyrir félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu sem fram kemur í IV. viðauka og fellur undir gildissvið reglugerðarinnar þar sem aðeins er skylt að láta vita um fyrirhugaða veitingu sérleyfis með forauglýsingu, sbr. 3. mgr. 33. gr. og tilkynna um veitingu sérleyfis, sbr. 34. gr.
22. gr. Blandaðir samningar.
Sérleyfi, sem varða í senn verk og þjónustu, skulu veitt í samræmi við ákvæðin sem gilda um þá tegund sérleyfa sem einkennir meginefni samningsins sem í hlut á. Þegar um er að ræða blönduð sérleyfi, sem varða að hluta félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu sem skráð er í IV. viðauka og að hluta aðra þjónustu, skal ákvarða hvert meginefni þeirra er út frá því hvor þjónustuþátturinn hefur hærra áætlað verðmæti.
Þegar um er að ræða samninga sem falla að hluta undir reglugerð þessa og aðra þætti getur kaupandi valið að gera aðskilda samninga fyrir aðskilda hluta. Þegar kaupandi ákveður að gera aðskilda samninga fyrir aðskilda hluta skal ákvörðunin um það hvaða reglur gilda um hvern og einn þessara aðskildu samninga tekin á grundvelli þess sem einkennir meginefni hvers samnings. Ef kaupandi ákveður að gera einn stakan samning skal fara eftir reglugerð þessari, sbr. þó það sem kemur fram í 23. gr.
Þegar um er að ræða blandaða samninga sem innihalda í senn sérleyfisþætti og þætti sem falla undir almennar reglur um opinber innkaup, eða reglugerð um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, skal blandaður samningur gerður í samræmi við lög um opinber innkaup annars vegar eða reglugerð um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu hins vegar.
Þegar ekki er hægt að aðskilja mismunandi hluta tiltekins samnings með hlutlægum hætti, skal ákvarða hvaða reglur eiga við á grundvelli meginefnis samningsins. Þegar slíkir samningar innihalda í senn þætti sem einkenna sérleyfissamning um þjónustu og vörusamning, skal meginefnið ákvarðað eftir því hvort áætlað verðmæti þjónustunnar eða varanna sem við á er hærra.
23. gr. Innkaup sem taka til margs konar starfsemi og snúa að vörnum eða öryggi.
Þegar um er að ræða samninga, sem ætlað er að taka til margs konar starfsemi getur kaupandi kosið að gera aðskilda samninga vegna hverrar starfsemi fyrir sig eða gert stakan samning. Þegar kaupandi ákveður að gera aðskilda samninga fyrir aðskilda hluta skal ákvörðunin um það hvaða reglur gilda um hvern og einn slíkra aðskilinna samninga tekin á grundvelli þess sem einkennir meginefni hvers samnings.
Þegar kaupandi ákveður að gera stakan samning skal beita eftirfarandi viðmiðum til að ákvarða hvaða reglur eiga við:
Þegar hluti tiltekins samnings fellur undir 123. gr. EES-samningsins er heimilt að gera samning án þess að beita reglugerð þessari, að því tilskildu að gerð staks samnings sé réttlætanleg á grundvelli hlutlægra ástæðna.
Þegar hluti tiltekins samnings fellur undir reglugerð um innkaup stofnana á svið varnar- og öryggismála er heimilt að gera samning í samræmi við þá reglugerð, að því tilskildu að gerð staks samnings sé réttlætanleg á grundvelli hlutlægra ástæðna.
Ákvæði a-liðar skal gilda um blandaða samninga sem bæði a- og b-liðir gætu annars gilt um. Ákvörðun um að gera stakan samning skal ekki tekin í þeim tilgangi að sniðganga ákvæði reglugerðar þessarar eða reglugerðar um innkaup stofnana á svið varnar- og öryggismála.
Þegar ekki er hægt að aðskilja mismunandi hluta tiltekins samnings með hlutlægum hætti er heimilt að gera samning án þess að beita þessari reglugerð hafi hann að geyma þætti sem 123. gr. EES-samningsins gildir um. Að öðrum kosti getur kaupandi valið að gera samning í samræmi við þessa reglugerð eða reglugerð um innkaup á sviði varnar- og öryggismála.
24. gr. Samningar sem taka bæði til starfsemi sem um getur í II. viðauka og annarrar starfsemi.
Þegar um er að ræða samninga sem ætlað er að taka til margs konar starfsemi getur kaupandi valið að gera aðskilda samninga vegna hverrar starfsemi fyrir sig eða gert stakan samning. Þegar kaupandi ákveður að gera aðskilda samninga fyrir aðskilda hluta skal ákvörðunin um það hvaða reglur gilda um hvern og einn þessara aðskildu samninga tekin á grundvelli þess sem einkennir meginefni hvers samnings.
Samningur, sem ætlað er að taka til margs konar starfsemi, skal falla undir þær reglur sen gilda um þá starfsemi sem er meginviðfangsefni samningsins.
Þegar um er að ræða samninga þar sem ógerlegt er að ákvarða á hlutlægan hátt hvaða starfsemi er meginviðfangsefni samningsins skal ákvarða hvaða reglur skulu gilda um hann í samræmi við eftirfarandi:
Sérleyfið skal veitt í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar sem gilda um þá tegund sérleyfis sem um ræðir.
Samningurinn skal gerður í samræmi við lög um opinber innkaup ef önnur þeirrar starfsemi sem samningnum er ætlað að ná yfir fellur undir þessa reglugerð og hin starfsemin undir lög um opinber innkaup.
Samningurinn skal gerður í samræmi við þessa reglugerð ef önnur þeirrar starfsemi sem samningnum er ætlað að ná yfir fellur undir þessa reglugerð og hin starfsemin fellur hvorki undir þessa reglugerð, reglugerð um aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu né lög um opinber innkaup.
Ákvörðun um að gera stakan samning eða aðskilda samninga skal ekki tekin í þeim tilgangi að sniðganga ákvæði reglugerðar þessarar eða aðrar reglur á sviði opinberra innkaupa.
25. gr. Sérleyfi sem taka bæði til starfsemi sem um getur í II. viðauka og starfsemi sem hefur hliðar sem snúa að vörnum og öryggi.
Þegar um er að ræða samninga sem ætlað er að taka til margs konar starfsemi getur kaupandi valið að gera aðskilda samninga vegna hverrar starfsemi fyrir sig eða gert stakan samning. Þegar kaupandi ákveður að gera aðskilda samninga fyrir aðskilda hluta skal ákvörðunin um það hvaða reglur gilda um hvern og einn slíkra aðskilinna samninga tekin á grundvelli einkenna viðkomandi starfsemi.
Þegar um er að ræða samninga sem ætlað er að taka til starfsemi sem fellur undir reglugerð þessa og undir:
- 123. gr. EES-samningsins eða
- reglugerð um innkaup stofnana á sviði varnar- og öryggismála,
er kaupanda heimilt að gera samninga án þess að beita reglugerð þessari þegar a-liður á við og gera samning í samræmi við reglugerð þessa eða reglugerð um innkaupa á sviði varnar- og öryggismála þegar b-liður á við.
Skilyrði fyrir beitingu 2. mgr. er að gerð staks samnings sé réttlætanleg á grundvelli hlutlægra ástæðna og að ákvörðunin um að gera stakan samning sé ekki tekin í þeim tilgangi að sniðganga ákvæði reglugerðar þessarar.
IV. KAFLI Sérstakar aðstæður.
26. gr. Sérleyfi bundin við ákveðna hópa.
Heimilt er að takmarka rétt til þátttöku í valferli fyrir sérleyfi við verndaða vinnustaði og fyrirtæki sem hafa að markmiði að efla félagslega og faglega aðlögun fólks sem þarf á slíkri aðlögun að halda. Jafnframt má áskilja að slíkir samningar fari fram samkvæmt áætlun um verndaða vinnustaði.
Skilyrði fyrir takmörkun skv. 1. mgr. er að a.m.k. 30% starfsmanna á vinnustað eða þeirra sem vinna við framkvæmd samningsins séu með fötlun eða þurfi á aðlögun að halda af félagslegum ástæðum.
27. gr. Þjónusta tengd rannsóknum og þróun.
Reglugerð þessi skal eingöngu gilda um sérleyfissamninga um þjónustu fyrir þjónustu tengda rannsóknum og þróun sem fellur undir CPV-kóða 73000000-2 til 73120000-9, 73420000-2 og 73430000-5, að því tilskildu að ávinningurinn fari eingöngu til kaupandans til nota í eigin starfsemi og að endurgjald fyrir þjónustuna, sem veitt er, komi eingöngu frá kaupanda.
V. KAFLI Almennar reglur.
28. gr. Meginreglur um þá sem njóta réttar samkvæmt reglugerð þessari.
Fyrirtæki með staðfestu í einhverju ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu njóta réttar samkvæmt reglugerðinni. Þessi fyrirtæki skulu þó ekki njóta lakari réttar en fyrirtæki frá öðrum ríkjum. Réttar samkvæmt reglugerð þessari njóta einnig fyrirtæki frá öðrum ríkjum að því marki sem þau njóta slíkra réttinda á grundvelli milliríkjasamnings sem íslenska ríkið hefur gert.
Hópar fyrirtækja, þ.m.t. tímabundin samtök, geta tekið þátt í valferli fyrir sérleyfi. Þau skulu ekki krafin um sérstakt rekstrarform til þess að leggja fram tilboð eða þátttökutilkynningu. Ef nauðsyn krefur getur kaupandi skýrt það í gögnum sem varða sérleyfi hvernig hópar fyrirtækja skulu uppfylla kröfur um efnahags- og fjárhagsstöðu eða tæknilega og faglega getu sem krafist er af fyrirtækjum sem um getur í 39. gr. að því tilskildu að það sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna og gætt sé meðalhófs. Heimilt er að birta staðlaða skilmála um það hvernig hópar fyrirtækja skulu uppfylla þessar kröfur. Hvers konar skilyrði varðandi framkvæmd sérleyfis af hálfu hópa slíkra fyrirtækja sem eru ólík þeim sem gilda um einstaka þátttakendur skulu vera réttlætanleg á grundvelli hlutlægra ástæðna og gæta skal meðalhófs.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. getur kaupandi krafist þess að hópar rekstraraðila taki á sig sérstakt rekstrarform þegar samningur hefur verið gerður við þá, að því marki sem slík breyting er nauðsynleg fyrir fullnægjandi framkvæmd samningsins.
Heimilt er að krefjast þess af fyrirtækjum að þau tilgreini, í tilboði eða umsókn, nöfn og viðeigandi faglega menntun og hæfi starfsmanna sem eiga að bera ábyrgð á framkvæmd samningsins.
29. gr. Sameiginlegt innkaupaorðasafn.
Allar tilvísanir til flokkunarkerfa í tengslum við veitingu sérleyfa skulu byggjast á sameiginlega innkaupaorðasafninu (CPV).
30. gr. Trúnaðarskylda.
Kaupanda er óheimilt að láta af hendi viðkvæmar upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Til slíkra upplýsinga teljast upplýsingar um rekstur, sértækar tæknilausnir, einingarverð, fjárhagsmálefni og viðskipti og aðrar þær upplýsingar sem skaðað geta hagsmuni fyrirtækisins ef aðgangur er veittur að þeim. Kaupanda er heimilt að krefjast þess að fyrirtæki gæti trúnaðar um mikilvægar upplýsingar sem veittar eru meðan á valferli fyrir sérleyfi stendur.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef annað leiðir af fyrirmælum reglugerðarinnar, sbr. einkum ákvæði um skyldu til að birta opinberlega tilkynningu um gerð samnings á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 32. gr. og upplýsa þátttakendur og bjóðendur um tiltekin atriði, sbr. 33. gr., sem og skyldu til að veita kærunefnd útboðsmála upplýsingar skv. lögum um opinber innkaup.
Ákvæði 1. mgr. hefur að öðru leyti ekki áhrif á skyldu aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.
31. gr. Reglur um samskipti og framlagningu gagna.
Kaupandi getur, nema skylt sé að nota rafrænar aðferðir skv. 2. mgr. 34. gr. og 35. gr., valið að nota eina eða fleiri af eftirfarandi samskiptaaðferðum fyrir öll samskipti og miðlun upplýsinga:
- Rafrænar aðferðir.
- Póst eða símbréf.
- Munnleg samskipti, þ.m.t. í gegnum síma, í öðrum samskiptum en þeim sem varða mikilvægustu þætti valferlisins fyrir sérleyfi, og að því tilskildu að efni munnlegu samskiptanna sé skráð nægilega vel á varanlegum miðli.
- Beina afhendingu sem vottuð er með staðfestingu á móttöku.
Heimilt er að fara fram á notkun rafrænna samskiptaaðferða umfram þær skyldur sem kveðið er á um í 2. mgr. 34. gr. og 35. gr.
Öll samskipti og miðlun upplýsinga skulu vera almennt aðgengilegar og þannig að ekki leiði til mismununar og þær skulu ekki takmarka aðgang fyrirtækja að valferlinu fyrir sérleyfi. Sá búnaður sem er notaður skal vera almennt aðgengilegur og tæknilegir eiginleikar hans samhæfðir við þá upplýsinga- og miðlunartækni sem er almennt í notkun.
Samskipti, miðlun og geymsla upplýsinga skal fara fram með þeim hætti að uppruni gagna sé tryggður og að þeim hafi ekki verið breytt. Einnig skal tryggt að trúnaður um tilboð og beiðni um þátttöku sé ekki rofinn og að kaupandi geti aðeins kynnt sér innihald tilboða eða beiðni um þátttöku eftir að tilboðsfrestur eða frestur til að leggja fram beiðni um þátttöku er liðinn.
VI. KAFLI Reglur um veitingu sérleyfa, almennar meginreglur og kröfur um framkvæmd.
32. gr. Tilkynningar um sérleyfi.
Kaupandi sem hyggst veita sérleyfi, skal láta vita af fyrirætlun sinni með tilkynningu um sérleyfi. Í tilkynningu um sérleyfi skulu koma fram upplýsingarnar sem settar eru fram í V. viðauka, og, eftir því sem við á, hvers konar upplýsingar aðrar, sem kaupandi telur gagnlegar.
Kaupandi sem hefur í hyggju að veita sérleyfi fyrir félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu sem skráð er í IV. viðauka skal láta vita um fyrirhugaða veitingu sérleyfis með birtingu forauglýsingar. Í forauglýsingu skulu koma fram upplýsingar sem settar eru fram í VI. viðauka.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. skal þess ekki krafist að kaupandi birti tilkynningu um sérleyfi þegar aðeins eitt fyrirtæki getur veitt þjónustuna í eftirfarandi tilvikum:
- Markmiðið með sérleyfinu er gerð eða kaup á einstöku listaverki eða einstökum listflutningi.
- Ekki er um samkeppni að ræða af tæknilegum ástæðum.
- Einkaréttur er til staðar.
- Vegna verndar annars hugverkaréttar og einkaréttar en þeirra sem skilgreindir eru í 1. lið 2. mgr. 5. gr.
Ákvæði b-, c- og d-liðar 3. mgr. taka aðeins til tilvika þegar enginn annar raunhæfur valkostur er fyrir hendi eða annað sem komið getur í staðinn. Þá skal ekki hafa verið þrengt að breytum fyrir veitingu sérleyfisins með óeðlilegum hætti sem leiðir til þess að samkeppni er ekki til staðar.
Þrátt fyrir 1. mgr. skal kaupandi ekki birta nýja tilkynningu um sérleyfi ef engar umsóknir, engin tilboð, engin fullnægjandi tilboð eða engar fullnægjandi umsóknir hafa verið lagðar fram vegna fyrra valferlis fyrir sérleyfi, að því tilskildu að upphaflegum skilyrðum samningsins sé ekki breytt í veigamiklum atriðum.
Hvað varðar 4. mgr. skal tilboð ekki talið fullnægjandi þegar það hefur ekki tengsl við sérleyfið og dugir bersýnilega ekki, án verulegra breytinga, til að mæta þörfum kaupanda og kröfum eins og þær eru tilgreindar í skjölunum sem varða sérleyfið.
Skal umsókn ekki talin fullnægjandi ef eftirfarandi skilyrði eru fyrir hendi:
- Ef útiloka skal eða ef hægt er að útiloka viðkomandi umsækjanda samkvæmt 6.-11. mgr. 39. gr. eða hann uppfyllir ekki hæfiskröfur skv. 1. mgr. 39. gr.
- Þegar umsóknir hafa að geyma tilboð sem eru ekki fullnægjandi í skilningi 6. mgr.
33. gr. Tilkynningar um veitingu sérleyfis.
Eigi síðar en 48 dögum eftir að sérleyfi er veitt skal kaupandi tilkynna niðurstöðu um veitingu sérleyfis í samræmi við 34. gr.
Tilkynningum vegna félagsþjónustu og annarrar sértækrar þjónustu sem skráð er í IV. viðauka má hins vegar safna saman og senda ársfjórðungslega og skal það gert innan 48 daga frá lokum hvers ársfjórðungs.
Í tilkynningu um veitingu sérleyfis skulu koma fram upplýsingar sem settar eru fram í VII. viðauka. Tilkynningar um sérleyfi fyrir félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu sem skráð er í IV. viðauka, skulu vera í samræmi við VIII. viðauka.
34. gr. Form tilkynninga og birting þeirra.
Í tilkynningum um sérleyfi, tilkynningum um veitingu sérleyfis og tilkynningunni sem um getur í 2. mgr. 44. gr. skulu koma fram upplýsingarnar sem settar eru fram í V., VII. og VIII. viðauka eftir því sem við á, í samræmi við stöðluð eyðublöð tilkynninga, sbr. reglugerð um staðlað eyðublað fyrir samevrópska hæfisyfirlýsingu og stöðluð eyðublöð fyrir birtingu tilkynninga við opinber innkaup.
Tilkynningar skulu sendar með rafrænum aðferðum til útgáfuskrifstofu Evrópusambandsins sem annast birtingu þeirra, sbr. IX. viðauki.
35. gr. Rafrænt aðgengi að skjölum sem varða sérleyfi.
Kaupandi skal bjóða, án endurgjalds, ótakmarkaðan og fullan, beinan, rafrænan aðgang að skjölum sem varða sérleyfi frá birtingardegi tilkynningar um sérleyfi eða, þegar tilkynningin um sérleyfi hefur ekki að geyma boð um að leggja fram tilboð, frá þeim degi sem boð um að leggja fram tilboð var sent. Í tilkynningu um sérleyfi eða boð skal tilgreina veffang þar sem hægt er að nálgast skjöl sem varða sérleyfið.
Ef kaupandi getur ekki boðið ótakmarkaðan og fullan, beinan, rafrænan aðgang án endurgjalds að tilteknum skjölum sem varða sérleyfi, við aðstæður sem gefa nægilegt tilefni til vegna sérstakra öryggisástæðna eða tæknilegra ástæðna eða vegna sérstaklega viðkvæms eðlis viðskiptaupplýsinga sem krefst varnar á mjög háu stigi, skal hann láta það koma fram í tilkynningunni eða boðinu um að leggja fram tilboð að hlutaðeigandi skjöl sem varða sérleyfi verði send með öðrum aðferðum en rafrænum og frestur til móttöku tilboða verði lengdur.
Kaupandi skal láta öllum umsækjendum eða bjóðendum í té viðbótarupplýsingar sem tengjast skjölum sem varða sérleyfi eigi síðar en sex dögum áður en frestur til að taka við tilboðum rennur út. Ósk um slíkar viðbótarupplýsingar skal lögð fram með góðum fyrirvara.
36. gr. Hagsmunaárekstrar.
Kaupandi skal gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir sviksemi, hlutdrægni og spillingu. Jafnframt skal kaupandi koma með skilvirkum hætti í veg fyrir, greina og lagfæra hagsmunaárekstra sem rísa í valferlinu fyrir sérleyfi til þess að forðast röskun á samkeppni og til að tryggja gagnsæi valferlisins og jafna meðferð fyrirtækja.
Hagsmunaárekstrar taka m.a. til aðstæðna þar sem starfsfólk kaupanda, sem tekur þátt í framkvæmd valferlis fyrir sérleyfi eða getur haft áhrif á útkomu þess, hefur beinna eða óbeinna fjárhagslegra, efnahagslegra eða annars konar persónulegra hagsmuna að gæta sem hægt væri að sjá fyrir sér að hefðu áhrif á hlutleysi þeirra og sjálfstæði í tengslum við valferli fyrir sérleyfi.
Kaupandi skal ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir mögulegan hagsmunaárekstur eða koma í veg fyrir hagsmunaárekstur sem hefur verið greindur.
VII. KAFLI Framkvæmd sérleyfis.
37. gr. Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings.
Kaupandi skal með tækni- og virknikröfum skilgreina þau skilyrði sem verk eða þjónusta, sem fellur undir sérleyfið, þarf að uppfylla. Skilyrðin skulu sett fram í tilkynningu eða öðrum skilmálum sem varða sérleyfi.
Skilyrðin geta vísað til sérstaks ferlis við framleiðslu eða veitingu viðkomandi verka eða þjónustu, að því tilskildu að þau tengist efni samningsins og séu í réttu hlutfalli við verðmæti hans og markmið. Skilyrðin geta jafnframt verið vegna atriða sem varða efnahagsleg, nýsköpunartengd, umhverfisleg, félagsleg eða atvinnutengd sjónarmið.
Tækni- og virknikröfur skulu ekki vísa til sérstakrar tegundar eða uppruna eða tiltekins vinnsluferlis sem einkennir vörur eða þjónustu sem tiltkekið fyrirtæki veitir, né til vörumerkja, einkaleyfa, gerða eða sérstakrar framleiðslu með þeim áhrifum að það styðji eða útiloki tiltekin fyrirtæki eða tilteknar vörur, sé það ekki réttlætanlegt af efni samningsins. Slík tilvísun skal leyfð í sérstökum undantekningartilvikum þegar nægileg nákvæm og skiljanleg lýsing á efni samningsins er ekki möguleg. Orðin "eða jafngilt" skulu fylgja slíkri tilvísun.
Kaupandi skal ekki vísa frá tilboði á þeim forsendum að verkið eða þjónustan sem boðin er uppfylli ekki tækni- og virknikröfur skv. 1. mgr., ef bjóðandinn færir sönnur á það í tilboði sínu að þær lausnir sem hann hefur lagt til uppfylli skilyrðin með jafngildum hætti.
38. gr. Kröfur um framkvæmd.
Veita skal sérleyfi á grundvelli forsendna sem settar voru fram í samræmi við 42. gr. að því tilskildu að öll eftirfarandi skilyrði séu til staðar:
- Að tilboðið uppfylli þær lágmarkskröfur sem kaupandi setur, eftir atvikum.
- Að bjóðandinn uppfylli skilyrði fyrir þátttöku eins og um getur í 1. mgr. 39. gr.
- Að bjóðandinn sé ekki útilokaður frá þátttöku í valferlinu í samræmi við 4.-9. mgr. 39. gr. og með fyrirvara um 11. mgr. 39. gr.
Lágmarkskröfur sem settar eru fram í a-lið 1. mgr. skulu hafa að geyma skilyrði og einkenni sem öll tilboð ættu að uppfylla eða hafa.
Kaupandi skal í tilkynningu um sérleyfi láta í té:
- Lýsingu á sérleyfinu og skilyrðum fyrir þátttöku.
- Lýsingu á forsendum fyrir vali tilboðs og, eftir atvikum, lágmarkskröfur sem uppfylla þarf.
Kaupandi getur takmarkað fjölda umsækjenda eða bjóðenda við ákveðinn. Skal það gert á gagnsæjan hátt og á grundvelli hlutlægra viðmiða auk þess sem umsækjendur eða bjóðendur skulu vera nægilega margir til að tryggja raunverulega samkeppni.
Kaupandi skal senda öllum þátttakendum lýsingu á fyrirhuguðu skipulagi valferlisins og leiðbeinandi lokafrest. Hvers konar breytingar skulu sendar öllum þátttakendum og, að því marki sem þær varða þætti sem eru tilgreindir í tilkynningunni um sérleyfi, kunngjörðar öllum fyrirtækjum.
Kaupandi skal skrá framvindu valferlisins á öllum stigum með viðeigandi hætti.
Samningsviðræður mega fara fram milli kaupanda og bjóðenda. Efni sérleyfisins, forsendum fyrir vali tilboðs og lágmarkskröfum skal ekki breytt meðan á samningsviðræðunum stendur.
39. gr. Útilokunarástæður.
Bjóðandi skal uppfylla þátttökuskilyrði, sem tengjast faglegri og tæknilegri getu og fjárhagslegri og efnahagslegri stöðu bjóðenda, í samræmi við þær kröfur, sem tilgreindar eru í tilkynningu um sérleyfi. Skilyrðin fyrir þátttöku skulu vera í réttu hlutfalli við þörfina á að tryggja að sérleyfishafinn hafi getu til að framkvæma sérleyfið, að teknu tilliti til efnis sérleyfisins og þess markmiðs að tryggja raunverulega samkeppni.
Bjóðandi getur vegna tiltekins sérleyfis byggt á getu annarra aðila. Bjóðandi skal jafnframt sanna fyrir kaupanda að hann hafi tryggt sér tilgreinda aðstoð, t.d. með því að leggja fram skuldbindandi yfirlýsingu aðila um að hann muni annast verkið eða þjónustuna. Að því er varðar fjárhagsstöðu getur kaupandi krafist þess að bjóðandi og þessir aðilar beri sameiginlega ábyrgð á efndum samningsins.
Með sömu skilyrðum getur hópur fyrirtækja, skv. 28. gr., byggt á getu þátttakenda í hópnum eða annarra aðila.
Þátttakandi eða bjóðandi sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir eftirtalin afbrot skal útilokaður frá þátttöku í valferli:
- Þátttöku í skipulögðum glæpasamtökum.
- Spillingu.
- Sviksemi.
- Hryðjuverk eða brot sem tengjast hryðjuverkastarfsemi.
- Peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
- Barnþrælkun eða annars konar mansal.
Skylda til að útiloka þátttakanda eða bjóðanda gildir einnig þegar einstaklingur, sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir brot skv. 4. mgr., er í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn viðkomandi fyrirtækis eða hefur heimild til fyrirsvars, ákvörðunartöku eða yfirráða í því.
Þátttakandi eða bjóðandi skal útilokaður frá þátttöku í valferli fyrir sérleyfi hafi hann brotið gegn skyldum um greiðslu opinberra gjalda, lífeyrissjóðsiðgjalda eða annarra lögákveðinna gjalda og því hefur verið endanlega slegið föstu með ákvörðun dómstóls eða stjórnvalds þar sem þátttakandi eða bjóðandi er skráður eða í aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Heimilt er að útiloka þátttakanda eða bjóðanda frá þátttöku í valferli fyrir sérleyfi þegar kaupandi getur sýnt fram á með viðeigandi hætti að þátttakandi eða bjóðandi hafi brotið gegn skyldum um greiðslu opinberra gjalda, lífeyrissjóðsiðgjalda eða annarra lögákveðinna gjalda. Hafi þátttakandi eða bjóðandi uppfyllt skyldur sínar með því að greiða vanskil á opinberum gjöldum eða gera samning um greiðslu þeirra, þ.m.t. vexti eða sektir, skal hann ekki útilokaður samkvæmt þessari málsgrein.
Í undantekningartilvikum vegna ástæðna sem varða almannahagsmuni, svo sem lýðheilsu eða umhverfisvernd, er heimilt að veita undanþágu frá útilokun skv. 6. mgr. enda vegi þær ástæður þyngra en ástæður fyrir útilokun bjóðanda.
Heimilt er að útiloka fyrirtæki frá þátttöku í valferli fyrir sérleyfi við einhverjar af eftirfarandi aðstæðum:
- Fyrirtæki hefur brotið gegn innlendum eða alþjóðlegum kröfum á sviði umhverfis-, félagsmála og vinnuréttar sem kaupanda er unnt að sýna fram á.
- Bú fyrirtækis er undir gjaldþrotaskiptum eða félagi hefur verið slitið, það hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu. Kaupanda er þó heimilt að útiloka ekki viðkomandi aðila þegar hægt er að slá því föstu að fyrirtækið muni geta staðið við samninginn.
- Þegar hægt er að sýna fram á að fyrirtækið sé sekt um alvarlega vanrækslu í starfi, sem gerir það að verkum að heiðarleiki þess verður dreginn í efa.
- Hagsmunaárekstrar eru til staðar í valferlinu sem ekki er hægt að lagfæra með aðgerðum sem ganga skemur.
- Fyrri aðkoma fyrirtækis á undirbúningsstigi er talin raska samkeppni og ekki er hægt að lagfæra það með aðgerðum sem ganga skemur.
- Verulegir eða viðvarandi annmarkar hafa verið á framkvæmd fyrirtækis á efnislegum kröfum samkvæmt opinberum samningum sem hafa leitt til riftunar á samningi, kröfu um skaðabætur eða annarra svipaðra viðurlaga.
- Þegar fyrirtæki hefur viðhaft alvarlegar rangfærslur við veitingu upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að sannreyna að ekki séu til staðar útilokunarástæður eða að hæfiskröfur séu uppfylltar, hefur leynt slíkum upplýsingum eða getur ekki lagt fram tilskilin gögn þeim til stuðnings.
- Fyrirtæki hefur með óréttmætum hætti reynt að hafa áhrif á ákvarðanatöku kaupanda til að öðlast trúnaðarupplýsingar sem geta veitt því óréttmætt forskot í valferlinu fyrir sérleyfi eða hefur af gáleysi veitt villandi upplýsingar sem geta haft efnisleg áhrif á ákvarðanir varðandi útilokun, val eða samningsgerð.
- Ef það kemur í ljós, þegar um er að ræða sérleyfi á sviði varnar- og öryggismála, að fyrirtæki býr ekki yfir þeim áreiðanleika sem þarf til að öryggi sé ekki stofnað í hættu.
Kaupandi getur útilokað fyrirtæki frá valferlinu ef í ljós kemur að hlutaðeigandi fyrirtæki er, í ljósi athafna eða athafnaleysis annaðhvort áður eða meðan á valferlinu stendur, í einhverjum þeim aðstæðum sem um getur í 4.-6. mgr. Kaupandi getur, hvenær sem er á meðan valferlinu stendur útilokað fyrirtæki ef í ljós kemur að hlutaðeigandi fyrirtæki er, í ljósi athafna eða athafnaleysis annaðhvort áður eða meðan á valferlinu stendur, í einhverjum þeim aðstæðum sem um getur í 7. og 9. mgr.
Fyrirtæki sem er í einhverjum þeim aðstæðum sem um getur í 4., 5. og 9. mgr. er heimilt að færa fram sönnur á að ráðstafanir, sem það hefur gripið til dugi til að sýna fram á áreiðanleika þess þrátt fyrir að til staðar sé útilokunarástæða. Ef sönnun er talin fullnægjandi skal ekki útiloka viðkomandi aðila frá valferlinu.
Þegar útilokunartímabil hefur ekki verið ákvarðað með endanlegum dómi skal tímabil útilokunar ekki vara lengur en fimm ár frá dómsuppkvaðningu í þeim málum sem um getur í 4.-5. mgr. og ekki lengur en þrjú ár í þeim málum sem um getur í 9. mgr.
40. gr. Meginreglur um fresti.
Frestur til að skila umsóknum eða tilboðum skal vera nægjanlega langur til að fyrirtæki geti undirbúið tilboð. Lengd frests skal einkum taka mið af hversu flókið efni sérleyfisins er og hve langan tíma þarf til að semja tilboð eða umsóknir.
Frestur reiknast frá deginum eftir að tilkynning um sérleyfi er send að meðtöldum opnunardegi nema annað sé tekið fram. Allir almanaksdagar eru taldir með.
Ákveða skal fresti til að sækja um eða gera tilboð sem eru lengri en lágmarksfrestir skv. 4. og 5. mgr. ef ekki er unnt að gera tilboð fyrr en að lokinni vettvangsskoðun eða athugun á fylgiskjölum sem varða veitingu sérleyfis á vettvangi, þannig að öll fyrirtæki geti kynnt sér nauðsynlegar upplýsingar við gerð umsókna eða tilboða.
Frestur til að taka við umsóknum, hvort sem þær innihalda tilboð í sérleyfið eða ekki, skal vera að lágmarki 30 almanaksdagar frá þeim degi þegar tilkynningin um sérleyfi var send.
Þegar valferli fer fram í áföngum skal lágmarksfrestur til að taka við upphaflegum tilboðum vera 22 almanaksdagar frá sendingardegi boðs um að leggja fram tilboð.
Kaupandi getur stytt frest til að taka við tilboðum um fimm daga ef hann ákveður að leggja megi fram tilboð með rafrænum aðferðum skv. 31. gr.
41. gr. Tilkynning til umsækjenda og bjóðenda.
Kaupandi skal tilkynna þátttakendum eða bjóðendum, eins fljótt og mögulegt er, um ákvarðanir sem teknar hafa verið um veitingu sérleyfis, þ.m.t. nafn þess bjóðanda sem varð fyrir valinu, ástæður fyrir ákvörðun um að hafna umsókn hans eða tilboði og ástæður fyrir sérhverri ákvörðun um að gera ekki samning þótt birt hafi verið tilkynning um sérleyfi vegna hans eða um að hefja valferli á nýjan leik. Að fenginni beiðni viðkomandi aðila skal kaupandi enn fremur, eins fljótt og unnt er og eigi síðar en 15 dögum frá móttöku skriflegrar beiðni, upplýsa hvern og einn bjóðanda sem hefur lagt fram gilt tilboð um eiginleika og kosti tilboðsins sem fyrir valinu varð í samanburði við önnur tilboð.
Í rökstuðningi skal þó ekki upplýsa um atriði sem um getur í 1. mgr. ef birting slíkra upplýsinga kynni að hindra framkvæmd laga eða ganga á annan hátt gegn almannahagsmunum eða myndi skaða lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja, einkarekinna eða opinberra eða samkeppni á milli þeirra.
42. gr. Forsendur fyrir vali tilboðs.
Kaupandi skal veita sérleyfi á grundvelli hlutlægra viðmiða, sbr. meginreglur sem koma fram í 3. gr. Einnig skal tryggja að tilboð séu metin á grundvelli virkrar samkeppni til þess að greina megi efnahagslegan heildarávinning kaupandans.
Forsendur fyrir vali tilboðs skulu tengjast efni sérleyfisins og skulu ekki veita kaupandanum ótakmarkað ákvörðunarvald. Á meðal þeirra geta m.a. verið umhverfislegar, félagslegar eða nýsköpunartengdar forsendur. Þessum forsendum skulu fylgja kröfur sem gera það kleift að sannreyna með skilvirkum hætti upplýsingar frá bjóðendum. Kaupandi skal gæta þess að tilboð uppfylli forsendur fyrir vali tilboðs.
Kaupandi skal tilgreina í gögnum sem varða sérleyfi hlutfallslegt vægi hverrar forsendu sem liggur til grundvallar vali. Kaupandi getur í undantekningartilvikum, þegar honum berst tilboð með nýstárlegri lausn með óvenjumikið nothæfi, sem hann gat ekki séð fyrir, breytt forgangsröð forsendna fyrir vali tilboða til að taka tillit til þessarar nýstárlegu lausnar. Kaupandi skal upplýsa alla bjóðendur um breytingarnar á forgangsröðinni og gefa út nýtt boð um að leggja fram tilboð í samræmi við lágmarksfresti skv. 5. mgr. 40. gr. Hafi forsendur fyrir vali tilboðs verið birtar við útgáfu tilkynningar um sérleyfi skal kaupandi birta nýja tilkynningu um sérleyfi í samræmi við lágmarksfresti skv. 4. mgr. 40. gr. Breyting á forgangsröð má ekki leiða til mismununar.
VIII. KAFLI Framkvæmd sérleyfa.
43. gr. Undirverktaka.
Kaupanda er heimilt að kveða á um sérstök skilyrði varðandi framkvæmd sérleyfa undirverktaka ef skilyrðin tengjast efni samnings. Skilyrðin geta einkum verið vegna atriða sem varða efnahagsleg, nýsköpunartengd, umhverfisleg, félagsleg eða atvinnutengd sjónarmið.
Bjóðandi eða umsækjandi skal upplýsa í tilboði sínu hvaða hluta sérleyfisins hann hyggst láta undirverktaka framkvæma og hverjir þeir eru. Upplýsingar bjóðanda eða umsækjanda um undirverktaka hafa ekki áhrif á ábyrgð bjóðanda gagnvart kaupanda. Undirverktaka skal í öllum tilvikum byggjast á skriflegum verksamningi.
Þegar um er að ræða sérleyfissamninga um verk og þjónustu sem veita á í aðstöðu sem kaupandi hefur umsjón með, skal kaupandi krefjast þess að sérleyfishafinn láti honum í té, eftir veitingu sérleyfisins og í síðasta lagi þegar framkvæmd þess hefst, nafn, samskiptaupplýsingar og upplýsingar um lagalega fyrirsvarsmenn undirverktaka hans sem taka þátt í slíkum verkum eða þjónustu, að svo miklu leyti sem það er vitað á þeim tímapunkti. Sérleyfishafinn skal tilkynna kaupanda um allar breytingar á meðan sérleyfið er í gildi auk þess að veita upplýsingar um alla nýja undirverktaka sem hann fær síðar til starfa.
Ákvæði 2. og 3. mgr. gilda ekki um birgja.
44. gr. Breytingar á samningi á gildistíma.
Heimilt er að breyta samningi án þess að hefja nýtt valferli fyrir sérleyfi í eftirfarandi tilvikum:
- Þegar skilmálar um breytingar, án tillits til verðmætis þeirra, hafa komið fram með skýrum hætti í endurskoðunarákvæðum samnings, þ.m.t. í ákvæðum um verðbreytingar og valmöguleika. Slíkir skilmálar skulu kveða á um umfang og eðli mögulegra breytinga eða valmöguleika og skilyrða fyrir þeim. Breytingar skulu ekki fela í sér breytingar á eðli sérleyfis í heild.
- Þegar um er að ræða viðbótarverk eða -þjónustu sem ekki var gert ráð fyrir í umsömdu sérleyfi og nauðsynlegt er að sami aðili sjái um, enda sé ekki unnt að skilja slíkt frá upphaflegu sérleyfi án stórfelldra vandkvæða fyrir kaupanda vegna tæknilegra eða fjárhagslegra ástæðna. Hins vegar skal aukning verðmætis ekki vera meiri en sem nemur 50% af verðmæti upphaflega sérleyfisins ef um er að ræða sérleyfi sem kaupandi veitir í þeim tilgangi að rækja aðra starfsemi en þá sem um getur í II. viðauka. Þegar nokkrar breytingar eru gerðar í röð, hver á eftir annarri, skulu þessi takmörk gilda um verðmæti hverrar breytingar.
- Þegar þörf fyrir breytingar kemur til vegna ófyrirsjáanlegra atvika sem kaupandi gat ekki séð fyrir og aukning verðmætis er ekki meiri en sem nemur 50% af verðmæti upphaflega sérleyfisins ef um er að ræða sérleyfi sem kaupandi veitir í þeim tilgangi að rækja aðra starfsemi en þá sem um getur í II. viðauka. Þegar nokkrar breytingar eru gerðar í röð, hver á eftir annarri, skulu þessi takmörk gilda um verðmæti hverrar breytingar. Breytingar skulu ekki fela í sér breytingar á eðli sérleyfis í heild.
- Þegar annað fyrirtæki kemur í stað þess sem kaupandi upphaflega veitti sérleyfi, vegna beitingar endurskoðunarákvæðis, sbr. a-lið, endurskipulagningar á fyrirtæki þar sem annað fyrirtæki, sem uppfyllir forsendur hæfismiðaðs vals, gengur inn í stöðu upphaflegs sérleyfishafa í heild eða að hluta að því tilskildu að slíkt hafi ekki í för með sér aðrar verulegar breytingar á samningi eða kaupandi tekur sjálfur við skyldum aðalsérleyfishafans gagnvart undirverktaka.
- Þegar breytingar, óháð verðmæti þeirra, eru ekki verulegar, sbr. 4. mgr.
- Þegar verðmæti breytingar nemur lægri fjárhæð en viðmiðunarfjárhæðinni skv. 8. gr. og er minna en 10% af verðmæti upphaflega sérleyfisins. Breytingar skulu ekki fela í sér breytingar á eðli sérleyfis í heild. Þegar nokkrar breytingar eru gerðar í röð, hver á eftir annarri, skal meta verðmæti þeirra á grundvelli hreins uppsafnaðs verðmætis breytinganna.
Ef kaupandi ákveður að breyta sérleyfi í samræmi við þau skilyrði sem fram koma í b- og c-lið 1. mgr. skal birta tilkynningu þess efnis að breytingin hafi verið gerð á samningi. Í tilkynningu skulu koma fram upplýsingar sem settar eru fram í XI. viðauka og skulu birtar í samræmi við 34. gr.
Að því er varðar útreikning verðmætisins, sem um getur í b-, c- og f-lið 1. mgr., skal miða við uppfært verð þegar sérleyfið hefur að geyma ákvæði um verðbætur. Innihaldi sérleyfið ekki verðbótaákvæði skal uppfært verðmæti reiknað með tilliti til meðalverðbólgu.
Breyting á sérleyfi á gildistíma þess skal talin veruleg í skilningi e-liðar 1. mgr. þegar efni samnings verður annað en upphaflega var samið um. Breyting skal ávallt teljast veruleg þegar eitt af eftirtöldum skilyrðum er til staðar:
- Breyting hefði gert fleiri bjóðendum kleift að taka þátt í upphaflegu valferli hefði hún verið til staðar í upphafi eða dregið viðbótarþátttakendur að.
- Breyting verður á fjárhagslegu jafnvægi sérleyfisins í þágu fyrirtækis sem ekki var gert ráð fyrir í upphaflega sérleyfinu.
- Breytingin víkkar verulega út gildissvið sérleyfisins.
- Ef annað fyrirtæki kemur í stað þess sem kaupandinn gerði upphaflegan samning við í öðrum tilvikum en þeim sem kveðið er á um í d-lið 1. mgr.
Hefja skal nýtt valferli ef gerðar eru aðrar breytingar á sérleyfi á gildistíma þess en kveðið er á um í 1. og 2. mgr.
45. gr. Uppsögn sérleyfis.
Kaupanda er heimilt að segja upp sérleyfi meðan á gildistíma þess stendur við eftirfarandi aðstæður:
- Ef veruleg breyting hefur verið gerð á sérleyfinu sem hefði átt að leiða til þess að hefja skyldi nýtt valferli, sbr. 44. gr.
- Ef fyrirtæki, sem upphaflega var valið, hefði átt að vera útilokað frá valferlinu, sbr. 4. og 5. mgr. 39. gr.
- Ef ekki hefði átt að gera samning við fyrirtæki í ljósi alvarlegs brots á reglugerðinni.
IX. KAFLI Lokaákvæði.
46. gr. Innleiðing.
Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/23/ESB frá 26. febrúar 2014 um gerð sérleyfissamninga, eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2016 frá 29. apríl 2016.
Viðaukar tilskipunarinnar eru birtir sem fylgiskjal við reglugerð þessa.
47. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og öðlast þegar gildi. Reglugerðin gildir ekki um veitingu sérleyfa sem veitt eru fyrir gildistöku hennar.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 27. október 2017.
F. h. r.
Sigurður H. Helgason.
Hrafn Hlynsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.