Prentað þann 22. nóv. 2024
945/2023
Reglugerð um breytingu á reglugerð um þráðlausan fjarskiptabúnað, nr. 944/2019.
1. gr.
Við 2. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/30 frá 29. október 2021 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/53/ESB að því er varðar beitingu grunnkrafnanna, sem um getur í d-, e- og f-lið 3. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar, til verndar netkerfis, persónuverndar og verndar gegn svikum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 317/2022, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 8, 26. janúar 2023, bls. 272-276.
2. gr.
4. gr. reglugerðarinnar fellur brott.
3. gr.
Í stað heitisins "Póst- og fjarskiptastofnun" í 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar og sama orðs hvarvetna annars staðar í reglugerðinni komi, í viðeigandi beygingarfalli: Fjarskiptastofa.
4. gr.
16. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Verði rekstraraðili þráðlauss fjarskiptabúnaðar ekki við ósk Fjarskiptastofu um upplýsingar í tengslum við skoðun einstakra mála, fyrirmælum Fjarskiptastofu sem koma fram í ákvörðunum stofnunarinnar eða fari ekki eftir niðurstöðu mats stofnunarinnar á búnaði, getur Fjarskiptastofa lagt á hann dagsektir í samræmi við ákvæði 19. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
5. gr.
17. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 103. gr. fjarskiptalaga, nr. 70/2022, sbr. p-lið 1. mgr. ákvæðisins.
6. gr.
18. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Ákvarðanir Fjarskiptastofu á grundvelli reglugerðar þessarar er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála skv. lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.
7. gr.
1. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Reglugerð þessi er sett með heimild í 33. gr., sbr. 107. gr. laga um fjarskipti, nr. 70/2022 og 27. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995 og öðlast þegar gildi.
8. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 33. gr., sbr. 107. gr. laga um fjarskipti, nr. 70/2022 og öðlast þegar gildi.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 27. júlí 2023.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.